18.12.1987
Neðri deild: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2565 í B-deild Alþingistíðinda. (1965)

137. mál, launaskattur

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég verð að segja eins og er að mér finnst það óskaplega aumleg, óskaplega bág frammistaða af hæstv. ríkisstjórn, hæstv. sjútvrh. og hæstv. iðnrh., hæstv. fjmrh., svo ekki sé nú minnst á hæstv. forsrh., þegar ræðumaður eftir ræðumann kemur upp við 2. umr. máls í seinni deild og ber fram beinar spurningar, fer fram á að einhverjar upplýsingar komi frá hæstv. ríkisstjórn um hvernig nýjar skattálögur sem leggja á á tvær höfuðatvinnugreinar í landinu komi þar við og hvaða ráðstafanir hæstv. ríkisstjórn hyggist gera, til hvaða aðgerða hæstv. ríkisstjórn hyggist grípa til að tryggja að staða þessara greina verði þó eftir sem áður þolanleg, rekstrarafkoma þeirra bærileg á næsta ári, a.m.k. verði forðað yfirvofandi stöðnun eins og nú blasir við augum í ullariðnaðinum og fleiri greinum útflutningsiðnaðar, og það á svo að bjóða þingdeildinni upp á að hæstv. ráðherrar — jú, jú, þeir dragast inn í þingsalinn með sorgarsvip þegar um er beðið að þeir komi og hlýði á umræður en hverfa svo óðar út aftur, áður en hendi er veifað eru þeir horfnir. (MB: Það var einn hérna skælbrosandi.) Og að þeir láti svo lítið sem bera það við að hafa sig upp í ræðustól og reyna að svara spurningum sem fyrir þá eru lagðar. Nei, það er ekki því að heilsa, herra forseti. Þetta gengur ekki. Það er ósköp einfalt mál.

Ég get til að mynda staðið í þessum ræðustól, og ég veit að virðulegur forseti gerir ekki tillögu um að ég yrði fjarlægður, á meðan beðið er eftir að þessir ráðherrar komi hér, ef ég vil það við hafa, en mér finnast þetta bara engin vinnubrögð. (Forseti: Það verður kallað á ráðherra ef óskað er.) (SighB: Hann er hérna í hliðarherbergi. ) Ég óskaði eftir því í minni fyrri ræðu hér eða fyrstu að hæstv. ráðherrar þessara fagmála, sem hér eiga mest undir, fylgist með þessari umræðu, reyndu að vera viðstaddir til að hlýða á spurningar sem upp væru bornar. Klukkan er 12 á hádegi, herra forseti. Það er ekki næturfundur hér. Þeir eru ekki í rúminu, þessir menn. Hvað veldur því að þeir geta ekki hangið inni í þingsalnum augnablik? Þetta gengur ekki svona, herra forseti ef við eigum að hafa eitthvert samstarf um þingstörfin og reyna að tryggja að málin fái sæmilega þinglega meðferð, að skyldum þingræðisins sé fullnægt án þess að verið sé að tala um að við séum að halda einhverja maraþonfundi. (Forseti: Ég vil upplýsa að fjmrh. er genginn í salinn.) Það er mér sérstakt ánægjuefni. Vonandi er hæstv. sjútvrh. einhvers staðar nærri honum. Ég verð að segja það eins og er að þetta gengur ekki. Einhvers staðar verður að spyrna við fótum. Ef þm. eftir þm. kemur hér í ræðustólinn og ber fram spurningar og þeim er svo ekki svarað heldur tínast menn á burtu úr þingsalnum skulu menn taka öll þessi mál til rækilegrar skoðunar, herra forseti, til hvers við erum hér þá, hv. þm., ef þetta er sú framkoma sem hæstv. ríkisstjórn ætlar að sýna okkur á þessum dögum.

Ég minni á að fyrir nokkrum dögum voru hér knúin fram lok umræðu með því að hæstv. ráðherra í raun og veru skaut sér undan að svara tugum tölusettra spurninga sem fram höfðu verið bornar. Það var látið gott heita. Það var komið fram undir kvöld og ríkisstjórninni lá mikið á að ljúka umræðum. En nú er þetta mál til 2. umr. í seinni deild. Þetta er stórt mál, snertir afkomu sjávarútvegs og iðnaðar í landinu. Það eru bornar fram spurningar til hæstv. iðnrh., hæstv. sjútvrh. og fjmrh. eða forsrh. Þeir sitja hérna og skrifa á jólakort eða hvað það nú er sem þeir eru að gera, þeir sem á annað borð tolla í þingsalnum. Þetta gengur ekki, forseti. Annaðhvort fer ég fram á að þessir hæstv. ráðherrar komi upp og svari eða umræðunni verði frestað ef þeir kveðja sér ekki hljóðs og þá fer ég fram á að vélrituð útskrift af umræðunni sem hér fór fram berist okkur í hendur áður en henni lýkur þannig að unnt sé að sýna fram á með útskrift úr ræðum þm. hvaða spurningar voru upp bornar og hvað það var sem hæstv. ráðherrar urðu þá ekki við að svara.