18.12.1987
Neðri deild: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2569 í B-deild Alþingistíðinda. (1968)

137. mál, launaskattur

Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Það er virðingarvert út af fyrir sig að hæstv. iðnrh. megnaði að hefja sig úr sæti og ganga í stólinn til að svara í einhverju fyrir þá hæstv. ráðherra sem hér eiga hlut að máli. Ég skildi hann svo að hann teldi sig hafa svarað fyrir þá alla, hæstv. iðnrh., sjútvrh., fjmrh. og jafnvel forsrh., og talaði fyrir hönd ríkisstjórnarinnar.

Það er að vísu kannski verr af stað farið en heima setið þegar menn tala svo í sams konar gátum og hæstv. iðnrh. gerði áðan. Það segir okkur hv. alþm. bókstaflega ekki nokkurn skapaðan hlut þó að hæstv. ríkisstjórn ætli að hittast eftir áramótin og ræða efnahagsmál og jafnvel þó að það sé boðað að hún ætli að grípa til aðgerða segir það okkur ekki mikið fyrr en hæstv. ríkisstjórn lætur eitthvað uppi við Alþingi um hverjar þær ráðstafanir eru. Ég tel það með öllu ósæmandi að ráðherrar komi hér í ræðustól og gefi í skyn hluti sem ég tel að geti ekki verið nema annað hvort eða hvort tveggja, brbl. um ráðstafanir í efnahagsmálum eða gengisfelling, rétt áður en stendur til að Alþingi ljúki störfum fyrir jólaleyfið. Það er ekki mjög viðeigandi að gefa það næstum að segja í skyn úr ræðustóli í Alþingi að það sé verið að bíða eftir því að koma þinginu heim, berja saman einhver málamyndarfjárlög svo að ríkisstjórnin geti svo gripið til þeirra aðgerða sem henni sýnist og þá sjálfsagt með brbl. ef þess þarf.

En um þetta mál og nauðsyn þess að ræða það, herra forseti, vil ég segja í fyrsta lagi að hér eru komnar fram nýjar upplýsingar. Hvað sem líður lopaskýrslu hæstv. iðnrh. frá því fyrr á haustinu hafa verið að koma fram glænýjar upplýsingar um horfur í sjávarútveginum t.d., um mat Þjóðhagsstofnunar á þeirri stöðu, auðvitað með miklum fyrirvörum vegna þeirrar óvissu sem við er að glíma. Og þykir mönnum óeðlilegt þó að seinni þingdeild, Nd., þar sem 2/3 hlutar alþm. starfa, vilji fá einhver svör í framhaldi af slíku? Við skulum gá að því að það á ekki að tala um seinni þingdeild eins og hennar umfjöllun um mál skipti ekki máli. Þvert á móti er það seinni þingdeild sem sleppir frv. endanlega frá sér og þau verða að lögum þannig að þar á og þarf hin endanlega yfirferð málsins að fara fram. Þar þurfa þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru að liggja fyrir o.s.frv.

Þó að ég sé ekki að lasta þá vinnu sem ugglaust hefur verið unnin í þessu máli í virðulegri Ed. breytir þar engu um að þm. í Nd. eiga heimtingu á skýrum svörum og það verður fróðlegt að sjá, herra forseti, hvort það er meiningin af hálfu t.d. hæstv. fjmrh. og sjútvrh., sem var kallaður hingað í salinn og beðinn að svara spurningum, láta 2. umr. ljúka án þess að þeir svari miklu til. Það boðar þá ekki annað en það að 3. umr. um þetta mál hlýtur að verða umfangsmikil. Annað er þá óhjákvæmilegt.