18.12.1987
Neðri deild: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2570 í B-deild Alþingistíðinda. (1970)

137. mál, launaskattur

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Fyrir þessu máli mælti sl. miðvikudag hæstv. fjmrh. Hann hefur verið hér öðru hvoru við 2. umr. í dag. Til hans hefur verið beint fsp. við 1. umr. sem hæstv. ráðherra ók sér undan að svara og gekk frá þessari virðulegu deild undir lok þeirrar umræðu og lét ekkert í sér heyra.

Hér hefur hv. 4. þm. Norðurl. e. gert kröfu um að þessari umræðu verði frestað á meðan séð verður hvort hér koma fram efnisleg svör við því sem fram hefur verið borið af okkur stjórnarandstæðingum við þessa umræðu og það verði hægt að skrifa út þær ræður sem haldnar hafa verið og hæstv. ráðherrar hafa ekki haft fyrir að hlusta á nema að hluta til þannig að þeir geti búið sig undir að svara efnislega því sem fram hefur komið.

Mér þykir með ólíkindum ef hæstv. fjmrh. ætlar að láta hjá líða að gera grein fyrir sinni afstöðu og sínum rökum með öðrum hætti en hann gerði þegar hann mælti fyrir málinu í stuttu máli sl. miðvikudag og einnig að láta hjá líða að svara því sem til hans hefur verið beint í sambandi við samhengið í efnahagsmálum, hvernig hæstv. ráðherra réttlætir að ætla að fara að leggja á þessa nýju skatta, taka hér upp launaskatt á fiskvinnslu og iðnað við þær aðstæður sem þessum atvinnugreinum eru búnar.

Hæstv. iðnrh. er í rauninni þolandi þessa máls ef litið er til Stjórnarráðsins sem starfsgilts valds þar sem ráðherrum eru ætluð mismunandi hlutverk eðli máls samkvæmt og ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir að hafa blandað sér í þessa umræðu, en undir þingskapaforminu ætla ég ekki að ræða þetta frekar en vil spyrja hæstv. forseta hvort hann telji eðlilegt að þessari umræðu ljúki án þess að fram komi svör við efnislegum fyrirspurnum sem hafa verið fram bornar, þar á meðal við þann hæstv. ráðherra sem mælti fyrir því máli sem hér er til umræðu.