18.12.1987
Neðri deild: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2570 í B-deild Alþingistíðinda. (1971)

137. mál, launaskattur

Forseti (Jón Kristjánsson):

Í þessu sambandi vil ég geta þess að forseti hefur gert ráðstafanir til þess að ráðherrar séu viðstaddir þessa umræðu og að sjálfsögðu hafa þeir ráðherrar sem sitja í þessari deild þingskyldur hér og eiga að vera viðstaddir umræður nema þeir hafi fjarvistarleyfi. Hins ber að geta að hér blandast nokkuð störf deilda þannig að ráðherrar þurfa að sinna báðum deildum í umræðum.

Að öðru leyti sé ég ekki að það sé í valdi forseta að skipa ráðherrum fyrir með hverjum hætti þeir eiga að taka þátt í umræðum hér. Hins vegar verða gerðar ráðstafanir til þess að þeir fái í hendur þá umræðu sem hér hefur verið. Og þar sem 2. umr. er nú lokið vinnst tími til þess fyrir 3. umr. málsins að koma þeim upplýsingum á framfæri.