18.12.1987
Neðri deild: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2571 í B-deild Alþingistíðinda. (1972)

137. mál, launaskattur

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Með hvaða hætti hefur það gerst að 2. umr. þessa máls sé lokið? Ég bað um þingsköp áður en umræðu var slitið, óskaði eftir og fékk orðið um þingsköp. (Forseti: Það er hægt að ganga úr skugga um það, en hv. þm. bað ekki um orðið um þingsköp fyrr en búið var að tilkynna að umræðu væri lokið og ef leikur einhver vafi á um slíkt er hægt að kanna það af upptöku þessarar umræðu.) Virðulegur forseti. Hef ég orðið um þingsköp? (Forseti: Þú hefur orðið um þingsköp.)

Mér finnst vera að kárna gamanið í störfum þingsins ef hæstv. forseti ætlar að fara að beita valdinu með þeim hætti sem hér virðist vera uppi. Hér var með eðlilegum hætti fjallað um þetta mál og eins og gerist og gengur þegar lýst er eftir mælendum í ákveðnu máli mundar virðulegur forseti sig til að ljúka umræðu. Það var við þær aðstæður sem ég bað um orðið um þingsköp. Ég mótmæli þeirri túlkun að þessari umræðu sé lokið og tel að það sé ekki aðeins brot á venjulegum hefðum, eins og hér hefur verið haldið á stjórn þingsins, heldur einnig að það sé formlega rangt.