18.12.1987
Neðri deild: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2573 í B-deild Alþingistíðinda. (1977)

137. mál, launaskattur

Forseti (Jón Kristjánsson):

Eins og ég hef þegar sagt verður fundinum nú frestað og að sjálfsögðu mun úrskurður minn verða athugaður í fundarhléinu. Ég mun tilkynna í upphafi fundar, sem á að hefjast kl. 14, niðurstöðuna af þeirri athugun. — [Fundarhlé.]

Eins og hv. þingdeildarmenn muna kom upp fyrir fundarhlé þingskapaumræða vegna úrskurðar míns um hvort umræðu væri lokið eða ekki og ég frestaði fundi með þeim orðum að ég mundi kanna réttmæti úrskurðar míns í hléinu og tilkynna í upphafi fundar hvort ég héldi honum til streitu eða ekki. Ég hef kannað þetta í fundarhléi. Þó að e.t.v. mætti halda úrskurðinum til streitu er ekki svo ótvírætt hvenær hv. 2. þm. Austurl. bað um orðið að ég vilji gera svo. Ég vil því gefa honum kost á að ljúka þátttöku sinni í 2. umr. málsins og verður það nú gert.