18.12.1987
Neðri deild: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2582 í B-deild Alþingistíðinda. (1981)

137. mál, launaskattur

Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir:

Hæstv. forseti. Hæstv. fjmrh. sagði hérna orð sem mér þóttu nokkuð merkileg. Hann sagði að kjarasamningar væru á viðkvæmu stigi. (Fjmrh.: Umræður.) Umræður um kjarasamninga. Ég var að tala við félaga mína núna í hádegishléinu og mér skilst að þeim hafi borist tilboð um 3% kauphækkun frá fjmrn. Á sama tíma og verið er að hækka matarskattinn um 25%, skatt sem bitnar hvað verst á þessu fólki, Sóknarfélagar eru að meiri hluta eldri konur og svo ungar einstæðar mæður, eru þeim nú boðin 3% í launahækkun. Þetta fólk lenti illa í þessu svokallaða launaskriði. Við sömdum með ASÍ fyrir jól í fyrra og á eftir sömdu margir aðrir sem fengu meira. Ef ekki á að bjóða þeim meira en þetta þykir mér ótrúlegt að samningar séu á nokkuð viðkvæmu stigi. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á að það sé hægt að fá fólk til að semja um eitthvað svipað. Og ef það er verið að pukrast með eitthvað núna af því að það er ógnað með gengislækkun, sem er þegar komin og verður náttúrlega reynt að koma á í vetur og kenna verkalýðshreyfingunni um, þá bið ég fyrir verkalýðshreyfingunni ef hún gengst inn á það.