18.12.1987
Neðri deild: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2584 í B-deild Alþingistíðinda. (1989)

195. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég mæli fyrir brtt. sem ég flyt við þetta frv. á þskj. 344 og lýtur að 6. gr. þar sem álagningarprósenta á þennan skattstofn er ákvörðuð. Það er efni brtt. að í staðinn fyrir 1,1% af þessum skattstofni skv. 3. gr. skuli greiðast 2,2%. Flm. að þessari brtt. ásamt mér er hv. 10. þm. Reykn. Kristín Halldórsdóttir.

Hér er til umræðu einn af nafntogaðri sköttum í landinu, lagður á í fyrsta sinn að ég hygg á árinu 1979 og hefur í raun ætíð síðan verið mjög rómaður og umræddur í hvert skipti sem hann hefur verið framlengdur, oftast nær hygg ég árlega til eins árs í senn.

Sú var tíðin að það var hörð andstaða gegn þessum skatti hér á Alþingi og víðar og þm. Sjálfstfl. flestir ef ekki allir, sem og ýmis önnur „apparöt“ í þjóðfélaginu, sem eru skyld eða standa nálægt þeim hinum sama stjórnmálaflokki, hötuðust og hömuðust mjög gegn þessum skatti sem er þó ekki nein ósköp, 1,1% af þeim skattstofni sem skilgreindur er í 3. gr. frv. og er fasteignaverð samkvæmt fasteignamati í árslok næsta árs á undan á þá fasteign sem nýtt er við verslunarrekstur eða skrifstofuhald ásamt tilheyrandi lóð o.s.frv.

Það voru á sínum tíma ýmis efnahagsleg rök sem mæltu með því að þessar greinar væru skattlagðar með þessum hætti, með lágri, flatri skattprósentu. Þau rök tel ég vera fyrir hendi enn þann dag í dag og reyndar mæti rökstyðja að eðlilegt væri að hafa þessa skattprósentu nokkru hærri. Ég held að slíkur skattstofn á þessar greinar sé fyllilega eðlilegur með tilliti til þess að það fasteignaverð sem víðast liggur að baki við þennan rekstur er betur tryggt og hefur gjarnan hærra markaðsverð en ýmsar aðrar eignir sambærilegar og svo er það mat margra fróðra manna að ef menn fara út og leita að góðærinu sé helst hægt að finna eitthvað af því í útþenslu þess geira sem hér er til umfjöllunar sérstaklega. Það er kannski það eina gleðilega við útþenslu verslunarbáknsins í landinu á undanförnum árum og missirum að það skilar þó pínulítið auknum tekjum í ríkissjóð í gegnum skatta á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. En um það munar lítið, enda kemur fram í athugasemdum með frv. að í tekjuáætlun fjárlagafrv. fyrir næsta ár, árið 1988, er gert ráð fyrir að þessi álagning nemi um 210 millj. kr. Að vísu innheimtist hún ekki öll. Það eru áætluð þarna nokkur vanhöld á því. En engu að síður er gert ráð fyrir að þetta skili um 190 millj. kr. að meðtöldu því sem innheimtist af vangreiddum gjöldum fyrri ára.

Það er sem sagt tillaga mín og hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur að tvöfalda þennan skatt í 2,2%. Hann ætti þá að skila samkvæmt þessu tæpum 400 millj. kr. á næsta ári og er þá orðinn sambærilegur að stærð við launaskattinn fræga sem ríkisstjórnin ætlar nú að leggja á sjávarútveginn og iðnaðinn og verið var að ræða nokkra stund fyrr á fundinum, herra forseti.

Ég held ég þurfi í sjálfu sér ekki að hafa um þetta mikið fleiri orð. Það er sérstakt fagnaðarefni að sjá þau sinnaskipti í Sjálfstfl. að þar greiða menn, að því er virðist með glöðu geði, atkvæði með þessari skattheimtu, að framlengja hana. Hugsanlega er stutt í land að þeir fari að taka undir með okkur að hækka þennan skatt eitthvað, upp í t.d. 2 eða 2,2%. Það er auðvitað enn ánægjulegra ef Sjálfstfl. er kominn svo vel á veg og svo gersamlega fallinn frá fyrri andstöðu sinni í þessum efnum að hann samþykkir þessa skattheimtu og fer e.t.v. innan tíðar að styðja að hún verði eitthvað hækkuð.

Herra forseti. Ég held að það sé óþarfi að hafa um þetta fleiri orð. Brtt. er einföld og auðskilin öllum. Frv. sjálft er ekki ýkja stórt þannig að mönnum á ekki að vera neitt að vanbúnaði að greiða um þetta atkvæði. Ég skilaði ekki sérstöku nál. af þeim ástæðum einfaldlega að ég styð skattlagninguna og skrifa þar af leiðandi undir nál. meiri hl., sem mælir með samþykkt frv., en flyt brtt. sem ég hef nú gert grein fyrir.