21.10.1987
Neðri deild: 5. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í B-deild Alþingistíðinda. (199)

Frumvarp um leyfi til slátrunar

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég furða mig á málflutningi hv. 13. þm. Reykv. af þeim einföldu ástæðum að það hefur komið fram í sjónvarpsviðtali við dýralækni, eins og ég gat um í ræðu sem ég hélt í gær, að hann vísar öllum spurningum og upplýsingum um meðferð þessa máls og ákvörðunartöku í þessu máli til ráðuneytisins. Og hæstv. landbrh. upplýsti í ræðustól í gær í sömu umræðum að hann hefði ekki vald samkvæmt lögum til að grípa inn í þetta mál. Það þýðir einfaldlega að hv. Alþingi hefur á einhverjum tíma skapað vald fram hjá framkvæmdarvaldinu, fram hjá ráðherra, fram hjá ríkisstjórn sem að mínu mati er tillaga um nú að leiðrétta. Framkvæmdarvald það sem þjóðin gerir ráð fyrir á að hafa það vald sem þarf til að grípa inn í ágreiningsmál hvar sem þau eru á landinu. Því mótmæli ég tillögu um frestun á þessu máli.