10.10.1987
Sameinað þing: 1. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í B-deild Alþingistíðinda. (2)

Forseti Íslands setur þingið

Forseti Íslands (Vigdís Finnbogadóttir):

Hinn 14. september 1987 var gefið út svofellt bréf:

„Handhafar valds forseta Íslands samkvæmt 8. gr. stjórnarskrárinnar, forsætisráðherra, forseti sameinaðs Alþingis og forseti Hæstaréttar, gera kunnugt:

Vér höfum ákveðið samkvæmt tillögu forsætisráðherra að Alþingi skuli koma saman til fundar laugardaginn 10. október 1987.

Um leið og vér birtum þetta er öllum sem setu eiga á Alþingi boðið að koma nefndan dag til Reykjavíkur og verður þá Alþingi sett að lokinni guðsþjónustu í Dómkirkjunni sem hefst kl. 13.30.

Gjört í Reykjavík, 14. september 1987.

Þorsteinn Pálsson.

Þorv. Garðar Kristjánsson.

Magnús Thoroddsen.

Þorsteinn Pálsson.

Bréf handhafa valds forseta Íslands um að Alþingi skuli koma saman til fundar laugardaginn 10. október 1987.“

Samkvæmt bréfi því, sem ég nú hef lesið, lýsi ég yfir því að Alþingi Íslendinga er sett.

Það þing, sem hefur störf hér nú, er 110. löggjafarþing Íslendinga frá því Alþingi var endurreist og er tímamótaþing þar sem þinghald hefst nú að afstöðnum kosningum á þessu ári. Til starfa tekur nú fjöldi nýrra þingmanna við hlið þeirra mörgu sem langa reynslu hafa að baki um meðferð mála til hagsbóta fyrir land okkar og þjóð í þessari virðulegustu stofnun lýðveldis okkar.

Stjórnmálamenn vilja allir vinna landi og lýð hið besta. Þeir hafa gefið sig til starfa sinna af hugsjón og enda þótt hugsjónirnar séu ekki allar eins heldur með ýmsum blæbrigðum má finna þeim sameiginlegan farsælan farveg með því umburðarlyndi sem treystir vináttu milli manna og stígur yfir erjur í hita daganna með virðingu fyrir skoðunum allra manna. Því það er munaður að búa við það lýðræði og það frelsi að mega hugsa svo sem hverjum sýnist og láta skoðanir sínar í ljós í heyranda hljóði.

Ég leyfi mér að minna enn á þessum stað á fleyga alþingishugsjón Jóns Sigurðssonar, frelsishetju Íslendinga, sem felur í sér heilan sannleik þótt liðið sé á aðra öld síðan hann sendi hana löndum sínum til íhugunar:

„Alþingi er frækorn allrar framfarar og blómgunar lands vors - eins konar þjóðskóli landsmanna til að venja þá á að hugsa og tala með greind og þekkingu um málefni þau sem alla varðar. - Alþingi er engan veginn sett höfðingjum í vil heldur fyrst og fremst alþýðu.“

Ég óska virðulegum þingmönnum öllum giftu og farsældar í starfi, þjóð okkar til heilla. Bið ég yður að rísa úr sætum og minnast ættjarðarinnar.

[Þingheimur stóð upp og forsætisráðherra, Þorsteinn Pálsson, mælti: „Heill forseta vorum og fósturjörð. Ísland lifi.“ Tóku þingmenn undir þessi orð með ferföldu húrrahrópi.]

Samkvæmt 1. gr. þingskapa ber nú aldursforseta að stjórna fundi þar til kosning forseta sameinaðs Alþingis hefur farið fram og bið ég aldursforseta, Stefán Valgeirsson, 6. þm. Norðurl. e., að ganga til forsetastóls.

Aldursforseti tók nú við fundarstjórn.