21.10.1987
Neðri deild: 5. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í B-deild Alþingistíðinda. (200)

Frumvarp um leyfi til slátrunar

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég býst við að ég bíði enn einu sinni ósigur fyrir ruglandinni sem stundum er höfð hér í frammi. Ég vil taka fram vegna orða hv. 1. þm. Vestf. að ég sat hér alla umræðu þessa máls í gær og veit nákvæmlega um hvað þetta mál snýst og hef fulla samúð með vandamálunum sem eru fyrir hendi þar vestra. En þessi lagasetning, sem hér á nú að keyra í gegn, er svipuð því að lögreglustjórinn í Reykjavík neitaði að sleppa fanga sem búinn væri að afplána og Alþingi setti lög um að fanginn skyldi laus, Alþingi ætti að reka lögreglustjórann. Ef hið háa Alþingi er algerlega fullvisst um að þeir dýralæknar sem hér um ræðir hafi rangt fyrir sér og séu að níðast á Sláturfélagi Arnfirðinga hlýtur ráðherra að geta rekið þessa embættismenn. En það er tæplega hægt að þvinga hið háa Alþingi til að leysa þennan héraðsvanda með lagasetningu. Því er ég að mótmæla. Ég hef engum skoðunum að lýsa á efni málsins. Það er málsmeðferðin sem ég er hér að mótmæla.