18.12.1987
Neðri deild: 31. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2606 í B-deild Alþingistíðinda. (2005)

198. mál, tollalög

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hér er á dagskrá frv. til l. um breytingar á lögum nr. 55 frá 30. mars 1987, tollalögum, og það er vissulega rétt metið hjá hv. 4. þm. Norðurl. e. að það er þarft verk að lesa þetta yfir, en jafnframt vitað að það muni vera nokkuð tafsamt.

Tollalög eru fyrst og fremst lögð á í tvennum tilgangi. Annars vegar til að afla ríkissjóði tekna og hins vegar til verndar innlendri atvinnustarfsemi. Vegna þess að við erum aðilar að Fríverslunarbandalagi Evrópu er komið svo fyrir okkur að við höfum ekki frjálsar hendur gagnvart mjög fjölmennum og háþróuðum ríkjum að vernda okkar iðnað sem skyldi. Þetta hefur komið niður á mörgu sem búið var að setja af stað hér á landi og hefur orðið til að stuðla að að mínu viti innflutningi á vörum sem við hefðum getað framleitt sjálfir.

Það er dálítið sérkennilegt t.d. ef þetta er skoðað hvaða stöðu innlendur matvælaiðnaður, ef við víkjum að brauðgerð og þeim hlutum, er kominn í. Bakarar eru lögvernduð stétt að íslenskum lögum. Það getur ekki hver sem er farið af stað og bakað hér brauð. Aftur á móti er ekkert sem virðist koma í veg fyrir að til landsins séu flutt brauð bökuð af mönnum sem ekki hafa til þess réttindi þannig að löggjafinn er í sjálfu sér kominn í mótsögn við eigin hugmyndir um hvernig standa beri að því að tryggja að hér innan lands séu á boðstólum góð matvæli úr kornvöru.

Hitt er þó öllu alvarlegra varðandi þetta atriði að til þess að erlendir aðilar geti flutt korn og brauðvöru til landsins og selt það hér í verslunum þurfa þeir að setja rotvarnarefni saman við vöruna. Þeir þurfa sem sagt að setja rotvarnarefni saman við brauðið. Ég er ekki að segja að þetta sé sams konar rotvarnarefni og notað er í múmíurnar í Egyptalandi, en hins vegar er mér ljóst að svo mikið magn mætti vera af þessum rotvarnarefnum að það væri hægt að horfa á vöruna óskemmda um áratuga skeið. Og það er einmitt það sem gerist. Það er verið að setja rotvarnarefni í þessa vöru og hún stendur mánuðum saman í verslunum, breytist ekkert og menn trúa því að þetta sé nánast nýbökuð vara sem þarna er á ferðinni.

Mig undrar það satt best að segja að við látum þetta afskiptalaust og persónulega er ég þeirrar skoðunar að í þessum blessuðum tollalögum ætti að vera kafli sem hljóðaði svo, að það væri 100% tollur á brauði og kökum þar sem rotvarnarefni væru í þeim, hreinn verndartollur fyrir íslenska bakarastétt. Svo yrðu hinir að sanna hvernig gæti staðið á því að þessi vara, sem þeir væru að flytja inn, skemmdist ekki væri hún geymd mánaðartíma, tvo mánuði eða þrjá mánuði í verslunum. Skýringin er ekki nema ein. Það eru notuð rotvarnarefni saman við.

Öðru atriði ætla ég að víkja að sem sækir á minn huga þegar ég skoða þá tollskrá sem hér liggur fyrir og það er hvort sá mismunur sem er á tolli eftir því hvort við eigum viðskipti við Efnahagsbandalagið eða Fríverslunarbandalagið annars vegar eða önnur lönd hins vegar leiði e.t.v. til þess að íslenska þjóðin geri ekki jafnhagstæð innkaup og hún gæti gert ef jafnvægi væri á milli.

Nú er það svo að útflutningur okkar á vörum til Bandaríkjanna og Rússlands slagar hátt upp í að vera um helmingur af vöruútflutningi okkar að verðmæti. Þessar þjóðir þurfa báðar að búa við mun óhagstæðari tolla vilji þær flytja vörur inn til Íslands en ef þær eru fluttar frá Efnahagsbandalaginu eða frá Fríverslunarbandalagi Evrópu. Þegar það gerist svo á sama tíma að það verður þó nokkurt verðfall á gjaldmiðli erlends ríkis, í þessu tilfelli Bandaríkjanna, og gerir það þess vegna mun fýsilegra en ella að efla þaðan viðskipti hlýtur það að verða miklu meiri alvara einmitt nú á þessum dögum hér í þinginu að meta hvort við séum e.t.v. með tollalöggjöfinni að framkvæma hluti sem gera ekkert í þá veru að jafna það viðskiptalega séð að það verði jafnhagstætt að flytja vöru frá Bandaríkjunum til Íslands og væri að flytja hana frá Evrópu til Íslands. Ég tel að þessi þjóð hafi ekki efni á að kaupa vöru á hærra verði frá Evrópu þegar hún hefði þörf fyrir og gæti fengið ef tollalöggjöfin stuðlaði að því með eðlilegum hætti að bestu viðskiptakjör yrðu látin ráða.

Hitt er einnig athyglisvert þegar þetta er metið hvort það sé hugsanlegt, og til þess hef ég að sjálfsögðu engin gögn undir höndum til að meta, að í þessari tollskrá, ef samþykkt verður, og það væri sanngjarnt að fá svör við því frá hæstv. fjmrh., séu vöruflokkar sem skynsamlegt væri að flytja fyrst frá Ameríku til Evrópu og þaðan til Íslands vegna þess að tollskráin mundi þá, um leið og varan væri flutt frá Evrópu hingað, ekki gera ráð fyrir neinum tollum af henni, en væri e.t.v. með það háa tolla ef hún væri flutt frá Bandaríkjunum og hingað að það væri hagstætt af þeirri ástæðu.

Ég tel að það sé ákaflega erfitt að ætlast til þess að Alþingi Íslendinga afgreiði lög sem þessi á örfáum dögum. Vafalaust mun því haldið á loft að það standi þannig á að það sé ekki um annað að ræða, tollalögin hafi komið svo seint fram og allt það. Hitt er svo aftur á móti spurning hvort það sé einhver tilviljun eða hvort það hafi viljandi verið þannig að verki staðið að draga að leggja þetta fram þannig að þetta væri sem stystan tíma í umræðu hér vegna þess að vissulega hefur það áhrif á verslun í landinu hvað er að gerast í þessum efnum. Þegar berast fréttir af því að sumar búðir auglýsa lækkun á sinni vöru og öðrum verslunum gengur ekkert að selja, e.t.v. vegna þeirrar breytingar sem væntanleg er í tollalöggjöfinni.

Herra forseti. Ég ætla ekki að reyna á þolinmæði forseta og mun að sjálfsögðu gera hlé á máli mínu. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég ætla að víkja að þeim atriðum í nokkrum dæmum í tollskránni þar sem verulegur munur hlýtur að verða á því hvort menn eiga viðskipti við Efnahagsbandalag Evrópu eða hvort menn eiga viðskipti við lönd þar fyrir utan og þá m.a. Ameríku. Sá er galli á gjöf Njarðar að þetta plagg er ákaflega óaðgengilegt og miklar klásúlur framan í því þar sem vísað er á undantekningar frá því að ákveðnar reglur gildi. Mér verður nú hugsað til þess að í dag gerðist það, þegar frv. kom frá fjh.og viðskn., að hæstv. forseti þurfti að tala nánast lagatextann verðandi af munni fram til að leiðrétta villur í þskj. Verði mikið af villum í þessu þskj. er það tafsamt verk fyrir hvaða forseta sem er að flytja þær leiðréttingar munnlega úr ræðustól. En við skulum vona að það sé aðeins í þeim smærri málum sem þeim verða á mistök í ráðuneytinu, en þegar þeir glími við hin stærri og vandasamari sé hér allt í lagi.

En mjög víða er þannig í þessu frv. að það er enginn tollur á vöru ef hún er frá Fríverslunarbandalaginu eða Evrópu en 15% tollur ef hún er frá Ameríku, Rússlandi, Japan eða öðrum löndum sem eru fyrir utan þessi samtök. Sums staðar er þessi verðmunur meiri 20% og þaðan af hærri.

Ég vakti athygli á því fyrr í ræðu minni í kvöld að það er hugsanlegt að undir sumum kringumstæðum geti það gerst að það sé hagkvæmt að flytja vöruna fyrst til Evrópu og þaðan til Íslands og auðvitað væri það alveg fráleit tollalöggjöf ef það fengi staðist að slíkt gæti verið hagkvæmt. Nú er það svo að við höfum hér, almennir þm., engin gögn undir höndum til að átta okkur á því hvort svo er eða ekki þar sem tollasamningar Efnahagsbandalagsins við önnur ríki liggja að sjálfsögðu ekki fyrir hér til aflestrar. (Gripið fram í.) Já, við höfum vafalaust möguleika á því undir mörgum kringumstæðum, en ég er nú ekki viss þó að reglurnar séu þessar, hv. þm., nema það sé undir mörgum kringumstæðum hægt að fara í kringum það og þó nokkuð mun vera um það í löndum sem hafa farið af stað nokkuð seint með sína iðnaðarvöru að menn hafi smíðað eftirlíkingar og sagt var einu sinni um Japan að þeir hefðu líka skipt um staði til að auðvelda að koma vörum á markað.

En það sem ég ætlaði að minnast á í lokin varðandi þær breytingar sem hér er verið að gera og ég tel að horfi til bóta er það að ýmis vara sem áður var ekki föl fyrir þá sem ekki ferðuðust til útlanda nema á mjög háu verði vegna tolla lækkar í verði og skapar þannig meira jafnvægi milli þeirra þegna sem búa hér að staðaldri og hinna sem eru erlendis eða fara í ferðalög erlendis. Ég ætla að nefna sem gamanmál út af þessu, af því að ég sé að einn ágætur maður hristir höfuðið yfir þessu, að það er sagt að Íslendingur hafi farið með garðsláttuvél í gegnum tollinn í Keflavík frá Ameríku einfaldlega vegna þess að kaupverð hennar var það lágt og það var fullkomlega löglegt að koma með hana inn í landið á þennan hátt, en hins vegar hefði hún kostað verulega upphæð ef hann hefði keypt hana hér út úr búð. Vissulega er söluskattur til staðar. Það er dálítið annað mál.

En ég ætla að bæta því við þessa umræðu og undirstrika það alveg sérstaklega að mér finnst óeðlilegt, þegar jafnviðamikið frv. er á ferðinni og það sem hér er lagt fram, ef fjh.- og viðskn., sem fær þetta mál til meðferðar, gefur sér ekki tíma til að vinna í málinu. Ég kalla það ekki að hún gefi sér tíma til að vinna í málinu ef svona mál fer út úr nefndinni á einum eða tveimur dögum. Hér er meira lesmál en svo og miðað við þau frv., sem hér hafa komið í gegn undirbúin í fjmrn. og nefndin hefur breytt, finnst mér mjög ólíklegt að það sé svo nákvæm vinna á þessu frv. að slíkur yfirlestur og slík vinna séu ekki nauðsynleg áður en þetta er lögfest.

Ég hef ekki hugsað mér, herra forseti, að hafa langt mál, hef aftur á móti gert grein fyrir því að mér finnst að vissar stéttir verði fyrir ómaklegri aðför með þessum breytingum, og á þar m.a. við bakarana, og lagði fram ákveðna hugmynd í minni ræðu um hvernig hugsanlegt væri að breyta tollalögum á þann hátt að veita þeim vissa vernd miðað við það sem gerist ef þetta er samþykkt óbreytt. Þar gat ég um það að í þeim kökum og brauðum sem flutt eru til landsins er rotvarnarefni til þess að koma í veg fyrir að þessi vara skemmist. Þetta er alþekkt varðandi brauð og þau mygla þá ekki. En auðvitað er þar ekki um jafnholla vöru að ræða og ef þau væru án slíkra efna og ég tel það ekki samræmi í löggjöf á Íslandi annars vegar að viðhafa lög um réttindi og skyldur iðnaðarmanna og hleypa svo á þá vöruflokkum inn í landið sem enginn getur fylgst með eða kannað hvort unnir eru af fagmönnum og jafnframt er vitað að geta ekki uppfyllt sömu hollustukröfur vegna þess að geymslumöguleikar væru þá ekki til staðar.