18.12.1987
Neðri deild: 31. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2630 í B-deild Alþingistíðinda. (2011)

198. mál, tollalög

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka málsvörum stjórnarandstöðunnar, þeim sem hér hafa talað, fyrir jákvæðar undirtektir við þessu máli. Menn hafa almennt látið orð falla á þá leið að þetta væri gott mál. Ég tók eftir því að hæstv. fyrrverandi fjmrh., Albert Guðmundsson, 5. þm. Reykv., gerði þá játningu að honum hefði því miður ekki enst aldur til í fjmrn. að koma málinu fram, gott sem það var, og reyndar ekki ýmsum öðrum umkvörtunarefnum fulltrúa heildverslunar, sem hér hafa talað, en þó látið fremur jákvæð orð falla um málið. Sat hann þó lengur í stól fjmrh. en sá sem hér stendur hefur setið að svo stöddu.

Í annan stað hafa menn kvartað nokkuð undan fjarvistum ráðherra og ég verð að játa að ég get ekki tekið það mjög til mín. Ég hef verið viðstaddur þessa umræðu, reyndar sætt því undarlega hlutskipti að þurfa að deila athygli minni milli beggja deilda í allan dag. Að því er varðar það að ég brá mér frá þessa kvöldstund, þá þurfti ég að mæta á fund hjá undirnefnd fjvn. sem stóð eins og í stundarfjórðung. Að öðru leyti hef ég lagt mig eftir því að hlýða á mál manna og í sæmilegu næði eftir fundarhlé þótt eitthvað hafi athyglin kannski verið dreifð fyrri hluta dagsins milli deilda.

Þær spurningar sem menn hafa einkum haft uppi um þetta mál lúta að eftirtöldum þáttum: Hvernig samrýmist sú stefna sem hér er mótuð svokallaðri manneldisstefnu? Þetta var reyndar rætt hér. (Gripið fram í.) Því var einnig beint til mín af einum hv. þm. Þessu var reyndar svarað hér í sérstökum fyrirspurnatíma í gær svo það er kannski ekki miklu við það að bæta.

Það var spurt um uppruna þessa frv. og aðdraganda, hverjir hefðu verið þar tilkvaddir til ráðuneytis. Það var spurt um hvaða grundvallarhugsun væri í þessu máli, hvort þarna væri fylgt einhverjum grundvallarreglum. Það var vikið að spurningum um hvort þetta samrýmdist einhverju sem menn kalla fjölskyldustefnu. Það var spurt um heildarniðurstöður þessarar kerfisbreytingar í heild á hag fjölskyldna. Eitthvað var orði vikið að bökurum. Það var rætt um bankastimplun. Það var spurt hvers vegna lagt er 25% álag á vörugjald, hvaða skýringar það hefði við að styðjast, hvort vænta mætti þess að jöfnunargjald yrði hækkað. Þetta eru helstu atriðin sem ég skráði hjá mér.

Síðan hafa menn kvartað undan því að tíminn væri naumur. Það er að sjálfsögðu viðkvæði í öllum þessum umræðum. Hins vegar rifjaði hv. 4. þm. Norðurl. e. upp að flm., fjmrh. sá sem hér stendur, hefur viðurkennt réttmæti þeirrar gagnrýni og beðist velvirðingar á því og það er áreiðanlega ljóst að þetta var ekki af neinni meinbægni við þm., hvorki stjórnarandstæðinga né aðra, þaðan af síður í neinu vanvirðingarskyni við Alþingi. Þarna eiga óskipt mál þm. bæði stjórnar og stjórnarandstöðu því að skýringarnar á þeim drætti sem varð á að ljúka þessum frv. eru nokkrar.

Í fyrsta lagi er það svo að verkið vannst ekki eins hratt og upphafleg tímaáætlun gerði ráð fyrir. Í annan stað er ljóst að það tók stjórnarflokkana lengri tíma að ná pólitískri samstöðu um endanlega útfærslu málsins. Í þriðja lagi er þess að geta að það var á sama degi eftir að afgreiðsla málsins var útkljáð í ríkisstjórn að málið var kynnt, á sama morgninum, fyrir liðsoddum þingflokka stjórnarliða og stjórnarandstæðinga og þeim afhent þau gögn sem tiltæk voru í málinu.

Eini munurinn er sá að því er varðar stjórnarliða og stjórnarandstæðinga að fulltrúar þingflokka stjórnarliða áttu þess kost að tilnefna fulltrúa til þess að fylgjast með vinnslu málsins á lokastigi þess seinasta hálfa mánuðinn. Um það er ekki meira að segja en það að því miður tókst ekki að koma þessum málum til skila fyrir Alþingi fyrr en þetta. Það ber að harma. Það ber að viðurkenna að gagnrýnin er réttmæt og það eina sem um það er hægt að segja er að í okkar veiðimannasamfélagi er það einu sinni svo að menn þurfa stundum að leggja á sig miklar tarnir til að koma góðum málum fram og stundum ráðum við ekki tíma okkar sjálf og það gerir þrátt fyrir allt, þegar menn biðjast velvirðingar á því að ekki var betur hægt að standa að málum, lítið gagn að kvarta í síbylju um tímaskort. Það er nefnilega þáttur í því að eyða tímanum sem er dýrmætur.

Það var spurt: Hver var hlutur iðnrekenda og fulltrúa verslunarinnar að undirbúningi þessa máls? Var þeim gert hærra undir höfði en fulltrúum ýmissa annarra almannasamtaka sem menn hafa nefnt til? Svarið er þetta: Það var ákveðið að gefa fulltrúum íslensks iðnaðar og vinnunefnd, sem svokallað samstarfsráð verslunarinnar hefur á sínum snærum, kost á því að kynna sér tollskrána. Það var náttúrlega ekki bara gert af mannúðarástæðum heldur af verkhyggni. Það var leitað eftir því að fá ábendingar og tillögur frá þessum aðilum um tiltekin tæknileg atriði. Það var sem sé leitað eftir því að fá frá þeim leiðréttingar á ýmsum tæknilegum atriðum, ábendingar af reynslu þeirra sem starfa að þessum málum í daglegu starfi um ýmislegt sem betur mætti fara og það var lagt fyrir íslenska iðnrekendur dæmið út frá spurningunni um samkeppnisaðstöðu eða verndunarþörf fyrir íslenskan iðnað. Þetta var einmitt vegna tímaskortsins rétt og skynsamlegt að gera því að niðurstaðan var sú að frá þessum aðilum komu ýmsar mjög gagnlegar ábendingar sem vörðuðu tæknilegan undirbúning málsins.

Ef menn eru hins vegar að spyrja hvaðan þær hugmyndir eru komnar sem stýra þessari kerfisbreytingu má lesa um það í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar sem lögð var fram í stjórnarmyndunarviðræðum þegar í upphafi. Þar er því lýst í greinargóðu máli hvernig að því skuli stefna að endurskoða tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs í aðgreindum áföngum, tímasettum, þar sem m.a. þessi endurskipulagning á aðflutningsgjaldakerfinu, tollum og vörugjaldi er skilmerkilega tíunduð og gert ráð fyrir gildistöku um áramót. Ég vil því taka það skýrt fram að að því er varðar þátttöku þessara aðila eða tilkvaðningu þeirra að málinu, þá var það gert í nafni góðra vinnubragða til að koma í veg fyrir ýmsa skafanka eða missmíði á gripnum og reynslan sýnir að það var til bóta. Að öðru leyti var ekki leitað álits eða ekki tilkvaddir fulltrúar ýmissa almannasamtaka, það er rétt, sérstaklega að þessari tæknivinnu, enda kannski ekki sérstök ástæða til. Hins vegar hefur verið haft samráð í tíð þessarar ríkisstjórnar við þau samtök sem hér hafa verið nefnd til um ýmsa þætti, ekki hvað síst skattkerfisbreytingarnar, þær ræddar í þaula við marga af forustumönnum verkalýðshreyfingar, launþegasamtaka, vinnuveitenda o.s.frv. og í margvíslegu samhengi og á mörgum fundum þótt flestir hafi þeir verið óformlegir.

Hver eru aðalatriði þessa máls af því að það er spurt: Er einhver sérstök hugsun í þessu? Því er fljótsvarað. Þessi kerfisbreyting í heild lýtur að þessu: Í fyrsta lagi lækkun tolla og afnámi ýmissa annarra smærri gjalda þótt þau sé ekki öll þurrkuð út. Í annan stað er verið að fylgja fram þeirri stefnu, sem lengi hefur verið boðuð og rökstudd, að fækka undanþágum frá söluskatti og samræma hann, breikka skattstofninn. Það er þriðja meginatriðið í þessari kerfisbreytingu að tryggja öruggari tekjuöflun ríkissjóðs. Og það er fjórða atriðið að gera ráðstafanir til þess í einfaldara kerfi að bæta mjög skattskil. Og merkilegt nokk, þótt það hafi ekki komið fram í ræðum stjórnarandstæðinga, eru þetta í heild sinni ráðstafanir sem munu stuðla að lækkun verðbólgu eins og hún er mæld, þ.e. heildaráhrifin eru þau að framfærsluvísitala stendur í stað, hækkar ekki, en í annan stað, og það er ekki smátt atriði, mun byggingarvísitala lækka og lánskjaravísitala mun lækka.

Að því er varðar það mál sem hér er á dagskrá, tollana, eru aðalatriðin, eins og fram komu þegar í minni ræðu, tollalækkun, mjög veruleg tollalækkun, úr 80% hæstu tollum niður í 30% að hámarki. Það er í annan stað verið að samræma vöruverð og verðmyndun í okkar hagkerfi því sem tíðkast í grannlöndum og þar með að gera verðmyndun hér á landi sambærilega við það sem gerist annars staðar. Það er þáttur í því að bæta verðskyn fólks og jafnvel stuðla að hagkvæmari innkaupum og eftirliti. Það er verið að hverfa frá úreltum hugmyndum eldri tollalaga þar sem daglegar neysluvörur fólks voru flokkaðar sem einhverjar hátollavörur eða lúxus. Það er verið að afnema toll í 5000 tollnúmerum. Það er verið að fækka tollstigum. Það er verið að einfalda kerfið. Heildarniðurstöðurnar eru þær að fjölmargar vörutegundir, sem áður báru tolla og vörugjöld, lækka stórlega í verði. Það er þáttur í því, þótt hann sé ekki kominn á enda, að flytja verslunina í auknum mæli inn í landið. Það er auðvitað hægt að finna dæmi þess að það muni ekki takast að fullu og öllu. Þó hefur málið tekið þeim breytingum í meðförum þings hingað til að það er líklegra en ella, vegna þess að ytri tollar hafa verið lækkaðir frá því sem var í frv. eins og það var fyrst lagt fram á þingi og það hefur verið sérstakt tillit tekið til svokallaðrar ferðamannavöru sem ferðamenn hafa áður freistast til að kaupa erlendis á ferðum sínum þannig að líkur eru á því að það dragi úr þeirri verslun erlendis eða að ef slíkar vörur eru keyptar erlendis verði þær gefnar upp til tollafgreiðslu.

Það hefur ekki verið nefnt hér vegna þess að við erum að ræða þetta afmarkaða mál að þessari heildarkerfisbreytingu fylgja mjög verulegar tekjujöfnunaraðgerðir. Þær eru í því fólgnar að tæplega 1300 millj. kr. er varið til niðurgreiðslna á matvælum til að tryggja að hefðbundnar afurðir íslenskra bænda hækki ekki í verði. Það kann að vera vafasöm manneldisstefna. Það kann líka að vera vafasöm efnahagspólitík til lengri tíma litið. En það er það verð sem þessi kerfisbreyting kostar.

Hér hafa menn tekið munninn fullan á undanförnum vikum og missirum um matarskatt og verið þá að tala um 25% hækkun á keti, sméri, mjólk og skyri og öðrum slíkum afurðum. En staðreyndin er einfaldlega sú að þessar vörur hækka ekkert í verði. Það er niðurstaðan af öllum atganginum út af svokölluðum matarskatti. Jafnframt hefði ég viljað vænta þess að þetta væri gerningur sem gleddi hjarta bændavina, framsóknarmanna í öllum flokkum, því að þetta er ekki gert bara til að tryggja hag neytendafjölskyldna. Þetta er ekki síður gert til að tryggja stöðu bændastéttarinnar. (HG: Eru bændavinir til í Alþfl.?) Já, t.d. sá sem hér stendur þótt hann sé enginn vinur þess kerfis sem myndað hefur verið utan um bændastéttina, henni oft til óþurftar. — Ekki er það væntanlega gagnrýnisvert. Menn geta ekki annars vegar æpt: Matarskattur, en hins vegar gagnrýnt þessar gerðir. Staðreyndin er sú að þessar vörur hækka ekkert í verði. Til þess er varið miklu fé. Ef menn vilja færa rök fyrir því að þetta sé tekjujafnandi aðgerð hefur hún verið framkvæmd og það kostar sitt.

Fyrir utan þær staðreyndir að vísitöluáhrif kerfisbreytingarinnar eru svona hagstæð er rétt að telja upp helstu vöruflokka sem lækka verulega í verði. Þar á meðal eru mjög viðamiklir flokkar matvara, þar á meðal eru hreinlætis- og snyrtivörur, þar á meðal er borðbúnaður og búsáhöld, þar á meðal eru byggingarvörur, hreinlætistæki o.s.frv. Ég vek athygli á að byggingarvísitalan lækkar mjög verulega og það er hvort tveggja að byggingarkostnaður og reyndar mjög veigamiklir þættir í útgjöldum heimilanna vegna heimilishalds munu lækka í verði.

Til þess að gleðja íþróttaunnendur skal þess getið t.d. að íþróttavörur lækka mjög verulega í verði. Kannski það megi flokka undir manneldisstefnu o.s.frv. Þetta er rökhugsunin í þessu kerfi.

Menn spyrja: Er verið að apa upp eitthvert erlent kerfi? Já, í þeim skilningi að það hefur verið að því unnið á alþjóðlegum vettvangi á undanförnum árum að samræma tollkerfi. Við erum að taka upp samræmt tollkerfi til einföldunar og til að greiða fyrir milliríkjaviðskiptum, til að greiða fyrir samanburði í verðmyndun o.s.frv. Meginatriðið er þó það að við erum með þessum aðgerðum að tryggja og styrkja samkeppnishæfni íslenskra atvinnuvega. Lokaskrefið í þá átt verður að sjálfsögðu upptaka virðisaukaskatts. Þessu þurfa menn að átta sig á. Meginástæðan fyrir því að við getum ekki til lengdar haldið uppi söluskattskerfi óbreyttu er einmitt sú að uppsöfnunaráhrif söluskattskerfisins verða að lokum í háum söluskatti til þess að íslenskt atvinnulíf verður ekki samkeppnisfært, annaðhvort það sem framleiðir hér á heimamarkaði í samkeppni við erlendar vörur eða á erlendum mörkuðum.

Það er verið að ljúka því verkefni, sem hófst við inngöngu okkar í Fríverslunarsamtökin, EFTA, að afnema með öllu tolla á öllum aðföngum íslensks iðnaðar og íslenskrar framleiðslu. Lokaskrefið verður stigið með virðisaukaskattinum. Menn hafa sagt sem svo: Hvernig í ósköpunum stendur á því þegar menn sjá hér söluskattsfrv. að það eru fjölmargir bálkar undanþáguvara í söluskatti enn þá? Svarið er að það er búið að fækka og afnema því sem næst allar undanþágur á endastigsvörum, þ.e. neysluvörum, framleiðsluvörum, söluvörum í verslunum, en eftir sem áður standa viðamiklir vörubálkar aðfanga, hráefna, véla og tækja fyrir íslenskan landbúnað, fyrir íslenskan fiskiðnað, fyrir íslenskan sjávarútveg, vegna þess að ef við legðum söluskatt á þennan varning værum við að eyðileggja samkeppnishæfni þessara greina. Þetta getum við ekki að lokum lagað fyrr en með virðisaukaskatti og það hefur verið tekin ákvörðun um það af þessari ríkisstjórn að hann muni koma um næstu áramót, 22%. Þar með leysum við þessi uppsöfnunarvandamál, samkeppnisvandamál og erum þar með búnir að ljúka þjóðþrifaverki sem lengi mun standa og er grundvallaratriði í allri íslenskri hagstjórn.

Auðvitað viðurkennum við að það hefur verið mikið færst í fang að ætta sér að endurskoða kannski 80–85% af öllum tekjustofnum ríkisins á jafnskömmum tíma. Og af því að menn hafa verið að bera sig nokkuð aumlega undan vinnuálagi skulu menn ekkert ætla það að þetta hafi tekist án vinnu. Þeir sem að þessu hafa unnið hafa lagt vissulega nótt við dag á undanförnum vikum og mánuðum við að undirbúa þetta, tiltölulega mjög fáir menn undir miklu vinnuálagi. Og með allri virðingu fyrir því, sem ég er búinn að endurtaka, að æskilegt hefðu verið að þessi mál hefðu komið fyrr til þings og hlotið þar skoðun á lengri tíma er það bara einu sinni svo að menn eiga ekki að kveinka sér undan því ef um góð mál og þörf er að ræða þó þeir þurfi að leggja á sig meiri vinnu en frá kl. 9 til 5.

Reyndar vil ég taka það fram að eftir að hafa fylgst með og tekið þátt í umræðum um þessi mál, tolla, vörugjald, söluskatt, í hv. Ed. vil ég segja að það vekur aðdáun mína hversu fljótt og vel hv. þm. hafa sett sig inn í þessi mál, rætt þau af þekkingu og yfirvegun í smáatriðum og komið fram með mjög margar athugasemdir og ábendingar sem benda til þess að þeim hafi þrátt fyrir allt enst tími til að setja sig býsna vel inn í málið. Stundum vinnast mál ekkert betur við það að draga þau á langinn. Stundum er best að vinna snarlega að málunum.

Að því er varðar þetta tal um manneldisstefnu, þá ég vil bara segja í örfáum orðum að ekki er hægt að sníða endurskoðun aðflutningsgjalda, tolla, vörugjalds og söluskatts að því eina markmiði. Menn hafa ýmis markmið í huga og stundum rekast þau á. Besta dæmið um þetta, sem ég vil benda hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni á að íhuga, það er gott dæmi sem bugar margt annað, er um innlenda framleiðslu á grænmeti. Manneldisstefnan? Já, þetta er hollt. Af hverju á þá ekki að hafa toll á því í núlli? Það er af því að menn hafa annað markmið, að vernda íslenska framleiðslu. Þess vegna er settur á það 30% tollur að sinni. Og það er annað sjónarmið sem vakir fyrir mönnum. Það má kenna við byggðastefnu eða atvinnusjónarmið. Niðurstaðan er m.ö.o. sú að þarna verður að reyna að fara bil beggja eða þriggja. Besta lausnin og sú sem við höfum lagt til er sú að hverfa frá 30% tolli en taka í staðinn upp sérstakt innflutningsgjald sem yrði stillt af þannig að það væri haft í hærra lagi á þeim árstíma sem innlend framleiðsla er með sína vöru á markaðnum, tryggi þannig verndarsjónarmiðin, en stillt lágt þegar innlend framleiðsla er ekki á markaðnum til að tryggja neytendum kosti þess að fá ódýra hollustuvöru innflutta við lágu verði.

Þetta er eitt dæmi, en eitt dæmi af ótal mörgum. Auðvitað er fásinna að það sé hægt að hafa eitt meginsjónarmið í huga. Það er sjálfsagt og rétt að taka eins mikið tillit til þessa sjónarmiðs og hægt er. Það er reynt að gera það í mörgum greinum. Það er t.d. reynt að gera það með því að leggja sérstakt vörugjald á óhollustuvörur, sykraðar vörur, sælgæti, gosdrykki, kex og annað slíkt gums. Og það er gert m.a. með því að það er einnig 25% álag á vörugjaldinu. Það er rétt. Það á sér sérstaka skýringu. Skýringin var sú að áður notuðu menn, eins og víðar í söluskattskerfinu ónýta sem við erum að hverfa frá blessunarlega, fáránlegar reiknireglur. Vörugjaldið lagðist nefnilega aldrei nema á 80% af söluverði innlendrar framleiðslu. Við kusum að afnema þessar reglur, fá hreint borð, en til þess að hafa samræmi milli innfluttrar framleiðslu og erlendrar er brugðið á þetta ráð að því er varðar vörugjaldið annars vegar á hvort tveggja, innlenda framleiðslu og innflutta.

Það er talað um fjölskyldustefnu. Við skulum nefna nokkur dæmi um hvernig þessi breyting er fjölskyldunni í hag. Fyrst er auðvitað að geta verðlagsáhrifanna sjálfra. Það er kannski einn helsti kostur við þessa breytingu alla saman að henni er komið fram án þess að það hafi neikvæð áhrif í heild á fjárhag venjulegrar fjölskyldu, á hag fjölskyldunnar.

Í fyrsta lagi er það svo að hagur meðalfjölskyldu samkvæmt mælikvarða framfærsluvísitölu er jafngóður eftir sem áður þrátt fyrir að menn vaði um í blöðum og hrópi: 25% á matvælum! Það er náttúrlega firra. Sú hækkun er að meðaltali um 7%. En engu að síður er það svo að aðrar ekkert síður brýnar vörur og þjónusta, sem venjuleg fjölskylda þarf að kaupa, lækkar samsvarandi þannig að hagur hennar er óbreyttur. En þess er líka að geta að fjölmargar nauðsynjavörur fjölskyldunnar, sem áður voru flokkaðar undir einhvern lúxus en eru náttúrlega hversdagslegur nauðsynjavarningur, lækka stórlega. Hagur fjölskyldunnar batnar á sumum sviðum, að því er varðar a.m.k. byggingarkostnað, að því er varðar búsáhöld og ýmis aðföng til heimilishalds. Það er í þágu manneldis, þó að það sé ekki neyslumál, að varningur til útivistar og íþróttaiðkunar lækkar mjög verulega í verði. Ég held að það sé sæmilega að málum staðið að því er þetta varðar.

Það er spurt um heildaráhrifin að því er varðar hag fjölskyldunnar. Nú minnist ég þess að hv. 4. þm. Norðurl. e. reyndi sjálfur í mörgum af sínum ágætu ræðum áður í hv. deild að greina hvaða áhrif þetta hefði á hag vísitölufjölskyldunnar og fór með réttar tölur í því samhengi sem þá var. Það er rétt að rifja upp af því að það er verið að tala um hver heildarniðurstaðan er að því er varðar fjölskylduútgjöld.

Það er gert ráð fyrir að matvælakostnaður vísitölufjölskyldunnar hækki um 1800 kr. á mánuði sem eru auðvitað útgjöld, en það er líka hægt að sýna fram á það að á móti kemur lækkun á öðrum nauðsynjavörum, jafngild. Það á við um hreinlætisvörur, það á við um frystikistur, það á við um teppi, það á við um barnavagna, það á við um margvísleg búsáhöld o.s.frv. o.s.frv. Þetta geta menn kynnt sér nánar af gaumgæfilegum lestri þessara frumvarpa. Þessar vörur vega þungt í heimilisútgjöldum, en heildarniðurstaðan er að heildarútgjöld vísitölufjölskyldunnar haldast óbreytt.

Þá er spurt: Hvaða áhrif hefur þetta á hag barnafjölskyldna, hvaða áhrif hefur þetta á hag einstæðra foreldra með börn á framfæri, hvaða áhrif hefur þetta á hag aldraðra? Og niðurstaðan er sú að þá er reynt að gera betur vegna þess að þessu fylgja mjög veigamiklar hliðarráðstafanir. Það skiptir verulegu máli að barnabætur og barnabótaauki, sem er tekjutengdur og er ekki hvað síst einstæðum foreldrum með börn á framfæri í hag, er verulega hækkaður. Það verður séð til þess að barnabæturnar verða greiddar út fyrir fram eins og fram kom í umræðunum um tekjuskattsfrumvarpið í staðgreiðslu. Fyrsta greiðsla fer fram í janúarmánuði. (Gripið fram í: Er það nú öruggt?) Því hefur verið yfir lýst og það var undan því kvartað af hálfu ríkisskattstjóraembættisins að það væru á því framkvæmdaörðugleikar, en það hefur verið þaulrætt í nefnd og það hefur verið þaulrætt við ríkisskattstjóra að það beri að gera allt sem hægt er til þess að tryggja það að við það verði staðið og því hefur verið heitið.

Ef litið er á ársútgjöld vísitölufjölskyldunnar þau eru í dag talin vera 1300 þús. kr. og er reyndar oft kostuleg umræða um það. Samkvæmt þessu úrtaki þessa gamla vísitölugrundvallar eyðir fjölskyldan þessu samkvæmt búreikningum sínum og segir sína sögu um þær draumatölur sem oft eru tengdar umræðum um kaup og kjör miðað við taxtakaup. Af þessum útgjöldum eru matarútgjöld rétt tæplega 300 þús. kr. á ári eða 24 þús. kr. á mánuði. Tæplega 1 millj. kr. fer þá í annað en mat á þessu ágæta vísitöluheimili, 80 þús. kr. á mánuði, og af því að útgjöldin á þessu sviði fara lækkandi nýtast þessir peningar betur og, eins og ég sagði, að því er varðar aðrar fjölskyldur, þá tekjuhópa sem við viljum helst bera fyrir brjósti, verður hagur þeirra betri, t.d. er þessi 7% hækkun matvæla í heild sama prósentutala og nemur hækkun á bótagreiðslum til lífeyrisþega, en hækkunin á barnabótum og barnabótaauka er um 9%.

Þá tel ég að ég hafi sagt í stórum dráttum það sem ég vildi segja til þess að svara fram komnum spurningum um manneldisstefnu og um grundvallarhugsun í þessu kerfi, hvernig þetta snertir hag fjölskyldunnar, hverjir voru til kvaddir að fjalla um þetta, þessi tæknilegu atriði, og hvaða heildaráhrif kerfisbreytingin hefur. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara beinum orðum um hag bakara. Það er rétt ábending hjá hv. 2. þm. Vestf. Ólafi Þ. Þórðarsyni að oft er auðvitað hægt að fara sömu leið og aðrar þjóðir í því að setja reglugerðir sem kveða á um gæði til þess að draga úr innflutningi eða gefa einhverja vernd, það er mál sem vel má skoða.

Um eitt dæmi þessu skylt, sem hv. 5. þm. Vesturl. Ingi Björn Albertsson nefndi og varðaði bankastimplun, er það að segja að sú breyting er ekki komin að öllu leyti til skila. Það bíður endanlegrar tölvuvæðingar tollþjónustunnar til þess að hægt sé að stíga þar skrefið til fulls. Um það er held ég enginn ágreiningur. Einstakir ráðherrar hafa nefnt skýringu á því hvers vegna söluskattsprósentan var ekki lækkuð eins og áformað hafði verið í 22 eða 23%. Þá hefur verið vitnað til þess að í því efnahagsástandi sem nú er, í því þensluástandi, hafa menn metið það svo að það hafi verið fullkomlega hætta á því að verðlækkunin, sem af þessu átti að hljótast, hefði skilað sér treglega til neytenda. Það voru reyndar þeir menn sem við kvöddum til að meta þessar breytingar sem höfðu uppi slík varnaðarorð þannig að hér er ekki um neinar ásakanir að ræða uppfundnar í fjmrn.

Og þá spurði hv. þm.: En hvað verður þá um virðisaukaskattinn þegar hann lækkar? Mun sú breyting komast til skila til almennings? Svarið við því er auðvitað það að hafi þessari ríkisstjórn tekist það ætlunarverk sitt að draga mjög verulega úr verðbólgu á næsta ári og skapa hér meiri stöðugleika og bætt verðskyn og heilbrigðari verðmyndun aukast líkurnar á því að slík breyting skili sér til almennings í raun og veru sem og þær aðgerðir sem áformað er að taka upp til þess að framfylgja betur, mun betur en áður hefur verið, eftirliti með þessu einfalda kerfi. Það er fullkomlega ljóst og það getur hvaða stjórnmálamaður sem er sannfært sig um það af viðræðum við þá sem starfa í skattakerfinu að eftirlit með núgildandi kerfi var ógjörningur að hafa í reynd. Það var allt saman í molum. Það var ógjörningur, söluskattskerfið var ónýtt í þeim skilningi. Vonir okkar um bætt skattskil, m.a. vegna aukins eftirlits — nú er hægt að koma því við. Nú er hægt að koma því við vegna þess að kerfið er einfalt. Ég nefni sem dæmi: Árið 1980 í fjármálaráðherratíð hv. þm. Ragnars Arnalds var skipuð sérstök nefnd til þess að rannsaka eitt helsta hugðarefni hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar, þ.e. það að taka upp búðarkassa, innsiglaða, sjóðvélarnar svokölluðu, sem formaður Alþb. gerði að hvað mestum gamanmálum hér í Ed. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að það væri tilgangslaus gerningur ... (Gripið fram í: Fyrrverandi formaður.) Já, það er búið að skipta um formann þarna. Já, ég gleymdi því. Það er vegna þess að maður hefur ekki haft hinn nýja formann svo fyrir augunum að undanförnu og hv. þm., fyrrv. formaður Alþb. ber a.m.k. formannskápuna enn, sýnist mér, í sínum málflutningi nema hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur kannski tekið við kuflinum hér í hv. deild. En það sem ég vildi sagt hafa var það að niðurstaðan varð sú að þetta væri gagnslaust og þýðingarlaust, þjónaði engum tilgangi, vegna þess að undanþágufárið var slíkt í söluskattinum að það voru tvær summur gjörólíkar, sjálfur skattstofninn og álagningin, það sem í gegnum kassann fór og það sem var söluskattsskylt í raun og veru, þýðingarlaus aðgerð. Þær breytingar sem við erum nú að gera eru forsenda fyrir því að koma þessu í framkvæmd.

Að lokum spurði hv. þm. Ingi Björn Albertsson hvort þess væri að vænta að jöfnunargjöld yrðu hækkuð. Það kom til orða en frá því var horfið. Um það er held ég ekki mikið meira að segja.

Ég vona að ég hafi í stórum dráttum svarað því sem til mín var beint af hv. þm. og þó sér í lagi hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. Ég tek undir með hv. þm. að þrátt fyrir tímahrak er það auðvitað sjálfsögð skylda ráðherra að svara spurningum og gefa upplýsingar eftir því sem unnt er. Hitt er svo annað mál að þetta mál er eðli sínu samkvæmt þannig að eðlilegast er að það fái umfjöllun í smáatriðum, sérstaklega tollamálið, í hv. nefnd og ég met það svo af umfjöllun í Ed. að það hafi fengið mjög nákvæma umfjöllun og sjálfur hef ég ekki verulegar áhyggjur af því að þetta mál verði með meiri skafönkum vegna tímaskorts en þótt það hefði legið hér til umfjöllunar jafnvel vikum saman. Minni ég nú hv. þm. á að ötulleiki í nefndastarfi hefur löngum og löngum ekki verið mikill þótt tíminn væri nógur og jafnvel mál fyrirliggjandi. (Gripið fram í.) Skafanki er íslenskt mál, já. (AG: Á að íslenska hana?) Á að íslenska frönskuna? (AG: Það er skylda að fylla út tollskýrslu á íslensku. Tollskýrslan er ekki á íslensku að öllu leyti. ) Já. Sé það skylda er tiltölulega auðvelt að bæta úr því. Hitt er svo annað mál að þetta eru sjálfsagt leifar af alþjóðlegri hefð og erfð frá því að meginland Evrópu var með tollmúrum og tollhliðum við hvern hól og hvern læk og e.t.v. er franskan í þessum málaflokkum hin alþjóðlega lingua franca, hið alþjóðlega tungumál, eins og í póstþjónustu og öðrum málum.

Menn hafa haft orð á því að þessi mál væru flókin. Þau kunna að vera það þegar farið er ofan í saumana á smáatriðunum, en aðalsmerki þessara breytinga er einmitt einfaldleikinn. Og öll hugsunin í þessari kerfisbreytingu lýtur að því að gera ónýtt, götótt, flókið og óframkvæmanlegt kerfi að einföldu, auðskildu og vel framkvæmanlegu kerfi.

Loks er svo þess að geta af því að ekkert er nýtt undir sólinni að þetta mál er að sjálfsögðu ekkert nýtt hér á þingi. Hv. þm. Albert Guðmundsson vék að því að fyrr hafa verið gerðar tilraunir til að koma þessu máli fram og gegnum þing með lengri undirbúningstíma en tókst ekki, því miður, af ýmsum ástæðum, að hluta til vegna þess að menn guggnuðu á ýmsum annmörkum sem mönnum tókst ekki að sníða af, að hluta til af pólitísku kjarkleysi og að hluta til af skorti á einarðlegri verkstjórn. En málið er kunnugt. Það hefur verið lagt fyrir, það hefur verið um það fjallað á Alþingi. Hugmyndirnar eru ekkert nýjar af nálinni þannig að það er ekki eins og þessu hafi verið dengt fyrir þjóð og þing allt í einu með örfárra daga fyrirvara.