18.12.1987
Neðri deild: 31. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2641 í B-deild Alþingistíðinda. (2013)

198. mál, tollalög

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Við höfum rætt um tollamál og breytingu á tollum, nýja tollskrá. Inn í þessar umræður fléttast að einhverju leyti umræða um söluskatt sem út af fyrir sig á ekki heima í þessari umræðu en í gegnum nokkuð mörg ár hefur hæstv. núv. fjmrh. og fleiri alþýðuflokksmenn borið það á atvinnurekendur, smáa sem stóra, að þeir hafi stolið undan söluskatti gegnum tíðina. Þegar ég var fjmrh. var upphæðin 10 milljarðar. Það var fullyrðingin á þeim tíma. Sú upphæð hefur að vísu lækkað. Nú hefur það skeð að söluskattur hefur verið lagður á fleiri vörutegundir til innheimtu og upphæðin, sem innheimt er, er í prósentum sú sama og áður var og hér hef ég hlustað á hvern alþýðuflokksmanninn af öðrum, innan gæsalappa þó, fullyrða að nú verði innheimtan auðveldari og söluskatturinn muni skila sér miklu betur, hann sé á allan hátt einfaldari. En ég hef ekki heyrt um hvernig þeir hafa hugsað sér að einfalda innheimtuna. Það er ekki einföldun, það er alveg öfugt, að fjölga vöruflokkum sem bera háan söluskatt. Og ef það er rétt sem alþýðuflokksmenn hafa fullyrt gegnum tíðina, að undan söluskatti hafi verið skotið stórum upphæðum, svo að þúsundum milljóna skipti, get ég ekki séð að neitt nýtt kerfi hafi verið sett í gang, hafi verið hugsað upp, að nokkrar breytingar hafi orðið aðrar en að það er vitnað í það að nú muni ríkisskattstjóri verða skilvirkari í sínum störfum, líklega bara við það að málaflokkurinn heyrir undir Alþfl., en ég hef ekki heyrt um ráðstafanirnar sem gerðar hafa verið til þess að innheimtan gangi betur. Í þessum umræðum um tollamál hafa rök alþýðuflokksmanna og þá sérstaklega hæstv. fjmrh. um söluskattinn og söluskattsskil verið þau að með einfaldari aðferðum verði innheimtan betri, bara við það að fleiri vörutegundir falla undir 25% söluskatt. Ég vil gjarnan fá skýringu á því núna vegna þess að kerfið virðist vera komið á.