18.12.1987
Neðri deild: 31. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2642 í B-deild Alþingistíðinda. (2014)

198. mál, tollalög

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég kem fyrst og fremst í ræðustól til að þakka hæstv. fjmrh. og reyndar einnig hæstv. heilbrrh. fyrir að svara þegar þeir eru aðspurðir og ég met það og virði við til að mynda hæstv. fjmrh. að hann tók alvarlega þær spurningar sem til hans var beint og fór yfir þær í sæmilega ítarlegu máli og gerði grein fyrir því hver hans afstaða væri til þeirra hluta og skýrði, eftir því sem hann hafði vitneskju og möguleika til, þá þætti málsins sem hann hafði verið beðinn um nánari útlistanir á. Það er nákvæmlega þannig, held ég, sem hæstv. ráðherrar og hv. þm. eiga að eigast við og starfa saman hér á hinu háa Alþingi, með fullri virðingu hver fyrir öðrum og sýna það í verki að þeir taki skyldur sínar alvarlega og reyni eftir bestu getu að uppfylla þær.

Ég bíð með það til seinni tíma, 2. umr. eða annars tíma, að fara efnislega ofan í það sem hæstv. fjmrh. sagði hér um heildaráhrifin af þessum breytingum. Til þess gefast nóg tækifæri þegar önnur tengd frv. koma til meðferðar. Ég hlýt þó að minna hæstv. ráðherra á það að lykillinn að því að tryggja að fjölskyldurnar, þ.e. meðaltalsfjölskyldan sem allt miðast nú við, þessi upp á 3,9 fjölskyldumeðlimi, verði ekki fyrir stórauknum útgjöldum er bakráðstafanir í formi niðurgreiðslna, í formi hliðarráðstafana sem ákvarðaðar eru með fjárveitingum hverju sinni. Hitt vitum við jafnvel að þeir skattstofnar sem einu sinni eru komnir á blífa og verða áfram og verða notaðir og það er auðvitað lausi endinn í málinu hjá hæstv. fjmrh. og formanni Alþfl. sem er að leggja á gífurlega nýja skatta. Undan því fær hann ekki vikist, hæstv. ráðherra, þó að hann hafi auðvitað fundið út það snjallræði að það sé ekki rétt að tala um það með þeim orðum vegna þess að tekjunum sé ráðstafað á tiltekinn hátt. Það er að hluta til til hagsbóta launafólki sem er út af fyrir sig rétt. En skattstofnarnir eru að breikka og stækka og innkoman í ríkissjóð að aukast. Álögurnar eru fyrst og fremst á almenning. (Fjmrh.: Það er verið að treysta undirstöður velferðarríkisins.) Það er út af fyrir sig nokkuð til í því hjá hæstv. ráðherra, enda tók ég það fram í fyrri umræðum að ég væri í sjálfu sér ekki að agnúast sérstaklega út í það þó að menn væru að afla fjár til samneyslunnar. Það er út af fyrir sig þarft verk að koma löppunum undir ríkissjóð aftur eftir þá óráðsíu sem sjálfstæðismenn hafa ástundað þar um árabil.

Varðandi það að ekki sé hægt að ganga út frá einstökum þætti eins og manneldisstefnu þegar verið er að ákvarða tollskrá er það auðvitað rétt hjá hæstv. ráðherra og líka rétt hjá hæstv. heilbrrh. að það sem hér er á ferðinni er að vega og meta ólík sjónarmið. En það þarf að reyna að gera það á sem sanngjarnastan hátt, finna sem besta og sanngjarnasta millileið milli sjónarmiða eins og hollustu og manneldissjónarmiða annars vegar og kannski þess að verja innlenda framleiðslu hins vegar. Það er vandaverk. Það getur vel verið að landlæknir mótmæli einu sem samtök iðnrekenda eru hæstánægð með. Þess vegna, hæstv. fjmrh., er það auðvitað lykilatriði að allir aðilar málsins fái jafnan rétt til þess að láta sín sjónarmið í ljós. Og ég hjó eftir því en það kom ekki fram í máli hæstv. ráðherra að aðilar eins og t.d. Neytendasamtökin eða fulltrúar þeirra hefðu enn þá komist að þessu máli þegar það er hér til umræðu í seinni deild. Og það er út af fyrir sig alvarlegur hlutur.

Herra forseti. Ég hef ekki kvartað undan vinnuálagi hér á hinu háa Alþingi. Hafi verið uppi kvartanir eða grátur um slíkt hafa það verið aðrir en ég. Það er fjarri mér að aka mér undan því að leggja mitt af mörkum í formi vinnutíma hér ef það má verða til þess að málin gangi betur fram og verði betur unnin þegar þau verða gerð að lögum. Ég tel í sjálfu sér að það sé ekkert að því að vinna mikið, eins og menn þola. Það er hins vegar mikilvægt að vinnan sé sæmilega skipulögð, að vinnutíminn nýtist og að menn gangi ekki svo fram af sér að afköstin fari að minnka og þetta verði vítahringur sem menn komist ekki út úr og menn vinni lengur og lengur og verði þreyttari og þreyttari og verði þar af leiðandi sljórri og sljórri og þurfi meiri og meiri og meiri og meiri tíma til að skilja hlutina. Þannig getur þetta nefnilega farið, hæstv. ráðherra, ef menn ganga of langt og það á allra síst við í löggjafarsamkundunni.

Herra forseti. Það er ekki á mínu valdi, ekki heldur á valdi herra forseta, að draga þá hæstv. ráðherra í ræðustólinn sem ekki vilja það eða geta.