18.12.1987
Neðri deild: 31. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2643 í B-deild Alþingistíðinda. (2015)

198. mál, tollalög

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Það er helst athyglisvert við þær umræður sem hér hafa farið fram í kvöld að nær allir ef ekki allir hv. þingdeildarmenn sem tekið hafa til máls hafa fagnað þessu frv. að meginstefnu til. Þetta er ákaflega mikils virði, og sannar víst enn einu sinni að það verður dýrast sem lengi hefur geymt verið, og ber tvöfaldan ávöxt í hentugan tíma fram borið. Sá hentugi tími er nú. Það hefur verið beðið nógu lengi eftir þeirri þörfu hreingerningu á tekjuöflun ríkisins sem þau frumvörp sem nú liggja fyrir hinu háa Alþingi, um söluskatt, um vörugjald, um tollalög, um tekju- og eignarskatt, fela í sér í sameiningu. Reyndar eru þessar breytingar, eins og komið hefur fram í máli hæstv. fjmrh., svo umfangsmiklar að þær hreyfa við 4/5 af tekjum ríkissjóðs í einu lagi. Þetta er nauðsynlegt að gera nú til þess að koma lagi á ríkisfjárhaginn og, eins og hæstv. fjmrh. orðaði það réttilega, til þess að treysta undirstöður velferðarríkisins. Skattakerfið var úr sér gengið og reyndar allra manna mál að úr því þyrfti að bæta. Svona er nú það.

Menn hafa nokkuð fundið að málsmeðferð. Það verður að segjast að hér hafa menn barið sér mjög búmannlega, ekki síst hv. 4. þm. Norðurl. e. sem er ákaflega samviskusamur þm. og tekur þátt í hverju máli vel og vandlega. Það er sannarlega þakkarvert. Ég vil taka undir þau orð sem fram komu hjá hæstv. fjmrh. að stjórnarandstaðan hefur komið ákaflega vel fram í vinnunni við þessi mál, tekið dyggilega þátt í vinnunni í nefndunum, borið fram fjölmargar tillögur og komið með gagnlegar ábendingar, en auðvitað ýmsar sem ekki er hægt að samþykkja. Þetta er eins og þingið á að vinna. En það er líka rétt að þótt vönduð vinnubrögð í nefndum séu mikilvæg er líka nauðsynlegt að gjöra svona hluti skjótt. Það mætti líka hugsanlega gagnrýna vinnubrögðin við tollalagabreytingar eins og hér hafa verið undir í nefndarstörfum og þingstörfum að þær gangi ekki nógu fljótt vegna þess að svona breytingar þurfa eðli sínu samkvæmt að gerast nokkuð snögglega. Það sem menn gjöra eiga þeir að gjöra skjótt þegar um slíkar breytingar er að ræða. En þá þarf auðvitað að undirbúa málin vel og það hefur að mínum dómi reyndar verið gert hér því eins og hér hefur komið fram er langur aðdragandi að þessu máli. Reyndar er hann svo langur að það mætti rekja hann frá árinu 1970, ef menn vildu. Hér er í raun og veru verið að stíga mikilvæg skref til þess að laga íslenska tekjuöflunarkerfið að þeim veruleika að við gerðumst aðilar að fríverslunarsamningum við Evrópuríki í byrjun áttunda áratugarins. Það er kjarni málsins. Nú er verið að vinna verk sem lengi hafa úr hömlu dregist.

Ég ætla ekki að hafa um þetta mál fleiri almenn orð, en vildi víkja nokkrum orðum að því sem til mín var beint sérstaklega eða þar sem mér finnst ástæða til að hnykkja á því sem kom fram hér í ágætum svörum hæstv. fjmrh.

Hv. 5. þm. Vesturl. benti í fyrsta lagi á að ytri tollabreytingin gengi e.t.v. helst til skammt eins og ég skildi hans mál og reyndar nefndu það fleiri. Þetta má rétt vera en þó er nauðsynlegt að hafa þarna í huga að ef einhvern tíma kæmi að því að við vildum gera fríverslunarsamninga við fleiri menn en Evrópumenn þurfum við að hafa um eitthvað að semja, svo einfalt er nú það.

Í öðru lagi nefndi hv. 5. þm. Vesturl. athyglisverðar ábendingar um það að merkja þyrfti betur í tollskrána þær vörur þar sem gefa þyrfti upp stykkjafjölda við innflutning, t.d. með stjörnu eins og gert hefði verið. Ég tel að hæstv. fjmrh. eigi að taka þetta til vandlegrar athugunar. Hann nefndi líka að það væri gott að merkja í tollskrána þær vörur sem bera vörugjald þótt það sé önnur gjaldskrá. Mér fyndist það líka eðlilegt að í tollskránni sjálfri kæmi fram eitthvert slíkt merki. Þetta eru dæmi um vandaðar ábendingar, afrakstur hinnar nákvæmu vinnu sem eðlilegt er að fram fari í þingnefndum.

Í þriðja lagi tók ég eftir því að hv. 5. þm. Vesturl. og hv. þm. Reykv. með sömu raðtölu nefndu báðir bankastimplunina og töldu að þar hefði verið gengið á bak orða fyrrv. ríkisstjórnar í framkvæmdinni. Þetta held ég að sé ekki rétt. Hæstv. fjmrh. benti á það, að þetta mætti rekja að hluta til til þess að skráning á greiðsluhætti væri ekki í því lagi í tölvuskráningunni í tollinum að hægt væri að hafa hana á hreinu án stimplunar eins og að hefði verið stefnt. Þetta er eitt, tæknilegt atriði. Hitt skiptir hér meira máli, að þótt bankastimplunin hafi verið afnumin með tollskrárlögunum, þá standa eftir tvær ástæður fyrir því að enn þarf að huga að greiðsluaðferð við innflutning. Sú fyrri er að greiðslufrestsreglur eru enn í gildi. Það er samkvæmt íslenskum lögum og reglum óheimilt að taka lán við vörukaup frá útlöndum nema eftir sérstökum reglum og að mínum dómi helst til flóknum reglum. En meðan slíkar reglur eru í gildi þarf að spyrja hvernig borgað sé fyrir hina innfluttu vöru. Ég get upplýst hv. þingdeild um það að ég hef í huga að reyna að einfalda og helst í fyllingu tímans afnema þessi ákvæði, en það er yfir allan vafa hafið að hér er alls ekki um hagsmunagæslu fyrir erlenda menn að ræða eins og gefið var í skyn í máli hv. 5. þm. Reykv., heldur er ríkið hér að reyna að gæta þess að farið sé eftir reglum sem það hefur sett um greiðslufresti og nú síðast með lögunum um erlent lántökugjald sem sett var í byrjun starfstíma þessarar stjórnar. Það er auðvitað nauðsynlegt ef þetta á að framkvæma að hafa upplýsingar um það hvernig innfluttar vörur skuli greiða því sum af lánunum sem þannig eru tekin eru gjaldskyld samkvæmt þessum lögum.

Nú vill reyndar svo til að þetta gjald á að falla niður í árslok 1988 og þá verður sú ástæðan fallin fyrir því að spyrja um hvernig greitt sé því það er auðvitað rétt hjá hv. 5. þm. Reykv. að við eigum að stefna að því í okkar viðskiptum að það verði sem minnstur munur á viðskiptum innan lands og við önnur lönd því það er einmitt aðal utanríkisverslunar að hún víkkar framleiðslu- og tekjutækifæri fámennrar þjóðar sem fæst við einhæf störf einfaldlega af því að það borgar sig best. Nóg um bankastimplunina, sem ég vona að hafi þá skýrst eitthvað í hugum hv. þingdeildarmanna um hvað snýst.

Ég ætla ekki að víkja að fleiri einstökum atriðum nema hvað ég get ekki á mér setið að segja það að mér kom það nokkuð á óvart að hv. 5. þm. Reykv. skyldi ekki líka það að hafa þessi framandlegu og fallegu frönsku orð í tollskránni sem hann las upp með betri hreim en mér er unnt því hann er málinu kunnugur. Bæði er það að hann þekkir tungumálið, frönsku, og hitt, að honum er náttúrlega vel ljóst og miklu betur en fram gekk af hans máli að hér er um upptalningu að ræða á nöfnum á hitabeltisviðum sem ættaðir eru úr fjarlægum heimshlutum. (Gripið fram í.) Það stendur hérna allt saman. (Gripið fram í.) Jú. (Gripið fram í.) Það getur verið að það sé blandað afrísku. En það er áreiðanlega úr hinni frankófónu Afríku. Sennilega er það kjarni málsins að þótt það kunni að vera satt sem skáldið sagði, að til sé á íslensku orð yfir allt sem er hugsað á jörðu, sé enn ekki til á íslensku orð yfir allt sem er verslað með á jörðu. Kannski kemur að því. En ég er alveg sannfærður um að það verður vandlega að því hugað hvernig megi verða við því sem hv. 5. þm. Vesturl. óskaði eftir, að tollskrármálið verði íslenskað. Það er auðvitað rétt að lagamálið er íslenska og þess vegna á tollskrármálið líka að vera íslenska. En hins vegar verð ég að játa að ég held að mér verði erfiðara að sætta mig við orð eins og kíserít, epsomít, sem eru sögð hér náttúrleg magnesíumsúlföt bls. 59, en Acajou d'Afrique sem mun vera nafn á einhverjum fallegum harðviði, sem ég þekki reyndar ekki en fulltreysti að smiðirnir þekki, og viti hvað við er átt. Það er það sem máli skiptir. Ég lýk svo ræðu minni. (AG: Hvað er íslenskt orð yfir Acajou d'Afrique?)