18.12.1987
Neðri deild: 31. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2646 í B-deild Alþingistíðinda. (2016)

198. mál, tollalög

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Reykv. beindi til mín spurningum um það í hverju væru fólgnar þær ráðstafanir sem ættu að tryggja bætt söluskattsskil. Áður en ég svara því vil ég leiðrétta að það hafi fyrst og fremst verið orð alþýðuflokksmanna að láta uppi efasemdir um að skattskil, hvort heldur væri í söluskatti eða skattakerfinu, væru í nógu góðu lagi. Ég rifja upp að hv. þm. skipaði á fjármálaráðherratíð sinni nefnd skv. þál., sem við alþýðuflokksþingmenn höfðum flutt og fengið samþykkta undir forustu núverandi félmrh. hæstv., til þess að rannsaka skattskil á Íslandi. Sú skýrsla hefur verið kölluð skattsvikaskýrslan. Hv. þm. Albert Guðmundsson á heiður skilið fyrir að hafa skipað þessa nefnd. Hún skilaði af sér áliti, ítarlega rökstuddu, og lagði þar mat á hverju væri ábótavant, tölulegt mat á hver vanskilin væru, beitti til þess ýmsum ráðum. Og þetta var auðvitað gert í framhaldi af því að með öllum grannþjóðum okkar hafa verið gerðar slíkar úttektir. Málin hafa verið rædd, þau hafa verið rannsökuð og það er ekkert launungarmál að það skattkerfi er enn ekki uppfundið sem tryggir fullkomin skattskil. En þarna varð niðurstaðan sú að ætla mætti að skattar kæmust ekki til skila sem svaraði á núvirði um 5 milljörðum kr. Hér er ekki verið að fara með pólitískar sakargiftir heldur verið að lýsa niðurstöðum nefndar sem skipuð var af hv. fyrirspyrjanda sjálfum og skilaði áliti.

Hvað er það sem eykur okkur bjartsýni á því að skattskil batni? Hvaða ráðstafanir á að gera?

1. Með vísan til rökstuðnings skattsvikanefndar er meginatriðið í því kerfisbreytingin sjálf. Rauði þráðurinn í tillögugerð nefndarinnar var að með því að lagfæra skattalög, með því að fækka undanþágum, með því að breikka skattstofn væri verið að einfalda kerfið og stuðla að bættri innheimtu þegar af þeirri ástæðu. Það var lögð á það áhersla að að óbreyttum lögum og í óbreyttu kerfi með slíkum fjölda undanþága sem í því eru væri fjölgun eftirlitsmanna þýðingarlítil, enda er það ekki hugmynd þess sem hér stendur að breyta þjóðfélaginu í lögregluríki, fjarri því. Kerfið á að vera þannig að það sé auðskilið, það sé hægt að koma við ódýru en árangursríku eftirliti og stærsta einstök breytingin er auðvitað breytingin á lögunum sjálfum.

2. Það hefur verið lýst áformum um að tryggja bætt skil í söluskatti með því að taka upp innsiglaðar sjóðvélar sem kallaðar eru á fagmáli. Það er hægt í undanþágulausu kerfi. Það er gert víða um lönd, ekki hvað síst í Bandaríkjum Norður-Ameríku, og er einn þáttur þess arna.

Þriðja dæmið sem nefnt hefur verið en ákvörðun hefur að vísu ekki verið tekin um, málið er nú á umræðustigi, er að fela tollþjónustunni og því starfsliði sem þar er, þar sem verkefnum fækkar vegna þessarar umfangsmiklu einföldunar á tollakerfinu, að taka að sér eftirlit með framkvæmd söluskatts, vörugjalds og um það er lýkur virðisaukaskatts. Þó ekki kæmi annað til en þetta þrennt væru það allt jákvæðar aðgerðir sem gætu gefið rökstuddar vonir um bætt skattaskil.

Fjórða atriðið er síðan einfaldlega bætt þjónusta, bætt upplýsingaþjónusta. Ég vil nefna það að lokum að í umfjöllun um þessa kerfisbreytingu í Ed. hefur verið lögð á það áhersla af hálfu ýmissa talsmanna stjórnarandstöðunnar að þessi kerfisbreyting sé ekki nægilega vel kynnt. Það er eitt dæmið um mjög þarfar og gagnlegar ábendingar sem komið hafa fram í þessum umræðum. Þetta er réttmæt gagnrýni. Því hefur verið beint til mín að ég reyndi að beita mér fyrir því að skattayfirvöld í samvinnu við einkum og sér í lagi sjónvarp, sjónvarpsstöðvarnar báðar, og fjölmiðla í heild geri að því gangskör nú þegar að koma á framfæri við allan almenning einföldum og auðskildum upplýsingum bæði um framkvæmd staðgreiðslukerfisins og þessa hina miklu kerfisbreytingu sem á að ganga í gildi um áramót. Og þeirri kynningu þarf að halda áfram líka eftir áramótin á meðan þessi kerfisbreyting er að festast í sessi. (SJS: Þessar ábendingar komu fram í þessari hv. deild, við 3. umr. hér.) Þá leiðréttist það því að þá hafa þeir í hinni deildinni bara verið að apa það eftir hv. þm. (Gripið fram í: Það eru deildaskipti.)

Þetta eru nokkur dæmi um það sem fyrir mönnum vakir um aðgerðir til þess að bæta þessi skil. Ég vil aðeins ljúka með því að segja: Þáttur í vanskilum í sköttum byggist ekki á ásetningi heldur á því að mönnum verða á skyssur, sér í lagi þegar kerfið er flókið. Það á að vera þáttur í eðlilegri þjónustu skattakerfis að bæta þjónustu við greiðendur. Upplýsingar eru þýðingarmikið atriði því að þjónustuhugarfar þarf að vaxa í opinberri starfsemi á Íslandi.