21.10.1987
Neðri deild: 5. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í B-deild Alþingistíðinda. (203)

43. mál, leyfi til slátrunar

Flm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég skal fúslega játa að ég hefði mjög gjarnan viljað komast hjá því að flytja þetta frv., en málsmeðferð öll hefur gert það að verkum að maður sér sig knúinn til að fara þessa leið og þó alveg sérstaklega eftir að hæstv. landbrh. lýsti því yfir í gær að hann hefði ekki lagalega heimild til að veita umrætt sláturleyfi.

Það er margt undarlegt í þessum málum. Mig langar til þess í upphafi að nefna að í svonefndri sláturhúsaskýrslu, sem þm. hafa allir fengið, segir svo um sláturhús Sláturfélags Arnfirðinga á Bíldudal:

„Sláturhúsið er gamalt hús sem Matvælaiðjan á Bíldudal átti. Með núverandi skipulagi er ekki hægt að koma við þeirri heilbrigðisskoðun sem krafist er. Í húsinu er frystir fyrir 250 skrokka á sólarhring og frostgeymsla nýlega byggð sem tekur ca. 15 tonn. Frágangur geymslunnar samræmist ekki kröfum um geymslu matvæla.“

Um annað hús er sagt að húsið sé byggt í kringum 1960. „Það er allgott. Núverandi skipulag gefur ekki aðstæður til heilbrigðisskoðunar. Enginn kælir eða frystiaðstaða er á staðnum.“ Þarna var undanþága fúslega veitt.

Annað dæmi. „Sláturleyfishafi leigir fiskverkunarhús í þrjá mánuði á ári. Þar er komið fyrir færanlegum búnaði í sláturtíð. Kjöt er flutt til frystingar í önnur byggðarlög.“ Þarna þarf ekki einu sinni hús að vera fyrir hendi til að undanþága sé veitt til að slátra 8 þúsund fjár.

Annað sláturhús: „Þar fer slátrun fram í tveimur húsum. Fjárrétt og banaklefi eru í húsi sem annan hluta ársins er notað sem vörugeymsla. Eftir aflífun eru gripirnir fluttir á vagni í hús sem annan tíma er notað til fiskverkunar. Það hús er að hluta til hólfað niður með föstum skilrúmum, en að meginhluta er það hólfað niður með plastdúk.“ Einhver tregða var þarna á undanþágum, en hún fékkst þó átakalítið.

Ég nefni þessi dæmi upp á þau vinnubrögð sem eru viðhöfð í þessum efnum. Það er ekki sama hvort það er bara Jón eða séra Jón. Þar er mikill munur á. Þetta gefur fullkomið tilefni til að ætla að hér sé ekki farið eftir lögum og reglum heldur sé verið að mismuna mönnum hér.

Ég fullyrði að afurðir sem hafa verið framleiddar í þessu sláturhúsi á undanförnum árum hafi verið góðar afurðir. Viðskiptamennirnir hafi keypt afurðir ár eftir ár og vilja þær frá þessu húsi.

Það skiptir líka allmiklu máli fyrir bændur almennt sem mér hefur nú heyrst allan þann tíma sem ég hef átt sæti á Alþingi að væru ekkert ofhaldnir af sinni afkomu. Þeir hafa verið taldir með láglaunastéttum þessa lands og það þarf dálítið að huga að því að þeir fái sem mest fyrir sínar afurðir og fái þær skilvíslega greiddar.

Við skulum nefna þetta sláturhús aftur, líka í þessum tilgangi. 12. nóv. á sl. ári var greitt 50% af grundvallarverði. 22. des. á sl. ári voru greiddar eftirstöðvar grundvallarverðs að fullu. 8. jan. voru greiddar uppbætur á innlegg 1985, en fyrrv. framkvæmdastjóri hafði látið af starfi um mitt ár og afgreiðsla þess því dregist. 14. apríl eru greidd rekstrarlán til bænda fyrir mars og apríl. 14. maí er greiddur fyrsti hluti verðuppbóta á haustinnlegg 1986 samkvæmt bréfi Framleiðsluráðs og 10. júní eru greidd rekstrarlán fyrir maí og júní. Eftirstöðvar verðuppbóta á haust 1986 samkvæmt bréfi Framleiðsluráðs eru greiddar að fullu 15. júlí. Þá skuldar Framleiðsluráð sláturhúsinu tæp 500 þús. vegna verðútjöfnunar, en öll sjóðsgjöld voru að fullu greidd og voru greidd jafnharðan og þeirra var leitað.

Ég dreg mjög í efa að það sé hægt að segja sama um fjölmörg sláturhús í landinu. Þar hafa menn orðið að bíða og bíða sumir mjög lengi. Í næsta nágrenni við þetta hús, á Patreksfirði, fékkst grundvallarverðið ekki greitt hjá fyrrverandi sláturleyfishafa fyrir nokkrum árum og ákveðnir bændur þurftu að fara í mál og það er dýrt að fara í mál til að fá jafnsjálfsagðan hlut og grundvallarverðið greitt. Það þætti a.m.k. öðrum stéttum í þessu þjóðfélagi hart aðgöngu.

Við höfum reynt, þm. Vestfjarða, að finna lausn á þessu máli með friðsamlegum hætti og er afar leitt til þess að vita að það þurfi að grípa til þess óyndisúrræðis að flytja sérstakt frv. vegna þess að hér hefur mönnum verið mismunað. Og það er ekkert óeðlilegt við að lagafrumvörp séu flutt sem ná til einhvers ákveðins staðar á landinu. Fjöldi af lögum nær til ákveðins staðar á landinu, frumvörp um ákveðnar hafnir og fjölmörg atriði.

En við skulum líta á það, sem menn segja, að heilbrigðisaðstaða við alla matvælaframleiðslu sé stórkostlegt atriði. Undir það tek ég. Í þessum lögum segir um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum að héraðsdýralæknir skuli framkvæma skoðun á slátur- og frystihúsum á þeim tíma sem gefur nægan frest til úrbóta ef þörf krefur fyrir næstu sláturtíð. Það bréf kemur ekki til forráðamanna Sláturfélags Arnfirðinga fyrr en í ágúst og þá var það ekki einu sinni undirritað af héraðsdýralækni. Það voru punktar. Engin skoðun fer fram fyrr en sláturtíð er víða byrjuð annars staðar. Þá kemur héraðsdýralæknir sem var staðsettur á Snæfellsnesi. Og það eru alltaf að bætast við athugasemdir. Síðast í dag sá ég að settur yfirdýralæknir var að senda frá sér eina mjög merka ritsmíð og þar eru nýjar athugasemdir sem maður hefur aldrei heyrt fyrr, ekki einu sinni á langa fundinum sem forráðamenn Sláturfélags Arnfirðinga og forráðamenn sveitarstjórnarinnar í Bíldudalshreppi ásamt mér og fleirum áttu með landbrh. og starfsmönnum í byrjun október. Hér er komið inn á enn þá ný mál.

En ég spyr og bið hv. þm. að hafa það í huga: Hvernig stendur á því að það er leyft á sl. hausti að slátra hálfu sjöunda þúsundi fjár í þessu húsi? Síðan fara fram miklar endurbætur. Þá er neitað um leyfi á sama tíma og leyfi eru veitt til húsa sem ég var að gefa hér upplýsingar um. Er ekki eitthvað „brogað“ við þessi vinnubrögð? Er það ekki þungur áfellisdómur yfir yfirdýralækni og héraðsdýralækni að hafa þá veitt þetta leyfi í fyrra? En í raun og veru var ekkert leyfi veitt í fyrra. Það fannst ekki í ráðuneytinu. Það þótti svo sjálfsagt að það var ekki einu sinni veitt leyfi, en stimplarnir voru afhentir og allt var þá í stakasta lagi. Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að um sóðaskap eða trassaskap sé að ræða í þessu sláturhúsi. Allir bera því sömu sögu, að þarna sé ágætt starfsfólk sem hefur unnið sín störf vel. Ég held að sveitarstjórn eins og í Bíldudalshreppi sé líka fulltrúi neytenda þar á staðnum. Hún telur sjálfsagt, allir sem einn maður, að sláturleyfi sé veitt. Það er enginn ágreiningur í sveitarstjórninni þar um eða í kauptúninu eða í næsta nágrenni. Allir telja það sjálfsagt. Þetta fólk er ekki sannfært um að það sé svo mörgu áfátt eins og kemur fram í bréfinu sem settur yfirdýralæknir var að læða að ákveðnum þm. Einn þm. sýndi mér þetta bréf. Ég hef sennilega ekki verið í náðinni hjá þeim ágæta manni að fá eintak af þessu bréfi. En nú eru hérna góðar og fljótvirkar ljósritunarvélar. Það er enga stund verið að framleiða þetta.

Þetta sýnir allt að hér er ekki réttum og heiðarlegum vinnubrögðum beitt. Það er ekki hlutverk yfirdýralæknis eða dýralækna að vinna að því að fækka sláturhúsum. Þeir eiga í sinni umsögn að fara eftir því sem lögin gera ráð fyrir, en þeir ákveða fyrir fram: Þetta hús á að drepa. Við ætlum að vinna gegn því. — Það hafa þeir gert. Svo er sagt: Það er ekkert hægt að gera nema dýralæknir skoði kjötið. Það hefur enginn dýralæknir verið við skoðun á kjöti á Patreksfirði í haust. Þar hefur verið ágætur maður sem hefur haft mjög gott vit á kjöti, landsfrægur dægurlagasöngvari og ágætur hestamaður. Ég dreg ekkert í efa að hann sé alveg fullfær um að skoða kjöt. Hann er með langa og góða reynslu. Settur yfirdýralæknir á langa fundinum með landbrh. var alveg fastur á því að það yrði að vera dýralæknir sem skoðaði kjötið. Hann lét lítið yfir því þegar ég spurði hvort það væri ekki hægt að notast, ef enginn dýralæknir fengist, við mannalækni. Það komu heldur dræm svör um að þeir skarfar hefðu lítið vit á kjötskrokkum.

Ég sagði að það væri hægt að fá t.d. eldri lækna sem væru hættir. Þá taldi settur dýralæknir að þeir væru sennilega flestir orðnir sjóndaprir og kæmu því lítt til greina. Það má frá því segja að búið var að útvega dýralækni og hann ætlaði að fara. En af hverju breytti hann um skoðun eftir að hafa talað við settan yfirdýralækni? Og ég spyr: Á einn maður eða tveir að segja: Þið fáið ekki þetta. Við þurfum engan frekari rökstuðning. — Það er allt búið að gera þarna sem hægt hefur verið að gera og að mínum dómi stendur þetta hús betur en jafnvel sum önnur sem fengið hafa sláturleyfi.

En hvað sem verður um afdrif þessa frv. tel ég rétt og skylt að taka upp rannsókn á því hvernig að þessum málum er staðið. Þá á að fást úr því skorið hvort settur yfirdýralæknir segir satt í einu og öllu eða hvort ég og mínir líkar erum að fara með fleipur. Ég er alveg óhræddur við að slík rannsókn fari fram. Það getur aldrei komið annað út úr henni en að það verði eitthvað bætt sem miður hefur farið og leiðrétt það sem hefur verið ranglega gert.

Ég hef alltaf haft mikið álit á fjölmörgum mönnum sem eru í stétt dýralækna og margir þessir menn eru sannir dýravinir og kannski þeir hafi fengið sína köllun vegna þess að þeir eru dýravinir. Og þeir hafa margir hverjir unnið mjög gott og þýðingarmikið starf. En mér finnst það vera ákaflega undarlegt ef farið er að beita menn innan einnar stéttar þrýstingi að gera ekki þetta eða hitt. Þá finnst mér ekki mikið til um þann félagsskap sem þannig vinnur. Ég vil samt ætla að það séu ekki nema örfáir menn í því félagi sem vilja beita slíkum þrýstingi.

Ég get verið sammála hv. 13. þm. Reykv. um að ef menn ekki vilja vera sanngjarnir í dómum sínum og láta sömu lög og reglur gilda fyrir alla er það yfirmannsins, hins æðsta stjórnvalds, að víkja þeim manni úr starfi eða mönnum. En það er ekki rétt hjá hv. 13. þm. Reykv. að ef maður er búinn að afplána sína hegningu og lögreglustjórinn vill ekki sleppa honum, þá geti Alþingi rekið lögreglustjórann. Hann er skipaður af dómsmrh. eða í raun og veru af forseta. (Gripið fram í.) Þá er alveg sjálfsagt að fulltrúar fólksins, umboðsmenn þjóðarinnar, sem sitja í þessari virðulegu stofnun, taki málið upp. Segja má að það hafi verið gert með þessum hætti en af mjög illri nauðsyn. Mér finnst mjög slæmt að hafa þurft að flytja þetta frv.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til hv. landbn. og ég vænti þess að hvort sem menn eru með eða á móti þessu frv. skilji þeir að skjóta afgreiðslu þarf á þessu máli og verður að sýna hvort þetta frv. hefur þingstyrk eða ekki. Ég fer því fram á að það verði haldið áfram með afgreiðslu þessa máls að lokinni þessari umræðu í nefnd og síðan verði aftur boðaður fundur, þó í kvöld sé, um þetta mál því eins og ég sagði áðan þolir það ekki bið.