19.12.1987
Neðri deild: 32. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2654 í B-deild Alþingistíðinda. (2031)

197. mál, vörugjald

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um vörugjald. Meginatriði þessa máls er það að sex mismunandi gjöld verða skv. frv. felld niður, fjögur mismunandi vörugjöld sem nú eru 7, 17, 24 og 30%. Jafnframt falla niður tollafgreiðslugjald, sem nú er 1%, og tryggingariðnaðarsjóðsgjald sem er 1/2%. Lagt verður á skv. frv. eitt samræmt vörugjald, 14%, sem leggst á nokkuð skýrt afmarkaða vöruflokka sem nú bera margvísleg vörugjöld á bilinu 17—30%. Þessar vörur eru sælgæti og kex, öl, gosdrykkir og safar ýmiss konar, raftæki, hljómtæki, sjónvörp, myndbönd og blöndunartæki og kranar, raflagnaefni, hreinlætistæki sem og steypustyrktarjárn. Innlendum gjaldendum fækkar til mikilla muna og eftirlit verður einfaldara. Ætla má að innlendir gjaldendur verði í kringum 20. Þeir voru áður á þriðja hundrað. Með þeim hætti þýðir einföldun vörugjaldsins, samræming þess ofan á grunn lækkaðra tolla einfaldara og auðveldara kerfi og möguleika til betri innheimtu.

Í grg. með frv. er stiklað á stóru um þróun tolla og vörugjalds og inngöngu okkar í EFTA árið 1970. Lögð er áhersla á að þessi breyting tekin saman, tollalækkunin og vörugjaldið, muni fyrst og fremst hafa þau áhrif að lækka vöruverð og breyta verðhlutföllum í verðmyndun hér á landi til samræmis við það sem gerist með flestum viðskipta- og grannþjóðum. Sérstök ástæða er til að vekja athygli á því að að gjaldasviðinu slepptu er þetta frv. að stofninum til byggt upp á svipaðan hátt og gildandi lög um sérstakt tímabundið vörugjald og á þetta einkum við um ýmis atriði sem lúta að framkvæmd, svo sem álagningu, innheimtu og eftirliti. Reglum um ákvörðun gjaldstofnsins er hins vegar breytt nokkuð. Í gildandi lögum um vörugjald og lögum um sérstakt tímabundið vörugjald er gjaldstofn innfluttrar vöru tollverð hennar að viðbættum tollum. Gjaldstofn vöru, sem framleidd er innan lands, er hins vegar verksmiðjuverð án álagningar fyrir sölu- og dreifingarkostnað. Af reglum gildandi laga leiðir að heildsöluálagningu er haldið fyrir utan gjaldstofninn. Þessi aðferð við ákvörðun gjaldstofns hefur leitt til nokkurra erfiðleika við útreikning og eftirlit með vörugjaldi á innlendri framleiðslu. Hafa ber í huga í þessu sambandi að innlendir framleiðendur annast í langflestum tilvikum jafnframt heildsöludreifingu sinnar framleiðslu. Augljóslega er vandkvæðum bundið að segja nákvæmlega til um hver raunverulegur sölu- og dreifingarkostnaður er í þessum tilvikum. Að auki er þessi aðferð við ákvörðun gjaldstofnsins óþarflega flókin og skerðir möguleika á virku eftirliti og réttum skilum.

Af þessum sökum er í þessu frv. lagt til að gjaldstofn vörugjalds verði heildsöluverð vöru hvort sem um er að ræða innflutta vöru eða vöru framleidda innan lands. Samkvæmt þessu er í frv. kveðið á um að af innfluttri vöru sé gjaldstofn til vörugjalds tollverð vörunnar, tollur, sé um hann að ræða, auk 25% áætlaðrar heildsöluálagningar. Á sama hátt er kveðið á um að gjaldstofn innlendrar framleiðslu sé heildsöluverð. Gjaldstofninn er því sambærilegur í báðum tilvikum. Þessar breytingar munu leiða til einföldunar í framkvæmd, auk þess sem þeim er ætlað að auðvelda eftirlit með réttum skilum á vörugjaldi. Í þessu felst að því er varðar innlenda aðila að felldar verða niður svokallaðar reiknireglur sem ríkjandi voru að því er bæði varðar undanþágur, götóttan söluskatt og vörugjöld. Vörugjöld voru m.ö.o. áður ekki lögð á nema 80% stofn. Með þessari samræmingu er sú reikniregla lögð niður í nafni einföldunar.

Þetta þýðir að því er þessar vörur varðar að vörugjald 14% samsvarar í eldra kerfi 17% vörugjaldi. Þetta á eins og áður sagði einkum og sér í lagi við um sykraðar vörur, sem sumir kenna við óhollustu, gosdrykki, sælgæti og annað þess háttar, og má með einhverjum hætti leggja út sem part af manneldisstefnu að þessar vörur fá þarna aðra meðferð. Þær þeirra sem voru í 17% vörugjaldi áður eru það í reynd áfram.

Ég hygg með vísan til þeirra umræðna sem þegar hafa farið fram um málið í heild, þátt þessarar breytingar í tollbreytingunni og, ýmsar afleiðingar þessa á verðlag, verðhlutföll og verðmyndun, að ekki sé miklu við að bæta á þessu stigi málsins.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og umfjöllunar hv. fjh.- og viðskn.