19.12.1987
Neðri deild: 32. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2659 í B-deild Alþingistíðinda. (2034)

197. mál, vörugjald

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég hef verið að leita í þessu plaggi, frv. til l. um vörugjald, og reynt að finna hvað þessi tekjuliður á að gefa mikið í ríkissjóð í heild sinni en ég finn það ekki í þessum upplýsingum þannig að ég spyr ráðherra hvað þetta á að gefa ríkissjóði miklar tekjur og eins og áður hefur komið fram sem ósk til hæstv. fjmrh. að sundurliða það í 14%-tekjur og svo aftur 17,5%-tekjur, hvað þessi viðbótarkeðjuverkandi áhrif, sem þýða 3,5% hækkun frá 14% sem getið er um í frv., gera mikið í viðbótartekjur.

Annars vil ég vara við því sem kemur fram í frv. og það er samsetningin á gjaldstofni vörugjaldsins, en þar segir, með leyfi forseta, í 5. gr.:

„Gjaldstofn vörugjalds af innfluttum vörum er tollverð þeirra eins og það er ákveðið skv. 8.–10. gr. tollalaga að viðbættum tollum eins og þeir eru ákveðnir skv. þeim lögum, auk 25% áætlaðrar heildsöluálagningar.“

Hver áætlar heildsöluálagningu 25%? Hvernig er komist að því að 25% sé áætluð rétt heildsöluálagning, hvers vegna er aukaálagningu bætt við og hvað þýðir þetta í krónutölu miðað við þær tekjuáætlanir sem hljóta að vera fyrir hendi þó þær komi ekki hér fram, eða ég finn þær ekki, þessi 3,5% viðbótarskattur á þessi 14% sem talað er um að verði vörugjaldsupphæðin?

Þetta eru spurningar sem ég vildi gjarnan fá svar við. Ég ætla ekki að fara á þessu stigi í tollskrárnúmerin. Til þess þarf meiri tíma eins og hér hefur komið fram. Kannski er hægt að stytta vinnutíma Alþingis í þessu sambandi eitthvað með því að hafa samband við þá félaga okkar sem hafa þegar unnið í þessu máli í fyrri deild. Eins og fram kemur á plagginu er það lagt fram í Ed. og þar hafa stjórnarandstöðuþm. fylgst með málum í nefnd. Kannski þær upplýsingar, sem við getum aflað okkur sjálf á þann hátt, komi að einhverju gagni til að hraða afgreiðslu. En ég ítreka ósk mína um að fá upplýsingar um tekjuhliðina á þessu frv., sundurliðaða í 14% vörugjaldið og svo aftur í sérlið þau 3,5% sem koma ofan á til viðbótar, vegna þess að 25% aukagjald er lagt sem heildsöluálagning inn í stofninn sem á að leggja á, og svo samtöluna með.