19.12.1987
Neðri deild: 32. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2660 í B-deild Alþingistíðinda. (2037)

197. mál, vörugjald

Ingi Björn Albertsson:

Herra forseti. Það var ekki að furða að það þyrfti að spyrja hæstv. ráðherra þrisvar um tekjurnar af 25% heildsöluálagningunni af vörugjaldi þar sem fram kom að hann vissi það ekki og má það sæta furðu að hann viti ekki slíka hluti.

Reyndar hafði ég varpað til hans annarri spurningu. Hún var sú hvernig ætti að reikna þetta út í tolli, hvort ætti að reikna af 14% eða hvort ætti hreinlega að reikna 17,5% í tolli. Það kom ekkert svar við því. Ef það ætti að reikna 17,5% í tolli væri eðlilegra að segja hreint út að vörugjald væri 17,5%. Við þessu fékkst ekkert svar.

En það sem rak mig aðallega upp var svar hæstv. ráðherra við því hvers vegna ekki mætti fresta þessu um einn mánuð, en það var að þetta hefði áhrif á fjárlög ársins. Það hefur þau áhrif væntanlega að tekjur ríkisins aukast. Ég sé því ekki að það ætti að vera á móti skapi hæstv. fjmrh. að gera það því að það er ljóst að ef núgildandi tollalög gilda í einn mánuð í viðbót þýðir það auknar tekjur í ríkissjóð. Það er ekki nema kostur fyrir ríkissjóð að fresta þessu um einn mánuð.