19.12.1987
Efri deild: 33. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2667 í B-deild Alþingistíðinda. (2044)

196. mál, söluskattur

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Virðulegi forseti. Hv. 7. þm. Reykv. ítrekar spurningar sem bornar hafa verið fram tvívegis og svarað tvívegis áður. Spurningar hans eru um talnagrundvölI tekjuöflunarfrv. Svar mitt er hið sama og áður. Af minni hálfu hafa verið gefnar og birtar þm. og þingnefnd allar þær upplýsingar sem fjmrn. býr yfir um skattstofna og áætlun um tekjur af þeim. Í þeim svörum mínum hefur einnig komið fram að það sem liggur til grundvallar þessum áættunum er eftirfarandi:

Skýrt afmarkaðri skilgreining skattstofna, það á við um tolla, það á við um vörugjöld og það á við um söluskatt. Í annan stað: Miðað hefur verið við áætlun um veltubreytingar sem byggir á reynslu síðustu ellefu mánaða á þessu ári. Og í þriðja lagi: Reynt hefur verið að meta eftirspurnaráhrif af kerfisbreytingunni í heild þegar menn áætla hvaða tekjur ríkissjóður geti áætlað sér innan ramma fjárlaga á næsta ári.

Frekari upplýsingar er ekki að fá frá mér eða úr mínu ráðuneyti. Ekki vegna þess að það sé verið að leyna hv. þm. upplýsingum. Þetta eru þær upplýsingar sem við höfum á þessu stigi máls.

Í svari mínu hefur jafnframt komið fram að það er hlutverk Þjóðhagsstofnunar að leggja fyrir Alþingi að venju endurskoðun á tekjuáætlun fjárlaga fyrir 3. umr. fjárlaga. Það er hlutverk stofnunarinnar. Því hlutverki hefur hún sinnt á undanförnum árum. Um leið og hv. 7. þm. Reykv. og 8. þm. Reykv. hreyfðu þessum spurningum við 1. umr. ritaði ég samstundis bréf til forstjóra Þjóðhagsstofnunar. Það bréf hef ég lesið upp í hv. deild. Þar var þessum spurningum komið á framfæri og þar segir, með leyfi forseta:

„Beðið er um að þessar upplýsingar liggi fyrir áður en 3. umr. fer fram. Þessari beiðni er hér með komið á framfæri við Þjóðhagsstofnun sem hefur annast undirbúning tekjuáætlunar fjárlaga fyrir næsta ár.“

Ég hef gegnt þeirri skyldu minni að koma þessum spurningum á framfæri til þess aðila sem um á að fjalla og ég hef einnig fært þetta í tal við hæstv. forsrh. sem fer með málefni Þjóðhagsstofnunar.

Nú er það út af fyrir sig ljóst að Þjóðhagsstofnun er vandi á höndum að meta tekjuhlið fjárlaga á næsta ári með öruggum hætti af ýmsum ástæðum. Þar vegur þyngst að hv. Alþingi hefur enn ekki mótað fiskveiðistefnu næsta árs, þ.e. tekið ákvarðanir um leyfilegt aflahámark helstu nytjastofna þannig að þegar af þeirri ástæðu er efni málsins samkvæmt eðlilegt að Þjóðhagsstofnun muni hafa mikla fyrirvara á um lykilstærðir, þ.e. aflamagn, útflutningsverðmæti, sem hefur þar af leiðandi megináhrif á spá um kjaraþróun, viðskiptahalla o.s.frv.

Ég er allur af vilja gerður að láta hv. alþm. í té allar þær upplýsingar sem við búum við, en um leið er ekki hægt að gera betur en sitt besta og það er það að beina þessu máli til réttra aðila. En jafnframt má þm. vera ljóst að það er nú einu sinni svo í lífinu að það verða ekki allir hlutir séðir fyrir fram. Það kennir reynslan okkur og það þekkjum við mætavel af liðinni sögu og liðinni tíð. Þar að auki búum við við þær sérstöku ástæður að það stendur upp á Alþingi Íslendinga enn sem komið er að taka ákvörðun um það sem verður lykilstærð við mat á þróun helstu stærða efnahagslífsins í okkar þjóðarbúskap á næsta ári. En að því sögðu hafa allar þær upplýsingar verið lagðar fyrir þm. sem fjmrh. og fjmrn. býr yfir og ekki hef ég heyrt neinar umkvartanir um það af nefndarstarfi að svo hafi ekki verið.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki sérstaka ástæðu til að stunda þrætubókarlist við hv. 7. þm. Reykv. af öðrum tilefnum. Ég hef sagt það áður í umræðum um þetta mál að það er vissulega rétt að þótt þessar aðgerðir í ríkisfjármálum séu veigamikið skref fram á við og með þeim sé lagður traustur grundvöllur að velferðarríki okkar Íslendinga í framtíðinni hafa þær ekki leyst allan efnahagsvanda. Og það er alveg ljóst af ýmsum ástæðum að þessar aðgerðir, svo góðar sem þær eru, eru ekki hin endanlega lausn. Það hefur skipt um mjög til hins verra í íslenskum þjóðarbúskap síðustu mánuði og það er alveg ljóst að við stöndum frammi fyrir vanda sem snýst um starfsskilyrði fiskvinnslunnar og samkeppnisgreinanna. Við stöndum frammi fyrir vanda á vinnumarkaðnum sem er í því fólginn hvort takist að ná kjarasamningum sem eru líklegir til að varðveita kaupmátt launa frekar en að eyða honum með nýrri kollsteypu. Og að mínu mati dreg ég enga dul á það heldur að við stöndum frammi fyrir því verkefni að taka mjög sterklega á í peninga- og lánsfjármálum. Þar hef ég vísað til þess að á yfirstandandi ári hefur gætt sívaxandi gagnrýni á þann þátt efnahagsstjórnarinnar.

Það sem hér er átt við er fyrst og fremst að peningamálastjórn er tiltölulega óvirk. Það skortir þar frumkvæði, það skortir þar heildarsýn, þar skortir upplýsingar um lykilstærðir. Ég hygg að við stöndum frammi fyrir því að við þurfum að samræma starfsskilyrði á lánamarkaðnum milli þeirra þriggja meginþátta sem þar starfa. Annars vegar er bankakerfið og sparisjóðirnir sem lúta lögum og lúta almennum starfsreglum um marga þætti sinnar starfsemi. Hins vegar eru fjárfestingarlánasjóðirnir, opinberir og hálfopinberir. Það hafa þegar verið gerðar veigamiklar breytingar á starfskjörum þeirra með því að stefnt er að því að létta af ríkisábyrgðum um áramótin. Og því næst er það sá þáttur peningakerfisins sem mest hefur vaxið að undanförnu þar sem er fyrst og fremst verðbréfamarkaður og ávöxtunarfyrirtæki ýmiss konar sem njóta í sínum starfskjörum ýmissa forréttinda umfram bankakerfið. Það hefur verið mikill vöxtur í þessum greinum og við stöndum frammi fyrr því að það hefur farið mjög vaxandi samkeppni fram á þessum tiltölulega illa skipulagða og ófullkomna lánamarkaði, annars vegar milli opinberra og hálfopinberra aðila og atvinnulífsins, sem hefur leitt af sér eða átt stóran þátt í því að vextir hafa farið mjög vaxandi og eru nú gríðarlega háir. Þetta er mál sem þarf að taka til heildarendurskoðunar. Það er ekkert nýtt. Að því er vikið í starfssáttmála ríkisstjórnarinnar. Það er jafnvel boðað að þarna þurfi að gera á ýmsar veigamiklar breytingar.

Markmiðið ætti að vera að reyna að ná settu markmiði ríkisstjórnarinnar sem er að tryggja hér raunvexti, jákvæða en hóflega raunvexti. Þetta er stórt mál. Þetta lýtur líka að þeim reglum sem núna gilda um húsnæðisfjármögnunina sem er meira og minna bæði samnings- og lögbundin.

Við búum við peningamálamarkað sem er um of hólfaður. Það er t.d. tvímælalaust að það hefur mikil áhrif á vaxtastig á Íslandi að langsamlega stærsti partur skyldusparnaðar í landinu, sem er fjármagn lífeyrissjóðanna, skuli annars vegar með lögum og hins vegar með samningum skuldbundinn til þess að verja því til byggingarlánasjóðanna. Ríkisvaldinu er stillt upp við vegg til samninga um ávöxtunarkjör á þessu fjármagni, en það er síðan lánað út til mjög langs tíma á stórlega niðurgreiddum vöxtum. Spyrja má hvaða afleiðingar það kynni að hafa ef þetta mikla fjármagn, 11 milljarðar, væri til frjálsrar ráðstöfunar á peningamarkaði og svo stóraukið fjármagn uppsafnaðs sparnaðar mundi ekki hafa veruleg áhrif í þá átt að lækka vaxtastig. Þetta varðar spurningar sem hafa verið hér til umræðu en hefur of lengi verið slegið á frest, spurningar um hvernig menn vilja móta ekki aðeins húsnæðisstefnu og félagslega húsnæðisstefnu heldur einnig fjármögnun húsnæðislánakerfisins. Þetta er aðeins einn þáttur þessara mála. Ég nefni þetta sem dæmi.

Það eru heldur ekki haldgóð rök að segja: Nú ætlar ríkisstjórnin að leyna hv. Alþingi einhverjum áformum um breytingar. Svona breytingum sem ég er að tala um verður að sjálfsögðu ekki leynt fyrir Alþingi því að þær verða ekki framkvæmdar nema að frumkvæði og fyrir tilstyrk löggjafarsamkomunnar þannig að það er ekki verið að draga neina dul á það. Og það er ekki búið að taka neinar ákvarðanir um efnahagsráðstafanir sem verið er að pukrast með eða halda leyndum fyrir Alþingi. Ég er aðeins að víkja að því almennum orðum, eins og reyndar hv. 7. þm. Reykv. gerði, að það fer ekki milli mála, við stöndum frammi fyrir því að þó að við höfum tekið myndarlega til hendinni í ríkisfjármálum er mörgum öðrum verkum að sinna. Verkinu er engan veginn lokið. Íslenskur þjóðarbúskapur er ekki í jafnvægi. Það þarf ekki hv. 7. þm. Reykv. til að lýsa því. Það veit öll þjóðin. Og áfram verður unnið að því verki að tryggja það jafnvægi í framkvæmd.

En meginatriði málsins var að ég vísa því frá mér að ég standi fyrir því að leyna hv. Alþingi einhverjum upplýsingum sem beðið er um. Ég hef látið í té allar þær upplýsingar sem á mínu valdi er að gefa og þar umfram hef ég beint því til nokkurra aðila að svara spurningum hv. þm.