19.12.1987
Efri deild: 33. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2679 í B-deild Alþingistíðinda. (2048)

196. mál, söluskattur

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Hæstv. forseti. Eins og ég gat um í örstuttri ræðu minni áðan hefur hæstv. fjmrh. í tvígang hafið almenna umræðu um efnahagsmál, ekki síst peningamál. Ég sagði þá að hér væri einmitt staðurinn til að ræða þessi mál, en það væri ekki stund til þess. Ég fer nú þess á leit við hæstv. fjmrh. að hann hjálpi okkur til að hjálpa ríkisstjórninni til að koma þessum málum fram. Það erum við að gera hér alla tíð, leggja nótt við dag til að hjálpa ríkisstjórninni til þess að koma þessum málum fram, sumum náttúrlega röngum málum. (JúlS: Vondum málum.) Vondum málum, já, sem mættu gjarnan liggja. En stjórnin hefur þessa stefnu og hún verður að fá að koma sínum frv. fram.

Ég vildi afbiðja mér öll ummæli um að ég hafi verið hér með kokhreysti og köpuryrði. (Fjmrh.: Nei, því var ekki beint að ræðumanni.) Það lá alveg beint í orðunum að ég hefði verið með það. Ég vil alveg afbiðja mér slíkar fullyrðingar. Ég veit ekki annað en að ég hafi sýnt þessum hæstv. ráðherrum fulla kurteisi og tillitssemi. En ég geri þá kröfu að við fáum hér, það þarf auðvitað ekkert að krefjast þess, við erum öll sammála um það, svo fljótt sem við komum aftur saman eftir jólaleyfi, nægan góðan tíma til að tala um peningamálastefnu ekki bara þessarar ríkisstjórnar heldur þá peningamálastefnu sem hefur verið hér allar götur frá 1971, meira og minna ofstjórnarbrjálæði. Það þekkist hvergi í vestrænum löndum. Ég ætla ekki að kenna neinum einstökum um það. Það gengur ekkert upp að ætla sér að stjórn peningamagni og t.d. hafa frjálsa vexti. Hitt gengur enn þá síður upp að vera svo með stjórn á vöxtunum þegar kannski er komin yfir 100% verðbólga og vera þá með vextina í 60–70% og ívilna mönnum og gefa milljarða á milljarða ofan eins og ákveðnum fyrirtækjum hefur verið gefið gegnum tíðina með þeirri stjórnarstefnu. Það gengur heldur ekki upp. Menn verða að gera sér grein fyrir því að ríkisvaldið á að sinna þeirri frumskyldu að sjá um eðlilegt peningamagn í umferð á meðan það orðalag er notað, og það er þá notað yfir allar hugsanlegar millifærslur líka, þær sem til næst, og stjórnin hlýtur, þessi hæstv. ríkisstjórn eins og aðrar, að gera það mál upp við sig og ég vona að hún geri það fyrr eða síðar. Ætlar hún að reyna þetta stjórnlyndi áfram, kannski að herða enn á bindiskyldu, taka meiri peninga úr umferð, færa meira fjármagn til ríkisvaldsins frá borgurunum, frá atvinnuvegunum, sósíalísera þetta þjóðfélag meira en orðið er? Um þetta snýst málefnaleg umræða bæði innan flokka og milli flokka. Og ég ætla að ítreka að síst af öllu mun ég harma að taka þátt í slíkri málefnalegri umræðu og ég hef reyndar oftsinnis í tveggja manna tali rökrætt við hæstv. fjmrh. og þó við séum ekki alltaf sammála virðum við hvor annars sjónarmið og ég hlusta á það sem hann segir og tek tillit til þess í hans máli sem ég tel vera rétt. En sem betur fer eru menn ekki alltaf sammála, enda værum við ekkert að hugsa um neitt lýðræði og Alþingi og nein löggjafarstörf yfirleitt af allir væru á eitt sáttir og engir árekstrar eða umræður eða mismunandi skoðanir væru í mannlífinu.

Þessi umræða verður vonandi hér, en ég bið hæstv. ráðherra þess lengstra orða að við reynum sameiginlega að standa við það samkomulag sem hefur verið gert um að koma bæði þessu máli og lánsfjárlögunum í gegnum þessa hv. deild fyrir kl. hálffjögur svo að von verði til þess að þingi geti lokið fyrir jólahátíðina. Ég ætla að stuðla að því og þar með að hætta þessari ræðu minni.

En ég hlakka til að fá að rökræða við hæstv. fjmrh. um fjármál, skattamál og þjóðmálin almennt og halda þá kannski enn þá lengri ræður en hann hefur haldið hér, næturræðan var víst í hálftíma þegar við vorum öll orðin æði syfjuð. Ég hef reynt að stilla mínu máli í hóf eins og ég vona að hv. þingdeildarmenn viðurkenni að ég hafi gert. Og einkum og sér í lagi mundi ég fagna því ef hæstv. viðskrh. væri mættur líka eins og í dag þegar sú umræða fer fram um t.d. stofnun eins og Þjóðhagsstofnun, sem Alþingi ákvað í vor að leggja niður með 48:1 atkv. í nafnakalli, hvernig hefur gengið að koma verkefnum hennar til annarra og yfirleitt hvað þar hafi verið baukað í gegnum árin. Það er nauðsynlegt að við fáum slíka málefnalega umræðu um það sem gert hefur verið.

Ég tel að það hafi verið rangt stjórnað peningamálum landsins um langa tíð. Ég er ekki að ásaka neinn flokk eða neina einstaklinga í því efni. Ég tel bara að það hafi verið ofstjórn í þessu þjóðfélagi sem hvergi þekkist í öðru lýðræðisríki. Það fullyrði ég að hvergi er til slíkt stjórnlyndi í peningamálum eins og við höfum hérlendis og það er meginundirrót verðbólgunnar. Það er hvergi verðbólga ef peningar eru frjálsir. Halda menn að það verði verðbólga einhvern tíma í Svisslandi þar sem bankastjórarnir bíða á tröppunum að biðja menn að taka lán? Nei, þar hefur aldrei verið verðbólga. Og svo mætti lengi telja. Halda menn að það sé ekki verðbólga í Suður-Ameríku þar sem þó er verið að reyna að stjórna peningamagni, náttúrlega ekki með sömu þrælatökunum og hér þar sem peningar eru t.d. lokaðir inni? Þetta er allt saman öfugsnúið hjá þeim sem prédika nauðsyn meiri stjórnar í peningamálum, en mér virðist að þetta sé núna komið á oddinn einn ganginn í viðbót.