19.12.1987
Efri deild: 33. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2680 í B-deild Alþingistíðinda. (2049)

196. mál, söluskattur

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Það var ekki ætlan mín að taka þátt í þessari umræðu þó að fullkomin ástæða hefði verið til. En ég sé mér ekki annað kleift en að gera athugasemdir við orðalag hæstv. fjmrh. hér áðan þegar hann segir að það séu upphrópanir og gífuryrði hjá verkalýðshreyfingunni að skattlagning matvæla torveldi samningsgerð. Ég vil gjarnan minna hæstv. fjmrh. á að í langan tíma hefur það verið grundvallarstefna verkalýðshreyfingarinnar hver sem þar hefur farið með völd að skattlagning á matvælum væri ranglát. Þeirri stefnu fylgir verkalýðshreyfingin enn og meðan hún fylgir þeirri stefnu hljóta þeir sem eru í forsvari fyrir hana að halda þeirri stefnu fram. Þar á ekki að greina á milli pólitískra flokka eða pólitískra sjónarmiða. Þetta er stefna hreyfingarinnar. Hún hefur verið svona og hún er svona og ég átel hæstv. fjmrh. fyrir að halda því fram í ræðu að hér sé um gífuryrði hreyfingarinnar sem slíkrar að ræða þegar hún heldur því fram að skattlagning matvæla torveldi samningsgerð. Þetta hljóta menn að skilja. Og það er engin ástæða fyrir hæstv. fjmrh. að láta slíkt út úr sér á Alþingi undir þeim kringumstæðum sem nú eru hér bæði að því er varðar þinghaldið og að því er varðar það sem fram undan er í samningum milli aðila vinnumarkaðarins og hugsanlega ríkisins. Þetta mun ekki greiða þá leið sem menn kannski ætluðu að fara ef hún væri fær. Þetta mun frekar torvelda það.