19.12.1987
Efri deild: 33. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2688 í B-deild Alþingistíðinda. (2059)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):

Hæstv. forseti. Ég þarf ekki að tala lengi fyrir þessu nál. Lánsfjárlögin fengu ítarlega athugun í nefnd. Eins og heildaryfirlit um innlendar og erlendar lántökur árið 1988, sem birtist sem fylgiskjal með nál., ber með sér er gert ráð fyrir að erlend lán hækki um 469 millj. kr. og munar þar mest um að Hitaveita Suðurnesja fær 150 millj. kr. lánsheimild til byggingar raforkuhverfla eða hitahverfla til framleiðslu á rafmagni.

Gert er ráð fyrir að Byggðastofnun fái 200 millj. kr. til að lána útgerðarmönnum vegna innlendrar skipasmíði. Þar er um samkeppnislán að ræða sem eru fullkomlega sambærileg við þau lán sem Útflutningslánasjóður lánar vegna annars iðnaðar í landinu og á rætur að rekja allt aftur til þess er samningar voru gerðir við EFTA á sínum tíma, en eins og hv. þm. er kunnugt er skýringin á að skipasmíðaiðnaðurinn varð ekki samferða í Útflutningslánasjóði eingöngu sú að þar var um svo mikið fjármagn að ræða að þeir sem standa að útflutningslánasjóðnum treystu sér ekki til að hafa skipasmíðasamninginn meðferðis. Gert er ráð fyrir því að þessi lán verði allt að 80% af meiri háttar viðhaldi og endurbótum eins og verið hefur og komi til úttána samkvæmt ákvörðun stjórnar Byggðasjóðs.

Í þriðja lagi er svo gert ráð fyrir 125 millj. kr. lántöku vegna flóabátsins Baldurs hf. Eins og hv. þm. er kunnugt höfðu verið gerðir samningar um það skip.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða að öðru leyti um þær brtt. sem nefndin flytur. Þær snúa í fyrsta lagi að lánsheimildum vegna hitaveitna og er lánsfé sem var óskipt í frv. breytt í brtt. og að auki 30 millj. kr. fjárhæð óskipt.

Í öðru lagi er að venju II. kaflanum breytt í samræmi við afgreiðslu fjárlaga og sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um það.

Eins og hv. þm. er kunnugt hefur verið samkomulag um að reyna heldur að flýta umræðum og ætla ég af þeim sökum að stytta mjög mál mitt, vil að lokum aðeins bæta því við að að síðustu eru inni heimildagreinar fyrir Framkvæmdasjóð Íslands og Landsvirkjun til að hagræða lánum sínum erlendis þannig að þessar stofnanir geti jafnan haft sem hagkvæmust viðskipti við lánastofnanir.

Ég hafði, hæstv. forseti, gaman af ýmsu því sem hv. 7. þm. Reykv. talaði áðan um, sérstaklega um gjaldeyrismál. Það er rétt, sem hv. þm. sagði, að þegar talað er um gengisfellingar hafa ráðherrar gripið til ýmissa ráða. Ég man eftir orðum eins og „fljótandi gengi“ og „gengisaðlögun“ sem uppi voru á sínum tíma. Eins og við heyrðum er hv. fjmrh. að tala með sérstökum hætti einnig um það hversu skráningu gengisins skuli háttað. Allt eru þetta skemmtilegar umræður og lýsandi og til þess fallnar að fara kannski í kringum kjarna málsins.