19.12.1987
Efri deild: 33. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2689 í B-deild Alþingistíðinda. (2060)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Svavar Gestsson):

Hæstv. forseti. Ég vek athygli á því að ég óskaði eftir því fyrr í dag í umræðum um söluskatt að hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. yrðu viðstaddir umræður vegna þess að hæstv. fjmrh. hóf hér fyrr í dag almenna umræðu um efnahagsmál og hæstv. utanrrh. hefur uppi vissar yfirlýsingar í málgagni sínu Tímanum í dag um efnahagsmál, sömuleiðis forstjóri Þjóðhagsstofnunar. Ég mundi vilja fara þess á leit við stjórn hv. deildar að kannað yrði hvort ekki sé tryggt að þessir hv, ráðherrar geti verið viðstaddir þegar umræðunni verður haldið áfram eftir hlé sem verður víst til kl. 4 að því er mér skildist á hæstv. forseta. (Forseti: Forseti vill geta þess að ráðstafanir hafa verið gerðar til þess að ná í hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. situr á fundinum nú.) Ég þakka hæstv. forseta fyrir að verða við þessum tilmælum.

Ég vil áður en ég vík að nál. mínu spyrja út af till. meiri hl. um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Ég hélt að það hefði verið um það talað að tölunni fyrir Jöfnunarsjóð sveitarfélaga yrði breytt. Ég hafði heyrt talað um 100 millj. í viðbót við 1485 millj. sem áttu að ganga til sérstakra uppgjörsverkefna, e.t.v. að frádregnum framlögum til tónlistarskóla sem mun hafa verið ákveðið af ríkisstjórninni að breyta á árinu 1988. Ég sé ekki þessa brtt., hv. 2. þm. Norðurl. e., og getur þó verið að þetta hafi farið fram hjá mér. (Gripið fram í.) Það er 10. tölul. sem þarna er átt við. Það rímar ekki alveg nákvæmlega við þær upplýsingar sem ég hef annars staðar að, en það getum við athugað seinna.

Ég vil þá lesa nál. sem birtist á þskj. 380 og er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Við meðferð málsins í nefnd hefur meiri hl. tekið ákvörðun um að auka erlendar lántökur verulega. Er það í fullkominni mótsögn við ítrekaðar yfirlýsingar einstakra ráðherra efnahagsmála um að það sé einn hornsteinn stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum að dregið verði verulega úr erlendum lántökum (sjá fylgiskjal VII með frv. til lánsfjárlaga)" sem ég vek athygli á í þessu sambandi og mun gera aðeins ítarlegri grein fyrir hér á eftir.

„Minni hl. telur að sjálfsögðu eðlilegt að reynt sé að afgreiða lánsfjárlög og fjárlög samtímis. Nú eru aðstæður hins vegar þannig að forsendur lánsfjárlaga og fjárlaga fyrir næsta ár eru allar svo óljósar að afgreiðsla þessara mála við núverandi aðstæður er hrein markleysa.

Minni hl. telur því að miðað við þá óvissu sem nú er ríkjandi í efnahagsmálum sé ekki kleift að afgreiða með eðlilegum hætti frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1988.

Flestallar efnahagsforsendur samfélagsins eru afar óljósar:

1. Fjmrh. hefur lýst því yfir að fljótlega þurfi að grípa til „umtalsverðra efnahagsaðgerða“. Hann hefur ekki fengist til þess að greina frá því í hverju þær aðgerðir eru fólgnar.“ — Og reyndar má bæta því hér inn í að hæstv. fjmrh. bætti aðeins um betur í umræðunni áðan.

„2. Utanrrh. lýsir yfir því að „raunvaxtaokri verði að linna“.

3. Viðskrh. neitar að grípa til beinna aðgerða gegn raunvaxtaokrinu og segir að ekki hafi reynt á markaðslögmálin til fulls.

4. Forstjóri Þjóðhagsstofnunar segir m.a. í viðtali við Tímann í dag: „Útflutningsgreinarnar þola ekki þessa gengisskráningu til lengdar.“

„Sjá enn fremur fskj. um þetta efni sem birt er með nál. þessu, sem er 3. síða í dagblaðinu Tíminn í dag 19. des. 1987, þar sem birtast viðtöl við hæstv. utanrrh. undir fyrirsögninni „Ríkisstjórnin taki af skarið.“ Ég ætla að skjóta því inn í af því að ég sé hæstv. utanrrh. nálægt mér: Hvaða tillögur hefur Framsfl. gert sérstaklega um að ríkisstjórnin taki af skarið? Þó hæstv. ráðherra hafi verið talsvert fjarri geri ég ráð fyrir því að á bak við svona orð frá stjórnmálamanni, sem tekur sig alvarlega, hljóti að liggja athafnir og væri fróðlegt að vita með hvaða hætti hæstv. utanrrh. hefur komið því á framfæri við ríkisstjórnina að hann vilji að ríkisstjórnin taki af skarið og segir reyndar í þessu viðtali: „Getum ekki beðið eftir að einhver heilög hagfræðilögmál kunni að virka.“

Þá segir enn fremur í nál.: „Vegna yfirlýsinga, sem fram hafa komið, svo og vegna ágreinings ráðgjafarstofnana ríkisstjórnarinnar um efnahagsmál, Seðlabanka og Þjóðhagsstofnunar“, en þennan ágreining þekkja menn frá fjölmiðlaumræðu þessara sólarhringa, „telur minni hl. rétt að afgreiða ekki lánsfjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar fyrr en ákvarðanir um aðgerðir í efnahagsmálum liggja fyrir. Því telur minni hl. eðlilegast að Ed. afgreiði nú frv. til lánsfjárlaga með svofelldri rökstuddri dagskrá:

Þar sem allar forsendur lánsfjárlagafrv. eru óljósar og ríkisstjórnin stefnir að víðtækum aðgerðum í efnahagsmálum telur deildin rétt að frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1988 verði vísað frá og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.

Fari svo að meiri hl. hafni tillögunni um rökstudda dagskrá áskilur minni hl. sér rétt til þess að taka þátt í atkvæðagreiðslu um einstakar greinar frv. Guðrún Agnarsdóttir sat fundi fjh.- og viðskn. og er sammála áliti minni hl.“

Undir þetta skrifa Svavar Gestsson og Júlíus Sólnes með fyrirvara.

Fylgiskjal með þessu plaggi er svo viðtal við hæstv. utanrrh. í dagblaðinu Tímanum í dag þar sem hann fer almennum orðum um efnahagsstefnuna, þá efnahagsstefnu sem nú er fylgt, og segir, með leyfi forseta:

„Steingrímur Hermannsson utanrrh. segir að frjálshyggjan á sviði peningamála muni sigla hér öllu í strand ef ekki verði gripið í taumana strax. Ekki sé rétt að bíða og sjá til hvort verið geti að einhver hellög hagfræðilögmál kunni að virka eins og viðskrh. segist vilja. Slík lögmál geti ekki virkað hér á landi miðað við verðbólguástandið og því megi ekki bíða með aðgerðir þar til annað hvert fyrirtæki í landinu verði komið í þrot.“

Þarna er ekki mjög vægt til orða tekið, trúi ég: annað hvert fyrirtæki í landinu verði komið í þrot. (HBl: Hann á við kaupfélögin.) Ég er ekki viss um það, hv. þm., að hann eigi við kaupfélögin. — Síðan heldur hæstv. utanrrh. áfram:

„Raunvaxtaokrið sé slíkt á Íslandi núna að engu tali taki og það hafi sýnt sig að alls ekki sé verjandi að láta „gráa“ peningamarkaðinn leika lausum hala öllu lengur. Allir helstu aðilar í bankakerfinu verði að skila strax inn tillögum til ríkisstjórnarinnar svo að hún geti bundið enda á þetta hrikalega ástand.“

Sem sagt: Annað hvert fyrirtæki er að fara á hausinn að því er hæstv. utanrrh. segir, lýsir þannig árangrinum af 16 ára stjórnarþátttöku Framsfl. með myndrænum hætti. (Forseti: Ef forseti má trufla hv. þm. Það hefur verið gert samkomulag um að fresta fundum til kl. 4. Klukkan er nú þegar orðin eina mínútu yfir hálffjögur og þetta er naumur tími til þingflokksfunda. Þess vegna vildi ég spyrja hv. þm. hvort hann sé að ljúka máli sínu eða vilji gera hlé á því.) Mér þætti vænt um, hæstv. forseti, ef ég mætti gera hlé á ræðu minni. — [Fundarhlé.]

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að hafa hlutast til um að hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. væru viðstaddir þessa umræðu ásamt hæstv. fjmrh., en hann fór með athyglisverða texta í dag. Það sem fyrst og fremst vakti athygli mína var þetta:

Hæstv. fjmrh. sagði að ástæðan fyrir allri skattagleðinni væri fyrst og fremst sú að ríkisstjórnin yrði að hafa eitthvað til að leggja á borð með sér í þeim samningaviðræðum sem fram færu um kjör á hinum almenna vinnumarkaði eftir hátíðarnar. Til þess að það sé ljóst hvað það var sem hæstv. ráðherra sagði ætla ég að vitna í ræðu hans, með leyfi hæstv. forseta. Hæstv. ráðherra sagði:

„Hvað ætlar slík ríkisstjórn að leggja á borð með sér með leyfi? Hverjir eru það sem hafa uppi kröfur um að ríkisvaldið komi inn í slíka samninga til að greiða götu skynsamlegra kjarasamninga? Er það rétt eða er það ekki rétt að hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson hafi lýst þessu sem jákvæðum hlut á sínum tíma.“ Svo er kallað fram í, EKJ, án þess að það skipti máli í málinu, en ég nefni það samt: „Þorsteinn Pálsson var einhver besti fjmrh. sem Ísland hefur haft“.

„Einmitt, þá vitum við það“, heldur fjmrh. áfram, „einkum og sér í lagi vegna þess að þetta var gert. Einmitt já“, sagði hæstv. fjmrh. „Þá förum við nú að sjá málin í nýju ljósi. Það var sem sagt hinn jákvæðasti hlutur. Það var haldið uppi kröfum um að ríkisvaldið eigi hlut að kjarasamningum og geri þá eitthvað slíkt. Sömuleiðis er verið að segja: Á ríkisstjórnin að gera eitthvað til þess að bæta starfsskilyrði atvinnuveganna?"

Og síðan heldur ráðherra áfram og endurtekur að ríkisstjórnin verði að leggja á borð með sér. Þess vegna sé verið að ákveða þessar skattahækkanir til að geta dregið þær þá til baka í samningunum, sagt við menn: Ef þið semjið um kaupið og hafið það á skikkanlegu stigi skulum við draga þessa skatta aftur. Og ég sagði áðan: Hefði ekki verið skynsamlegra að leggja skattana ekki á og fara í viðræður við aðila vinnumarkaðarins sem hafa mótmælt þessum sköttum sérstaklega og lýst því yfir að matarskatturinn spilli fyrir í samningum aðila vinnumarkaðarins?

Síðan viðhafði hæstv. fjmrh. þau orð um þá aðila sem segja að þessi skattlagning spilli fyrir: „Það eru bara kokhreysti og gífuryrði en innihaldslaus orð.“ Þessi ummæli lét hæstv. fjmrh. falla og það varð til þess að hv. 3. þm. Vestf., varaformaður Verkamannasambands Íslands, sá sig knúinn til að mótmæla sérstaklega þessum árásum formanns Alþfl. á verkalýðshreyfinguna.

En hann er ekki sá eini, þessi hæstv. ráðherra, sem hefur verið að tala í dag við þingið og þjóðina. Annar ráðherra, sem maður hefur séð sorglega lítið af að undanförnu, er hæstv. utanrrh. og hann hafði tíma til að spjalla við málgagnið sitt í gær og segir í fyrirsögn: „Raunvaxtaokrinu verður að linna“ og segir svo í fyrirsögn á 3. síðu í málgagninu í dag þannig að hinir tryggu lesendur, framsóknarmenn um allt land, megi sjá hvað formaðurinn er að hugsa: „Ríkisstjórnin taki af skarið“. Það er ekkert annað. (Gripið fram í). Það er að vísu rétt að það er maður og maður þar fyrir utan, en það eru ekki margir, hv. þm., eins og þú veist.

Síðan segir hæstv. utanrrh. og er haft eftir honum í málgagninu og ég efast ekkert um að er nokkurn veginn rétt eftir haft. (Utanrrh.: Hárrétt.) Já, hárrétt, segir hæstv. ráðherra. Gott að vita það strax í upphafi.

„Steingrímur Hermannsson utanrrh. segir að frjálshyggjan á sviði peningamála muni sigla hér öllu í strand ef ekki verði gripið í taumana strax. Ekki sé rétt að bíða og sjá til hvort verið geti að einhver hellög hagfræðilögmál kunni að virka eins og viðskrh. segist vilja. Slík lögmál geti ekki virkað hér á landi miðað við verðbólguástandið og því megi ekki bíða með aðgerðir þar til annað hvert fyrirtæki í landinu verði komið í þrot.“

Hérna er ekki verið að skafa utan af hlutunum, hæstv. forseti. Sú efnahagsstefna sem hæstv. utanrrh. hefur verið aðili að að framkvæma síðan 1971, því að svo lengi hefur Framsfl. stutt ríkisstjórnir hér á landi, er nú að leiða til þess að annað hvert fyrirtæki í landinu er að komast í þrot, 50% fyrirtækja í landinu eru að komast í þrot. Ég hygg að ekki nokkur maður hafi með slíkri hreinskilni fyrr lýst afrekum sínum og hæstv. utanrrh. gerir. Það er ótrúleg hreinskilni að ganga fram fyrir þjóðina rétt fyrir hátíðar og segja: Ja, þetta er nú þannig að annað hvert fyrirtæki er að komast í þrot. Og nú skal hæstv. utanrrh. ekki láta sér detta í hug að ég sé að mæla þessi orð af því að ég sé hatursfullur þó ég noti lýsingarorð sem hann hefur notað um mig á opinberum vettvangi. Þvert á móti. Heldur er ég að vitna hér í hans eigin orð sem ég veit að hæstv. ráðherra þakkar mér fyrir.

En hann bætir um betur. Það er fleira. Hann segir í þessu viðtali að „raunvaxtaokrið sé slíkt á Íslandi núna að engu tali taki og það hafi sýnt sig að alls ekki sé verjandi að láta „gráa“ peningamarkaðinn leika lausum hala öllu lengur. Allir helstu aðilar í bankakerfinu verði að skila strax inn tillögum til ríkisstjórnarinnar svo að hún geti bundið endi á þetta hrikalega ástand.“

Af þessu tilefni ætla ég að spyrja hæstv. forsrh., efnahagsmálaráðherra ríkisstjórnarinnar: Hafa þessir helstu aðilar í bankakerfinu skilað einhverjum tillögum og ef svo er, hverjar eru þær? Og í öðru lagi: Hvaða tillögur liggja fyrir frá Framsfl. um að stöðva raunvaxtaokrið?

Síðan heldur hæstv. utanrrh. áfram, lýsir ástandinu svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég vil því segja að núna þegar það virðist vera orðið almennt viðurkennt að raunvextir hér á landi séu allt upp í þriðjungi til tvöfalt hærri en gerist í nágrannalöndum okkar, eins og glöggt kom fram í yfirlitinu í Tímanum, þá held ég að menn hljóti nú að fara að viðurkenna að svona getur ekki gengið. Þetta mun ríða fjölmörgum fyrirtækjum að fullu og getur ekki gert annað en að blása mjög í glóðir verðbólgunnar. Ég er því ósammála, sem kom fram hjá viðskrh. Jóni Sigurðssyni, að menn ættu nú að bíða og sjá til hvort þetta markaðslögmál virki.“ — Ég er því ósammála, segir hæstv. utanrrh. Og svo endar hann viðtalið á þessum orðum og það var þess vegna sem ég spur8i í upphafi hvort það væri ekki örugglega allt saman rétt eftir haft. Hann er að lýsa stefnunni í peningamálum og lýkur með þessari setningu:

„Frjálshyggjan á sviði peningamála fer með allt til andskotans ef ekki verður fljótlega gripið í taumana“ — fer með allt til andskotans!

Það er satt að segja orðið býsna langt síðan sá hái herra, andskotinn í neðra, hefur verið kallaður til í íslenskri stjórnmálaumræðu með þessum hætti, enda eru tilefnin talsverð. Ég tel að það sé óhjákvæmilegt að Alþingi fái að ræða þessar yfirlýsingar og deilur utanrrh. og viðskrh. um þessi mál.

Nú er það svo enn fremur, hæstv. forseti, að fyrir þinginu liggur skari, bunki af skattafrv. af margvíslegu tagi. Það liggur fyrir frv. til fjárlaga, frv. til lánsfjárlaga. Og á hverju byggja þessir pappírar? Þeir byggja á þjóðhagsáætlun. Á að taka mark á þessum pappírum? Það gerir Seðlabankinn. Hann reiknar út efnahagsdæmið á árinu 1988 á nákvæmlega sömu forsendum og fjárlagafrv. og kemst að þeirri niðurstöðu að verðbólgan verði komin niður í 4% í lok næsta árs og gengi íslensku krónunnar verði 30% hærra en það var í lok ársins 1986. Við ræddum það hér í Ed. í gær hvort það gæti verið að hæstv. ráðherrum hefðu borist beiðnir frá Tókýó eða New York og öðrum höfuðmiðstöðvum efnahagslífsins í heiminum þar sem þeir væru beðnir um að útlista hvernig þeir fara að því að hækka raungengi krónunnar um 30% meðan útflutningsatvinnuvegirnir eru á hausnum, verðbólgan er 30% og viðskiptahalli verulegur. Að krónan íslenska verði eini gjaldmiðillinn í heiminum sem á árinu 1988 standi af sér þessar miklu sviptingar í efnahagsmálum er mikið afrek. En Seðlabankinn reiknar út forsendur fjárlagafrv., birtir plagg og kemst að þessari niðurstöðu.

En viti menn. Á Kalkofnsvegi 1 er önnur stofnun en Seðlabankinn. Hún heitir Þjóðhagsstofnun. Hún sendir í dag út yfirlýsingu um allt, allt annað. Forstjóri Þjóðhagsstofnunar, sem hefur ekki haft tíma til að svara bréfum frá hæstv. fjmrh., segir um útreikninga Seðlabankans:

„Þórður segir þessa spá byggða á forsendum þjóðhagsáætlunar og því sé hún í raun og veru úrelt.“ Sem sagt: Talnagrunnur þjóðhagsáætlunar og fjárlagafrv. og allra skattafrv. sem liggja á borðum þingsins er brostinn. Hann er úreltur, segir Þjóðhagsstofnun í dag. Og er það nema von að þm. stjórnar og stjórnarandstöðu vilji ræða hér um efnahagsmál?

Af hverju er þessi talnagrunnur úreltur? Forstjóri Þjóðhagsstofnunar upplýsir það, upplýsir Tímann um það þó hann hafi ekki fundið tíma til að upplýsa Alþingi um það. Hann segir í þessu viðtali:

„Í fyrsta lagi hefðu viðskiptakjör versnað vegna gengisfalls dollarans og sömuleiðis vegna hruns á verðbréfamörkuðum erlendis. Í öðru lagi væru líkur á minni sjávarafla á næsta ári en gert var ráð fyrir. Í þriðja lagi væri fyrirsjáanlegt að halli á viðskiptum við útlönd yrði meiri á þessu ári en ætlað var. Í fjórða lagi væri afkoma útflutningsfyrirtækja orðin mjög slæm við núverandi skilyrði.

Þórður sagði að þegar búið væri að taka saman þessi atriði og önnur, sem ekki væru eins veigamikil, þá væru forsendur verðbólguspár Seðlabankans brostnar og spáin þar með úrelt.“

Þetta er plaggið sem þið viljið að Alþingi afgreiði þessa dagana.

Síðan segir forstjóri Þjóðhagsstofnunar að með flestum mælikvörðum væri hægt að rökstyðja að verðbólgan væri um 30% nú og bætir svo við: „Útflutningsgreinarnar þola ekki þessa gengisskráningu lengur.“ Forstjóri Þjóðhagsstofnunar segir í málgagni utanrrh. í dag að það verði að fella gengið. Það er það sem hann er að segja. Það verður að fella gengið þegar menn taka hismið utan af kjarnanum.

Ég vil af þessu tilefni, út af yfirlýsingum ráðherranna, viðskrh.; utanrrh., fjmrh., einna minnst frá hæstv. forsrh., spyrja þessa ráðherra, hæstv. forsrh. í fyrsta lagi: Hvaða ráðstafanir eru það í gengismálum, í vaxtamálum, í verðlagsmálum og að því er varðar viðskipti við útlönd sem ríkisstjórnin ætlar að beita sér fyrir? Og ég vil spyrja hæstv. utanrrh.: Hvaða tillögur eru það sem liggja fyrir frá Framsfl. til að ná niður raunvaxtaokrinu? Og ég vil spyrja hæstv. viðskrh.: Er hann sammála utanrrh. í þessum efnum um að það verði tafarlaust að grípa til aðgerða gegn raunvaxtaokrinu eða heldur hann sig enn við yfirlýsinguna úr útvarpinu í fyrrakvöld? Hann sagði þar: „Markaðslögmálin verða að fá að hafa sinn gang. Það er ekki fullreynt hvort þau geta skilað okkur árangri.“

Það er alveg óhjákvæmilegt að þessum spurningum verði svarað. Og að lokum því: Hvor efnahagsspáin er rétt og hvor er vitlaus, Þjóðhagsstofnun eða Seðlabankinn? Hvor efnahagsspáin felur í sér stefnu ríkisstjórnarinnar? Þessu þurfa þessir hæstv. ráðherrar allir að svara.

Það er kannski rétt að ljúka þessu með því að segja: Ef það er almenn skoðun ríkisstjórnarinnar að mótmæli við matarskatti af hálfu verkalýðshreyfingarinnar séu kokhreysti og glannaskapur, eins og hæstv. fjmrh. lýsti yfir hér áðan, er bersýnilegt að þessari ríkisstjórn getur ekki auðnast með svona viðhorf uppi að ná eðlilegri niðurstöðu í þeim flóknu verkefnum sem blasa við á hinum almenna vinnumarkaði á næsta ári.