21.10.1987
Neðri deild: 5. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í B-deild Alþingistíðinda. (208)

43. mál, leyfi til slátrunar

Páll Pétursson:

Herra forseti. Hér er um óvenjulegt frv. að ræða.

Í fyrsta lagi eru formgallar á frv. og það ber með sér að það er samið í geðshræringu og flutt í bráðræði. Grg. hefst þannig: „Á fundi í sameinuðu þingi í dag, 20. október.“ Það er eins og heimsendir sé að koma, eins og það komi enginn dagur eftir þennan. Í dag, 20. október! Nú er samt kominn 21. október og það er strax í áttina. Ég hef aldrei séð svo til orða tekið í þskj.

Það er nú ekki einasta að þetta sé sérkennilegt orðafar og ekki þinglegur stíll og er reyndar undur að svo þingvanir menn sem fyrir þessu standa skuli láta þetta henda sig. Það sem er þó verra og miklu verra er að meining frv. er röng. Það er óeðlilegt að grípa fram fyrir hendur á yfirdýralækni og ráðherra með þeim hætti sem hér er lagt til að gert verði. Og það er enn þá ískyggilegra fyrir það að fyrrv. heilbrrh. stendur fyrir þessu.

Mér finnst að hér sé um mikið alvörumál að ræða og ég vil vísa á bug fúkyrðum sem hafa verið látin falla í umræðum í gær. Ég verð að segja að þegar ég las þetta á prenti, þegar ég las það aftur sem menn höfðu verið að segja hér, ofbauð mér alveg.

Hv. þm. Matthías Bjarnason segir að yfirdýralæknir hafi sýnt fádæma óbilgirni og vægast sagt sé hér um misbeitingu valds að ræða. Hann talar um „dýralæknismafíu“ o.fl. Þó tekur nú fyrst steininn úr þegar vinur minn Eyjólfur Konráð Jónsson, hann er 8. þm. Reykv. nú um stundir, tók til máls. Hann segir, með leyfi forseta:

„Ef ég segði allan sannleikann um viðureign skagfirskra bænda við SÍS-veldið á þeim tíma mundi enginn maður trúa mér og segja að ég væri ofstækisfullur ofbeldismaður sem væri að fara með lygasögu.“

Ég veit töluvert um þessa viðureign Eyjólfs við skagfirska bændur því að það er alls ekki að skagfirskir bændur hafi verið að berjast við SÍS-veldið. Og mér finnst satt að segja að vinur minn sé ofurlítið ofstækisfullur þó hann sé ekki ofbeldismaður, þó hann hafi einu sinni handleikið hrút, og ég er ekki að segja að hann fari með lygasögu, en stundum verður honum samt fótaskortur á tungunni.

Hann talar um landbúnaðarmafíu og „þessum mönnum er stjórnað af þessari mafíu enn þann dag í dag“. Og svo fær hann hugljómunina og segir:

„Ef hæstv. landbrh. skortir einhverjar lagalegar heimildir er áreiðanlega nægilegur meiri hluti í hv. Alþingi til að afgreiða þau lög sem hann telur skorta í dag í gegnum báðar deildir með öllum afbrigðum. Það er ég sannfærður um“, og þarna er nú komin hugsunin á bak við lögin.

Ég sé ástæðu til að mótmæla harðlega þessum ummælum þeirra Eyjólfs Konráðs Jónssonar og Matthíasar Bjarnasonar í umræðum í gær. Það er og reyndar spurning hvort hæstv. forseti hefði ekki átt að víta svona orðbragð.

Ég tel að það sé mikið óyndisúrræði að flytja svona frv. Hverjar eru svo ástæðurnar fyrir því að yfirdýralæknir vildi ekki veita þessu húsi undanþágu? Hann hefur gert grein fyrir því með bréfi sem dreift var í þinginu í dag. Því miður virðist fyrir handvömm ekki hafa borist eintak af því í hendur hv. 1. flm. Matthíasar Bjarnasonar. Yfirdýralæknir tínir til nokkra punkta, sem ég held að sé óhjákvæmilegt að komi inn í umræðuna, sem hann byggir sitt viðhorf á. Neitun hans byggist á því viðhorfi og ætla ég, með leyfi forseta, að lesa úr þessu bréfi:

„Húsið er gamalt og lélegt. Það batnar“ — og hér er hann að tala um sláturhúsið á Bíldudal að sjálfsögðu — „ekki að raði þótt klætt sé yfir veikleika og óhreinindi. Slíkt getur jafnvel gert illt verra. Þetta hús er alls ekki byggt sem sláturhús eftir teikningum svo sem skylt er um þá staði. Reynt var fyrir fáum árum að loka þessu húsi vegna vanbúnaðar og óvissu með vatn. Fyrirgreiðsluliðið fór af stað og spillti þeirri hagræðingu. Þá var því lýst yfir að frekari undanþága yrði ekki gefin. Það var tekið fram í sláturleyfi. Sláturleyfi síðan hafa verið nokkurs konar neyðarleyfi með undanþágu vegna þess að ekkert skárra var að hafa.“

Í máli hv. 1. þm. Vestf. Matthíasar Bjarnasonar hefur komið fram að á sl. hausti var slátrað þarna leyfislaust. „Slíkt er ekki lengur fyrir hendi. Í viðráðanlegri fjarlægð, þ.e. 30 km, er hús sem byggt er sérstaklega sem sláturhús, að vísu ekki fullkomið en aðstaða þar viðunandi og unnt að koma við fullkominni heilbrigðisskoðun. Vatnið er gott og búnaður þokkalegur. Aðgerðir nú koma því engan veginn á óvart. Þær eru ekki byggðar á persónulegri óvild eins eða neins heldur því grundvallaratriði að neytendur eigi aðeins skilið það besta sem völ er á og þeirri lagaskyldu, sem lögð er á dýralækna að tryggja, að vinnslustaðir fyrir matvæli séu vel búnir og þannig að verki staðið að almenningi stafi engin hætta af því sem þaðan kemur.“

Síðan segir að húsið sé „óafgirt og engin aðstaða til að fylgjast með umferð að og frá, frágangur úti ófullkominn, kalt vatn hefur dæmst óhæft vegna saurgerlamengunar, klórblöndun á vatni er ótrygg og neyðarráðstöfun sem ekki er gripið til að þarflausu. Klórblöndun á vinnsluvatni bætir ekki kjötið. Menn ættu líka að hugleiða hvað gerðist með afurðirnar ef klórtækið bilar. Heitt vatn hefur verið af skornum skammti að sögn dýralækna sem starfað hafa í þessu húsi. Ekki er vitað til að breyting hafi orðið á þessu. Skolplögn nær ekki út fyrir stórstraumsfjöru og þar sem ekki liggur fyrir að rottum hafi verið útrýmt á Bíldudal eða girt fyrir að þær slæðist þangað er nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir því að niðurföll eru ekki rottuheld. Frárennsli hafa raunar verið ótrygg og hafa stíflast stundum í sláturtíð. Slátursalur, líffærasalur og klefi til aðskilnaðar meltingarfæra eru engan veginn í samræmi við lög og reglur. Allt er illa aðskilið og ófullkomið.

Innréttingar eru að hluta til úr þeim efnum sem ekki er unnt að þrífa svo að vel sé, hvað þá að sótthreinsa þegar ekki er einu sinni nóg heitt vatn. Aðstaða til handþvotta er léleg að dómi héraðsdýralækna.“

Ég nenni ekki að þreyta þm. með að lesa allt þetta bréf, en það eru ítarlega talin upp mörg fleiri atriði sem eru rökstuðningur fyrir því af hverju þessi embættismaður hefur ekki viljað fallast á að veita þetta leyfi. Og ég tek þær gildar. Ég tek mér ekki það vald að dæma þær ómerkar. Ég veit fyrir víst að hér er um samviskusaman embættismann að ræða og ég sé ekki ástæðu til þess að veitast að honum svo sem gert hefur verið og allra síst á vettvangi þar sem hann getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér.

Mér finnst þetta fullkomið alvörumál og sem bóndi vil ég leggja sérstaka áherslu á hvað það er mikilvægt fyrir okkur bændur að vanda þá vöru sem við framleiðum. Neytendur eiga að geta treyst því að þeir séu að kaupa góða og óskemmda vöru af okkur. Fagþekking dýralækna á að vera sú trygging sem neytendur hafa fyrir því að þeir séu að kaupa óskemmda vöru. Dýralæknar eru m.a. menntaðir til að meta heilbrigði sláturdýra og dæma um kjöt.

Ég met að sjálfsögðu dægurlagasöngvara mikils og ég dáist að hestamönnum, en ég treysti þó enn þá betur á fagþekkingu dýralækna við að skoða sláturafurðir. Það þarf dýralækna til að skoða kjöt. Ég verð að viðurkenna að mér finnst hins vegar dýralæknar taka óþarflega mikið fyrir það að skoða kjötið. Prísar þeirra eru allt of háir og þeir gætu gert þetta fyrir minni þóknun. En þeirra þekking er hins vegar nauðsynleg til þessa starfs og búvöruframleiðendur verða að gæta sín og leggja sérstaklega ríka áherslu á það að framleiða holla vöru.

Við höfum á undanförnu sumri allt síðan um fermingartímann í vor öðru hverju verið minnt á að öll búvara er ekki holl. Salmonellusýkingar hafa komið upp hvað eftir annað í kjúklingum. Læknisskoðun á kjúklingum er mjög ábótavant og mjög nauðsynlegt að bæta þar úr ef menn ætla ekki að setja alla kjötframleiðslu í hættu. Auðvitað verður að skoða kjúklingana af dýralækni eins og annað kjöt.

Ég ber fyllstu virðingu fyrir hagsmunum bænda í Arnarfirði og ég tel að það beri að tryggja þá. Og þeir hafa raunar verið tryggðir svo vel sem stjórnvöld geta. Framleiðsluráð er búið að útvega sláturhús á Patreksfirði í 30 km fjarlægð. Það er ekki lengra frá Bíldudal til Patreksfjarðar en frá Höllustöðum á Blönduós og ekki verður mér neitt óglatt af að flytja lömbin mín þá vegalengd. Ég kenni ekkert í brjósti um þá frá Bíldudal. Arnfirðingar geta slátrað í sláturhúsinu á Patreksfirði sjálfir á eigin ábyrgð með þeim hætti sem þeim kann að þóknast á tiltölulega nothæfum stað og ég sé ekki betur en að hagsmunir þeirra séu með því móti tryggðir. Ég skil ekkert í því af hverju mennirnir vilja ekki taka þennan kost því mér þykir þetta skynsamlegur kostur.

Það er mikilvægt að reyna að halda sláturkostnaði niðri og skipuleggja slátrun sem best. Það hefur komið fram að hér er einungis um 3000 fjár að ræða, þ.e. eins og dags slátrun í sæmilega stóru sláturhúsi. 3000 fjár standa ekki undir þeirri fjárfestingu sem útheimtist í húsabótum á sláturhúsi og standa ekki undir vel búnu sláturhúsi.

Ég er sammála hv. 2. þm. Norðurl. v. um að það hefði verið heppilegt að gera Arnfirðingum grein fyrir því fyrr að húsið væri ekki nothæft og ég tel að það sé ámælisvert í meðferð þessa máls, en ég tel að það sé mesta mildi að ekki varð að slysi að þeir slátruðu í leyfisleysi í fyrra. Neytendur verða að geta treyst því, þegar þeir kaupa kjöt hér í Víði, að það sé læknisskoðað og það sé hollt. Þeir verða að geta treyst því að dilkakjöt sé heilbrigt og þar séu ekki sjúkir skrokkar í bland. Neytendur hafa tekið sénsinn varðandi kjúklingakjötið. Framleiðendur kjúklingakjöts hafa tekið sénsinn að láta ekki læknisskoða kjötið og við þekkjum hvernig þau mál eru komin. Ég held að það sé mjög brýnt að bæta eftirlit fremur en að draga úr því.

Að lokum nokkur orð um virðingu Alþingis. Ég tel að þjóðin ætlist til annars af okkur en að við séum að þvarga hér dag eftir dag um slátrun á Bíldudal. Við höfum mörg enn þá þýðingarmeiri mál um að tala. Þó er það lítilvægt á móti hinu að ég tel að það væri ekki góður vitnisburður fyrir löggjafarstörf Alþingis ef þetta frv. yrði að lögum.