19.12.1987
Neðri deild: 33. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2722 í B-deild Alþingistíðinda. (2082)

194. mál, verkaskipting ríkis og sveitarfélaga

Frsm. meiri hl. félmn. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 356 og brtt. á þskj. 357 frá meiri hl. félmn. Nd., en þennan meiri hl. skipa auk frsm. Geir H. Haarde, Jón Kristjánsson, Jón Sæmundur Sigurjónsson og Eggert Haukdal.

Nefndin hefur fjallað ítarlega um þetta mál og kvatt á sinn fund allmarga aðila, m.a. frá Sambandi ísl. sveitarfélaga þar sem kom formaður sambandsins, Sigurgeir Sigurðsson, og Magnús E. Guðjónsson framkvæmdastjóri, Húnbogi Þorsteinsson, skrifstofustjóri í félmrn., og Einar I. Halldórsson, fyrrv. bæjarstjóri, en þeir eru formenn nefnda er sömdu tillögur um breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og fjármálaleg samskipti, Kristófer Oliversson, starfsmaður Byggðastofnunar sem vann með nefndinni að tillögum hennar, Lárus Sighvatsson skólastjóri, fulltrúi Félags skólastjóra tónlistarskóla, Reynir Karlsson, íþróttafulltrúi ríkisins, Valdimar Örnólfsson íþróttakennari, formaður Íþróttasjóðs, Örlygur Geirsson, skrifstofustjóri í menntmrn., Svandís Skúladóttir, deildarstjóri í menntmrn., Sveinn Ragnarsson, félagsmálastjóri Reykjavíkurborgar, Sveinn Björnsson, forseti ÍSÍ, Pálmi Gíslason, formaður UMFÍ, Jón Eiríksson, oddviti í Vorsabæ, Þór Magnússon þjóðminjavörður, Gunnlaugur Haraldsson, safnvörður á Akranesi, og Kristinn Jóhannesson, forseti bæjarstjórnar í Neskaupstað.

Auk þessa fékk nefndin ýmsar tölulegar upplýsingar og skýringar er varða flesta þætti þessa máls, m.a. úttekt á áhrifum þessara fyrirhuguðu breytinga á öll sveitarfélög á Vesturlandi sem unnin var í samráði við nefndina og að hluta til að frumkvæði Samtaka sveitarfélaga í Vesturlandskjördæmi.

Eins og hv. alþm. sjá af þessari upptalningu taldi nefndin nauðsynlegt að reyna að fá sem gleggsta mynd af viðhorfum aðila til þessa frv. sem er til umræðu á þskj. 224.

Enda þótt ljóst sé og rétt að taka það fram að á svo skömmum tíma sem málið er til meðferðar hér á hv. Alþingi er varla hægt að senda frv. víðar út, sem hefði verið þörf á, því að ýmsir aðilar í þjóðfélaginu hefðu sjálfsagt haft áhuga á að setja fram álit sitt á málinu. Segja má þó að í þessum viðræðum við framangreinda aðila hafi sjónarmið um flest meginatriði frv. komið fram.

Meiri hl. nefndarinnar telur jákvætt að nú skuli eiga að stíga fyrstu skrefin í þessum málum. Þetta mál um tilflutning verkefna milli ríkis og sveitarfélaga hefur verið vandlega undirbúið og m.a. voru tillögur nefndarinnar kynntar fyrir öllum sveitarstjórnarmönnum á Íslandi og raunar fleirum.

Með þessu frv. er lagt til að hlutverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verði breytt. Ráð er fyrir því gert að hluti tekna sjóðsins verði notaður til að jafna aðstöðumun milli sveitarfélaga í meira mæli en tíðkast hefur. Þetta er mjög þýðingarmikið atriði til að styrkja meira en verið hefur hin fámennari og vanmegnugri sveitarfélög og aukin framlög Jöfnunarsjóðs eiga að gera þeim kleift að takast á hendur aukin verkefni, en ný lög um tekjustofna sveitarfélaga eru nú í endurskoðun með tilliti til breytinga á hlutverki Jöfnunarsjóðs sem hlýtur að verða miklu, miklu áhrifameira miðað við þau áform sem fram undan eru enda full þörf á.

Í frv. er yfirleitt aðeins breytt þeim ákvæðum sem fjalla um viðkomandi lög, um fjárhagsatriði við stofnkostnað og rekstur og eins og fram kemur í grg. með þessu frv. hefur menntmrh. þegar ákveðið vegna breytinga þessara að láta endurskoða í heild sinni lög um byggingu og rekstur dagvistunarheimila fyrir börn, lög um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla og íþróttalög. Það er mjög mikilvægt og á það ber að leggja sérstaka áherslu við þessa umræðu að góð samstaða náist um endurskoðun þessara laga.

Mér þykir rétt að koma aðeins inn á örfá atriði sem hafa verið mikið til umræðu í þjóðfélaginu og e.t.v. valdið misskilningi. Þá vil ég fyrst tiltaka II. kafla íþróttalaga þar sem ákveðið hefur verið að endurskoða íþróttalögin í heild. Það hefur komið hér fram. Í þeirri endurskoðun, og það kemur viljayfirlýsing frá meiri hl. félmn. og raunar allri nefndinni, er gert ráð fyrir — það hefur komið fram í umræðum í nefndinni — að Íþróttasjóður starfi áfram og hafi það mikilvæga hlutverk m.a. að veita árlega byggingarstyrki til íþróttamannvirkja, íþróttafélaga og félagasambanda innan vébanda Íþróttasambands Íslands og Ungmennafélags Íslands og Alþingi, samkvæmt þessu, veiti árlega fé í Íþróttasjóð sem skiptist af fjvn. eftir tillögum íþróttanefndar sem mun starfa áfram.

Sveitarfélögin munu að sjálfsögðu styrkja áfram íþróttastarfsemina í landinu í auknum mæli, enda fá þau með þessari yfirfærslu meira vægi í þeirri umfjöllun.

Bygging skólamannvirkja vegna íþrótta er óbreytt, sameiginlegt verkefni ríkis og sveitarfélaga. Við næstkomandi áramót verður skuldastaða ríkissjóðs við íþróttamannvirkin í landinu, bæði á vegum félaga og sveitarfélaga sem styrk eiga að fá úr Íþróttasjóði samkvæmt gildandi lögum, gerð upp í gegnum Jöfnunarsjóð, sérdeild í Jöfnunarsjóði, sem ráðgert er að greiða að fullu á næstu fjórum árum. Samkvæmt uppgjöri sem liggur fyrir í dag er þessi staða samtals upp á 186,4 millj. kr. sem skiptast á 181 aðila. Þar af er hlutur sveitarfélaga 79,3 millj. og hlutur hinna ýmsu félagasamtaka um íþróttamál 107,1 millj. kr. Ég tel að þessi skipan mála, sem nú er verið að fara af stað með og hér hefur verið fest í stefnu í þessum bandormi sem við erum að tala um hér, muni með þessum breytingum sem verða með endurskoðun íþróttalaganna styrkja stöðu íþróttahreyfingarinnar í landinu. Ég vona að ég tali fyrir munn flestra landsmanna að efling íþróttastarfsemi í landinu sé ein besta fjárfesting sem við getum stuðlað að. Jafnframt er það sjálfsögð krafa að aðstaða til íþróttaiðkana sé fyrir hendi í öllum byggðarlögum landsins, en það er einn mikilvægasti þáttur í byggðaþróunarmálum, eins og fram hefur komið í umræðum á hv. Alþingi að menn eru yfirleitt sammála um.

Í viðræðum nefndarinnar við forsvarsmenn tónlistarskóla hefur m.a. komið fram að lengri tíma þurfi til að undirbúa breytingar á fjárhagsatriðum í rekstri tónlistarskólanna. Þess vegna leggur meiri hl. nefndarinnar til að komið verði til móts við þessi sjónarmið og gildistökukafla um breytingar á fjárhagsstuðningi við tónlistarskóla verið frestað til 1. sept. 1989. Eins og hv. alþm. sjálfsagt vita eru tónlistarskólar samkvæmt gildandi lögum reknir af sveitarfélögum en ríkið greiðir rekstrarstyrki sem eiga að nema helmingi af launakostnaði skólastjóra og kennara samkvæmt lögum nr. 75/1985, um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla. Hér er um að ræða málaflokk sem er mikilvægur þáttur í menningarlífi og skólastarfi um land allt. Þess vegna er skynsamlegt að gera sér glögga grein fyrir áhrifum þessara breytinga áður en þær verða gerðar og til þess þarf lengri tíma. Enn fremur er rétt að endurmeta þetta mál með tilliti til breyttrar verkaskiptingar í sambandi við grunnskóla sem fyrirhuguð er í tillögum verkaskiptanefndar og ríkisstjórnin hefur raunar lýst yfir því að að því verði unnið í framhaldi af því skrefi sem hér er verið að stíga. Verði brtt. sú sem ég lýsti um frestun á þessum áformum samþykkt þarf að sjálfsögðu að hækka fjárveitingar til tónlistarfræðslu í fjárlagafrv. eða í tengslum við það og það mun verða gert.

Þá hafa nefndinni borist tilmæli frá landbrn. um að í frv. verði tekið ákvæði um að sérdeild við Jöfnunarsjóð sveitarfélaga endurgreiði sveitarfélögum 5/6 hluta útlagðs kostnaðar við eyðingu refa og minka. Ákvæði um endurgreiðslu þessa er nú í 13. gr. laga nr. 52/1957, um eyðingu refa og minka. Í fjárlagafrv. 1988 er ekki reiknað með fjárveitingu til þessa verkefnis. Það er ljóst að þetta atriði, þ.e. eyðing refa og minka, er eitt af verkefnum sveitarfélaga og þess vegna leggur meiri hl. nefndarinnar til að í frv. komi nýtt ákvæði til bráðabirgða þar sem lagt er til að þessi kostnaður verði á árinu 1988 greiddur af sérdeild Jöfnunarsjóðs. Kostnaður þessi er áætlaður um 7 millj. kr. á árinu 1988. Það er ljóst að þarna þarf að huga að frekari lagasetningu sem yrði þá hægt að gera áður en ákvörðun verður tekin um fjárlög fyrir árið 1989.

Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt með þessum breytingum sem lagðar eru fram á sérstöku þskj., 357.

Fyrsta breytingin er við 29. gr., að í stað 1. sept. 1988 komi 1. sept. 1989.

Annar liður brtt. er að við ákvæði til bráðabirgða bætist nýr liður, sem verður Ill. liður, og orðist svo: „Á árinu 1988 skal sérdeild Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga greiða hlut ríkissjóðs og sýslusjóða vegna kostnaðar við eyðingu refa og minka, sbr. 13. gr. laga nr. 52/1957, um eyðingu refa og minka.“

Herra forseti. Eins og fram hefur komið er hér um að ræða fyrsta skrefið í róttækum breytingum á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Þetta skref er að vísu ekki stórt en engu að síður mjög þýðingarmikið. Það er mjög mikilvægt að vel takist til með þessa framkvæmd eins og hér hefur verið bent á áður, m.a. við 1. umr. þessa máls.

Í umræðum um mál þetta hefur sú skoðun komið fram að sveitarfélögunum sé ekki treystandi til að sinna á viðunandi hátt sumum þeirra verkefna sem nú er ætlunin að flytja alfarið til þeirra. Ég tel að þessi skoðun sé byggð á of lítilli þekkingu á málefnum sveitarfélaga. Ég er ekki í neinum vafa um það að sveitarstjórnarmenn munu afsanna þessa skoðun á mjög skömmum tíma og byggi þar á þeirri reynslu sem ég hef af sveitarstjórnarmönnum almennt.

Um öll þessi verkefni á það við að þau eru best komin í höndum heimamanna vegna þekkingar þeirra á staðbundnum þörfum og aðstæðum. Sveitarfélögin hafa alla möguleika til að leysa þau á hagkvæmari hátt án þeirra afskipta sem tengjast óhjákvæmilegum fjárframlögum ríkisins. En auðvitað þurfa þau að hafa það tryggt að þau fái nægjanlega sterka tekjustofna og ráði algjörlega yfir þeim sjálf til þess að annast þessi mál.

Með frv. er lagt til að hrinda í framkvæmd áratuga gömlu baráttumáli sveitarfélaganna og sveitarstjórnarmanna um breytingar á verkaskiptingunni. Í því er einnig lagt til að stigið verði mjög stórt skref í þá átt að gera Jöfnunarsjóð sveitarfélaga að raunverulegum jöfnunarsjóði. Þetta er mjög þýðingarmikið, einkum fyrir hin minni og vanmegnugri sveitarfélög.

Herra forseti. Það er skoðun mín að með gildandi samstarfssáttmála milli ríkisstjórnar og sveitarfélaga sé opinn vettvangur til að taka afgerandi ákvarðanir um nýjar leiðir til að ákveða skiptingu verkefna og tekna milli ríkisins annars vegar og sveitarfélaga hins vegar, slíkar ákvarðanir séu gerðar á jafnréttisgrundvelli. Tekjustofnaskipting fyrir hvert ár sé gerð fyrir fram milli þessara tveggja aðalstjórnsýslustiga í landinu. Ný sveitarstjórnarlög auðvelda þessa nýskipan. Það er skoðun mín að með þessu móti muni vera hægt að auka valddreifingu í landinu og færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga á eðlilegan máta á fyrir fram skipulagðan hátt. Sveitarfélögin munu auka samstarf sín á milli sem mun fljótlega leiða til sameiningar þeirra í verulegum mæli í stærri og öflugri einingar sem um leið munu auka öryggi og þjónustu við íbúa hvar sem þeir búa í landinu og til hagsbóta fyrir þjóðina í heild.

Herra forseti. Þetta er mín framtíðarsýn og ég legg eindregið til að frv. sem er til meðferðar og brtt. sem um er talað verði samþykktar hér í hv. deild. Þetta mun þýða tölulega séð verkefnatilflutning sem er af stærðargráðunni, miðað við uppgjör við nk. áramót, kringum 430 millj. kr.