21.12.1987
Efri deild: 35. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2778 í B-deild Alþingistíðinda. (2095)

181. mál, stjórn fiskveiða

Frsm. meiri hl. sjútvn. (Guðmundur H. Garðarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. meiri hl. sjútvn. um frv. til laga um stjórn fiskveiða 1988–1991 með þeim breytingum sem nánar verður frá greint.

Nefndin hefur rætt frv. á fundum sínum og kvatt til viðtals eftirtalda menn: Vilhjálm Egilsson frá Verslunarráði Íslands, Árna Benediktsson frá félagi Sambandsfiskframleiðenda, Bjarna Lúðvíksson frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Dagbjart Einarsson frá Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda, Jakob Jakobsson frá Hafrannsóknastofnun, Magnús E. Guðjónsson frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, Kristján Ragnarsson frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, Guðjón A. Kristjánsson frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Óskar Vigfússon og Hólmgeir Jónsson frá Sjómannasambandi Íslands, Arthur Bogason, Sævar Einarsson, Harald Jóhannesson og Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda, Guðmund Stefán Maríasson frá Félagi rækju- og hörpudiskframleiðenda og Gunnlaug Claessen ríkislögmann. Þá hafa fulltrúar sjávarútvegsráðuneytisins komið á fund nefndarinnar.

Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem fram koma á þskj. 389.

Samkvæmt því er lagt til að gildistími laganna verði þrjú ár í stað fjögurra.

Þá er gert ráð fyrir að úr 5. gr. frv. verði felld ákvæði um sérstakt 10% álag á afla sem fluttur er óunninn á erlendan markað hafi hann ekki verið veginn hér á landi.

Varðandi smábáta er lagt til að bátar undir 10 brl., sem stunda línu- og handfæraveiðar, þurfi eingöngu að sæta tímabundnum veiðibönnum eins og verið hefur. Í frv. er hins vegar gert ráð fyrir að allir bátar 6 brl. og stærri fái sérstök veiðileyfi með aflahámarki. Þessi breyting er í samræmi við samþykktir 46. fiskiþings.

Meiri hl. nefndarinnar telur að sem mestur jöfnuður eigi að ríkja varðandi meðalaflahámörk sóknarmarksskipa. Ráðgert er að setja í fyrsta skipti meðalaflahámark á karfaafla togara. En það er nauðsynlegt að mati fiskifræðinga þar sem karfastofninn er álitinn vera mjög veikur. Er í því sambandi nauðsynlegt að tillit sé tekið til þess að útgerðarkostnaður í hlutfalli við aflaverðmæti er meiri við karfaveiðar en við þorskveiðar. Er því eðlilegt að karfaaflahámörk verði hækkuð nokkuð frá því sem lagt er til í drögum að reglugerð um stjórn botnfiskveiða árið 1988. Meðalaflahámörk togara verði sem hér segir:

39 metrar og styttri: Þorskaflahámark — 660 smálestir á I. svæði; 1000 smálestir á II. svæði. Lengri en 39 metrar: Þorskaflahámark — 1160 smálestir á I. svæði; 1650 smálestir á II. svæði.

39 metrar og styttri: Karfaaflahámark — 850 smálestir á I. svæði; 100 smálestir á II. svæði. Lengri en 39 metrar: Karfaaflahámark — 1700 smálestir á I. svæði; 600 smálestir á Il. svæði. Þeim togurum, sem velja sóknarmark með meðalaflamarki, verði heimilt að veiða karfa í stað þorsks innan samanlagðra aflahámarka beggja tegundanna.

Undir þetta meirihlutaálit rita Guðmundur H. Garðarsson frsm., Stefán Guðmundsson, Jóhann Einvarðsson og Halldór Blöndal.

Ég vil í sambandi við álit meiri hl. segja eftirfarandi til viðbótar við það sem fram kemur í nál. Það er rétt að varpa fram þeirri spurningu hvað verið sé að tryggja þegar fjallað er um stjórn fiskveiða og í því sambandi kemur auðvitað upp spurningin: Hvers vegna kvóti?

Það dylst engum að kröfur um aukin lífsgæði, fæði, klæði, nýtískulegt húsnæði, menntun, tryggingar, hjúkrun o.s.frv. hafa aukist mikið hér á landi sem annars staðar. Þrátt fyrir miklar Framfarir á Íslandi á öllum sviðum er sjávarútvegur enn sem fyrr mikilvægasta atvinnugreinin í landinu og sú uppspretta auðs sem gerir Íslendingum, 240 þús. manns, kleift að búa mannsæmandi lífi á þessu landi. Stöðugt meiri kröfur um aukin lífsgæði og auknar kröfur um að stærri og stærri hluti þjóðartekna fari til þjónustu við velferðarríkið hefur knúið á um auknar veiðar, þ.e. að veiddur væri meiri fiskur til að fullnægja þessu markmiði um betri lífskjör. Það hefur þýtt harðari sókn í fiskistofnana, fleiri og stærri skip, fullkomnari veiðitækni og miklu meiri afköst við veiðarnar. Árangurinn er gífurlegur. Ekkert ríki heims, þ.e. engin fiskveiðiþjóð, kemst með tærnar þar sem Íslendingar hafa hælana í þessum efnum.

Árið 1986 voru um 238 smálestir á bak við hvern starfandi sjómann í landinu. Miðað við verðmæti landaðs afla voru meðalársafköst pr. sjómann að verðmæti um 2,7 millj. kr. Engin önnur atvinnugrein á Íslandi getur komið með sambærilega niðurstöðu í verðmætasköpun pr. starfandi mann. Þetta ættu allir Íslendingar að vita og skilja. Á því er því miður mikill misbrestur. Frá þessu er ekki skýrt sem skyldi í skólum landsins né í fjölmiðlum eða þar sem máli skiptir svo að allir Íslendingar skilji til hlítar hver sé undirstaða íslensks þjóðfélags efnalega sem og menningarlega.

En hinar hörðu og miklu kröfur sem gerðar eru til sjávarútvegsins í útvegun þeirra miklu verðmæta sem þjóðin þarfnast hafa tekið sinn toll, þ.e. sinn skatt. Í því sambandi finnst mér rétt — og það er fróðlegt að koma með það hér inn í umræðuna þegar fjallað er um stjórn fiskveiða — að gera sér nokkra grein fyrir því hvernig aflinn skiptist milli helstu tegunda eða stærða fiskiskipa. Skýrir það vægi þeirra og þýðingu í fiskveiðum sem og mikilvægi í verðmætasköpuninni. Til að gera málið ekki of flókið er árið 1986 tekið sem dæmi.

Árið 1986 er hægt að skipta fiskiflotanum í eftirfarandi þrjár eða fjórar meginstærðir, þ.e. togara, millistærð af fiskiskipum og vélbáta.

Á togurum landsins voru starfandi sjómenn árið 1986 alls 1576. Afli togaranna á því ári var um 420 þús. smálestir þannig að á hvern sjómann komu um 266 smálestir.

Millistærðarfiskiskip voru með starfandi sjómenn um 3500 manns og afli þeirra var um 1,2 millj. smálesta.

Ef tekin eru út þau skip sem eru yfir 100 brúttólestir þá voru starfandi á þeim skipum 1726 sjómenn og afli pr. sjómann er 610 smálestir. Ráða loðnuveiðar þar mestu um.

Ef hins vegar eru teknir minni fiskibátar, þ.e. allt að 100 brúttólestum, þá voru starfandi á þeim 1874 sjómenn og meðalafli pr. sjómann á því ári 84 smálestir.

Á opnum vélbátum voru skráðir 1742 sjómenn og heildarafli var á árinu 1986 samkvæmt tölum Fiskifélagsins álitinn vera 21 641 smálest en mun hafa orðið nokkru meiri og er meðalafli pr. starfandi sjómann samkvæmt því aðeins 12 smálestir sem segja auðvitað ekki alla söguna því að í þessum hópi eru margir sportveiðimenn sem draga niður þann hluta sem starfandi sjómenn eiga meginið af.

En það er fróðlegt að skoða nokkuð hvaða verðmæti eru bak við hvern sjómann eftir þessum flokkum á árinu 1986. Meðalaflaverðmæti pr. sjómann á togurum mun hafa verið um 5,4 millj., á stærri fiskiskipum, þ.e. 100 smálestir og yfir, 2,2 millj. og á minni skipunum 3,3 millj., en á opnu vélbátunum 233 þús. kr. En þótt þessar tölur sýni góðan árangur og undirstriki það hversu afkastamikill sjávarútvegur er, er það ekki einhlítt að vera með þess háttar samanburð þegar fjallað er um stjórn fiskveiðanna. En þær skýra samt á einfaldan hátt hvað er í húfi og hvað ber m.a. að hafa hugfast þegar verið er að móta stefnuna í fiskveiðimálum Íslendinga fyrir næsta ár.

Staðreyndin er sú að það hefur verið gengið of nærri auðlindinni. Sóknin hefur verið of hörð, skipin of mörg og afköstin of mikil. Í tæpan eða rúman áratug hefur þetta viðgengist og þrátt fyrir umdeildar veiðitakmarkanir standa Íslendingar enn einu sinni frammi fyrir þeirri staðreynd að þurfa að takmarka veiðarnar enn meir. Um tvennt er raunverulega að ræða:

Í fyrsta lagi: Á að fækka skipunum? Eða í öðru lagi: Á að skipta áætluðum leyfilegum afla á flotann eins og hann er í dag? Fáir treysta sér til að leggja til að fiskiskipum verði fækkað. Enn færri ef nokkrir mundu treysta sér til að leggja til að skipum verði lagt. Niðurstaðan er því sú að takmarka skuli veiðarnar með svonefndu kvótakerfi.

Flestir eru á móti höftum og skömmtunarkerfum en raunveruleikinn setur manni takmörk. Staðreyndin er: Helstu fiskistofnar eru á niðurleið; fiskurinn í aflanum er smærri í ár en næstu ár á undan; fiskifræðingar óttast um þýðingarmestu fisktegundina, þorskinn. Þeir leggja því til að Íslendingar minnki veiðarnar á næstu árum ef ekki á illa að fara. Fyrir þessum staðreyndum beygja landsmenn sig. Jafnframt gerir fólkið þær kröfur til valdhafanna, þ.e. hins háa Alþingis, að það setji þau lög og reglur sem tryggi sem best og hagkvæmast nýtingu fiskimiðanna samfara sem bestri nýtingu á þeim framleiðslutækjum sem við þessa atvinnugrein eru bundin, þ.e. í veiðum og vinnslu.

Í fleiri mánuði hefur verið unnið að undirbúningi þessa máls af hálfu stjórnvalda og annarra sem hafa reynslu og þekkingu af sjávarútvegi. Í framhaldi þess starfs lagði hæstv. ríkisstjórn fram í byrjun desember frv. til laga um stjórn fiskveiða fyrir árin 1988–1991. Frv. þetta hefur verið til meðferðar í hv. deild og í sjútvn. Ed. Einnig hafa verið sameiginlegir fundir í sjútvn. Ed. og Nd. þar sem fjallað hefur verið ítarlega um frv. og brtt. Þótt ágreiningur væri um nokkur atriði í frv. eru flestallir hv. þm. sammála um að við ríkjandi aðstæður og ástand fiskistofna sé nauðsynlegt að takmarka veiðarnar og vísast til nál. í þeim efnum.

Kjarni málsins er: Það verður að móta fiskveiðistefnu sem tryggir heildarhagsmuni þjóðarinnar á næstu árum. Verkið er vandasamt, skoðanir eru mismunandi og mat manna ekki ætíð byggt upp á sömu forsendum. Miklu máli skiptir að þekking og reynsla samfara yfirveguðu mati ráði úrslitum þegar endanlegar ákvarðanir verða teknar. Þröngir hagsmunir verða að víkja en þess verður jafnframt að gæta að í skjóli laga sé réttur manna virtur í samræmi við mótaða fiskveiðistefnu hins háa Alþingis.

Sjálfstfl. leggur áherslu á þetta atriði og áskilur sér allan rétt til tillagna til breytinga á væntanlegri fiskveiðilöggjöf á gildistíma ef í ljós koma veigamiklir ágallar á framkvæmd laga og reglugerða.

Það er vissulega þungbært að þurfa að viðurkenna að þannig sé ástatt um helstu fiskistofna við Ísland að takmarka þurfi aðgang manna að miðunum, en því miður er þetta óhrekjanleg staðreynd. Þess vegna er mikils um vert að festa og ábyrgð ráði um gjörðir manna þegar þeir taka ákvarðanir og fjalla um þetta mál á hinu háa Alþingi.