21.12.1987
Efri deild: 35. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2872 í B-deild Alþingistíðinda. (2114)

181. mál, stjórn fiskveiða

Júlíus Sólnes (frh.):

Virðulegi forseti. Ég var staddur þar í máli mínu áður en fundi var frestað fyrir kvöldmat að ég var að lesa upp, með leyfi virðulegs forseta, úr grg. forsvarsmanna þriggja skipa sem fórust á árunum 1983 og 1984 og baráttu þeirra við kerfið um að fá leiðréttingu sinna mála. Ég ætla að halda því áfram, með leyfi virðulegs forseta, og klára þennan lestur. Ég hef þá lesturinn þar sem segir frá Kára VE: „Kári VE var sigldur niður í apríl 1984. Skv. 2. málsgr. 3. gr. reglugerðar nr. 44/1984 segir að skip sem komi í stað þeirra skipa sem hverfa úr rekstri eigi rétt á veiðiheimild. En af hverju nýtti rétthafi þessarar veiðiheimildar sér hana ekki? Þar er að nokkru það sama uppi á teningnum og varðandi eigendur Brimness og Ragnars Ben, þ.e. bann við innflutningi á fiskiskipum sem var formlega í gildi til 1. ágúst 1984 og eftir að því var aflétt var Fiskveiðasjóður lokaður. Með lögum nr. 118/1984 var kvótakerfið framlengt um eitt ár og ráðherra veittar hliðstæðar heimildir og í lögum nr. 82/1983 sem áður hefur verið greint frá og á grundvelli þeirrar heimildar voru í 3. gr. reglugerðar nr. 1 1985, um stjórn botnfiskveiða 1985, settar þær reglur að einungis gætu fengið veiðileyfi 1985 þau skip sem veiðileyfi höfðu 1984 (sem Kári VE hafði) og ekki höfðu horfið varanlega úr rekstri. Enn fremur ný og nýkeypt skip hafi kaupin verið gerð fyrir 31. des. 1983, svo og skip er kæmu í stað skipa sem hyrfu úr rekstri 1985.

Þannig var veiðileyfi skips sem kæmi í stað Kára VE þurrkað út með reglugerðinni. Með núgildandi lögum nr. 971985, um stjórn fiskveiða 1986 og 1987, er miðað við að einungis fái veiðileyfi þau skip sem veiðileyfi höfðu árið 1985. Það er mikil meginregla, sem kom fram í reglugerð nr. 44 1984, reglugerð nr. 1 1985 og fram kemur í 3. gr. laga nr. 97/1985, um stjórn fiskveiða 1986 og 1987, og 4. gr. frv. til laga um stjórn fiskveiða 1988–1991, að í stað skipa sem farast megi koma önnur í staðinn er fái sömu veiðiheimildir og það skip er fórst.

Þeir einstaklingar sem hér leita ásjár alþm. eru allir skipstjórar sem af slysförum misstu skip er þeir voru með í fullum rekstri og áttu því rétt á að endurnýja skipin. Vegna þeirra atvika sem að framan er lýst var þeim það ómögulegt á þeim skamma tíma sem þeim var ætlaður í reglugerðum. Vegna þessa hefur orðið veruleg röskun á högum þeirra. Það má með réttu segja að þeir hafi orðið fyrir barðinu á kerfinu án þess að kerfinu hafi verið ætlað það markmið. Eini raunhæfi möguleiki þessara manna er að Alþingi rétti hlut þeirra.“

Þetta lýsir mjög vel þessu ómanneskjulega kerfi. Þegar einstaklingar verða fyrir barðinu á kerfinu, eins og hér kemur fram, mæta þeir járnköldum vegg. Kerfið á engar mannlegar tilfinningar til. Það kemur best fram með svari sjútvrn. sem ég ætla að fá að lesa upp, með leyfi hæstv, forseta:

„Ráðuneytinu hafa borist þrjú bréf yðar, dags. 19. október og 20. október 1987, varðandi mb. Brimnes SH 257 og fleiri mál. Varðandi óskir yðar um að úthlutað verði veiðiheimildum til nýs skips í stað mb. Brimness SH 257 vill ráðuneytið taka fram að skv. 3. gr. laga nr. 97/1985, um stjórn fiskveiða 1986 til 1987, er aðeins heimilt að veita þeim skipum veiðileyfi sem slíkt leyfi fengu á árunum 1985 og ekki hafa horfið varanlega úr rekstri. Samkvæmt skráningu Siglingamálastofnunarinnar brann og sökk mb. Brimnes SH 257 3. sept. 1983. Að ofangreindu athuguðu telur ráðuneytið ekki samrýmast ákvæðum 3. gr. laga nr. 97/1985 að veita umbeðið leyfi og hafnar því erindinu.

Varðandi það erindi að ráðuneytið láti yður í té afrit af bréfum varðandi kvótaúthlutun til útgerðar mb. Brimness SH 257 vill ráðuneytið taka fram að öll bréf, sem varða úthlutun á kvótum til einstakra skipa, eru send eigendum þeirra. Því munuð þér hafa undir höndum öll þau bréf sem varða kvótaúthlutun mb. Brimness SH 257.

Í þriðja bréfi yðar er óskað eftir skýringum vegna breytinga á úthlutuðum kvótum nokkurra tilgreindra skipa. Að þessum tíu tilvikum athuguðum virðist ráðuneytinu að hér sé um alls óskyld og óviðkomandi mál að ræða er varða útgerðir sem á engan hátt virðast tengjast mb. Brimnesi SH 257. Ráðuneytið sér því ekki ástæðu til að fjalla um þær óskir frekar.“

Þetta lýsir mjög vel hvernig ráðuneytið, hvernig innisetumennirnir líta á mál útgerðarinnar og sjómannanna í heild. Ég held að þetta lýsi betur en önnur orð fá lýst hver er afstaða ráðuneytisins til allra þessara mála.

Í brtt., sem hv. 3. þm. Vestf. Karvel Pálmason hefur lagt fram við frv. til laga um stjórn fiskveiða 1988-1991, segir m.a. svo í brtt. 1 á þskj. 392:

„Þá skulu þau skip er koma í stað skipa er fórust á árunum 1983–1984 og ekki hafa verið endurnýjuð eiga rétt á veiðileyfi sem sé meðaltal aflamagns skipa í sama stærðarflokki. Enn fremur skip þau sem sérstök veiðileyfi hafa fengið skv. ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 97 20. des. 1985, um stjórn botnfiskveiða 1986–1987.“

Þessa brtt. munum við þm. Borgarafl. í Ed. styðja heils hugar og verði hún felld í lok 2. umr. munum við áskilja okkur rétt til að leggja fram aðra brtt., væntanlega brtt. sem gangi eilítið skemmra en þessi, til að freista þess að a.m.k. hv. þm. hér í hv. deild séu manneskjulegri en ráðuneytið og innisetumennirnir sem stjórna fiskveiðum landsmanna.

Í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar, sem var gefin út skömmu eftir stjórnarmyndunina 8. júlí í sumar sem leið, segir svo um sjávarútveg, með leyfi virðulegs forseta:

„Fiskveiðistefnan verður tekin til endurskoðunar og stefna mörkuð sem taki gildi þegar í upphafi næsta árs. Endurskoðunin verður falin sérstakri nefnd sem hafi samráð við helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi og fiskiðnaði, svo sem fulltrúa útgerðar, fiskvinnslu, sjómanna og fiskvinnslufólks, og sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar. Nefndin mun m.a. taka afstöðu til eftirfarandi atriða: Hvernig og hverjum veiðiheimildir skuli veittar. M.a. verði athugað hvort veiðiheimildir verði einvörðungu bundnar við skip. Hvernig megi taka meira tillit til byggðasjónarmiða við mótun fiskveiðistefnu, auka athafnafrelsi og svigrúm til endurnýjunar í sjávarútvegi.“ — Ég endurtek þetta: „auka athafnafrelsi og svigrúm til endurnýjunar í sjávarútvegi. Hvers konar reglur skuli setja um færslu veiðiheimilda á milli aðila, hve lengi meginreglur um stjórn fiskveiða skuli gilda.“

Það frv. til laga um stjórn fiskveiða, sem hér hefur verið lagt fram, uppfyllir kannski að hluta til þau markmið sem hér hafa verið sett fram, a.m.k. stendur ekki hversu lengi meginreglur um stjórn fiskveiða skuli gilda, þannig að ég get ekki ásakað hæstv. ráðherra fyrir að hann hafi ákveðið að leggja frv. fram með gildistímann fjögur ár. Það er út af fyrir sig ekkert í ósamræmi við þau markmið sem koma fram í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar frá því í sumar. En ég er ekki í nokkrum vafa um að það frv. til laga sem hér er til umfjöllunar í hv. Ed. er í algerri mótsögn við þá setningu sem er í markmiðum ríkisstjórnarinnar: „auka athafnafrelsi og svigrúm til endurnýjunar í sjávarútvegi.“

Ég hef milli handanna upplýsingar sem voru til umræðu í þeirri ráðgjafarnefnd sem er vitnað til í þeirri stefnuskrá sem ég var að lesa upp úr áðan. Þar koma fram upplýsingar og hugmyndir um hámarksafla nokkurra botnfisktegunda fyrir árið 1988. Þar er talað um að af þorski megi veiða 300 þús. lestir, ýsu 65 þús. lestir, ufsa 80 þús. lestir, karfa 90 þús. lestir og grálúðu 30 þús. lestir. Ef fylgt væri þeirri fiskveiðistefnu sem við borgaraflokksmenn mundum kjósa að væri tekin upp í staðinn fyrir þetta margumrædda kvótakerfi mundum við vilja segja sem svo: Gott og vel. Þetta eru þær hugmyndir sem fiskifræðingar, þ.e. Hafrannsóknastofnun, og væntanlega útgerðarmenn og sjómenn því þeir hafa átt sína fulltrúa í ráðgjafarnefndinni, hafa orðið ásáttir um að skuli vera hámarksafli fyrir árið 1988. Og ég mundi síðan segja: Væri nokkuð á móti því að skipta þessum hámarksafla niður á tímabil þar sem væri tekið mið af því hvernig ástand fiskstofna er breytilegt yfir árið? Við skulum taka sem dæmi að það mætti hugsanlega veiða hluta af þessum 300 þús. þorsklestum fyrstu þrjá mánuði ársins, hafa ef til vill meiri hlutann þar, draga úr veiðum aftur næsta ársfjórðung og svo fram eftir götunum og sama mætti gilda um hinar botnfisktegundirnar. Síðan væri mönnum gefin heimild til þess að sækja þennan afla frjálst. Að sjálfsögðu yrði að hafa þá friðunardaga sem eru nauðsynlegir og sérstaklega friða svæði þegar verður vart við mikinn ungfisk og eins friða svæði þar sem hrygningarfiskurinn gerir vart við sig. Það mætti vel hugsa sér það að slíkir friðunardagar væru mismunandi eftir landshlutum til þess að koma til móts við sérstakar aðstæður í þeim. Það væri vel hægt að hugsa sér það að beita slíkum ákvæðum, að haga friðunardögum og lokun svæða breytilega eftir landshlutum til þess að ná samræmingu og til þess að tryggja það að allir landshlutarnir standi sem jafnast að vígi. Þetta kerfi mundi um leið takmarka sjálfkrafa þann skipastól sem þyrfti til þess að ná þessum afla því að ég fer ekki að ímynda mér það að menn hafi áhuga á því að gera út ef þeir ná ekki nægum afla til þess að útgerðin borgi sig. Slík útgerð mun þá væntanlega leggja upp laupana og skipin seld. Þeir sem kunna að gera út gera þá út, þeir sem kunna það ekki, skussarnir, hætta þá.

Við gerum okkur það ljóst að við munum ekki fá því áorkað að gerbreyta frv. einir sér, til þess höfum við ekki nægilegan þingstyrk þó að við eigum marga bandamenn hér, bæði í öðrum stjórnarandstöðuflokkum og marga þm. úr liði stjórnarflokkanna, og verðum að sætta okkur við það að það besta sem við náum fram hér á þessum síðustu dögum fyrir hátíðarnar sé að það takist að bjarga í horn, að það takist að fá fram einhverjar skynsamlegar breytingar á því ómanneskjulega kerfi sem er verið að staðfesta með frv. hæstv. ráðherrans og ég vona að sem flestir þm. reyni að taka höndum saman og gera a.m.k. þær bragarbætur á frv. að við fáum lifað við það næsta árið. Ég vona fyrst og fremst að það náist breitt samkomulag um það að gildistíminn verði alls ekki lengri en tvö ár. Við mundum vilja láta gildistímann vera eitt ár og er það í okkar tillögum, en ég geri mér grein fyrir því að það er e.t.v. óskhyggja. Við getum ekki vænst þess að sú tillaga nái fram að ganga.

Mér var sögð ein saga sem kannski sýnir betur en aðrar sögur hvernig komið er með kvótakerfinu. Það var sögð saga af athafnamanni norður í landi sem að vísu var alltaf í fjárhagserfiðleikum. Hann frétti af togara einum hér sunnan lands sem væri til sölu. Hann lagði af stað suður akandi til þess að vita hvort hann gæti ekki keypt togarann en varð að byrja á því að slá fyrir bensíninu því að hann átti ekki fyrir bensíni á bílinn suður. Engu að síður tókst honum að ná góðu samkomulagi við sparisjóðinn á staðnum um að það yrði geymdur fyrir hann tékki svo að hann gæti bæði borgað bensínið á bílinn og keypt togarann. Síðan að sjálfsögðu, um leið og hann var búinn að kaupa togarann og skrifa undir kaupsamning, gat hann selt hluta af viðbótarkvótanum vegna norður-suður línunnar. Nægði það til að borga tékkann sem var geymdur og fyrir útborgun í togarann. Eftir að hafa átt togarann í tvö ár seldi hann togarann og losaði þar einar 60 millj. Flutti hann þá suður í dýrðina hér á höfuðborgarsvæðinu en kvaddi sparisjóðinn sinn með þeim orðum: Ja, það tók mig tvö ár að ná sömu eiginfjárstöðu og það hefur tekið ykkur 110 ár að ná. Þetta er góð lýsing, held ég, á kvótabraskinu.

Að lokum langar mig til að rifja upp söguna af því þegar Grettir barðist við Glám og lagði hann að velli á Þórhallastöðum við munn Forsæludals upp af Vatnsdal. Ég var þar á ferð í sumar og talaði þar við aldna konu sem á heima á bænum Forsæludal. Hún var að benda mér yfir ána á rústirnar af Þórhallastöðum þar sem Glámur var á sínum tíma húsmaður hjá bónda. Skessan í Forsæludal kom þar og drap Glám. Glámur gekk þá aftur, reið þar húsum og var öllum til óþæginda. Endaði síðan með því að Grettir tókst á við drauginn og lagði hann. En eins og menn muna, þeir sem hafa lesið Grettissögu, sagði draugurinn við Gretti, þegar hann var í andarslitrunum, ef hægt er að tala þannig, að hann skyldi hafa fyrir augum sér glyrnurnar sínar það sem eftir væri af ævi hans. Það háði Gretti mjög það sem hann átti eftir ólifað að sjá glyrnurnar í draugnum.

Þessi gamla kona í Forsæludal sagði mér að þegar væri mjög drungalegt og þungbúið í Forsæludal fyndist henni eins og hún sæi glyrnurnar í draugnum hinum megin árinnar á Þórhallarstöðum. Ég vona það að ég og afkomendur mínir, þegar við horfum út yfir Seltjörnina á Seltjarnarnesi út á Atlantshafið, megum sjá þar glyrnurnar í kvótadraugnum (Gripið fram í.) þegar búið er að leggja hann að velli. Hann mætti mín vegna gjarnan vera í búningi framsóknarmaddömunnar. En ég vona það að við megum sjá glyrnurnar í kvótadraugnum þegar við höfum lagt hann að velli hér á Alþingi.