21.12.1987
Efri deild: 35. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2890 í B-deild Alþingistíðinda. (2116)

181. mál, stjórn fiskveiða

Frsm. 3. minni hl. sjútvn. (Karvel Pálmason):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé rétt að taka það fram strax út af ræðu hv. síðasta ræðumanns að það er mesti misskilningur að ég hafi þolað illa undir þessari ræðu. Það sem ég var mest undrandi á er hversu hafi tekið stuttan tíma að heilaþvo nánast þann gamla stjórnmálaref sem var að fara úr ræðustól. (GHG: Gamla hvað, sagðirðu?) Stjórnmalaref. (GHG: Þetta hef ég aldrei heyrt áður.) Þessi hv. þm. er ekkert nýr í pólitík. Þetta er gamall stjórnmálarefur í gegnum tíðina og er að koma upp og reyna að telja þingheimi trú um það að hann sé tiltölulega nýr í faginu. (GHG: Hvað er stjórnmálarefur?) Þetta er mesti misskilningur. Þetta er með eldri stjórnmálarefum sem eru inni á Alþingi, en hefur samt verið heilaþveginn á fjórum árum svo gersamlega að ekkert er eftir af þeirri stefnu sem hann hélt fram þá. Ekki eitt einasta orð stendur eftir af þeim ræðum sem þessi hv. þm. hélt fyrir fjórum árum. (EgJ: Breyttar aðstæður.) Ég hefði aldrei trúað því að þessi hv. þm. yrði eftir fjögur ár mesti talsmaður kvóta á Íslandi, ekki þess kvóta sem við erum núna að búa við heldur aukins kvóta frá því sem nú er. Hver hefði trúað þessu fyrir fjórum árum? (Gripið fram í.) Hver hefði trúað þessu fyrir fjórum árum þegar menn hlustuðu á hv. þm. í Nd. Alþingis tala þá um kvótann? (GHG: Hefur hv. þm. ekki komið til Vestfjarða nýlega?) Jú, það er stutt síðan hann var þar. (GHG: Já, og menn eru ánægðir.) Af hverju spyr hv. þm.? (GHG: Ja, hann á að geta svarað sér sjálfur.) Hvort það sé stutt síðan ég hafi komið til Vestfjarða? Já, það er stutt síðan. (Gripið fram í.) Hv. þm. Núna er ég að tala um mína skoðun. Ég geri ráð fyrir að menn taki ekki upp eftir pöntunum óskir manna hingað og þangað. Hafa menn enga sjálfstæða skoðun í þessu máli orðið? Taka menn bara upp það sem kemur fram úti í bæ? Er það háttur þeirra sem nú hafa snúið af braut þess að verja þetta kerfi?

Hv. þm. sagði áðan að ég hefði talað af gáleysi í dag. Það er mesti misskilningur. Hann hélt því líka fram að ég hefði svo um talað að meiri hl. sjútvn. Ed. flytti brtt. af illum hvötum. Ég man ekki betur, og það geta menn auðvitað fengið á bandi, ég man ekki betur en ég hafi tekið það sérstaklega fram að nefndarmenn margir hverjir hefðu viljað ganga svipaða leið og formenn nefndanna lögðu til í upphafi starfsins. Ég fullyrði að Guðmundur H. Garðarsson, hvað sem hann segir í ræðustól, vildi ganga miklu lengra en brtt. gera ráð fyrir. Og komi hann upp og neiti því ef hann þorir. (Gripið fram í.) Nei, hann vildi ganga miklu lengra en þær brtt., sem hann var píndur inn á, gera ráð fyrir. (GHG: Málamiðlun. ) Menn verða að meta það hver fyrir sig hvað þeir eru að gera. Þetta er ekki málamiðlun í mínum huga. Málamiðlunin var sú sem við formenn nefndanna vorum með og hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson vildi ganga inn á en var píndur af þeirri braut. Hver gerði það? (GHG: Þetta er ekki rétt.) Þetta er víst rétt. (GHG: Nei, ég sagðist aldrei styðja allar tillögur.) Ekki allar. Því bjóst nú enginn við. En miklu meira en hér er um að ræða af hálfu meiri hl.

Þetta sýnir að hv. þm. hafði heila skoðun á tímabili. Hann var sjálfum sér samkvæmur allt fram á að það þurfti að fara að taka ákvarðanir. Það var þá sem pressan var sett á, hvaðan sem hún kom, og menn guggnuðu og hefði ég síst búist við því í þessum herbúðum hjá hv. þm. (GHG: Ég tek undir það.) Ég hefði síst búist við því þar, en það gerðist eigi að síður.

Hv. þm. talaði um karfaaflann á suðvestursvæðið. Ég spyr hv. þm.: Hvaðan á að taka þetta aukna karfamagn? Verður það hvergi tekið? Frá hverjum verður það tekið þar sem suðursvæðið á að fá meira? Hvaðan kemur það? (EgJ: Úr sjónum, sjáðu.) Já, hverjir hefðu fengið það ella? Hverjir hefðu fengið aflamagn þetta ella ef það fer ekki á suðursvæðið? Ja, ég er ekki hissa þó mönnum verði fátt um svör í þessum efnum. Skyldi enginn hafa vitað það annar en hv. þm. Guðmundur Garðarsson að aflinn kemur úr sjónum? Eru það ný vísindi? (GHG: Það var hv. þm. Egill Jónsson sem sagði þetta.) Það skiptir ekki máli hvorum megin það er. Það breytir ekki hlutunum hvorum megin það kemur. Nei, auðvitað er hér verið að taka upp annað form en verið hefur. Hér er verið að ganga á rétt einhvers og menn verða þá að skilgreina hver það er ef menn eru að tala um nákvæmlega sama aflamagnið en það er fært til. Ég óska eftir að fá vitneskju um hverjir það eru sem eiga að láta af sínu til suðursvæðisins.

Svo kemur hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson og segir: Við verðum að þróa okkur út úr kvótanum. Er verið að gera það núna? Ég spyr menn að því. Eru menn með frv. og brtt. meiri hl. sjútvn. Ed. að þróa sig út úr kvótanum? Hvernig getur mönnum dottið í hug að tala með slíkum hætti hér á Alþingi? Það er með ólíkindum að jafngreindur maður og hv. þm. er skuli láta slíkt út úr sér. Hér eru menn að herða tökin á kvótanum. Hér eru menn að bæta við. Frv. gerði ráð fyrir kvóta á smábátana. Að vísu hefur verið slakað til þar, en samt ekki nóg. Og frv. gerir ráð fyrir kvóta á úthafsrækjuna til viðbótar. Hér eru menn að ganga enn lengra inn í kvótann en hafði verið. (GuðmÁ: Ertu á móti því að setja kvótareglur?) Ég er á móti því að gera það eins og frv. gerir ráð fyrir, já. (GuðmÁ: Já, en ertu á móti því að setja kvótareglur?) Ég er ekkert á móti stýringu í þessum efnum. Máli skiptir hvernig stýringin er. Það er ekki sama hvernig þú notar stýrið. (StG: Þú vilt láta aðra ráða.) Það er ekki sama hvernig þú notar stýrið, hv. þm. Til þess er nú einu sinni stýri á bíl að menn verða að koma við það. Það stýrir ekki sjálft. Og það er ekki sama hver heldur um stýrið, hvorki á bíl eða bát. Og það fer eftir því hver sá er sem ræður ferðinni. Það er meginmálið. Menn tala hér eins og ég veit ekki hvað.

Ég spyr hv. þm. Guðmund H. Garðarsson: Hverjir eru að vekja upp vonir hjá almenningi í þessu máli? Við hvern á hann? Það væri gott að fá skýringu á slíku. Hefur einhver verið að gefa falskar vonir í þessum efnum? Það eru þá kannski þeir sem lofuðu einhverju öðru fyrir kosningar en þeir ætla að gera núna, ef hann á við það? Kannski það sé það sem hann meinar, að þeir sem núna ætla að standa að þessu hafi sagt eitthvað allt annað fyrir kosningar. Þá hafa menn verið að gefa falskar vonir ef það er það sem hv. þm. á við. Ég tek það svo ef engin andmæli koma.

Ég legg áherslu á að það er alveg með ólíkindum að þeir sem nú koma upp mæla með kvóta, léti vera þó menn mæltu með óbreyttum kvóta, en að óska eftir viðbót og að herða tökin á miðstýringunni. Mér heyrðist að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson væri að afþakka minn stuðning sem stjórnarsinna, eins og hann orðaði það, og vildi heldur að ég væri í vörninni hinum megin frá. Það skil ég ósköp vel, ef það er það sem hann á við, hann vilji hafa góða vörn á þeim kantinum sem á að taka höggið af. Þetta er rétt skilið auðvitað. Menn treysta sér ekki um of, sem eru að framkvæma þetta hér, að verja til hlítar, ég tala nú ekki um þeir sem hafa talað þveröfugt fyrir nokkrum árum. (GHG: Breyttar aðstæður.) Breyttar aðstæður! Þá áttu menn að segja það fyrr. Það voru ekkert breyttar aðstæður hjá hv. þm. fyrr en fyrir nokkrum dögum. Hann hefur verið sveigður inn á þessa línu, píndur og plagaður nánast til að taka þessa afstöðu. Það er það sem hefur gerst hver sem þar á í hlut.

Ég tek þetta í öfugri röð við það sem kom fram hjá hv. ræðumönnum. Ég tek undir það með hv. þm. Guðmundi Garðarssyni að hv. þm. Svavar Gestsson flutti góða ræðu, enda las hann megnið af ræðunni upp úr ræðum hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar fyrir fjórum árum, algerlega þveröfugt við það sem hv. þm. var að tala áðan, alveg í „kruss“. Og það var besta ræðan, sagði hann, það var besta ræðan sem afsannaði allt sem Guðmundur H. var að segja í kvöld, langbesta ræðan. Það er nú samhengi hjá mönnum að tala í þessum dúr hér. Ja, guð hjálpi þér, Guðmundur H. Garðarsson. Ég segi ekki annað. (GHG: Það gerir hann líka.) Ég vona það a.m.k. En láta sér detta í hug að tala í þessum dúr á hv. Alþingi. Langbesta ræðan sem flutt hefur verið í kvöld var sú sem Svavar Gestsson hélt og hann las upp úr mínum ræðum fyrir fjórum árum sem er allt annað en ég meina í kvöld og segi. Þetta er alveg með slíkum ólíkindum að engu tali tekur. Ég hef aldrei heyrt annað eins og hef ég þó sjóast talsvert í pólitík um ævina. En að heyra svona málflutning! Ég skil bara ekkert í þeim sem eru með honum í þessu ef þeir halda heilsu eftir svona tal. (GHG: Hefur hv. þm. aldrei skipt um skoðun?) Jú, að sjálfsögðu eiga menn að skipta um skoðun. Það eiga menn að gera ef þeir telja annað réttara. Ég segi eins og maðurinn sagði. Ég er á þessari skoðun þangað til ég breyti um. (GHG: Gott að fá þetta í þingtíðindin.) Alveg rétt. En ég er á sömu skoðun enn og ég var fyrir fjórum árum, hv. þm. (GHG: Af því að þú treystir því að aðrir bjargi þessu.) Nei takk, hv. þm. Ég frábið mér slíkt. Það vissu allir um mína afstöðu að því er varðaði kvótann frá upphafi. Ég hef engan leynt því. En það eru kannski aðrir sem hafa leynt einhverju þar til nú. Mér heyrist það á þeim málflutningi sem hér átti sér stað áðan og vísa til gömlu ræðnanna.

Hv. þm. Svavar Gestsson spurði: Af hverju reyna menn ekki að semja um þetta mál? Af hverju reyna

þeir ekki að ná því saman? Það var einmitt það sem við formenn sjútvn. vildum gera og lögðum fram ítarlegar brtt. til að reyna að ná samstöðu. Ég veit ekki betur, og leiðrétti menn þá ef ég fer rangt með, en stjórnarandstaðan, ef menn tala á þeim nótum, hafi verið verulega inni á þessum breytingum og m.a.s. gallharðir stjórnarliðar eins og Guðmundur H. Garðarsson og fleiri. En einhvers staðar var kippt í, einhvers staðar var lokað á. (Gripið fram í.) Ég var að enda við að segja að ég vissi ekki betur en stjórnarandstaðan hefði að verulegu leyti fallist á brtt. sem formenn nefndarinnar lögðu fram. (Gripið fram í: Þeir komu sér ekki saman um neitt.) Er það rangt, hv. þm.? Þeir geta þá kannski svarað því hér á eftir, fulltrúar stjórnarandstæðinganna. (Gripið fram í: Við sjáum það bara á þingskjölunum.) Á þingskjölunum? Þær brtt. komu fram áður en formenn nefndanna gerðu sínar athugasemdir. Neita menn þessu? Það er fyrst í gær sem brtt. frá mér komu fram í þinginu sem þskj. Ég veit ekki betur en brtt. Alþb., Borgarafl. og Kvennalistans hafi komið sem þskj. löngu áður. Neita menn því? Ég held að menn ættu að vita hvað þeir eru að tala um. Það var það sem við vildum reyna, að ná þessu meira saman en er. Þetta er allt meira og minna tvístrað hvað sem menn vilja tala nú um að haldi í meiri hl.

Ég held mig enn við þá stefnu sem hæstv. fjmrh., formaður Alþfl., lagði til í byrjun fyrir ári, nákvæmlega sömu stefnu.

Og þá skulum við koma að hv. þm. Halldóri Blöndal. Hann er nú horfinn héðan fyrir löngu. Hann er einn af þeim sem alltaf eru að spyrja hv. þm.: Hvað meinar þú með þessu eða hinu? en er svo farinn um leið og menn fara að tala við hann. Ég vildi gjarnan fá þann hv. þm. í salinn, Halldór Blöndal, herra forseti. Hann beindi spurningum til mín og ég vil fá að svara þannig að hann heyri. (Forseti: Hann á að vera hér samkvæmt tölvuspám.) Vill forseti gera ráðstafanir til þess að hann verði hér? Ég hyggst ekki halda áfram máli mínu fyrr en hann kemur þá. (VS: Geturðu ekki talað um eitthvað annað á meðan, hv. þm.?) Ég tel það, skrifari vor, svo mikilvægt mál sem hv. þm. Halldór Blöndal spurði um að ég tel nauðsynlegt að eyða talsverðum tíma í að ræða það. Það hefur breytt æðimiklu efnislega það mál sem hann spurði um og ég vil endilega fá hann í salinn. Í þeim efnum er ekki mér um að kenna. Ég er þm. sem er í andstöðu við meiri hl.

Ég fagna því að hv. þm. Halldór Blöndal gengur í salinn. Ástæðan fyrir því að ég óskaði eftir því var að hv. þm. beindi til mín nokkrum spurningum í ræðu í kvöld sem ég hyggst svara.

Hv, þm. Halldór Blöndal sagði í kvöld að fylgi þeirra sem vinna við útgerð og fiskvinnslu hafi farið vaxandi við kvótann. Er þetta rétt? Og hann vitnaði í því sambandi til frv., sem ég var um að tala áðan, sem formaður Alþfl., hæstv. fjmrh., flutti ásamt mér og hv. þm. Ólafi Þórðarsyni á sl. hausti, og spurði um það: Af hverju er hv. þm. Karvel Pálmason fallinn frá því frv. sem hann flutti í fyrra? Þessi hv. þm., sem hér stendur, er ekkert fallinn frá því. En það hafa sumir fallið á því að gagnrýna það á sínum tíma. Við skulum rifja það aðeins upp. Hverjir gagnrýndu þetta mest? Það var hv. þm. Gunnar G. Schram. Menn vita nú örlög hans sem þm. Það er eins og mér bjóði í grun að íhaldið hafi tapað einhvers staðar víðar í kjördæmum. Hver var hinn aðalgagnrýnandinn? Það var hv. þm. Halldór Blöndal. Það er eins og mig rámi í að íhaldið hafi tapað eitthvað á Norðurlandi eystra í síðustu kosningum og það verulega. Eða er þetta ekki rétt? (EgJ: Við töpuðum alls staðar.) Það er ekki alveg rétt, hv. þm. (HBl: Af hverju flytur ekki þm. frv. aftur ef hann vill það?) Ég er bara að svara spurningum hv. þm. Þeir sem gagnrýndu þetta frv. og reyndu að slá pólitískar keilur út frá því hafa fallið hver um annan þveran, bæði í prófkjörum og í kosningum. Og hvar er betri sönnun fyrir því að þetta frv., þessi hugsun á fullan rétt á sér? Og um hvað var hún? Hún var um það að gefa önglaveiðarnar frjálsar og láta þau sjávarþorp, sem að verulegu leyti, langmestu leyti byggja lífsafkomu sína á fiskveiðum og fiskvinnslu, njóta einhvers forgangs. (HBl: 65% nákvæmlega.) Við getum deilt um prósentuna, hv. þm. (HBl: Hv. þm. gaf sjálfur prósentuna.) Hún var ekki óumbreytanleg. (HBl: Hún var óumbreytanleg.) Hv. þm. Halldór Blöndal. Ég veit um frv. Það var rifjað upp í Morgunblaðinu og ég hygg að menn hafi lesið það þar. Það er ekki orð um það í þessu frv., hv. þm. Halldór Blöndal, að það eigi að skera niður annars staðar, ekki orð. Ef menn eru á því að það sé ekki nægilegt aflamagn verður að gera ráðstafanir til að þeir, sem búa einvörðungu að þessum veiðum, njóti forgangs. (HBl: Þetta er frv. um að leggja niður útgerð á Íslandi.) Það eru hrein ósannindi hjá hv. þm. Þessi hv. þm. gerði sér það að dundri í gegnum sjávarútvegsnefndir að panta sérstaka, eftir pöntun frá Byggðastofnun, umsögn um þetta frv. á fölskum forsendum. Því hefur verið svarað opinberlega. Og það var mjög gott að fá þetta inn í umræður um þetta mál einmitt á þessum grundvelli. Ég veit um það sem hv. þm. er með í höndunum. Það er sérstök pöntun fyrir íhaldið sem átti að nota fyrir kosningarnar í vor og þeir féllu þá á eigin bragði eins og oft áður, þeir sem harðast börðust gegn því. Þetta er sannleikurinn, hv. þm. Halldór Blöndal.

Hv. þm. spurði líka um hvað ég meinti með brtt. minni um byggðakvótann. Auðvitað hugsa ég þá um þær byggðir sem búa fyrst og fremst við þessi lífsskilyrði, að þessu sé ekki kippt frá þeim í einum vetfangi. Það er átt við að kvótinn sé fyrir hendi þó að einhver áföll verði hjá einstaka skipi, en byggðarlagið blæði ekki fyrir það. (HBl: Og hvar má taka kvótann?) Það er kvóti sem var á öðru skipi. Hefur ekki hv. þm. lesið brtt.? Það er kannski ástæða til þess að gera athugasemdir við það. Þetta ætti hv. þm. að vita því hann er í sjútvn. Ed. og mætti á tveimur fundum af níu eða tíu þannig að ég er ekki hissa þó að hann sé illa upplýstur að því er þetta varðar, hefði getað verið það betur. Það er tímafrekt að fara margar umferðir yfir nákvæmlega sama málið, fyrst í nefndunum þar sem hv. þm. eiga að vera og taka svo aðra stund í það í þinginu og þarf að draga þá inn með töngum til að þeir hlýði á mál manna. (HBl: Þm. leiðist ekki í ræðustólnum.) Það hefði kannski verið þarfara verk að tala við einhvern annan hv. þm. en Halldór Blöndal, en eigi að síður skal það gert.

En það er ástæða til að spyrja hv. þm. Halldór Blöndal um það þegar hann er að gera mér upp þessar hugmyndir eða skoðanir: Á hann þá ekki líka við hæstv. fyrrv. sjútvrh., hv. þm. Matthías Bjarnason? Hann er svipaðrar skoðunar og ég. Hann stóð að þeim brtt. sem lagðar voru fram í nefndinni og var fjallað um. Hvað er hv. þm. Halldór Blöndal að gefa í skyn með flokksbróður sinn, fyrrv. sjútvrh.? Hvað skyldi það vera? Er þetta öll einingin innan þingflokksins? Ég bið menn að hugsa um þetta. Kannski ræður hæstv. fyrrv. sjútvrh. eitthvað álíka, hefur álíka þungavigt í flokknum og hv. þm. Halldór Blöndal. (EgJ: Er Alþfl. sammála ræðumanni?) Alþfl. er sammála því, og það var í stefnuskrá Alþfl. fyrir kosningarnar, að útvíkka og gera kvótakerfið sveigjanlegra en það er nú. Lesi menn stefnuskrána. (EgJ: Hvað hefur ræðumaður að segja?) Ég er að segja það. Hefur ekki þm. hlustað? Ég hélt að ég talaði svo hátt að menn heyrðu. Það er einmitt það sem ég hef verið að segja. Ég er að útfæra stefnu Alþfl. Ég er ekki síst að útfæra stefnu Alþfl. á Vestfjörðum. (EgJ: En hinir?) Þar verða þeir að svara fyrir sig. Ég tek ekki umboð af mönnum til þess að tala fyrir þá. Ég geri ráð fyrir að þeir geti svarað því hér ef þeir eru algerlega ósammála mér. En ég ætla þeim að hafa sínar skoðanir eins og ég vil hafa mínar. Það gildir jafnt.

Ég spyr hv. þm. Halldór Blöndal: Er hann að gera Matthíasi Bjarnasyni upp svipaðar hugrenningar og hann ætlar mér? Ég skil það ef hann ætlar það til mín, en mér er það ekki alveg fullkomlega skiljanlegt ef hann meinar það líka til hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar því að ég hygg, hvað sem menn segja um þann að miklu leyti ágæta mann, að hann hafi talsvert mikið vit á þessum hlutum að því er varðar fiskveiðar og fiskvinnslu, útgerð, og þekki nokkuð til hvað er þjóðinni fyrir bestu í þeim efnum.

Ég held nefnilega, hv. þm. Halldór Blöndal, að það sé rangt hjá þér að Matthías Bjarnason sé að reyna að fiska í gruggugu vatni í þessum efnum. (EgJ: Var einhver að segja það?) Hv. þm. Halldór Blöndal sagði það, já. Um leið og hann nefnir mitt nafn í þessum efnum stóð Matthías Bjarnason líka að þeim breytingum sem ég var að flytja. Menn geta ekki skotið sér á bak við slíkt. Hv. þm. Halldór Blöndal er að tala um að Matthías Bjarnason sé að fiska í gruggugu vatni í þessum efnum. Þetta eru kveðjurnar frá hinu efra til hins neðra. Og svo segir hv. þm. Halldór Blöndal að ég sé að tala um skoðanir fyrir mitt kjördæmi. Það skyldi ekki vera að það væru fleiri sammála mér í þessum efnum, að það ætti númer eitt að láta þá njóta auðlinda hafsins sem búa næst þeim, er handhægast að sækja aflann og þar sem er ódýrast að koma honum til skila? Ég hugsa að það yrðu margir, hvar í pólitískum flokki sem menn eru, sem eru sammála mér í þessu. Og m.a.s. var það svo að þeir hv. þm. íhaldsins sem börðust harðast gegn þessu féllu á því bragði.

Svo sagði hv. þm. Halldór Blöndal að Karvel Pálmason væri að elta almenningsálitið. Ja, ég held að það verði ekki sagt um hv. þm. Halldór Blöndal að hann njóti mikils almenningsálits í landinu að því er varðar kjörfylgi, það tek ég fram, þannig að það er kannski munur á okkur í þessum efnum. En um það ætla ég ekki að deila við hv. þm. Mitt frv. var sett fram nær hálfu ári áður en kosningar áttu sér stað og ég a.m.k. met það svo að mín sjónarmið hafi verið staðfest. Menn hafi verið á því að það þyrfti meiri sveigjanleika til að styrkja landsbyggðina og til að koma nýjum aðilum inn í þessa útgerðargrein og það þurfti líka og þarf enn að hyggja betur að smábátunum. Með þeirri stefnu sem frv. gerir ráð fyrir, að vísu er nokkur breyting með brtt. meiri hl. nefndarinnar, en eins og frv. gerði ráð fyrir eru menn í raun og veru að rústa heilu byggðirnar í landinu. Kannski menn vilji það, telji ekki nóg að gert í þeirri byggðastefnu sem verið hefur um áraraðir og telji meiri þörf á að láta frekar kné fylgja kviði í þeim efnum en verið hefur.

Hæstv. sjútvrh. var mjög hógvær í kvöld eins og hann er yfirleitt. Hann sagði að þær tillögur sem hér hefur verið um að ræða hafi verið samþykktar samhljóða á fiskiþingi. Það má vera að rétt sé. En viti ég rétt eiga smábátaeigendur ekki sérstakan fulltrúa á fiskiþingi. (Gripið fram í: Jú, jú.) Eru þeir með sérstakan fulltrúa? (EgJ: Já.) Þá biðst ég velvirðingar hafi ég farið með rangt mál. Alltaf vil ég hafa það sem réttara er. Einhver segir hér að þetta sé rangt hjá ráðherra. Ekki þori ég að fullyrða neitt þar um því ég þekki það ekki nógu vel. En það breytir í sjálfu sér ekki meginmálinu um hvort menn eru að gera rétt eða rangt. Meginmálið er að menn eru að skerða möguleika þessara aðila í greininni og eru að skerða þá meira en aðra að því er varðar veiðar. Það er meginmálið. Telja menn þörf á því að skerða frekar smábátana eða meira en aðrar veiðar? Það er verið að gera það, hv. þm. Halldór Blöndal. (EgJ: Smábátana?) Já, það er verið að skerða þá meira en verið er að gera annars staðar.

Hæstv. ráðherra sagði að það væri óeðlilegt að auka netaveiðar. Það getur menn greint á um. En hann sagði líka: Það er ekki áhugamál á Vestfjörðum að gera slíkt og þó er ég að flytja málið. Þetta fer ekki alveg saman við kenningar hv. þm. Halldórs Blöndals, að ég hugsi einvörðungu um Vestfirðinga.

Hæstv. ráðherra vék að þeim skipum sem horfið hafa. Ég vil gera greinarmun á því hvort skip hafa farist eða hvort um er að ræða úreldingu á skipum. Mér finnst þar reginmunur í þessu dæmi.

Mér finnst í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að það sé endurnýjað skip í stað þess sem ferst. Mér finnst uppi annað viðhorf þegar menn eru að tala um úreldingu hjá öllum þeim sem þar eru tilteknir af ráðuneytinu. Þetta er tvö mál í mínum huga. (GHG: Það hentar þér.) Þetta eru tvö mál í mínum huga. Hæstv. ráðherra segir að það muni kosta um 3000 tonn ef þetta verði gert, 1% af heildarafla. Ekkert rengi ég það. En ég held að það þurfi að horfast í augu við þær staðreyndir að þetta þurfi að gerast.

Síðan talaði hæstv. ráðherra um loðnuskipin og sagði að tvö ný loðnuskip þýddu 4% af aflanum. Er það ekki rétt? Ekkert rengi ég það. En eigi að síður. Það var loðnuskip fyrir hendi á Vestfjörðum. Er það þá réttlætanlegt að ekkert skip komi í staðinn fyrir það þó að nánast fullkomin verksmiðja sé fyrir hendi á svæðinu til að vinna loðnu? Auðvitað getur menn greint á um þetta. En ég er eigi að síður þeirrar skoðunar að Vestfirðingar eigi að eiga möguleika á því að vinna loðnu eins og í öðrum landshlutum. Ég sé ekkert sem mælir með því að þeir séu settir hjá.

Hæstv. ráðherra sagði: Það er ekki ástæða til að fjárfesta í nýjum skipum nú. Það kann að vera rétt. En var ástæða, hæstv. ráðherra, til að fjárfesta í öllum vinnslustöðvunum sem veitt hefur verið leyfi fyrir á undanförnum 2, 3, 4 árum? Var ástæða til að fjárfesta þar þó að nægar vinnslustöðvar væru fyrir hendi til að vinna þann afla sem barst að landi? Ég held að menn verði að hafa samhengi í þessu. Það er búið að fjárfesta í vinnslustöðvum, 17, 18, 19 ef ekki meira, en neitað um skip þeim stöðvum sem hófu veiðar fyrir áratugum. Ég tel að það sé ekkert samræmi í þessu.

Ég hef fengið upplýsingar um það að því er varðar smábátamenn, ég held að það sé rétt hjá mér, að þeir greiði ekki atkvæði á fiskiþingi. Þeir hafa ekki atkvæðisrétt. Kannski breytir það ekki miklu í þessu máli því að hér eru menn að tala um hvort eigi að gera grundvallarbreytingar á því að skerða veiðar smábáta. Og ég spyr hæstv. ráðherra að því: Er nokkuð verra að hafa óbreytta greinina að því er varðar smábátana eins og hún er í lögunum nú en hún hefur verið undanfarin tvö ár, kannski einhverjar breytingar frá því í fyrra í reglugerðum? En er verra að hafa það næsta ár en hefur verið undangengin ár? Ég er þeirrar skoðunar að menn þurfi ekki að hafa svo miklar áhyggjur af þessari bátastærð. Það hefur a.m.k. verið reynslan í gegnum tíðina að veðurfar hefur ráðið meira um róðra á þessum bátum en reglustikureglugerð hér í Reykjavík. Það segir miklu meira til sín á þessari bátastærð veðurfarið en eitthvað annað. Það þarf ekki að vera að herða þær reglur sem að þessum aðilum lúta. Það er ekkert skynsamlegt.

Ég spyr þá menn sem eru núna að tala um að það þurfi að auka karfaaflann á suðurlínusvæðinu eins og menn kalla: Hvað var gert þegar kvótinn var settur á við Vestfirði? Þeir voru lækkaðir verulega. Þeir voru settir saman við Norðurland. Þeir hefðu átt að hafa meira hefði verið bara tekið tillit til þeirra. Þeir voru lækkaðir verulega þá. Um það geta menn deilt hvort það var rétt eða rangt. En ég er þeirrar skoðunar að við landshluta eins og Vestfirði, sem númer eitt byggir fyrst og fremst á fiskveiðum og fiskvinnslu, eigi að gera betur en aðra af því að aðrir landshlutar hafa önnur tækifæri til atvinnusköpunar. Það er ekkert réttlæti í því að fólk sem lifir nánast einvörðungu á fiskveiðum og fiskvinnslu sé sett til jafns við fólk sem býr í landshlutum sem hefur aðrar atvinnugreinar til að byggja upp með. Það er það sem þarna er um að ræða. Þessa hafa Vestfirðir goldið frá upphafi.

Ég held að það sé algerlega út í hött hjá hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni að tala um það hér og nú að menn séu að feta sig út úr kvótanum. Ég held að menn séu að festa sig enn meira í kvótann og herða enn meira tökin frá því sem verið hefur. Hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson gagnrýndi menn fyrir að koma ekki með heilu frumvörpin, lagabálkana og leggja hér á borðið. Hafa menn ekki haft nógu úr að spila í þeim efnum undangengin dægur? Þurfa menn meira í þeim efnum? Menn eru að rífast um stýringuna á þessu kerfi og það er það sem máli skiptir. Það er ekki sama hver skipstjórinn er heldur, hv. þm. Halldór Blöndal. Það breytir líka miklu. Með þessu eru menn, hafa verið og eru, að fela einum einstaklingi nánast allt það vald sem hér er um að ræða og ég skil ekki að Sjálfstfl. skuli nánast í einu vetfangi hafa gengið undir þessa takkameðferð hæstv. sjútvrh., takkameðferð. (EgJ: Hvað er það?) Það er að styðja á takka og þá fer allt í gang og menn hlýða. Svo einfalt er það. Ég sé ekki betur en það hafi gerst. Ég tók fyrirvara þingflokks Sjálfstfl. um gildistíma t.d. sem svo að hann væri algerlega andvígur því að vera neitt að tala um meira en tvö ár. Það hefur orðið önnur raunin á. Mér skilst að menn séu búnir að fallast á þrjú ár, meiri hl. Allt samkomulag, auðvitað. Helmingaskiptareglan blífur enn. Það er enginn vafi á því. Hún blífur enn og mun blífa lengi, íhald framsókn. Þar mun það blífa. (GHG: Þm. þekkir þetta.) Nei, sem betur fer þekkir sá þm. sem hér stendur þetta ekki. En ég heyri að aðrir þekkja og feta þau spor áfram. (EgJ: Hvernig semja þeir við vinnuveitendur, verkalýðsmennirnir?) Hefur hv. þm. aldrei staðið í slíku? (EgJ: Er það ekki málamiðlun?) Það er mjög misjafnt. Það er ekki oft sem það gerist, þá tala ég um verkalýðshreyfinguna, að hún sveigir sig algerlega undir ægivald vinnuveitenda eins og mér sýnist að þingflokkur Sjálfstfl. hafi gert í skiptum sínum við framsókn. Það er ekki oft sem slíkt gerist. (EgJ: Ég sagði málamiðlun.) Ég er að tala um staðreyndir.

Ég skal ekki hafa öllu fleiri orð um þetta, virðulegi forseti. (HBl: Það er synd.) Það koma trúlega aðrir í staðinn. En ég segi fyrir mig að með frv. eins og það lítur út mun ég ekki greiða atkvæði. Ég tel að það sé brot á stjórnarsáttmála núv. hæstv. ríkisstjórnar að útfæra fiskveiðistefnuna með þeim hætti. Það gengur líka gegn samþykktum kjördæmisþings Alþfl. á Vestfjörðum fyrir síðustu kosningar í fiskveiðimálum. Ég styð ekki að frv. sem slíkt gerir nái hér fram að ganga.