21.12.1987
Efri deild: 35. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2900 í B-deild Alþingistíðinda. (2117)

181. mál, stjórn fiskveiða

Frsm. 2. minni hl. sjútvn. (Danfríður Skarphéðinsdóttir):

Virðulegi forseti. Mér er sönn ánægja að því að byrja á því, reyndar að hv. 14. þm. Reykv. Guðmundi H. Garðarssyni fjarstöddum, að þakka fyrir jákvæð orð og hrósyrði í garð okkar kvennalistakvenna. Ég get fullvissað hann um að við mundum líka fara hægt og hljótt í utanríkismálunum og honum væri óhætt að treysta okkur fyrir þeim. Við mundum reyna að taka á þeim af þeirri sömu ábyrgð sem við reynum að vinna alltaf eftir.

En það hefur margt komið fram í umræðunum í dag sem hefði auðvitað verið mjög gagnlegt að við hefðum verið búin að ræða dálítið löngu fyrr í nefndarstarfi okkar og það kannski sést best á umræðunum að við ræddum alls ekki nóg eins og ég reyndar gat um fyrr í máli mínu hér í dag. En ég gat líka um það hérna í 1. umr. að Kvennalistinn studdi á sínum tíma kvótafrv. og við þóttumst á þeim tíma eða þær þingkonur sem voru hér á Alþingi þá sjá á því ýmsa galla, en sáum ekki betri leið þannig að tekin var ákvörðun um að styðja það. Að þessum reynslutíma loknum teljum við hins vegar að við höfum séð á því þá annmarka og höfum þess vegna gert á því þær brtt. sem ég kynnti hér við 1. umr. málsins.

En við erum algerlega sammála því að mannlegrar stjórnunar er þörf. Það er ekki hægt að veita ótakmarkaða sókn í þessa takmörkuðu auðlind okkar þannig að mannlegrar stjórnunar er svo sannarlega þörf núna því að við þurfum ekki að hugsa bara um okkur sjálf og daginn í dag heldur líka um framtíðina og þá sem eiga að erfa landið.

Eitt af því sem fram hefur komið aftur og aftur í umræðunum í dag er þetta með valdið, valdið sem liggur í sjútvrn. varðandi fiskveiðistjórnunina, og eins og ég hef sagt teljum við að ekki sé vafi á að stjórnunar sé þörf, en spurningin er hver á að hafa valdið og hvar á það að liggja. Með því valdi sem sjútvrn. er veitt er einum manni falið vald sem snertir lífsafkomu og í raun örlög byggðarlaga víða um landið sem byggja á sjávarútvegi. Þetta varðar hag fyrirtækja og einstaklinga sem hafa framfæri sitt af sjávarútvegi og standa næst honum. En það er svo sannarlega ekki hægt að öfunda hæstv. sjútvrh. af öllu því valdi sem honum er gefið og þess vegna er rétt og honum greiði gerður með því að draga úr því.

Það sem ég varpaði fram í upphafi máls míns voru tvær pólitískar grundvallarspurningar sem ég talaði um í dag. Það var annars vegar þetta með valdið og hins vegar spurningin um hver á auðlindina. Það hefur verið skilgreint í því lagafrv. sem fyrir liggur að það sé íslenska þjóðin sem á þessa auðlind. Eins og ég sagði í morgun finnst mér það skjóta skökku við að þessi auðlind sé síðan afhent einstaklingum og útgerðarfyrirtækjum.

Við höfum lagt fram brtt. eins og fram kom og það er mjög trúlegt að þær séu ekki 150% fullkomnar. Við höfum ekki heilt ráðuneyti á bak við okkur til að útfæra þær. Það hefur komið í ljós eftir fjögurra ára reynslutíma þeirra laga sem nú eru í gildi að þau eru ekki gallalaus þó svo þau hafi verið unnin af sérfræðingum í sjútvrn. á sínum tíma. Við vildum svo sannarlega taka þátt í því að reyna að endurskoða þetta kerfi, eins og reyndar kom fram fyrr í kvöld — ég man nú ekki lengur einu sinni hjá hvaða hv. þm. — um það að við værum kannski að styðja starfsáætlun ríkisstjórnarinnar með því að vilja endurskoða, en það kemur ekki fram mikil endurskoðun í því frv. sem við höfum fyrir framan okkur. Það er orðið nokkuð undarlegt og skýtur skökku við ef stjórnarandstaðan er að reyna að framfylgja starfsáætlun ríkisstjórnarinnar, ef hún getur ekki gert það sjálf.

Við höfum allan tímann meira og minna verið að ræða kerfi en alls ekki nóg um hugmyndir. Við höfum festst í þessu kerfi og ekki séð upp úr því, en það eru raunar ýmsar hugmyndir sem þarf að ræða. Það eru kannski fyrst og fremst grunnspurningar í sambandi við valdið og hver á auðlindina. Í brtt. okkar leggjum við til að það sé ekki algerlega ókeypis aðgangur að þessari auðlind. Við leggjum til að þeir sem fá að njóta hennar greiði fyrir það eitthvert tiltekið gjald sem ég er ekki með nákvæmlega upp á krónu, en alla vega að 20% af veiðiheimildum verði gjaldskyld miðað við þá annaðhvort afla upp úr sjó eða einhverja viðmiðun sem menn gætu fundið sér.

Ég ætla aðeins að vitna til greinar úr DV frá fimmtudeginum 19. nóv. sl. Þar skrifar dr. Jónas Bjarnason, sem er deildarstjóri hjá Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins, um fiskveiðistjórnunina í kvótasölu. Þó ég sé ekki sammála því að það eigi algerlega að bjóða kvótann til sölu á frjálsum markaði finnst mér rétt að vitna í þessa grein því að þar kemur fram ágætis skilgreining á því hver á fiskinn í sjónum. Greinarhöfundur undirstrikar það ágætlega í máli sínu. Hann segir, með leyfi forseta:

„Nú er að koma í ljós að ekki er unnt að ná fram helstu þjóðhagslegu markmiðum varðandi útgerð á Íslandi án kvótasölu eða auðlindaleigu á annan hátt. Á miðjum síðasta áratug bentu margir á þetta. Minnast má á prófessor Gylfa Þ. Gíslason, en hann hefur kennt fiskveiðihagfræði í Háskóla Íslands í mörg ár eftir að hann lauk stjórnmálastörfum. Kristján Friðriksson í Últíma ritaði mikið um málið og flutti fyrirlestra um land allt. Svo voru ýmsir aðrir sem einnig rituðu í sömu veru og greinarhöfundur var einn þeirra. Í lok síðasta áratugar varð einnig ljóst að íslensk pólitík yrði ekki móttækileg fyrir þeim rökum fyrir auðlindaskatti sem reynt hafði verið að kynna þjóðinni. Ástæðan fyrir því er hin sama og svo oft áður. Íslenskir alþm. sjá sumir hverjir svona rétt fram fyrir nefið á sjálfum sér. Nú hafa hlutir gerst sem marka ný þáttaskil í málinu. Nú heyrist af hvers manns vörum að nauðsynlegt sé að selja kvóta af hendi hins opinbera.“ Og höfundur spyr: „Hvers vegna eru menn orðnir vitrir nú?

Vegna þess að fólkið horfir nú upp á það að skip eru seld á milli landshluta fyrir upphæðir sem eru e.t.v. 100 millj. hærri en sem nemur verðmæti skipanna. Allt í einu sér fólk að það er verið að selja aðgang að þorskveiðum en ekki skip. Þetta mátti allt sjá fyrir, en málið þarf að vera áþreifanlegt. Allt í einu er kvótaguðinn orðinn að skurðgoði. Að ætla sér að framselja takmörkuð veiðiréttindi varanlega til tiltekinna og fárra útgerða á grundvelli veiðireynslu frá þremur árum í byrjun þessa áratugar er brjálæðisleg hugmynd. Að LÍÚ skuli vilja það er eins auðskiljanlegt og þegar franski aðallinn barðist gegn landakröfum almennings í Frakklandi síðla á 18. öld. Ef einhver samtök hafa komist yfir forréttindi munu þau aldrei af frjálsum vilja gefa þau eftir. Adam gamli Smith, forfaðir hagfræðinnar, lýsti þessu betur en aðrir fyrir rúmum tveimur öldum. Allir vilja bindast samtökum um forréttindi og hindra síðan frekari aðgang annarra að þeim.“

Hann varpar hér næst fram spurningunni: Hverjir eru hagsmunaaðilar? „Svarið er einfalt: Það eru allir Íslendingar. Auðvitað eru útgerðirnar hagsmunaaðilar, en það eru einnig fiskvinnslurnar í landi, allar ungu kynslóðirnar sem ætlað hafa að hasla sér völl í sjávarútvegi, allur almenningur sem metið hefur fiskveiðiauðlindina sem íslenska og fyrir Íslendinga, einnig skattborgarar landsins sem greitt hafa rekstur allra opinberra stofnana sem unnið hafa að því að koma stjórn á fiskveiðimálin þannig að ofveiði mætti minnka og útgerðarkostnaður yrði hóflegur. Íslendingar hafa staðið saman um að stefna að meginmarkmiðum í þessu máli, en nú er þröngur hópur hagsmunaaðila og stjórnmálamanna sem segir: Veiðirétturinn á að breytast í eignarrétt í höndum tiltekinna útgerða. Þá kippast margir við.“

En það er ekki einungis Jónas einn sem hefur varpað fram þessari hugmynd. Það hefur líka fyrrverandi leiðtogi Alþfl. gert í Morgunblaðinu 5. des. þar sem hann talar um þetta mál undir fyrirsögninni „Takmörkun sóknar, sala veiðileyfa.“ Ég hef gert árangurslausar tilraunir í dag til þess að verða mér úti um stefnuskrá Alþfl. Mig grunar að þar sé skilgreining á þeirri auðlind sem hafið er. Það hefur hins vegar ekki tekist og hún er sennilega uppurin síðan fyrir kosningarnar í vor. Hún hlýtur að vera eftirsótt mjög. Það er kannski eins gott að fólk lesi hana ekki mjög vel núna. (GA: Kannski er hún í felum.) Það sagði reyndar einn hv. þm. Alþfl. í dag: Þetta er eins og hún ætti að hafa verið. En hann segir ýmislegt hér, hann Gylfi Þ. Gíslason, í grein sinni. Ég ætla aðeins að vitna til hennar, með leyfi forsefa. Hann segir:

„Ráðstafanir þær sem gerðar hafa verið hér og annars staðar af opinberri hálfu til stjórnar á fiskveiðum hafa stefnt að því að takmarka veiðar að því marki að komið sé í veg fyrir ofveiði frá líffræðilegu sjónarmiði. En á grundvelli þeirra staðreynda, sem getið var í fyrri grein, að afli vex æ hægar með sóknaraukningu, hefur verið sýnt fram á að hámarkshagnaður af veiðum fæst með minni sókn en skilar hámarksafla. Þegar fiskifræðingar hafa sýnt fram á að um ofveiði sé að ræða er því ekki nóg að draga úr sókninni þangað til hámarksafla er náð, heldur þarf að draga úr henni þangað til hagnaður hlutaðeigandi fiskveiða hefur náð hámarki.“ Ég ætla ekki að þreyta ykkur með mjög löngum lestri úr þessu, en þetta er afar fróðlegt og vekur einmitt mjög upp þessa spurningu sem á okkur brennur: Hver er eigandinn? Hann segir hér í lok greinarinnar, með leyfi forseta:

„Sú breyting sem innheimta gjalds fyrir öll veiðileyfi hefði í för með sér er svo gagnger að ekki kæmi til greina að stíga slíkt spor í einu lagi, heldur yrði að gera það smám saman og árlega. I þessu sambandi er þess líka að geta að meginatriðið er ekki aðeins að leiðrétta það misrétti sem þegar er orðið, heldur að koma í veg fyrir að nýtt misrétti skapist á komandi árum. Þess vegna er mörkun meginstefnu nauðsynleg þótt ekki verði þegar í stað gripið til framkvæmda. E.t.v. væri hyggilegt að hafa í væntanlegri löggjöf um fiskveiðistefnu næstu ára ákvæði um að gjald fyrir veitt veiðileyfi sé eðlilegt og þegar skuli hafin athugun á framkvæmd málsins.“

Og hér er reyndar einn til sem skrifar um það sama og heitir sá Rögnvaldur Hannesson og er prófessor í fiskihagfræði. Hann segir í desemberhefti Sjávarfrétta, með leyfi forseta:

„Hins vegar sé skipting ágóðans af afrakstri fiskimiðanna ekkert einkamál þeirra sem útgerð stundi, heldur varði það þjóðina alla og því sé ekki óeðlilegt að kvótarnir, m.ö.o. afnotarétturinn af fiskimiðunum, lúti skattlagningu.“

Og hann segir um fyrstu kvótakynslóðina, sem er sú kynslóð sem fékk þennan ókeypis aðgöngumiða að auðlindunum fyrir fjórum árum síðan, með leyfi forseta: „Ágóðinn af kvótakerfinu hafði þannig fallið fyrstu kvótakynslóðinni í skaut sem eins konar happdrættisvinningur. Þeir sem á eftir komi þurfi að kaupa sér aðgöngumiða, þ.e. kvóta, til þess að komast í útgerð.“ Og hann leggur í þessu viðtali ríka áherslu á það að hafið sé auðlind sem er í upphafi félagseign þjóðarinnar.

Það er margt sem hefur verið skrifað og fjallað um í fjölmiðlum undanfarnar vikur varðandi fiskveiðistefnuna. Ég ætla að leyfa mér næst að vitna í DV 13. nóv. sl. þar sem einn hv. þm. Framsfl., Guðmundur G. Þórarinsson, skrifar grein undir fyrirsögninni „Fiskveiðistefnan og lénsskipulagið.“ Og auðvitað vakna sömu spurningar og ég varpaði hér fram í morgun: Hvernig ætla þessir hv. þm. sem ég hef vitnað til og tilheyra nú stjórnarliðinu að greiða þessu fiskveiðifrv. atkvæði sitt þegar þar að kemur? Guðmundur spyr hér í grein sinni:

„Hver á veiðiréttinn? Enginn vafi er á að kvótakerfið hefur þjónað mikilvægum tilgangi undanfarin ár. En margt hefur breyst og ekki verður komist hjá að taka nokkurt mið af breytingum. Stjórn á fiskveiðum er óhjákvæmileg. Auðlindin er takmörkuð og enginn getur tekið áhættuna af ofveiði og hruni fiskstofna. Kvótakerfi virðist óhjákvæmilegt en úthlutun fiskveiðikvóta er vandasamt mál. Mér virðist það úthlutunarkerfi sem verið hefur við lýði ekki ganga upp.“

Annar kafli er hér undir yfirskriftinni „Lénsskipulagið“, með leyfi forseta:

„Þetta minnir óneitanlega á hið illræmda lénsskipulag hér á árum áður. Lénsherrar fengu frá stjórnvöldum, konungi eða keisara yfirráð yfir auðlindum ákveðinna svæða, léna. Þessar auðlindir voru ýmist akrar, skógar, veiðilendur, beitilönd eða þess háttar. Afraksturinn rann til lénsherranna. Aðrir voru leiguliðar.

Meginauðlindir íslensku þjóðarinnar eru fiskimiðin. Útflutningsverðmæti okkar eru 70–80% sjávarafurðir. Stjórn þessara auðlinda verður að vera með þeim hætti að öll þjóðin njóti sem jafnast. Hugsum okkur augnablik t.d. að sjútvrh. úthlutaði öllum veiðikvótum til fiskvinnslunnar. Fiskvinnslan mundi þá auðvitað bjóða veiðarnar út. Þá mundi þróast frjáls markaður á fiskveiðum. Þeir útgerðarmenn sem gætu veitt fiskinn fyrir minnst verð næðu verkefninu, en fiskvinnslan mundi auðvitað fá að hluta erlenda togara til veiðanna ef þeir gætu skilað aflanum gegn lægra verði. Útgerðin mundi í harðri samkeppni um veiðina teygja sig niður í verði og afrakstur auðlindanna, fiskimiðanna, lenti hjá fiskvinnslunni sem ætti veiðiréttinn.“

Hann segir síðan í lok greinar sinnar, með leyfi forseta, par sem yfirskriftin er „Þróunin fram undan“: „Áframhaldandi úthlutunarkerfi hefur þá margar hliðstæður við lénsskipulagið. Ákveðnir aðilar eiga afnotaréttinn að fiskimiðunum og jarlinn af Halamiðum, greifinn af Selvogsbanka og fleiri slíkir munu spóka sig á götum borgarinnar og víða um landið. Hér er því flókið og viðkvæmt mál á ferðinni. Úthlutun kvóta til margra ára getur verið hættuleg.“

Í lokakaflanum talar hann um sölu veiðiréttinda: „Ég fæ ekki betur séð en að sala veiðiréttinda sé eina réttláta leiðin. Sala fiskveiðikvóta er reyndar við lýði. Líklega væri rétt að feta sig áfram til slíks kerfis, selja t.d. 10–20% veiðikvótanna á næsta ári. Þessa leið þarf að hugsa vel. Hagnað af sölu veiðikvóta mætti setja í sjóð er keypti upp gömul og óarðbær fiskiskip og væri auk þess nýttur á margvíslegan hátt til almannaheilla. Spurningunni um hver á veiðiréttinn hlýtur að verða að svara þannig að þjóðin sem heild eigi hann. Á fiskveiðum byggist það að unnt er að lifa nútímalífi hér norður við Dumbshaf. Við megum ekki koma upp lénsskipulagi á Íslandi. Auðlindir hafsins eru þjóðareign og afrakstur þeirra verður að dreifast sem jafnast í þjóðfélaginu.“

Þetta staðfestir enn einu sinni það sem við erum búin að vera að ganga í gegnum í allan dag að skoðanirnar eru trúlega jafnskiptar eins og fólkið sem um þær á að fjalla er margt. En hér minnist ég á þessar hugmyndir um hlutasölu á kvóta vegna þess að þetta kemur einmitt fram í þeim brtt. sem við fluttum. Hér er reyndar ein önnur grein sem ég hef um það sama eftir dr. Ragnar Árnason. Hann segir hér í Vísbendingu sem er vikurit um erlend viðskipti og efnahagsmál frá 12. ágúst 1987, með leyfi forseta:

„Heildarverðmæti aflakvóta um þessar mundir er vafalaust talið í milljörðum króna. Er fram líða stundir og fiskveiðarnar færast nær hagkvæmustu stöðu má ætla að heildarverðmæti aflakvóta hvers árs gæti auðveldlega numið 10 milljörðum króna.“

Þess má geta að þessir milljarðar sem hann tiltekur þarna eru hvorki meira né minna en þrefaldur tekjuskattur allra fyrirtækja í landinu.

Ég ætla aðeins að lokum að minnast á þær brtt. sem fram komu í sjútvn. og eru fram bornar hér í hv. Ed. af hv. þm. Karvel Pálmasyni. Hann bar fram nokkrar brtt. Ég minntist á einhverjar þeirra í dag og skoðun mína á þeim og að ég gæti hugsað mér að styðja þær einhverjar. Þó svo að við höfum lagt fram brtt., kvennalistakonur sjáum við ekki á þessari stundu, ef á að afgreiða þetta eins snarlega og lítur út fyrir núna, að hér gefist ráðrúm til svo mikilla skoðanaskipta að það verði hægt að breyta þessu alveg núna, en þetta eru hugmyndir sem eru komnar inn í umræðuna og það er greinilegt að þegar kvótakerfið var sett á 1985 komu fram þessar hugmyndir um t.d. byggðakvóta og þær hafa verið mjög í umræðunni núna.

Það komu líka hugmyndir fram um að skilgreina auðlindina sem þjóðareign og þetta gerist kannski smám saman. Við komum okkar hugmyndum á framfæri, þeir sem ekki eru svo heppnir, eða hvernig sem menn vilja líta á það, að vera í þessu svokallaða stjórnarliði.

Ég var að minnast hér á tillögur sem fram voru bornar af hv. þm. Karvel Pálmasyni og hugsanlegan stuðning okkar kvennalistakvenna við þær. Ég tiltók þær í dag og ætla ekki að fjölyrða um þær núna, en eins og ég segi, við sjáum ekki fram á að allar okkar brtt., ég held að óhætt sé að fullyrða að þær verði ekki samþykktar svona í einum grænum. Það væri mjög óraunsætt að standa hér upp og halda því fram, en þær síast kannski inn smám saman. Við munum hins vegar að sjálfsögðu taka þátt í að laga til það sem hægt er að laga til í þessu frv. sem við höfum liggjandi hér fyrir framan okkur á borðinu. Annars hefðum við að sjálfsögðu ekki tekið þátt í starfi nefndarinnar og ekki gert neitt til þess að reyna að koma okkar hugmyndum á framfæri, þannig að það var reynt í nefndinni, eins og hv. formaður gat um hér áðan, að ná einhverri samstöðu um þær hugmyndir sem hann og formaður sjútvn. í Nd. báru fram sameiginlega og verða væntanlega bornar fram þar líka, en það tókst sem sé ekki. Það verður því að koma í ljós hver úrslit þeirra verða.

Ég hef lokið máli mínu, hæstv. forseti.