21.10.1987
Neðri deild: 5. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í B-deild Alþingistíðinda. (212)

43. mál, leyfi til slátrunar

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það mætti margt segja um það mál sem hér er á dagskrá og þá umræðu sem hér hefur farið fram. Það hafa eins og oft áður fallið hér ummæli um „virðingu Alþingis“. Ég heyri það býsna oft úr munni hv. þm. þegar þeir eru að andæfa gegn máli að nú sé verið að ganga gegn virðingu Alþingis. Það hefur verið sagt ítrekað í þessari umræðu.

Hvaða stofnun er Alþingi Íslendinga? Til hvers erum við hér ef ekki til að fylgjast með því sem er að gerast í landinu og þeim aðstæðum sem fólkinu eru skapaðar og til þess að bregðast við ef við teljum að framkvæmdarvaldinu hafi orðið á í messunni? Og þess vegna er þetta frv. hér flutt. Þess vegna stend ég að þessu máli með öðrum flm. að framkvæmdarvaldið hefur brugðist skyldum sínum. Hæstv. landbrh. hefur ekki tryggt það, sem honum bar í þessu máli, að það lægi fyrir á réttum tíma sanngjörn niðurstaða undirbúin í samvinnu við aðila þannig að það gerðist ekki, komið fram í vetrarbyrjun, að menn stæðu uppi með mál í hnút eins og það er í viðkomandi byggðarlagi á Bíldudal.

Það liggur fyrir að aðstæður í fjölmörgum sláturhúsum landsins standast ekki ýtrustu kröfur heilbrigðisyfirvalda og vantar þar býsna mikið á, því miður. Það liggur líka fyrir skýrsla um aðgerðir í þessum efnum að loka sláturhúsum vítt og breitt um landið og fækka þeim mjög verulega. Það getur verið að það komi til þess að slíkt verði framkvæmt. En slíkar ákvarðanir verður að undirbúa með eðlilegum hætti og þannig að ekki skapist styrjaldarástand á milli byggðarlaga eins og hér hefur orðið eða milli framkvæmdarvalds og eins byggðarlags í þessu tilviki.

Ég tel líka hvað varðar þær hugmyndir sem liggja fyrir um fækkun sláturhúsa eins og t.d. á Austurlandi, þar sem meiningin er á næstu fimm árum að loka níu sláturhúsum af tólf og sum þeirra ekki ýkjagömul og standast fyllilega kröfur, að þar sé í rauninni verið að fara ranga leið í þessum efnum, ekki til þeirrar hagræðingar fallna sem að kann að vera stefnt og alls ekki til þess fallna að vernda aðstöðu, atvinnuskilyrði og annað í viðkomandi byggðarlögum þar sem menn munar um hvað eina í þeim þrengingum sem sauðfjárræktin og þær byggðir í landinu sem stunda sauðfjárrækt standa frammi fyrir.

Hér koma framsóknarþm. einn eftir annan til að hlaupa undir bagga með hæstv. landbrh. Hv. þm. Guðni Ágústsson gerði það. Hv. 10. þm. Reykv., sem hefur víst aldrei á Bíldudal komið, lýsti hér áhyggjum sínum sem neytandi rétt eins og hann hefði það nokkurn veginn tryggt að hann fengi ekki saurgerla í kjötið ef þeir kæmu ekki frá Bíldudal, ef ekki yrði slátrað á Bíldudal. Hvers konar röksemdafærsla er þetta, hv. þm., sem hér er á borð borin? Það er fjöldi sláturhúsa í landinu sem stenst ekki ýtrustu kröfur um heilbrigðisaðstæður, fjöldi slíkra húsa. Hv. 1. þm. Norðurl. v. fór mikið að tala um salmonellur og kjúklinga og vildi fara að bera þessa hluti saman. Hann þyrfti að lesa sig til í líffræðinni eins og fleiri sem eru hér að fjalla um slíkt samhengi. Ég er ekkert að verja þá áhættu sem tekin er. Það er langt frá því. Mér dettur það ekki í hug. En ég krefst þess að það sé eitt látið yfir alla ganga í þessum efnum og það sé staðið eðlilega að ákvörðunum af hálfu framkvæmdarvaldsins.

Ég flutti tillögu með hv. fyrrv. þm. Helga Seljan 1983–1984 varðandi sláturhús í landinu og úttekt á þeim. Ég rakti í umræðu utan dagskrár í gær þá samþykkt sem varð samþykkt Alþingis á grundvelli þessarar tillögu. Henni var breytt. Því miður var henni breytt af atvmn. þingsins, en þar var samstaða. Síðan er hún notuð af landbrn. til að setja á fót nefnd, og ekkert við það að athuga, sem kemst að þeirri niðurstöðu sem liggur fyrir í sláturhúsaskýrslunni sem væntanlega verður kynnt þinginu og hæstv. ráðherra boðaði hér í gær, en ég vek athygli á tillögu okkar sem var í tveimur liðum.

1. Tryggður verði sem best rekstrargrundvöllur þeirra sláturhúsa sem nú standa lakast, m.a. með því að gera markvisst átak til þess að tryggja sláturhúsunum önnur verkefni svo lengja megi nýtingartíma þeirra.

2. Sérstök áhersla verði lögð á að endurbæta eldri sláturhús svo að viðunandi sé og ekki þurfi að ráðast í nýbyggingar. Sérstaklega sé þetta kannað þar sem sláturhúsavinna er snar þáttur í afkomu fólks í nágrenninu.

Ég þekki dæmin af Austurlandi þar sem þetta skiptir byggðarlögin máli og þar sem til koma annarleg sjónarmið, einnig manna sem eru dýralæknar en eru kannski í tvenns konar hlutverki, eru kannski stjórnarformenn í kaupfélaginu sínu og vilja knýja fram sameiningu til að bæta rekstrarstöðu væntanlega. Ég er hér að tala um Austur-Skaftafellssýslu. Ég hef ítrekað fjallað um það mál hér, sláturhúsið á Fagurhólsmýri, þar sem reynt er að knýja menn til þess að hætta slátrun í því húsi og flytja féð til Hafnar í Hornafirði þvert gegn eðlilegum rökum varðandi sauðfjárveikivarnir, þvert gegn slíkum rökum, þar sem Öræfasveit er eitt af örfáum svæðum í landinu þar sem sauðfjársjúkdóma hefur ekki gætt. Það eru ráð dýralæknis sem þarna er um að ræða að leggja þetta hús af. Það eru bæði varnarsjónarmið í sambandi við smitsjúkdóma í sauðfé og það eru líka félagsleg sjónarmið sem ráða afstöðu minni í því máli. Ég bendi á þetta hér vegna þess að það er samhengi á milli þessara mála. Við erum ekki að fara fram á að þetta verði látið standa lengi. Það er aðeins um núverandi aðstæður að ræða þetta ár. Það er nú allt og sumt sem hér er lagt til í frv. Síðan væntum við þess að á þessum málum verði tekið heildstætt í framhaldinu og af einhverjum myndugleika af framkvæmdarvaldinu þannig að ekki þurfi að koma til slíkra óyndishnúta eins og orðið hefur í þessu máli.

Ég er satt að segja svolítið undrandi á þm. Kvennalistans að gera það að einhverju flokksmáli eða félagsmáli innanvert hjá sér að þetta frv. megi alls ekki fram ganga. Ég þykist vita að þessi niðurstaða sé til komin vegna þess að þær hafa ekki haft aðstæður til að setja sig inn í þetta mál eða önnur hliðstæð mál, hvernig þessi mál standa almennt á landinu. Þess vegna hafa þær gert þetta að sérstöku flokksmáli hjá sér. Þetta er ekki flokksmál í Alþb. Ég hafði ekki ráðrúm til annars en rétt að kynna þingflokksformanninum minn ásetning að verða meðflm. og hann hafði ekkert við það að athuga, en það er ekki flokksmál. En Kvennalistinn hefur gert þetta að sérstöku flokksmáli. Það er allsérkennilegt.

Herra forseti. Ég vænti þess að hæstv. landbrh. þrátt fyrir allt, þrátt fyrir slóðaskap framkvæmdarvaldsins, reyni að nota nóttina og næstu daga til að koma þessu máli í viðunandi höfn þannig að það verði kannski óþarfi að taka þetta mál til 2. umr., en verði það ekki gert, verði þar ekki ráðin bót á hlýtur þingið að láta sig þetta mál skipta. Virðing Alþingis hefur oft staðið tæpt sjálfsagt í hugum ýmissa, bæði þjóðar og manna innan þings, en vegna þessa máls þurfa menn ekki að óttast að þingið setji niður.