21.12.1987
Efri deild: 35. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2918 í B-deild Alþingistíðinda. (2121)

181. mál, stjórn fiskveiða

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vildi aðeins að gefnu tilefni vekja athygli á því að það er að sjálfsögðu mikilvægt að koma staðgreiðslukerfi skatta í framkvæmd. En ég vildi jafnframt vekja athygli á því að á grundvelli þess frv. sem nú er verið að fjalla um og verður væntanlega að lögum þarf að gefa út reglugerðir sem þegar hafa verið lögð fram drög að og það þarf að gefa út veiðiheimildir til alls íslenska fiskiskipaflotans þannig að hann geti hafið veiðar með eðlilegum hætti í upphafi næsta árs. Ég tel að hér sé um mjög stórt mál að ræða. Auðvitað má gagnrýna hversu seint þetta mál er hér á ferðinni og fyrir því eru ýmsar ástæður. En ég vil aðeins benda á að það er um mun veigameira mál að ræða og stærra að þessar veiðiheimildir geti farið út með eðlilegum hætti um áramótin en nokkurn tíma staðgreiðslukerfi skatta og vil ég þó á engan hátt draga úr mikilvægi þess máls. Ég vænti þess því að hv. þm. reyni á næstu dögum og ef nauðsynlegt er á milli jóla og nýárs að greiða fyrir því að íslenski fiskiskipaflotinn og íslenskir sjómenn fái nauðsynlegar heimildir til að afla sjálfum sér og þjóðarbúinu tekna.