21.12.1987
Efri deild: 35. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2921 í B-deild Alþingistíðinda. (2127)

181. mál, stjórn fiskveiða

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að hafa ákveðið að kveðja saman samráðsfund forustumanna flokkanna í þinginu núna á þessari nóttu til að átta sig á því hvernig menn vilja að málum vindi fram.

Ég vil fyrir mitt leyti að það verði alveg skýrt, ef til þess kemur, hverjir það eru sem stöðva staðgreiðslukerfi skatta. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir því að bæði þessi mál fari í gegn á þessari nóttu. Það er óhugsandi, útilokað mál. Ríkisstjórnin verður að velja þarna á milli. Vill hún stöðva staðgreiðslukerfi skatta og þá gífurlegu vinnu sem lögð hefur verið í það mál allt í kringum landið á skattstofunum að undanförnu eða vill hún hleypa því máli hér í gegn með eðlilegum hætti eða kýs hún að þumbast áfram með þetta mál í nótt án þess að það hafi í rauninni nokkurn tilgang vegna þess að það breytir engu hvort þetta frv. liggur afvelta yfir jólin í þessari deild eða hinni? Ég mótmæli því að þm. eins og hv. 2. þm. Norðurl. e. séu að gera tilraunir til að snúa út úr máli þm. í þingskapaumræðum eins og hann gerði áðan. Auðvitað er sú hugmynd, sem hér hefur komið fram frá stjórnarandstöðunni, bundin því að stjórnarliðið velji þarna á milli, geri upp við sig hvort er brýnna. Ef stjórnarliðið kýs að halda áfram með kvótann í nótt hefur það sinn gang, en þá liggur líka fyrir að stjórnarflokkarnir og þar með hæstv. fjmrh. eru að stöðva það að staðgreiðslumálin fái eðlilegan framgang.