21.12.1987
Efri deild: 35. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2946 í B-deild Alþingistíðinda. (2139)

181. mál, stjórn fiskveiða

Júlíus Sólnes:

Virðulegur forseti. Úrskurður virðulegs forseta veldur mér að sjálfsögðu miklum vonbrigðum. Ég tók til máls í 2. umr. um frv. til laga um stjórnun fiskveiða og lauk ekki ræðu minni þannig að ég var í ræðustóli kl. 7 í gær, er það að verða, það er ekki í fyrradag, þegar fundi var frestað. (Forseti: Ég verð að biðja hv. 7. þm. Reykn. velvirðingar á þessu. Það mun vera rétt hjá honum. Ég sjálf var hér í forsetastóli þegar hann tók til máls eftir kvöldverðarhlé og gat þess sérstaklega að þá héldi hann áfram ræðu sinni. Ég hafði talið að hann væri eftir það búinn að taka til máls að nýju, en það mun vera misskilningur.)

Já, þar sem ég geri ráð fyrir því að sá virðulegi forseti sem nú er að taka sæti í forsetastóli muni halda til streitu þessum úrskurði langar mig að fá að skýra út mín sjónarmið. Ég byrjaði a því að lýsa yfir vonbrigðum mínum með þennan úrskurð hæstv. forseta. En eins og ég gat um var það í gærkveldi fyrir alllöngu að ég stóð hér í ræðustóli og gat ekki lokið máli mínu þegar fundarhlé var gert kl. 19. En af óviðráðanlegum orsökum gat ég ekki komið því við að vera mættur á slaginu 20.30 þegar fundur skyldi áfram halda og ég reiknaði þá með því að ég yrði settur aftar í röðinni og fengi þannig að halda áfram í ræðu minni. (Forseti: Ástæðan fyrir því að forseti hefur gefið þennan úrskurð er sá að fundur var boðaður kl. 20.30. Ræðumaður hafði frestað sinni ræðu, hann mætti ekki á réttum tíma og enn hef ég ekki fengið skýringar á því af hverju viðkomandi gat ekki mætt. Það varð að taka annan ræðumann fram fyrir til að geta hafið fund að nýju. Ég tel það óvirðingu við Alþingi að mæta ekki á réttum tíma eða gefa skýringu á því. Þess vegna var þessi úrskurður gefinn.) Já, virðulegur forseti, ég er aðeins að segja í umræðum um þingsköp að mér þyki þetta leitt og ég mun ekki gera frekari ágreining um þennan úrskurð virðulegs forseta. Ég vildi bara að mitt sjónarmið kæmi fram. Ég ég taldi að ég mundi ljúka ræðu minni þó að ég yrði settur aftur á bak í röðina. En ég ætla ekki að gera frekari ágreining við úrskurð virðulegs forseta, og hef lokið máli mínu um þingsköp.