22.12.1987
Efri deild: 36. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2980 í B-deild Alþingistíðinda. (2148)

181. mál, stjórn fiskveiða

Svavar Gestsson:

Herra forseti, góðan dag. (Forseti: Góðan dag.) Nú fer að lengja daginn, sólin að rísa. Væri fróðlegt að fara aðeins nánar yfir stöðu þessara mála og rifja upp eitt og annað sem fram hefur komið í sambandi við þau á undanförnum árum. Ekki síst væri fróðlegt að rifja örlítið upp áður að við vorum áðan að greiða atkvæði. Það er kannski ekki úr vegi að biðja hæstv. forseta að kanna hvort eitthvað af stjórnarliðinu er enn þá með rænu. Mér þætti vænt um ef þeir væru kallaðir hér inn því þetta er umræða. Þetta er ekki „mónólóg“ eða eintal eins og það heitir á leikhúsmáli heldur er þetta umræða, samtal, samtal í gegnum tíðina. Mér þætti vænt um ef hæstv. forseti vildi vera svo vænn að kanna hvort stjórnarliðar eru í húsinu yfirleitt, athuga hvort þeir eru vakandi. Jú, sko til. Lengi von á einum. Hæstv. sjútvrh. er boðinn alveg sérstaklega velkominn og sömuleiðis býð ég honum góðan dag héðan úr þessum ræðustól. (Sjútvrh.: Góðan daginn.) Hæstv. ráðherra tekur undir.

Við erum stödd í umræðu um nýtingu íslensku fiskveiðilandhelginnar. Þá er kannski hollt að rifja upp að það eru ekki nema 30 ár síðan því var lýst yfir að landhelgi Íslands yrði færð út í 12 mílur hverjar svo sem niðurstöður Genfar-ráðstefnunnar, sem þá stóð yfir, yrðu. Það var vinstri stjórnin 1956 sem tók ákvörðun um útfærslu landhelginnar í blóra við íhaldið vegna þess að Sjálfstfl. taldi að það væri ekki við hæfi að færa út landhelgina í trássi við bandalags- og vinaþjóðir okkar í Atlantshafsbandalaginu eins og það heitir. Innan vinstri stjórnarinnar hófust síðan mikil átök um útfærslu landhelginnar. Og 1958, um vorið þá, var harkan orðin slík í ríkisstjórninni að þáv. hæstv. forsrh. velti því fyrir sér og lét það koma fram opinberlega að biðjast lausnar fyrir þáv. hæstv. sjútvrh. Lúðvík Jósepsson, fyrst og fremst vegna þess að hann var staðráðinn í að gefa út reglugerð um útfærslu landhelginnar í 12 sjómílur, hvað hann og gerði, reglugerð sem dagsett var 30. júní 1958. Og það má segja að þar með verði mjög afdráttarlaus kaflaskil í sögu íslenskrar sjálfstæðisbaráttu, þeirrar sem hélt áfram eftir stofnun lýðveldisins 1944, þeirrar sjálfstæðisbaráttu sem gekk út á það að við helguðum okkur fiskimiðin í kringum landið með afdráttarlausum hætti.

Nú er það svo í seinni tíð að allir vildu Lilju kveðið hafa. Allir flokkar eru þeirrar skoðunar að það sé nauðsynlegt að gæta vellandhelginnar og það eru sennilega flestir, nema við sem höfum fylgst með stjórnmálum dálítinn tíma, búnir að gleyma því að það voru stórkostleg átök um það hvort ætti að færa út landhelgina. Þar var Alþfl., flokkur hæstv. forseta, oft aumastur allra flokka. Það kom t.d. mjög glöggt í ljós á þessum árum, þegar landhelgin var færð út í 12 sjómílur, því að í framhaldi af þeirri útfærslu og eftir að Íslendingar höfðu raunverulega unnið sigur á Bretum og Vestur-Þjóðverjum ákveður viðreisnarstjórnin sem eitt af sínum fyrstu verkum að gera samninga við Breta og Vestur-Þjóðverja um að Íslendingar megi alls ekki færa út landhelgina nema Bretar og Vestur-Þjóðverjar samþykki, þ.e. úr 12 mílum. Hér gerðist það, sem síðar átti eftir að endurtaka sig í landhelgisdellunum, að hægri stjórn, viðreisnarstjórnin í þessu tilviki, gaf unnið tafl og í stað þess að halda á málum og íslenskum málstað af fullum myndugleika var niðurstaðan sú að gerðir voru samningar við Breta og Vestur-Þjóðverja sem voru kallaðir nauðungarsamningar og lýstir sem slíkir af þáverandi stjórnarandstöðuflokkum, Alþb. og Framsfl. Þessir tveir flokkar höfðu síðan uppi um það ákveðnar kröfur allan tímann sem viðreisnarstjórnin sat eða til 1971 að það ætti að færa út landhelgina og má segja að hámarki hafi þessi krafa náð með því að þessir flokkar fluttu sameiginlega á þinginu, hér á hv. Alþingi, till. um stefnuyfirlýsingu um útfærslu landhelginnar í 50 sjómílur.

Þáverandi ríkisstjórn, viðreisnarstjórnin, Sjálfstfl. og Alþfl., lét sig hafa það á þeim tíma að lýsa því yfir að 12 mílur væru í raun og veru alþjóðalög og það væri ekki við hæfi að Íslendingar færðu landhelgina út fyrir 12 mílur. Um þetta var kosið m.a. í kosningunum 1971 og niðurstaðan varð sú að þeir flokkar sem höfðu gert kröfu um 50 sjómílna landhelgi náðu þar mjög sterkri stöðu. Viðreisnarstjórnin féll og flokkarnir tveir, Framsfl. og Alþb., mynduðu ríkisstjórn ásamt Samtökum frjálslyndra og vinstri manna.

Þessi ríkisstjórn var í raun og veru mynduð um landhelgismálið. Það var aðalmál þeirrar stjórnar. Og það er mjög merkilegt að hugleiða það, herra forseti, hvað það var í raun og veru erfitt fyrir þessa stjórn að ná samstöðu meðal landsmanna um útfærslu landhelginnar í 50 sjómílur. Ég ætti öllu frekar að segja: meðal stjórnmálamanna, vegna þess að landsmenn allir eða meiri hluti þeirra studdu stjórnina í viðleitni hennar. Eftir útfærsluna í 50 sjómílur gerast þau tíðindi að Bretar senda herskip inn í landhelgina til að auðvelda breskum fiskiskipum að stunda hér ólöglegar veiðar. Þegar fram í sótti varð það niðurstaða þáv. ríkisstjórnar að senda á vettvang varðskip með klippur, sem urðu síðan býsna frægar, og endaði með því að Bretarnir treystu sér ekki til að halda hér úti veiðum vegna þess að þeir fiskuðu ekki neitt. Það var ekki friður til að fiska og breskir sjómenn höfðu engan áhuga á að standa í þessu stríði eða treystu sér ekki til þess þó að breski herinn væri með skip, freigátur, inni í landhelginni.

Þá gerðist það m.ö.o. að bandalagsþjóð okkar í Atlantshafsbandalaginu, Bretar, tekur um það ákvörðun að ráðast á aðra bandalagsþjóð og þótti það í rauninni nokkuð sérkennilegt þegar staðan var orðin þannig að það hernaðarbandalag, sem að sögn stuðningsmanna þess átti að verja okkur fyrir utanaðkomandi árásum, beitti sínum eigin herskipum gegn Íslendingum. Niðurstaðan varð engu að síður sú að Bretar urðu að láta í minni pokann. Það er merkilegt að líta yfir sögu landhelgismálsins og skoða hvernig þjóðirnar reyndust okkur sem eru með okkur í Atlantshafsbandalaginu. Hjálpuðu þær til í þessu efni?

Ég var svo heppinn fyrir fáeinum vikum að eiga þess kost að ræða mjög ítarlega við Hans G. Andersen, sendiherra Íslands í New York, um landhelgisstríðið og þá sérstaklega hvernig svokallaðar bandalagsþjóðir okkar í Atlantshafsbandalaginu reyndust í þessu stríði. Hann sagði mér að í rauninni hefði verið tiltölulega mjög lítið lið að Norðurlandaþjóðunum. Hann taldi að það hefðu ekki síst verið Belgar sem hjálpuðu vegna þess að þeir áttu skip innan landhelginnar og voru áhugasamir um að semja við okkur um að þessi skip fengju að vera þar eitthvað áfram. Niðurstaðan varð svo sú að þessir aðilar, Belgar, beittu sér fyrir því að hin Atlantshafsbandalagsríkin létu okkur í friði.

Í þessu landhelgisstríði gerist sá sögulegi atburður að Íslendingar, smáþjóð, ná með frumkvæði sínu að skapa alþjóðlegt fordæmi og búa þannig til nýja alþjóðlega reglu sem að lokum fær staðfestingu í Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna sem við höfum staðfest fyrir okkar leyti. Þessi reynsla af landhelgismálinu sýnir ákaflega vel hvað það skiptir í rauninni miklu máli að smáþjóð eins og Íslendingar reki sjálfstæða og einarða utanríkisstefnu og láti erlenda aðila, útlend stórveldi ef vill, hvergi beygja sig heldur haldi fram rétti smáþjóðarinnar af fullri reisn og fullum þrótti.

Ég hygg að þessi saga landhelgismálsins frá síðustu áratugum sé sérstaklega mikilvæg í ljósi þess máls sem við erum að ræða hér. Hér erum við að ræða hvernig við eigum að nýta þá landhelgi sem áður var setin erlendum veiðiskipum í stórum stíl en við nú ein ráðum yfir. Og þá skiptir miklu í sambandi við þá hluti að ekki einasta sé vel að því gætt að landhelgin sé skipulega nýtt og vel með fiskistofnana farið og arðsemi þeirra tryggð. Það skiptir einnig miklu máli í þessu sambandi að það sé sem bestur friður um nýtingu landhelginnar.

Herra forseti. Mér þykir gaman að tala við hæstv. forseta, en ég veit að okkur þætti síst lakara ef stjórnarliðið mætti í salinn þannig að það væri hægt að eiga við það nokkur orðaskipti. Ef hæstv. forseti vildi vera svo vinsamlegur að hóa í þá stjórnarliða sem flesta þannig að það mætti eiga við þá nokkrar viðræður. Eða eru þeir kannski farnir úr húsinu? (Forseti: Nei, nei.) Það væri kannski rétt að láta ganga atkvæði. Ætli við séum ekki fimm úr stjórnarandstöðunni og þrír úr stjórnarliðinu eða svo, eða kannski bara einn, hæstv. ráðherra og hæstv. forseti.

Það sem ég vil leggja áherslu á í þessu sambandi er að það er mikilvægt fyrir þjóðina að það sé sæmilegur friður um nýtingu landhelginnar, sæmileg samstaða um nýtingu landhelginnar en það sé ekki efnt til ófriðar að óþörfu um nýtingu hennar. Ég hélt því fram í ræðu minni fyrr í þessari umræðu að það hefði ekki verið nægilega mikið gert til að stuðla að þessum friði. Um hvað gæti sá friður verið? Ég hygg að í rauninni sé hægt að svara því með einu orði. Það hefði verið unnt að ná sæmilegum friði um þessi mál ef tekið hefði verð eðlilegt tillit til byggðarsjónarmiða, sjónarmið byggðarlaganna hefðu fengið að njóta sín með eðlilegum hætti. Ég tel að það sé mjög alvarlegt, þegar íslenska þjóðin er eftir þorskastríð og átök búin að tryggja sér 200 mílna landhelgi, að efna til ófriðar um nýtingu fiskveiðilandhelginnar eins og aftur og aftur hefur gerst hér á undanförnum árum.

Það er með landhelgina og fiskimiðin eins og ýmislegt fleira sem við eigum sameiginlegt, segjum t.d. tekjustofna ríkisins og fleiri slíka þætti, að það er háttur skynsamra stjórnvalda að reyna að stuðla að því að sem víðtækastur friður og sem víðtækast samkomulag geti tekist um málin á hinum innlenda vettvangi. Það skiptir líka miklu máli gagnvart útlendum aðilum að þeim sé ljóst að við ekki einasta förum vel með auðlindina, fiskimiðin, heldur sé þeim líka ljóst að það er tiltölulega mjög gott samkomulag með þjóðinni um útfærslu og nýtingu fiskistofnanna. Þess vegna er sú stríðsstefna sem birst hefur hér á undanförnum árum aftur og aftur, stríð við byggðarlög, stríð við sjómenn, stríð við fiskvinnslufólk, stríð við trillukarla, þessi stríðsstefna, þessi ófriður, sem rekinn hefur verið hér á undanförnum árum varðandi nýtingu fiskistofnanna, slæmt mál. Við þurfum á því að halda að eiga samstöðu um þessa dýrmætu auðlind sem vissulega er undirstaða alls lífs í þessu landi.

Mér finnst sem stjórnarandstæðingi nú og fyrr býsna dapurlegt að verða vitni að því að þegar ríkisstjórnin er í þriðja eða fjórða sinn að koma þessu máli í gegn skuli enn þá vera svo mikil átök um málið að hún skuli þurfa að keyra málið í gegn með þeim hætti að við erum núna búin að vera á fundum svo að segja samfellt síðan kl. 10 í gærmorgun, í 221/2 klukkustund. Það er verið að keyra þetta í gegnum þingið eins og með fallhamri, eins og með kröftum. Það er ekki eins og hér séu menn að takast á með rökum í eðlilegri umræðu. Hér takast menn á af afli. Meiri hlutinn hefur ákveðið að láta minni hlutann finna til tevatnsins. Meiri hlutinn hefur ákveðið að láta minni hlutann finna að þriðjungur þingsins ræður engu. Ég hygg að allir, einnig þeir sem skipa meiri hlutann, hljóti að hafa af því nokkrar áhyggjur ef ekki er hægt að marka leikreglur í þinginu milli meiri hlutans og minni hlutans sem stuðlar að eðlilegri meðferð mála. Ég tel fyrir mitt leyti að það sé ekki eðlileg meðferð mála að halda áfram umræðum heila nótt, bráðum í heilan sólarhring, jafnvel þó málið sé mikilvægt, vegna þess að það er ljóst að það klárast ekki fyrir jól. Með þessari afstöðu er meiri hlutinn ekki að gera neitt annað en sýna afl sitt. Hann er eins og maður með kraftadellu sem er að hnykla vöðvana framan í minni hlutann og segja: Sjáið þið, við höfum valdið. Þessi framkoma meiri hlutans í okkar garð í minni hlutanum er í senn ólýðræðisleg og hún er óheppileg við meðferð mála af þessu tagi og í rauninni við meðferð allra mála a hv. Alþingi. Ég rifja upp að fyrr í nótt buðu stjórnarandstæðingar upp á að frv. til laga um tekju- og eignarskatt yrði tekið í gegnum deildina til nefndar. Því var hafnað þó svo ljóst sé að með því er staðgreiðslukerfinu stofnað í hættu. En hér er verið að beita kröftum. Hér er verið að beita minni hlutann ofbeldi. Næst þegar forsetar Alþingis flytja ræður um virðingu þingsins og biðja þm. um að sýna þinginu virðingu er það a.m.k. alveg ljóst í mínum huga að ég tek ekki mikið mark á þeim ræðum. Í þeim er holur hljómur því að þessir sömu forsetar hafa stuðlað að því að meiri hluti þingsins reynir með kerfisbundnum hætti að niðurlægja minni hlutann hér á Alþingi þannig að einstakt er.

Ég hef setið á hv. Alþingi frá 1978. Þetta er lengsti fundur sem ég hef tekið þátt í á hv. Alþingi. Ég hygg að það þurfi að fara mjög mörg ár aftur í tímann til að finna önnur eins vinnubrögð og þau sem höfð hafa verið uppi núna, herra forseti. Ég held að þetta allt saman hljóti að vera forustu þingsins áhyggjuefni ef hún ber virðingu fyrir verkefnum sínum.

Fyrr á þessum fundi, herra forseti, gerðist það að bornar voru upp nokkrar brtt. við frv. og þær voru felldar, allar brtt. stjórnarandstöðunnar. Hvað voru menn að fella? Það var t.d. till. frá Skúla Alexanderssyni o.fl. á þessa leið: „Auðlindirnar innan fiskveiðilögsögu Íslands eru þjóðareign, sameign allra Íslendinga. Öll stjórn á nýtingu þeirra skal taka mið af því. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þessara sameiginlegu auðlinda og stuðla með því að traustri atvinnu og byggð í landinu.“

Þetta var fellt. Gera menn sér ljóst í þessari hv. deild hvað þeir voru í raun og veru að fella? Þeir voru að hafna því sjónarmiði að markmið laganna væri m.a. að stuðla að traustri atvinnu og byggð í landinu. Þetta var hin efnislega niðurstaða atkvæðagreiðslunnar. Skyldi meiri hlutinn þá vera á móti traustri atvinnu og byggð í landinu? Auðvitað er það ekki svo. Hér er bara verið að sýna afl sitt, hér er verið að sýna kraftana, að hvað sem minni hlutinn leggur til, þó meiri hlutinn sé sammála því, skuli það fellt miskunnarlaust.

Eins er t.d. með tillögu frá hv. þm. Júlíusi Sólnes og Guðmundi Ágústssyni á þskj. 234 um framkvæmdanefnd sem fari með stjórn fiskveiða, nefndin skipuð níu mönnum kosnum hlutfallskosningu í Sþ. Þessi till. er felld. Þó er hún í raun og veru þannig að að bestu manna yfirsýn og mati allra þeirra sem þekkja til væri þetta fullkomlega eðlilegt. Samt er hún felld. Af hverju er hún felld? Er hún felld vegna þess að meiri hluti þingsins telji þetta vitleysu? Nei. Hún er felld vegna þess að meiri hlutinn vill sýna kraftana, vill sýna hnefann, vill sýna að hann geti haft minni hlutann undir.

Eins er það með tillögu frá Karvel Pálmasyni á þskj. 392 þar sem hann segir, með leyfi forseta: „Við veitingu veiðileyfa skv. 3. gr. koma til greina þau skip sem leyfi fengu til botnfiskveiða á árinu 1985 og ekki hafa horfið varanlega úr rekstri, einnig ný og nýkeypt sambærileg skip sem koma í stað skipa sem leyfi fengu 1985. Svo og ný og nýkeypt skip sem fjármögnuð hafa verið með erlendum lánum með heimild stjórnvalda á árunum 1986–1987. Þá skulu þau skip, sem koma í stað skipa sem fórust á árunum 1983–1984 og ekki hafa verið endurnýjuð, eiga rétt á veiðileyfi sem sé meðaltal aflamarks skipa í sama stærðarflokki.“

Þessi tillaga hv. þm. Karvels Pálmasonar er felld. Hv. þm. Karvel Pálmason er þm. Vestfjarða og hann heldur vel á málum síns byggðarlags, en hann er einnig þm. í Alþfl., stjórnarflokki. Hann tekur sem slíkur við formennsku í sjútvn. þessarar deildar og maður skyldi ætla að það yrði reynt eitthvað aðeins að koma til móts við þennan hv. þm. sem gegnir mikilvægum trúnaðarstöðum fyrir Alþfl. og er einn af fremstu forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar í landinu. Nei, þessari tillögu er hafnað þó að allir viðurkenni að hún er sanngjörn og hún er eðlileg, allir viðurkenni það og meiri hlutinn líka, en það á að sýna kraftana, sýna hverjir ráða, sýna minni hlutanum hvar Davíð keypti ölið.

Hið sama er að segja um till. Alþb. á þskj. 205 frá Skúla Alexanderssyni o.fl. um byggðasjónarmið við úthlutun veiðiheimilda og um að kvóti verði eftir í byggðarlögunum í nokkrum mæli. Það er alveg augljóst mál að yfirgnæfandi meiri hluti þingsins er sammála þessari tillögu eða þeim grundvallarsjónarmiðum sem þar koma fram. Hún er felld. Af hverju er hún felld? Ekki vegna þess að menn séu á móti tillögunni eða telji að hún í grundvallaratriðum raski þessu margumtalaða kvótakerfi. Nei, það gerir tillagan nefnilega ekki. Hún byggist á kvóta á skip áfram. Það er ekki eins og það sé verið að hrófla við grundvallarkennisetningum þessarar kvótakirkju sem hér er í hávegum höfð. En menn þurfa að sýna afl sitt, sýna hver það er sem ræður.

Síðan flytja þm. úr ýmsum flokkum till. varðandi trillurnar. Þær eru felldar af miklu tillitsleysi. Af hverju halda menn að hér hafi verið pallar fullir í 20 klukkutíma? Það hefur aldrei nokkurn tíma áður gerst að hagsmunahópur hafi vaktað þingið með þeim hætti sem trillusjómennirnir hafa gert í nótt og gærkvöld. Af hverju ætli menn hafi gert það? Vegna þess að þeir vita og finna að hérna er um að ræða þeirra lífshagsmuni í grundvallaratriðum og þeir óttast að efnahagslegur grundvöllur þess rekstrar, sem þeir eru með, hrynji. Halda menn virkilega að það sé einhver leikaraskapur á bak við að þessir menn sitja á pöllunum í 20 klukkustundir og fylgjast með umræðum hér? Þeir eru nefnilega líka haldnir af því, blessaðir mennirnir, að þeir vona að lýðræðið hafi áhrif, að lýðræðið fái að njóta sín, að sanngirnin verði ofan á. Þeir gera ráð fyrir að hér fari fram eðlileg lýðræðisleg skoðanaskipti. Þeir gera ráð fyrir að hér séu menn að tala saman í alvöru. Þeir gera sér ekki grein fyrir því að hér eru menn handjárnaðir í stórum stíl og þora ekki að gera það sem þeir sjálfir vildu helst gera.

Af hverju skyldi hafa verið felld tillaga eins og sú sem birtist frá hv. þm. Karvel Pálmasyni á þskj. 392, tillaga sem er tillaga beint upp úr stjórnarsáttmálanum? Þar segir, með leyfi forseta:

„Alþingi kýs hlutfallskosningu nefnd níu manna til að undirbúa tillögur um fyrirkomulag fiskveiðistjórnar og nýtingu fiskstofna að loknum gildistíma laga þessara.

Að ári liðnu skal nefndin leggja fyrir Alþingi bráðabirgðaálit á fiskveiðistefnunni ásamt tillögum um breytingar á lögum þessum telji hún það nauðsynlegt. Nefndin skal kanna eftirfarandi:

1. Áhrif laga þessara á afkomu einstakra byggðarlaga, byggðaþróun í landinu og sjávarútveg.

2. Áhrif gildandi stjórnar á fiskstofnana, afrakstu~ þeirra og hagkvæmni veiða.

Í starfi sínu skal nefndin kynna sér rækilega hvaða áhrif fiskveiðistefna undanfarinna ára hefur haft á byggðarlög, fiskstofna og sjávarútveg.

Nefndin skal kynna sér eftir því sem föng eru reynslu annarra þjóða af fiskveiðistjórn þeirra. Hún skal leita álits og ráðgjafar hjá þeim sérfræðingum, stofnunum og hagsmunaaðilum, innan lands sem utan sem hún telur þörf á þannig að starf hennar skili sem bestum árangri við mótun sveigjanlegrar fiskveiðistefnu til framtíðar.“

Þetta er úr stjórnarsáttmálanum. Það er ekki eins og þetta sé einhver bolsévismi sem við erum að leggja til í Alþb. eða þá sá vondi Kvennalisti eða Borgarafl. sem nýtur þess heiðurs þessa dagana að vera talinn verstur allra hér í deildinni. Ég óska þeim til hamingju með það. — Nei, það er ekki eins og svoleiðis lið hafi verið að finna þetta upp. Þessi tillaga er beint upp úr stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar, flutt af hv, þm. Karvel Pálmasyni, formanni sjútvn. þessarar virðulegu deildar. Og hver er niðurstaðan? Stjórnarliðið fellir stjórnarsáttmálann með 12:5 atkv. Við greiddum atkvæði með stjórnarsáttmálanum, þetta stjórnarandstöðudót, en stjórnarliðið felldi sinn eigin stjórnarsáttmála. Af hverju? Ekki vegna þess að stjórnarliðið sé ósammála stjórnarsáttmálanum. Nei, nei, nei, nei. Ekki vegna þess, heldur vegna þess að stjórnarliðið þarf að sýna okkur í minni hlutanum í tvo heimana, láta það finnast hver það er sem ræður, hver það er sem valdið hefur í þessari virðulegu stofnun.

Og hv. þm. Karvel Pálmason leyfir sér að flytja till. á þskj. 392 sem er svona:

„Skip sem koma í stað eftirtalinna skipa, er fórust á árunum 1983–1984, skulu eiga rétt á veiðileyfi sem sé meðaltal aflamarks skipa í sama stærðarflokki: Brimnes SH-257, Haförn SH-122, Hafrún ÍS-400, Bakkavík ÁR-100, Ragnar Ben ÍS-210, Kári VE-95, Þórunn ÞH-255, Hellisey VE-503, Sæbjörg VE-56 og Sóley SK-8.“

Þessi tillaga var felld í nótt með minni hluta atkvæða hér í deildinni. Það voru tíu sem greiddu atkvæði á móti þessari till., sjö studdu tillöguna, en tveir ef ég man rétt eða þrír sátu hjá. Þannig er staðan. Það er ekki eins og ríkisstjórnin sé alls staðar með stormandi meiri hluta í þessum málum sínum. Ekki aldeilis, ó ekki, ekki er það. Stjórnarflokkarnir eru klofnir út og suður, Alþfl. og Sjálfstfl. Ég veit að vísu ekki um Framsfl., það hefur ekki örlað þar á sjálfstæðri skoðun um áratuga skeið. En hinir tveir eru rótklofnir í þessu máli og Framsfl. reyndar líka. Ég gleymi hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni. Það skal ég ekki gera aftur. Framsfl. er klofinn líka niður í rót, allir flokkarnir klofnir og það eru svo hart rekin tryppin að það er felld svona tillaga sem er augljós sanngirnistillaga. Hún er felld með minni hluta atkvæða því að meiri hlutinn er svo stór að hann getur leyft sér að skipta sér þegar mikið liggur við.

Síðan er felld ein tillaga enn frá hv. þm. Karvel Pálmasyni á þskj. 392, um að við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða III er orðist svo:

„Þrátt fyrir ákvæði 4. gr. skal Sigga Sveins, ÍS-29, skipaskrárnúmer 1846, úthlutað veiðileyfi er miðist við veiði á úthafsrækju.“

Skyldi það geta verið þannig að þessi tillaga byggi á því, sem bent er á í till. hv. þm. Karvels Pálmasonar á þskj. 392,1, að þessi skip hafi verið fjármögnuð með lánum sem tekin voru með leyfi íslenskra stjórnvalda? Hvers lags stjórnvöld eru það í þessu landi sem leyfa mönnum að byggja skip, lána mönnum til að smíða skip eða kaupa skip en svo þegar skipið loksins er tilbúið má það ekki veiða?

Stundum er verið að tala um að það sé erfitt fyrir þjóðina að lynda við stjórnvöld, en hvernig í ósköpunum má það gerast að ríkisstjórnin samþykkir lán til að smíða ákveðið skip eða kaupa ákveðið skip, en svo koma þessir kerfistrukkar í þinginu og segja: Skipið má ekki veiða, bannað að veiða? Skip eru til þess að veiða með, einkum og sér í lagi fiskiskip.

Það er athyglisvert, hæstv. forseti, með stjórnarliða, sem hér ættu að vera staddir í þessari umræðu, að þeir koma hér rétt í mýflugumynd, náfölir, til að greiða atkvæði af og til, en að þeir taki þátt í eðlilegum umræðum með lýðræðislegum hætti, slíkt er af og frá. Getur verið að þeir skammist sín, hæstv. forseti? Gætu þeir verið með vonda samvisku? Getur verið að þeir finni til innan í sér, blessaðir mennirnir, og þeim líði þrátt fyrir allt illa? Ég óska engum ills, en ég segi alveg eins og er að mér þætti það heldur betra ef mennirnir hefðu pínulítið samviskubit. Heldur þætti mér betra að vita af því þó að það sé kannski óþarfi að vera svo skömmustulegur að þora ekki að láta sjá sig inni í deildinni þegar umræður standa sem hæst því að nú er, hæstv. forseti, að hefjast nýr dagur og nú geta menn loksins farið að tala með sæmilegri samvisku. Nú fara menn að mæta á vettvang á ný. Bráðum koma útsofnir neðrideildarmenn í húsið og þá getum við farið að spjalla aðeins við þá um landsins gagn og,nauðsynjar. Nú þarf ég að biðja forseta forláts. Ég þarf að seilast í bók án þess að slíta ræðu mína. (Forseti: Gerðu svo vel.) Ég má ekki tala nema tvisvar og ég vil ekki taka neina áhættu í þeim efnum eins og forseti skilur.

Nei, það skyldi þó aldrei vera að þeir væru eitthvað ræfilslegir innan um sig, væru með einhverjar innantökur, ylgring út af þessu, hvernig þetta er í raun og veru. Þeir rúlla yfir allar tillögur sem við flytjum, tillögur sem þeir eru sammála í raun og veru, fullkomlega sammála. En framsóknarbattaríið segir nei. Halldór segir nei. Hans heilagleiki segir nei og þeir gegna. Ég er sannfærður um að það er ekki hægt að finna nokkurt barnaheimili á Íslandi þar sem aginn er eins ofboðslegur og þegar hæstv. sjútvrh. birtist gagnvart þessum mönnum. Þessir menn þeytast um allar jarðir, haldandi ræður út og suður og skrifandi greinar, staffírugir flokksleiðtogar þriggja stjórnmálaflokka og verkalýðssamtaka. En svo þegar kemur hæstráðandi til sjós og lands, þ.e. sjós, hæstv. sjútvrh., glúpna þessar hetjur og renna af hólmi. Það er óskaplegt að sjá þetta! Verst er þó að vita að þeir eru eins og að ganga í augun á hæstv. sjútvrh., sýna honum hvað þeir eru miklir karlar að „kýla á“ stjórnarandstöðuna. Og stjórnarandstaðan býður þessum snillingum upp á það í nótt að það mætti hugsa sér að taka málin með öðrum hætti þannig að 2. umr. verði lokið, 3. umr. verði tekin á mánudaginn eftir hátíðar, taki svona klukkutíma. Þegar boðið er upp á slíkt og tíminn yfir jólin notaður til að skoða málin eru sjálfstæðismennirnir alveg ólmir í að athuga þetta og fara á leynifund með hæstv. sjútvrh. en koma svo eins og lúbarðir hundar, með leyfi hæstv. forseta, og segja: Það verður að halda áfram. Hvílíkt ofurvald, húsbóndavald hefur ekki hæstv. sjútvrh. yfir þessu liði! Það er alveg með ólíkindum!

Sérstaklega er það kannski skrýtið þegar þetta gerist með menn sem hafa fram undir það síðasta verið þekktir fyrir að hafa tiltölulega sjálfstæðar skoðanir, eins og forseti þessarar virðulegu deildar, sá mæti alþýðuflokksmaður og verkalýðsleiðtogi.

Á þinginu 1985 var fiskveiðistjórnin til umræðu í þessari virðulegu deild og þá mælti hv. 9. þm. Reykn., hæstv. núv. forseti deildarinnar, á þessa leið m.a.:

„Það fer ekki hjá því að þegar ég sem Reyknesingur og manneskja ...“ — Það hefði ég haldið að færi yfirleitt saman. Ég get ímyndað mér að það sé varla völ á öðrum Reyknesingum en manneskjum. „Það fer ekki hjá því þegar ég sem Reyknesingur og manneskja velti fyrir mér kvótamálum hugsi ég til þess að á Reykjanesi var afli af landsmeðaltali 1968–1983 27%. Aflinn var 1984 aðeins 19% þrátt fyrir að kvótaúthlutun hafi verið 25%. Það eru margar ástæður fyrir þessu en sjálfsagt er gildasta ástæðan sú að flotinn hefur streymt af þessu svæði til annarra byggðarlaga, hvar menn hafa haft meiri efni á að kaupa þessi skip en þar syðra. Útvegur á því svæði hefur átt við ramman reip að draga og nú er svo komið að sjávarútvegur á þessu svæði, sem var vaxtarbroddur útgerðar í áratugi, er nú að því kominn að hverfa ef svo mætti segja. Fyrirtækin þar eru, eins og einn ágætur maður sagði í Nd. fyrir skemmstu um aðra aðila, hvert á fætur öðru að fara í biðsal dauðans. Hvort þau komast þaðan aftur skal ósagt látið, en hitt er sannað að miklir erfiðleikar eru þar á ferðinni.

Ég tek undir þá gagnrýni," segir hér enn fremur, „sem fram hefur komið hjá öðrum alþm., að samráð við sjávarútvegsnefndir var ekki eins og skyldi.“

Síðan er það rakið nokkuð og sérstaklega tekið undir með hv. þm. Skúla Alexanderssyni í ýmsum málum. Það leynir sér ekki á þessari ræðu að hæstv. forseti hefur verulegar áhyggjur af þessari þróun á Suðurnesjum og í landinu í sjávarútveginum, enda man ég ekki betur en Alþfl. berðist fyrir því í bæjarstjórnarkosningunum í Keflavík 1986 að það yrði höfuðverkefni bæjarstjórnar Keflavíkur að auka kvótann handa Keflvíkingum þegar þeir fengju tækifæri til að ráða einhverju.

Nú gerist það aðeins örfáum mánuðum eftir að ríkisstjórnin er mynduð að hæstv. forseti gengur í þetta verk með stjórnarliðinu eins og ekkert sé. Með sama áframhaldi getur það ekki endað með neinu öðru en því að hann verði kominn alla leið eða í Framsfl. eftir eitt ár eða svo. Þessar umræður, sem hér hafa verið í nótt, til hvers ætli þar séu nú? Er það þannig að stjórnarandstaðan hafi haldið uppi málþófi fyrst og fremst vegna þess að hún vilji stöðva öll mál og vera þversum á öllum sviðum? Ég tel að ein ástæðan fyrir þeirri umræðu sem fram hefur farið hér í nótt sé sú að í henni kemur fram það sem ég vil kalla sjálfstæðisbaráttu stjórnarandstöðunnar og þar með þingræðisins því að það er ekkert þingræði nema það sé til stjórnarandstaða sem þorir að hafa skoðanir.

Okkur var sagt í gær, stjórnarandstöðuflokkunum: Við ykkur verður ekkert talað. Stjórnarflokkarnir báðu um viðræður. Stjórnarandstöðuflokkarnir sögðu: Við skulum semja um framgang mála ef það gerist að þið stöðvið matarskattinn. Því var algerlega hafnað af stjórnarliðinu og jafnframt lýst yfir að stjórnarliðið mundi beita afli til að koma öllum málum í gegn. Ég vil segja við hæstv. forseta: Stjórnarandstaðan mun ekki láta bjóða sér svona vinnubrögð þegjandi og hljóðalaust. Það er engin ástæða til að sætta sig við svona vinnubrögð. Og þó að það kosti að menn þurfi að vinna fyrir kaupinu sínu nótt og nótt breytir það engu. Við kvíðum því engu.

En hin ástæðan til þess að þessar umræður standa svo lengi er m.a. sú að við viljum freista þess að skapa möguleika til þess hér í þinginu að frv. verði breytt og þó því verði ekki breytt í þessari deild höfum við vonir um, höfum við hugmyndir um að það séu möguleikar til að breyta því milli hátíðanna í Nd.

Hér fara fram á þessum morgni og þessari nóttu mjög hörð pólitísk átök. Það hefur komið í ljós að núv. ríkisstjórn ræður ekki við verkefni sitt. Í ríkisstjórninni er engin verkstjórn. Þar er hver höndin upp á móti annarri. Flokkarnir beita hver annan neitunarvaldi, tefla ólíkum málum hverju gegn öðru. Einn segir: Ef ég ekki fæ kvótann færð þú ekki tekjuskattinn. Og annar segir: Ef ég ekki fæ tekjuskattinn færð þú ekki kvótann. Þannig er koll af kolli. Það er teflt saman gersamlega ólíkum málum. Það er allsherjar hrossaprang í hverri kytru í þessu húsi daginn út og daginn inn og hefur verið langtímum saman. Þá er ekki verið að spyrja um grundvallaratriðin eða skoðanirnar heldur hitt: Hvað er það sem ég fæ fram og helst, ef ég fæ eitthvað fram, væri best ef hinn tapaði einhverju í leiðinni. Í góðsemi vegur þar hver annan, segir í gömlu, góðu, frægu kvæði. Ég hygg að það kvæði sé klassískt bókmenntaverk og það hafi í rauninni sjaldan komið betur fram en á þessari nóttu á Alþingi Íslendinga.

Ég hef enga ástæðu til að halda mjög langa ræðu, herra forseti. Ég teldi eðlilegt að forseti gæfi morgunverðarhlé og vil spyrja hann að því hvort það sé ekki siður góðra verkalýðsleiðtoga að sjá til þess að þrælar hans fái a.m.k. kaffihlé í korter eða svo. Eins vildi ég nefna við hæstv. forseta hvort það mundi vera viðeigandi nú, af því að klukkan er nú rétt að verða níu, að vekja fjmrh. Ég bað um það í nótt að hans hátign yrði vakinn. Það var þá sagt að hann hefði nýlega fest blund á brá og það væri tæplega viðeigandi að við, þessir óbreyttu alþm. hér, þessir vinnuþrælar minni hlutans, værum að kalla á hæstv. ráðherra upp úr volgu bólinu um hánótt. Og ég féll frá því. Ég aulaðist til að vera svo sanngjarn. En það er spurning hvort ekki væri gott að fá hæstv. fjmrh. upp úr bólinu til að vita hvort hann hefur nokkurn áhuga á að afgreiða staðgreiðslukerfi skatta.

Við erum í sjálfu sér, þm. minni hlutans, tilbúnir vænti ég flest til að halda áfram störfum okkar í dag eins og ekkert hafi í skorist. (Gripið fram í: Það eru allir.) Ja, það hefur mér ekki sýnst, hv. þm. Ég hef ekki séð að menn hafi verið hér mikið að störfum. Ég hef ekki orðið var við það. Ég hef aftur og aftur beðið um að eitthvað af stjórnarliðum kæmi í salinn til að væri hægt að tala við þá. Það hefur verið hörgull á því. En kannski er það svo að allir séu tilbúnir að vinna hér áfram í dag og ég vona að svo sé. Og við sem erum vön að vinna kveinkum okkur ekkert undan því. En hitt væri ekki lakara ef það færi að rifa aðeins í glyrnurnar á hæstv. fjmrh. þannig að það væri hægt að fara að tala við hann um skatta þegar þessi mál þrýtur, sem hér eru nú til umræðu, og svo munum við að sjálfsögðu væntanlega halda áfram að tala um einhver önnur mál í nótt og á morgun. Það er ekki nema Þorláksmessa á morgun. Ég vona að það komi ekki til þess að það þurfi að setja jólatré á mitt gólfið til þess að við verðum einhvers aðnjótandi varðandi jólahátíðina. En það væri svo sem eftir öðru. (EKJ: Við höfum heyrt í nógum jólasveinum í nótt, held ég.) Mér sýnist að hv. þm. sé hálfgerður jólasveinn að verða, satt best að segja, a.m.k. er hann þannig til geðsmunanna. Ég held að menn eigi ekki að bregða sér í líki Hurðaskellis þó að hann sé einn af jólasveinunum. Reyndar hefur það verið þannig að það hafa mest verið Gluggagægir og Stekkjarstaur sem hafa verið hér á ferðinni í nótt, kíkjandi hér inn um gættirnar. — Gáttaþefur heitir hann reyndar sem hefur af og til rekið nefið hér inn.

Mér þætti vænt um ef hæstv. forseti vildi kanna hvort fjmrh. hefði ekki sofið nægju sína og hvort það væri ekki hægt að fara að spjalla við hann aðeins um skattana því að senn þrýtur þetta mál og þá þarf að halda áfram því að hér er mjög mikið að vinna á hv. þingi. Ríkisstjórnin hefur áhuga á að koma fram hinum merkustu málum og þá er nauðsynlegt að ræða þau og afla sér gagna í þeim þannig að umræðan megi verða sem málefnalegust, knöppust og einbeitt og ekki út um víðan völl, þar sem tekið er á kjarna málsins og aðalatriðunum en menn séu ekki að þvælast í kringum hvað sem er. Vandinn í nótt hefur fyrst og fremst verið sá að það hefur verið svo erfitt að fá stjórnarliða til að skiptast á skoðunum þannig að við í stjórnarandstöðunni höfum orðið að leggja okkur til hugsanleg svör stjórnarliða í hinum ýmsu málum. Þetta eru ekki skynsamleg skoðanaskipti, hæstv. forseti, og ég veit að forsetinn er mér sammála um að það er ástæða til að hafa miklar áhyggjur af virðingu Alþingis þegar stjórnarliðar haga sér eins og þeir hafa gert í nótt, koma í líki jólaveina inn í dyrnar af og til, hlaupa svo út, skella hurðum, gá í gættina og stökkva svo út aftur, taka ekki þátt í þeim lýðræðislegu verkefnum sem þm. á að sinna heldur láta okkur ein um að starfa að þessum mikilvægu verkum.

En ég endurtek, hæstv. forseti: Fróðlegt væri að vita hvort hæstv. fjmrh. væri risinn til meðvitundar og vildi kannski fara að líta aðeins á mál sem heitir staðgreiðslukerfi skatta.