22.12.1987
Efri deild: 37. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3017 í B-deild Alþingistíðinda. (2168)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Það er undarleg staða í samskiptum stjórnar og stjórnarandstöðu sem komin er upp á þessum síðustu dögum þingsins, af hverju svo sem það stafar. Hér er til umræðu eitt af þeim málum sem sannarlega er mjög nauðsynlegt að ná í gegnum þetta þing fyrir áramót og helst fyrir jól. Og það má hæstv. fjmrh. vita að stjórnarandstaðan gerði í nótt tilraun til að fá þetta mál tekið fyrir þannig að 1. umr. væri lokið í nótt og nefndin gæti byrjað störf þegar nú í morgun. Það fékkst reyndar ekki. En nú liggur málið fyrir og ekki langur tími til umfjöllunar og ég vil ekki tefja þetta mál með því að fara löngu máli um það í 1. umr. vegna þess að ég tel nauðsynlegt að það nái fram að ganga bæði fljótt og vel.

Þó vil ég hafa um það nokkur orð því ég tel að það sé nauðsynlegt að gera á því nokkrar breytingar.

Frv. sem hér um ræðir er að miklu leyti samhljóða þeim tillögum milliþinganefndar um staðgreiðslu skatta sem sett var á laggirnar en því miður hóf störf mjög seint í haust. Um þessi störf hennar má lesa í álitsgerð sem allir þm. hafa fengið. Fulltrúi Kvennalistans í nefndinni, Kristín Sigurðardóttir, hringdi reyndar mörgum sinnum til að vita hvort nefndin hefði ekki enn tekið til starfa því við bjuggumst við því að það yrði mjög fljótt síðla sumars. Það reyndist þó ekki. En þegar hún hóf störf sinnti hún þeim vel.

Fulltrúi okkar í nefndinni hafði fyrirvara um álit nefndarinnar, sem er reyndar prentað á bls. 20 í álitsgerðinni sem við höfum öll fengið, og ég vil aðeins til glöggvunar lesa það, með leyfi forseta, en það er ekki langt.

„Það er álit mitt að nefnd um staðgreiðslu skatta hafi að ýmsu leyti unnið gott verk og sniðið alvarlega agnúa af lögum um staðgreiðslu skatta og öðrum lögum er því fylgja. Einnig hefur í störfum nefndarinnar náðst samstaða um ný atriði sem verða til bóta. Tíminn, sem nefndin fékk til starfa, var þó óþægilega knappur. Eðlilegast hefði verið að nefndin hefði hafið störf snemma í sumar í stað september. Tveggja vikna hlé skar einnig af vinnutíma nefndarinnar. Fyrirvari minn byggir á því sem ekki náðist samstaða um og einnig á öðrum liðum sem ekki fékk að reyna á, annars vegar vegna þess að tíminn var skammur og hins vegar vegna skilgreiningar a hlutverki nefndarinnar. Ég vil nefna nokkur atriði: mánaðarleg framreiknun persónuafsláttar, greiðsla óskertra barnabóta til móður, hátekjuskattþrep, skattlagning fjármagns- og eignatekna. Jafnframt minni ég á athugasemdir og tillögur Kvennalistans við afgreiðslu skattalaganna á sl. vori. Ég er mótfallin hugmyndum um lækkun útsvarsprósentu sveitarfélaga í staðgreiðslu. Fulltrúar Kvennalistans munu áfram vinna að skattalegum endurbótum á Alþingi.“ — Undir þetta ritar Kristín Sigurðardóttir.

Við umræðuna í Nd. lögðu kvennalistakonur fram brtt. sem voru teknar til umfjöllunar í nefndinni, en þær náðu því miður ekki fram að ganga. Þessar brtt. vörðuðu fyrst og fremst skattþrep. Við settum inn tvö skattþrep á tekjuskattinn. Í öðru lagi vörðuðu þær persónuafslátt sem við hækkuðum. Og í þriðja lagi vörðuðu þær barnabætur sem við vildum að greiddar yrðu til móður fyrst og fremst.

Ég mun ekki fara ítarlega út í þessar brtt. nú en kynna þær nánar við 2. umr. málsins og freista þess að kynna þær í nefndinni þannig að þær megi hafa áhrif á framgang málsins. Ég mun heldur ekki hirða um að rekja efni frv. hér, enda hefur lítið tóm gefist til að kynna sér þær breytingar sem urðu í Nd. í nótt og eins og kom fram í máli síðasta ræðumanns las hæstv. ráðherra bæði lágt og hratt og var erfitt að glöggva sig á því eftir svefnlitla nótt. En það gefst vonandi tími í nefndinni því að ráðgjafaraðilar hafa verið boðaðir á fund nefndarinnar nú þegar og hún mun taka til starfa strax að lokinni þessari umræðu.

En ég vona að þessar brtt. nái fram að ganga. Síðasti ræðumaður hv. minntist einnig á það sem við höfum áður rætt hér um vasapeninga aldraðra og hafði ég vonast til að þær brtt. kæmu inn í þessi lög um tekju- og eignarskatt því það er nauðsynlegt að bundin séu í lögum en ekki einungis í reglugerð þau ákvæði sem koma í veg fyrir að vasapeningar ellilífeyrisþega séu skattlagðir. En ég vonast til þess að loforð ráðuneytisins dugi í þessum efnum og við getum gert þær breytingar sem nauðsynlegar eru til að koma í veg fyrir slíka skattheimtu.