21.12.1987
Neðri deild: 34. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3049 í B-deild Alþingistíðinda. (2174)

196. mál, söluskattur

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Já, það er margt búið að segja um þetta mál úti í þjóðfélaginu og ég efast um að hæstv. ráðherrar og þm. sem standa að þessu máli hafi áttað sig á því hvað andstaðan gagnvart þeim breytingum sem er verið að gera er mikil og almenn. Það er alveg sama við hvern menn tala. Það er alltaf það sama: Getur það verið, er það hugsanlegt að þetta muni ná fram að ganga jafnvel fyrir áramót? Ég hitti einn af alþýðuflokksmönnum fyrir tæpri viku, mann sem var að vinna fyrir þá í síðustu alþingiskosningum, og ég sagði við hann: Jæja, eruð þið nú ekki ánægðir, kratarnir? Hvað ertu að segja? Ég er enginn krati. Ég spurði hann þá að því hvort hann ætlaði að neita því að hann hafi verið að vinna fyrir þá fyrir síðustu kosningar. Þá leit hann niður fyrir sig og sagði: Það er að vísu rétt, en ég er það ekki lengur.

Þannig væri hægt að tiltaka marga einstaklinga í hinum flokkunum, m.a.s. þá hörðustu í þeim flokki sem ég tilheyrði, útgerðarmenn og alls konar menn sem eru í rekstri, vitnisburður þeirra um þessa ríkisstjórn er sá að aldrei hafi verið verri stjórn á Íslandi og það þýði ekkert annað en að hætta þessum rekstri.

Það er furðulegt að hæstv. ráðherrar og þm. segja í sambandi við það mál sem við erum að ræða hér, um söluskattinn, að þá sé það nauðsynlegt, sé ekki hægt að komast hjá því að leggja á skatt sem er jafn á allt vegna þess að það sé fyrirhugað að taka upp virðisaukaskatt. Það er merkilegt að t.d. Efnahagsbandalagsþjóðirnar þekkja ekki þessi rök nema Danir. En þó segja hæstv. ráðherrar og þm. í blöðum, nýverið kom það í blaðinu Degi á Akureyri, að það sé ekki hægt að komast hjá því að leggja sama skatt á matvörurnar vegna þess að það sé fyrirhugað að taka upp virðisaukaskatt. Blekkingarvefurinn er jafnt og þétt ofinn, en hvaðan fá þeir þráðinn? Þeir fá þráðinn frá hæstv. fjmrh. Það er að vísu bláþráður víða á þeim þræði og flest bendir til þess að hann gæti slitnað hvenær sem er.

Ég er með í höndum merkilegt plagg sem ég tel nauðsynlegt að lesa upp til að það komi alveg fram hvernig þessi mál eru hjá Efnahagsbandalagsþjóðunum. Þetta er úr fréttabréfi Alþýðusambands Íslands og þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Sambandsstjórnarfundur ASÍ, haldinn dagana 30. nóv. til 1. des. 1987, ítrekar mótmæli miðstjórnar Alþýðusambands Íslands vegna áforma stjórnvalda um skattlagningu matvara um næstu áramót. Skattlagning matvöru kemur óhjákvæmilega harðast niður á þeim sem tekjulágir eru og nota stóran hluta tekna sinna til matvörukaupa. Sambandsstjórn krefst þess að ríkisstjórnin hætti við öll áform um matarskatt og að felldar verði niður þær álögur sem þegar hafa tekið gildi. Nái áform ríkisstjórnarinnar fram að ganga munu þau spilla frekar en orðið er samkomulagsmöguleikum á vinnumarkaði.

Virðisaukaskatturinn mun vera frönsk uppfinning og í dag búa öll ríki Efnahagsbandalagsins og ýmis fleiri lönd við það kerfi. Í umræðunni um virðisaukaskattinn hér á landi er því haldið fram að útilokað sé að hafa fleiri en eitt skattstig í slíku kerfi. Matarskatturinn og samræming í eina skattprósentu sé því óhjákvæmileg aðgerð. Það merkilega er að ríki Efnahagsbandalagsins virðast ekkert vita um þessa nauðsyn á einni prósentu. Danir búa einir allra landa Efnahagsbandalagsins við eina prósentu.“

Hér vil ég skjóta inn í að þar mun þó vera undantekning í vissum tilvikum þó ég sé ekki búinn að afla mér nákvæmlega upplýsinga um hvernig því er fyrir komið. Og þá held ég áfram lestrinum, með leyfi hæstv. forseta.

„Allir aðrir eru að minnast á tvö skattstig, flestir fleiri, og í þeim tillögum sem framkvæmdastjórn Efnahagsbandalagsins lagði fram nú í haust um samræmdan virðisaukaskatt er aldeilis ekki miðað við eina skattprósentu. Það er þvert á móti stefnt að tveimur skattprósentum. Virðisaukaskattur á nauðsynjum verði á bilinu 4–9% og virðisaukaskattur á öðrum vörum og þjónustu a bilinu 14–19% samkvæmt nánari ákvörðun viðkomandi lands. Tillögur framkvæmdastjórnarinnar eru nú til umræðu í aðildarlöndum Efnahagsbandalagsins. Samkvæmt skýrslu framkvæmdastjórnarinnar, sem lögð var fram innan Efnahagsbandalagsins nú í haust, er skattaprósentan eftirfarandi:

Í Belgíu eitt lágþrep 1–6%, almennt þrep 19%, háþrep 20-28%. Danmörk er eins og áður segir eina landið með almennt þrep 22%. Frakkland er með 1,1%, 4%, 5,1%, 7% og almennt þrep 18,6% og háþrep 33,33%. Vestur-Þýskaland 7% og 14% Grikkland 6% og 18%, Írland 2,4%, 10% og 25%, Ítalía 2%, 9%, 18% og háþrep 38%, Lúxemborg 3%, 6% og 12%, Holland 6% og 20%, Portúgal 8%, 16% og 30% háþrepið, Spánn 6%, 12% og 33%, Bretland 15%. Ákveðnar vörur og þjónusta er undanþegin virðisaukaskatti. Á Írlandi og Bretlandi eru flestar nauðsynjar undanþegnar.“ — Hvers konar rök eru það sem hæstv. ríkisstjórn og meiri hl. Alþingis hefur fyrir þessu máli?

„Rétt er að vekja sérstaka athygli á að tvö lönd, Írland og Bretland, eru með stóran hluta nauðsynja alveg undanþeginn virðisaukaskatti. Hin löndin, öll nema Danmörk, leggja hins vegar aðeins lágan skatt á nauðsynjar eins og taflan sýnir, almennt innan við helming af þeim skatti sem leggst á aðrar vörur og þjónustu.

Efnahagsbandalagslöndin hafa þannig öll nema Danmörk valið að hafa það þannig að lágtekjufólk, sem notar stóran hluta tekna sinna í kaup á nauðsynjum, borgi minna í skatt en hátekjufólk. Efnahagsbandalagið stefnir nú að samræmdu kerfi og lágum skattstiga, 4–9%, fyrir nauðsynjar og almennum skattstiga, 14–19%, fyrir aðra vöru og þjónustu.

Þær tillögur sem nú eru í meðferð í Efnahagsbandalaginu gera ráð fyrir að eftirfarandi liðir verði með lægri skattprósentuna: matvörur, drykkjarvörur, þó ekki áfengir drykkir, orka til upphitunar og lýsingar, vatn, lyf, bækur, blöð, tímarit, farþegaflutningar.

Það er áætlað að lægri prósentan muni falla á 1/3 af heildarstofni virðisaukaskattsins og almenna skattprósentan komi á 2/3 skattstofnsins. Rétt er að benda á að framkvæmdastjórn Efnahagsbandalagsins mælir eindregið með því að lægra þrepið verði frekar sett nær 4% en 9%.

Allmörg Efnahagsbandalagslöndin eru með sérstaka háa virðisaukaskattsprósentu á völdum vörum, lúxusvörum. Einnig þannig er virðisaukakerfið notað til þess að jafna afkomu fólks. Háa skattstigið nær til innan við 10% skattstofnsins og er það rökstuðningur framkvæmdastjórnarinnar fyrir því að tillögur sem hún hefur lagt fram gera ekki ráð fyrir þremur þrepum, aðeins tveimur, lágþrepi og almennu þrepi.

Það er einföld staðreynd að samræmingin innan Efnahagsbandalagsins stefnir ekki að einni virðisaukaskattsprósentu. Danir mótmæla þeim áformum í dag, en e.t.v. ekki fyrst og fremst vegna þess að skattprósentur eigi að vera tvær heldur meira vegna þess að tillögurnar gera ráð fyrir því að 1/3 skattstofnsins skattleggist með 4–9% en 2/3 með 14–19% . Danir skattleggja allt í dag með 22% og sjá því ekki hvernig ríkissjóðurinn danski muni komast af ef af samræmingu verður því samræmingin mundi leiða til um þriðjungs lækkunar tekna danska ríkissjóðsins af virðisaukaskatti. Sá vandi yfirskyggir væntanlega andstöðu þeirra við tvö þrep í skattinum.

Tvö þrep eru því nánast gefin niðurstaða í samræmingu Efnahagsbandalagsins. Á sama tíma ætlum við á Íslandi að halda því fram að virðisaukaskattur verði að vera í einu þrepi, ein prósenta á allt. Þeir sem reynslu hafa af virðisaukaskattinum vilja ekki fara þá leið nema e.t.v. Danir. Við sem erum að taka trúna skulum vera kaþólskari en páfinn“, segir í þessu fréttabréfi frá Alþýðusambandi Íslands sem ég hef nú lesið.

Mér er kunnugt um að í Svíþjóð er verið að ræða um það núna og í Noregi að setja skatta svipaða og eru eða verða í Efnahagsbandalagsríkjunum. Svíar t.d. hafa við það að stríða að það er miklu af bæði nautum og svínum slátrað í heimahúsum einmitt vegna þess hvernig þessir skattar eru þar og fer sú verslun fram þar í stórum stíl. Sannleikurinn er sá að það er bara að yfirvarpi sem þessi skattur er ákveðinn hér sama prósenta. Það kom fram bæði í fjárlagaræðu hæstv. fjmrh. og hefur komið fram hjá mörgum þessum frjálshyggjupostulum í þjóðfélaginu að það þurfi að taka fyrir að greiða niður vöruverð. Mér blandast ekki hugur um að það sé stefnan, stefnan sé sú að koma þessum skatti á nú og síðan eigi að ganga frá landbúnaðinum á þann hátt að láfa þennan skatt koma á hann án niðurgreiðslna.

Menn skulu athuga í þessu sambandi hvað er verið að gera. Ég hef fyrir því sannanir að t.d. Hollendingar, Belgar og fleiri Evrópuþjóðir líta þannig á að þegar þær eru í vafa um að eitthvað af grænmeti og þess háttar sé á mörkum þess að komast í gegnum skoðun heilbrigðiseftirlits í löndunum sé það sent til Íslands. Ef það er ekki sent til Íslands er það sent á öskuhaugana. Það er fleira en bílar sem er ekki hægt að selja annars staðar en á Íslandi eða þá að eyðileggja. Hvað þýðir þetta? Hæstv. heilbrmrh. er ekki hér, en ég hefði viljað spyrja að því: Hvernig er eftirliti háttað í sambandi við innflutning á ýmsum vörum, grænmeti t.d., frá Evrópuþjóðunum? Hvernig er það? Læknir sem var í Hollandi fullyrðir að það sé ekkert nema málamyndaeftirlit á þessum vörum. En hvað er hæstv. ríkisstjórn að gera? Hún er að koma á neyslubreytingu í þessu þjóðfélagi. Mér dettur ekki í hug að halda að hæstv. fjmrh. sé genginn af þeirri trú að það þurfi að minnka landbúnaðinn ofan í ekki neitt og hann sé ekki með það enn í huga, ef hann ræður einhverju áfram í þjóðfélaginu, sem ég tel nú litlar líkur á sem betur fer, að það verði þá hætt niðurgreiðslunum. Ég vil líka benda á að ef verður svipuð neysla á þeim vörum sem á að greiða nú og á síðasta ári sé ég ekki betur en það séu aðeins 2/3 af því sem á að borga niður miðað við 25% söluskatt. Ég spyr eftir því hvort tryggt sé að á meðan þessi ríkisstjórn situr, hún líklega situr nú ekki nema í þrjá mánuði í mesta lagi, verði staðið við það þann tíma sem hún situr.

Ég endurtek þá spurningu og ég óska eftir því, það er víst ekki nema einn framsóknarmaður hér inni, nei þeir eru tveir, að annar þeirra taki að sér að koma því til hæstv. heilbrmrh. að hann upplýsi í þessum umræðum, ég mun þá taka málið upp við 2. og 3. umr. ef ég fæ ekki svör, hvernig heilbrigðiseftirliti er háttað í sambandi við innflutning t.d. á grænmeti og öðrum matvörum frá þeim löndum þar sem skógarnir eru að deyja. Það þarf enginn að segja mér að það geti ekki verið menguð matvara sem er framleidd í jarðvegi sem skógarnir þrífast ekki í. Og er sem umræddur læknir sagði við mig að væri útbreidd skoðun í Evrópu, óhætt að flytja grænmeti og annað upp á það til að gera að það yrði ekki stöðvað af heilbrigðiseftirliti? Þetta er mál sem verður að brjóta til mergjar hvort sem það er í sambandi við þennan söluskatt eða ekki.

Mér er líka sagt að það hafi átt að senda til Finnlands grænmeti og hafi verið stoppað vegna þess að þeir hafi ekki talið það vogandi, en slík sending hafi lent á Íslandi. Þetta er alvarlegt mál.

Ég sagði áðan að mótmæli heyrðust hvaðanæva. Það hefur verið sagt frá fundi bænda á Blönduósi — það er verst að hv. formaður fjh.- og viðskn. er ekki hér — þar sem þessum skatti er algerlega mótmælt. En það er einn aðili sem er ánægður í þessu þjóðfélagi yfir þessum skatti. Og hvers vegna skyldi það vera? Það er Verslunarráðið. Það er farið að koma fram í blöðum í sambandi við t.d. innflutning eins og á frönskum kartöflum og öðru. Þeir mótmæla því að það skuli eiga að hamla gegn þeim innflutningi. Við vitum það, sem heyrum og skiljum, að um leið og verður farið að greiða niður þessar vörur byrjar söngurinn frjálshyggjumannanna, Verslunarráðsins og annarra um að það verði að gefa þetta frjálst. Undir það tekur almenningur, sem er að sligast undir matarkaupunum ef það fer sem mér sýnist alveg greinilega, enda fór hæstv. fjmrh. ekki dult með hvað fyrir honum vakti í hans fjárlagaræðu. Það átti ekki að borga niður. Það átti að bæta fólki með því að auka fjölskyldubætur, hækka persónufrádrátt. Það átti ekki að borga niður.

Ég óska hv. þm. Framsfl. og dreifbýlisþingmönnum annarra flokka til hamingju með að hafa kyngt þessu. Eru menn virkilega hér á hv. Alþingi á árinu 1987 svo linir að þeir láti kúga sig í þessum málum? Er það tilfellið? Er það alveg eins og í vaxtamálunum? Menn berja sér þar á brjóst sumir hverjir og segja: Þetta gengur ekki, þetta gengur ekki, m.a.s. hæstv. utanrrh. Hann gerði það vandlega í Tímanum og sagði að allt væri að fara í strand. Þessi vaxtastefna væri að eyðileggja alla. Og það er eins og blöðin, a.m.k. Tíminn, telji að þetta sé alveg ný uppgötvun ráðherrans. Ég er búinn að halda þessu fram síðan í haust. Hins vegar er hlutleysi fjölmiðlanna. Auðvitað eru þeir hlutlausir. Hverjum dettur annað í hug en að t.d. Sjónvarpið sé hlutlaust? En hlutleysi þeirra birtist í ýmsum myndum. Þeir hafa t.d. ekki rætt við þann sem stendur hér í ræðustól nema einu sinni síðan þetta þing tók til starfa og það var um bjórinn, ekki um það þó ég segði hér á Alþingi að þetta væri strandstefna, vaxtapólitíkin í landinu. Þeir hafa ekki minnst á það. Við héldum ráðstefnu 5. desember norður á Akureyri til að fjalla um þessi mál öll, ég kem að því síðar, en hlutleysi blaðanna kemur þannig fram að það var Morgunblaðið eitt sem birti þær ályktanir sem þar voru samþykktar. Dagblaðið birti að vísu það sem frétt, en brenglaði því. Allir fjölmiðlar fengu þær tillögur sem sú ráðstefna samþykkti með samhljóða atkvæðum á annað hundrað manns. Þar kemur fram einmitt hvernig sá hópur sem þar var lítur á það sem hér er að gerast og ég mun koma að því betur seinna.

Nei, frjálshyggjan nærist á misrétti og veitir þeim sem hafa fjármuni og völd allan rétt á kostnað hinna, á kostnað almennings. Í umræddu viðtali við Tímann, sem hæstv. utanrrh. hefur í Tímanum laugardaginn sl., er stríðsfyrirsögn: „Raunvaxtaokri verður að linna.“ Það er formaður eins stjórnarflokksins sem segir þetta. Er honum ekki ljóst að hann ber ábyrgð á því eins og hinir? Er ekki ráðherrum og þm. ljóst að þeir bera sameiginlega ábyrgð á því sem er að gerast í þingsölunum? Það þýðir ekkert fyrir þá að krossa sig. Og ef kæmi til kosninga í vor, sem eru nú miklar líkur fyrir, þýðir ekkert fyrir þá að krossa sig og segja: Ég var á móti þessu. En auðvitað samþykkja þeir allt. Ég veit ekki hvað hæstv. utanrrh. gerir, hvort hann kemur inn í þingið eða verði ekki viðstaddur atkvæðagreiðsluna. Það kann að vera.

En hvernig er þessum málum fyrir komið? Ég hef haldið því fram áður að þó það sé í lögum að það séu bankaráðin sem ráði vöxtunum í bönkunum vil ég minna á það, sem kom fram hjá Tryggva Pálssyni í Landsbankanum, en hann sagði að til Seðlabankans færu rúm 2% af vöxtum bankanna. Þetta er það sem skýrir þann vaxtamun sem er í þessu þjóðfélagi. (Forseti: Þar sem klukkan er nú orðin hálfeitt vil ég inna ræðumann eftir því hvort hann eigi langt eftir af ræðu sinni. Ef svo er mun honum heimilt að halda áfram eftir fundarhlé.) Ja, herra forseti. Ég á nokkuð langan hluta eftir ef röddin bregst mér ekki. Ég mun þá gera hlé á ræðu minni. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég mun ekki hefja ræðu mína fyrr en eitthvað af hæstv. ráðherrum er komið í salinn. Ég mun bíða þess hér í ræðustól að hefja mál mitt þangað til þeir sjást. (Forseti: Það munu gerðar ráðstafanir til þess.)

Herra forseti. Ég sé að hæstv. forsrh. er mættur. Ég sakna þess að fjmrh. er ekki kominn. Ég hefði viljað beina fyrst og fremst orðum mínum til hans og hæstv. viðskrh. þar sem ég var þangað kominn í ræðu minni að tala um vaxtamálin. (Forseti: Það er upplýst að fjmrh. er í húsinu og þarna gengur hann í salinn.) Eins og ég sagði, herra forseti, var ég kominn þar í ræðu minni að ég var að tala um vaxtamálin og var búinn að taka fram að það væru ekki bankaráðin sem réðu vaxtastefnunni heldur væru það hæstv. ríkisstjórn og raunar Seðlabanki en þar sem ég fullyrti þetta vil ég færa rök fyrir því í máli mínu.

Þannig eru mál að eins og nú standa sakir er bönkunum skylt að binda í Seðlabankanum 13% af heildarinnlánum bankanna og það gildir auðvitað með sparisjóði og innlánsstofnanir kaupfélaganna. Það eru raunar allir aðrir en „grái“ markaðurinn sem er í sérstökum hávegum hafður hjá hæstv. ríkisstjórn. Þessi 13% eru með verðtryggingu en engum vöxtum. Síðan gerist það stuttu eftir að hæstv. ríkisstjórn tök við völdum að sett var önnur kvöð á bankana, þ.e. að þeir áttu að binda ákveðið hlutfall af sínum innstæðum. Þetta er flókinn reikningur en til þess að einfalda málið, þá eru það um 11% af heildarinnlaunum sem verða að vera á reikningum hjá Seðlabankanum annaðhvort í ríkisvíxlum eða í reikningum Seðlabankans. Ef þeir eiga ekki þetta inni á hverjum tíma verða þeir að borga vexti af mismuninum, þ.e. að ef Búnaðarbankinn, sem ætti að eiga þarna um 1100 millj., á ekki nema 900 millj. verður hann að borga af þessum 200 milljónum 4,1% refsivexti, af því sem hann þó ekki skuldar.

Tryggvi Pálsson í Landsbankanum mat það þannig að þegar allt væri til tekið tæki Seðlabankinn til sín rúmlega 2% af heildarinnlánunum. Ef ég útskýri þetta frekar: Þessi 13% í Búnaðarbankanum eru um 1,7 milljarðar. Ef ég gef mér að þetta fé væri lánað út af Búnaðarbankanum með þeim vöxtum sem nú eru en tæki ekki það sem er ef menn þurfa að skuldbreyta hjá sér því þá eru vextirnir hærri, en ef ég miðaði við 9,5%, það er kannski ekki sanngjarnt að setja dæmið svona upp, það er ekki svona einfalt, þá eru þetta um 160 millj. Síðan er það sem er bundið í Seðlabankanum á þeim reikningum sem ég gat um áðan. Þeir voru í janúar 15%, sem Seðlabankinn gaf af því sem þar er inni, en hækkuðu í ágúst upp í 26% og hefur það ekki breyst síðan. Það er fleira sem gerist. Það er einnig inni, bæði hjá Framkvæmdasjóði, sem er með ákveðnum vöxtum, og ríkisábyrgðasjóði, sem er líka með ákveðnum vöxtum, en þegar þetta allt er metið er það niðurstaða Tryggva Pálssonar sem ég sagði áðan.

Þegar verið er að deila á bankana fyrir að vaxtamunur sé mikill verða menn að athuga að skatturinn, sem þeir í raun og veru borga, er rúm 2% eftir mati Tryggva Pálssonar og menn verða að hafa í huga, hv. þm., hvernig á þessum skattamun stendur. Þegar ríkisvíxlarnir voru boðnir út voru 90 daga ríkisvíxlar, þegar þessi hæstv. ríkisstjórn kom til valda, 22,5% eða ársávöxtum 26,6. Á fimm mánuðum til 1. des., sem hæstv. ríkisstjórn hefur setið að völdum, hefur þetta hækkað úr 26,06% upp í 41,3% ávöxtun, þetta eru 90 daga víxlar, eða um 15,24% sem er 60% hækkun á valdaferli þessarar ríkisstjórnar eða 12% að meðaltali á mánuði. Það er mikil vaxtalækkun sem hefur orðið hjá hæstv. ríkisstjórn eða finnst ekki hv. þm. það skila sér vel? Það er nauðsynlegt að þetta komi fram.

Hæstv. utanrrh. sagði í Tímanum sl. laugardag, eins og ég gat um áður, og er með stríðsfyrirsögn og með leyfi forseta ætla ég að lesa nokkrar setningar upp úr Tímanum:

„Steingrímur Hermannsson utanrrh. segir að frjálshyggjan á sviði peningamála muni sigla hér öllu í strand ef ekki verði gripið í taumana strax. Ekki sé rétt að bíða og sjá til hvort verið geti að einhver heilög hagfræðilögmál kunni að virka, eins og viðskrh. segist vilja. Slík lögmál geta ekki virkað hér á landi miðað við verðbólguástandið og því megi ekki bíða með aðgerðir þar til annað hvert fyrirtæki í landinu er komið í þrot.“

Þetta segir formaður Framsfl., hæstv. utanrrh., um ríkisstjórn sem hann er aðili að. Hvers vegna segir hæstv. utanrrh. þetta? (SJS: Hvar er hæstv. ráðherra?) Hann á ekki sæti á þingi, hv. þm. (SJS: Hann gegnir ráðherraskyldum.) Annars getur sjálfsagt hæstv. forseti upplýst hvar hann er. (SJS: Hann er ekki búinn að segja af sér ráðherraembætti.) (Forseti: Ég vil benda á að hæstv. utanrrh. er ekki á þingi sem stendur.) (SJS: Er hann ekki ráðherra? Gegnir hann ekki þingmannsskyldum?) (Forseti: Hann gegnir ekki þingmannsskyldum eins og er vegna þess að hann er með varamann á Alþingi. En hann svarar að sjálfsögðu fyrir sín mál hér á þingi eins og áður þó hann eigi hér ekki sæti. Það er hin almenna regla.)

Ég hef haft það á tilfinningunni að í raun og veru sé hæstv. utanrrh. ekkert sæll að vera í þessari ríkisstjórn og kann að vera að hann sé farinn að skilja að það er orðið stutt í bláþræðinum sem blekkingarvefur ríkisstjórnarinnar er ofinn úr og sé nú stutt í að hann slitni.

En ég endurtek að það er mikil ábyrgð sem hvílir á hæstv. ríkisstjórn í sambandi við vaxtamálin. Ég er hér með viðtal við einn af þeim sem stjórna „gráa“ markaðnum, viðtal sem sýnir hvert stefnir. Hann segir að hann hafi verið að eignast tvö fyrirtæki og hann segir í þessu viðtali að hann ætli sér að eignast mörg fleiri fyrirtæki. Og hann tekur það fram: Þetta er löglegt. Ég þarf ekkert að fela. Þetta er löglegt.

Annað þetta fyrirtæki rak einn athyglisverðasti hönnuður hér á landi, segist ekki hafa fengið fyrirgreiðslu, hefur síðan lent í þessum „gráa“ markaði. Og þessi maður, sem blaðið á viðtal við, segir hiklaust: Ég ætla mér að eignast eignir. Það er mín stefna.

Segir þetta ekki hv. þm. nokkra sögu um hvert stefnir? Það skiptir engu máli hvað menn segja hér eða annars staðar. Þeir þm. sem fylgja þessari ríkisstjórn bera ábyrgð á heildarstefnunni og það þýðir ekkert fyrir þá að reyna að þvo hendur sínar. Þær verða jafnkámugar eftir þann þvott ekki síður en hjá Pílatusi forðum.

Af vaxtastefnunni leiðir það, eins og ég gat um áðan, að þegar ríkissjóður auglýsti ársávöxtun fyrst upp á 39,6% og tíu dögum síðar upp í 41,3% fór að streyma féð út úr bönkunum og þá áttu bankarnir engan kost annan en hækka innlánsvextina sem leiðir svo til þess að útlánsvextirnir verða að hækka því annars yrðu þeir að borga í refsivexti eins og áður segir 41%. Þetta er það kerfi sem við búum við. Þetta er það kerfi sem er að gera tiltölulega fáa einstaklinga auðmenn en hið venjulega fólk öreiga. Það hefur fjöldi manns haft samband við mig, bændur, húsbyggjendur, þeir sem eru með alls konar iðnað, og segja: Það stefnir nú í gjaldþrot hjá mér.

Ég sakna hæstv. viðskrh. Hann taldi að það væri ekki búið að sýna sig, það þyrfti að sýna sig hvort þessi aðferð, að hækka sífellt vextina mundi bera árangur. Er það jafnaðarstefnan á Íslandi í dag að gera þá ríku ríkari og fjöldann öreiga? Er þetta stefna Framsfl.? Er það? Það var það ekki. En er það? Þeir eru ábyrgir fyrir þessari stefnu, það skulu þeir vita, og þýðir ekkert fyrir þá að firra sig ábyrgð og það sama vil ég segja ekki síst um landsbyggðarþingmenn Sjálfstfl.

Hér er lýst svo aðferðunum til að koma þessu kerfi í gegn. Í hvaða blaði? Það er í sjálfu Morgunblaðinu þar sem því er lýst nákvæmlega hvernig það gerðist. Það er haft samband við örfáa menn. Fyrst koma þeir sér saman gamla viðreisnarstjórnin, þ.e. Sjálfstfl. og Alþfl., og það er ekki fyrr en þeir eru búnir að ná saman sem er haft samband við hæstv. sjútvrh. Það þurfti ekki að tala við aðra. Eftir því sem Morgunblaðið segir tók hann að sér að tala við Steingrím Hermannsson, hæstv. utanrrh. Það þurfti ekki að tala við þm. Það var ekki málið. Og það þarf ekki í Sjálfstfl. að tala við þm., enda sagði varaformaður þingflokksins þegar ég fór að ræða við hann um fjárlögin: Ja, þetta eru okkar vinnubrögð. Það er okkar vani að vera ekkert að leggja málin fyrir þingflokkinn. Hvað kemur þingflokknum við hvað Sjálfstfl. ætlar að gera? Hann á að hlýða og gera það sem við segjum. Þetta kemur í raun og veru fram með óbeinum orðum í Morgunblaðinu sem ég get lesið upp við 2. eða 3. umr. ef mál munu leggjast þannig að ég telji það nauðsynlegt. Ef ekki einhver annar. Ég get líka lánað öðrum það sem er kannski með sterkari rödd en ég í dag.

En það er nauðsynlegt að þetta sé tekið inn í umræður hér til að það fari ekkert á milli mála hvernig er unnið að þessum málum. Hér kemur fram alveg svart á hvítu hvernig þessi mál eru unnin sem betur fer. Mér kemur þetta ekkert á óvart. Ég þekki þessi vinnubrögð. Ég þekki það í öllum þessum flokkum. En það er nauðsynlegt að landsbyggðin, láglaunafólkið, sem er verið að níðast á með þessari kerfisbreytingu, fái að vita allt það sanna í því efni.

Hvernig halda hv. þm. að sé komið fyrir þeim mönnum, t.d. þeim bændum sem skulda um áramótin á aðra milljón þó þeir hafi stór fjárbú, að bera þá vexti sem nú eru í þjóðfélaginu? Annars segir Dagur á Akureyri í leiðara, og væri fróðlegt að vita eftir hverjum slíkt er haft, að raunvextir séu um 23% á sama tíma og Landsbankinn er að auglýsa eftir fjármagni og býður 10,8% með fullri verðtryggingu. Eru leiðarahöfundar blaðanna orðnir svo heilaþvegnir að þeir láti lesa fyrir sig og setji svo stafina sína undir? Er það orðið þannig?

Ég var ekki hér, herra forseti, þegar tollafrv. kom til 1. umr. Ég ætla ekki að ræða það mikið, en kemst ekki hjá því að minnast á það við þessa umræðu þó ég kannski taki það betur í gegn síðar þegar það kemur til 2. umr. En það er nauðsynlegt að benda á örfá atriði í því sambandi. Það kemur fram í úrklippum úr Morgunblaðinu hverjir það eru sem bera ábyrgð á eða voru starfsmenn hæstv. ríkisstjórnar, fyrst og fremst hæstv. fjmrh., að útbúa þá kerfisbreytingu sem er hér búið að leggja fram. Það voru þeir Björn Björnsson, Bolli Bollason, Ólafur Ísleifsson, Ólafur Davíðsson og Víglundur Þorsteinsson. Þegar maður fer að athuga tollskrána, þó ég hafi ekki á þessum tíma getað farið mikið ofan í hana, sést að hún ber með sér að Víglundur Þorsteinsson hefur farið um hana höndum. Ég kannski ræði það betur síðar.

En það sem er athyglisverðast er að sumt af hinum unga iðnaði okkar verður þannig leikinn, ef þetta fer fram óbreytt, að hann stöðvast, einhverjar greinarnar, eða verður gjaldþrota nema verði úr bætt. Það er t.d. með gúmmíiðnaðinn, sólninguna, með endurvinnsluna á dekkjum, eins og Gúmmívinnslan á Akureyri hefur verið að þróa í sl. fjögur ár og býr til gúmmímottur, dýnur og bobbinga úr dekkjum sem hún rífur upp. En hvernig gera Svíar þetta aftur á móti? Það er alltaf verið að vitna í einhverjar Norðurlandaþjóðir eða reynt að benda á hvernig þessi mál eru annars staðar. Þeir leggja t.d. á gúmmíbarðana ákveðið endurvinnslugjald sem þeir fá síðan greitt þegar þeir koma á þá staði sem taka að sér að endurvinna dekkin. Á þennan hátt vernda Svíar þennan iðnað og koma í veg fyrir að hann leggist niður, en eitt af því sem er erfitt hjá þeim eins og okkur er að bæði það og annað hrúgast upp. Aðrar þjóðir leggja höfuðáherslu á að endurvinna sem mest af úrgangi alls konar. Alveg sama er með t.d. eggjabakkana sem eru unnir úr dagblöðum eða öðrum pappír. Mér er sagt að það muni stöðvast. Eitthvert fyrirtæki er í Hafnarfirði, sem ég kann ekki nægileg skil á, sem býr til stiga og annað úr áli. Mér er sagt að það sé í Hafnarfirði. Enn fremur álpönnur sem eru unnar á Eyrarbakka. Einhvers staðar sá ég að það væri búið að bjarga því máli með einhvers konar breytingum þó ég ekki kunni á því skil þar sem ég hef ekki getað af heilsufarslegum ástæðum fylgst nægilega vel með. En ef ég hef tekið rétt eftir er búið að bjarga því máli.

Þannig væri hægt að halda áfram að tína upp ýmis fyrirtæki, sem hafa verið og eru í harðri samkeppni við innflutning, sem manni sýnist að sé verið að skera alveg á. Mér dettur ekki í hug að hæstv. ríkisstjórn sé af illvilja að gera þetta heldur er þetta ekki skoðað. Menn vita ekki, hvorki hæstv. ráðherrar eða þm., til hvers leiðir þessi kerfisbreyting, enda kemur í ljós, ef maður fer að tala við hv. þm., að þeir hafa ekki hugmynd um til hvers það leiðir.

Þá er ég kominn að þeim kafla ræðu minnar sem ég skal vera frekar stuttorður um, en það er í sambandi við landbúnaðinn. Það kannski þarf ekki að hafa mjög mörg orð um landbúnaðinn ef heldur sem horfir. Það er ekkert undarlegt þó það sé þannig. Þegar búvörulögin voru samþykkt 1985 var ég formaður landbn. þessarar deildar. Þá átti sæti í nefndinni núv. hæstv. fjmrh. Það voru haldnir margir fundir í landbn., ekki man ég hvað margir, eitthvað milli 10 og 20 formlegir fundir, og margir fundir þá með meiri hlutanum. En þegar málið kom hér til 2. umr. lá fyrir dagskrártillaga frá þáv. þm., núv. hæstv. fjmrh., Jóni Baldvini Hannibalssyni. Það var á tvo eða þrjá fundi sem hæstv. ráðherra mætti í landbn. Ég man ekki hvort þeir voru tveir eða þrír. Ekki meira en þrír. En þá leyfði hæstv. ráðherra sér að leggja fram dagskrártillögu sem er þess eðlis að ég vil lesa hana upp hv. þm. til upprifjunar og þeim sem eru nýir svo að þeir viti hvernig þessi hv. þm., núv. hæstv. fjmrh., stóð þá að málum. Það er með undarlegasta hætti að t.d. framsóknarþingmenn, Framsfl., skuli svo láta þennan mann, með þá afstöðu sem hann hefur haft og hefur í landbúnaðarmálum, stjórna þessari kerfisbreytingu, í raun og veru stjórna mestu um það sem er að fara fram á hv. Alþingi.

En dagskrártillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Þar sem

— frv. þetta er að meiri hluta til samið af alþm. sem hafa beinna fjárhagslegra hagsmuna að gæta við lögfestingu þess,

— það hefur ekki fengið þinglega meðferð, er m.a. órætt í landbn. og fékkst ekki sent til umsagnar aðila sem geta beðið alvarlegt fjárhagslegt tjón af lögfestingu þess,

— byggir ekki á neinni fræðilegri könnun á fjárhagslegum áhrifum þess á kjör bænda, neytenda, skattgreiðenda, ríkissjóðs né þjóðarbús,

— byggir á úreltum stjórnsýsluhugmyndum frá átjándu öld um ríkisforsjá, einokunarverðmyndun, miðstýringu, valdboð og þvinganir sem ganga í berhögg við stjórnarskrárákvæði um atvinnufrelsi,

— lokar síðustu smugum sem eftir eru fyrir frjálsa menn við landbúnaðarstörf og gerir þá að þrælum Framleiðsluráðs og ráðuneytis,

— útilokar samkeppni framleiðenda um verð og gæði og afnemur þar með öllu alla hvatningu til að halda tilkostnaði í skefjum og lækka verð og stuðla þannig að rekstrarlegu ábyrgðarleysi og offjárfestingu vinnslu- og dreifingaraðila,

— felur í sér hóflausa skattlagningu á búgreinar, sem miðstjórnarkerfinu eru vanþóknanlegar, og mismunar því einstaklingum fyrir lögum,

— tryggir bændum ekki staðgreiðslu afurða sinna, en mun að öllum líkindum hækka verulega allan tilkostnað við framleiðslu, vinnslu, dreifingu landbúnaðarafurða og þar með „útflutningsbótaþörf“ á þessu ári,

— slær á frest löngu tímabærum uppskurði á úreltu, rándýru, óhagkvæmu og ranglátu ofstjórnar- og milliliðakerfi í landbúnaði sem hefur neytendur jafnt sem bændum að féþúfu,

— mun kosta þjóðina marga milljarða króna á ári hverju verði það að lögum,

telur Alþingi frv. þetta í sjálfu sér til vansa, bændum, neytendum, skattgreiðendum, ríkissjóði og þjóðarbúinu til skaða og vísar því málinu frá og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Þannig hljóðaði dagskrártillaga þess manns sem kom á tvo eða þrjá fundi í landbúnaðarnefnd og sem nú stendur í vegi fyrir því að bændur fái umsamda greiðslu skv. þessum lögum. Á þessu bera ábyrgð allir hv. þm. sem styðja þessa ríkisstjórn. Svo vill nú til að hv. þm. Eiður Guðnason flutti þessa flottu dagskrártillögu aftur í Ed. Ég bendi á að það þyrfti að komast til Vestlendinga, a.m.k. þeirra í strjálbýli, hvernig Alþfl. stóð þá að þessu máli og hvernig hann stendur að þessum málum nú.

Í þessari umræðu ætlaði ég að lesa fleira upp, en vegna þess að röddin er farin að bresta mun ég draga það til 2. umr. málsins í þeirri von að hún verði þá komin í lag.

Það er umhugsunar vert hvernig er staðið að málum í Áburðarverksmiðju ríkisins. Ef ég man rétt kom það í hlut bænda á þeim tímum sem verðbólgan var mest og gengisfellingarnar að borga rekstrarfé hennar eins og það kostaði. Það var alltaf í erlendum gjaldeyri eins og það var á hverjum tíma. En nú eru breyttir tímar og nú eru það vildarkjör að fá rekstrarlánin í erlendum gjaldmiðli. En hvað gerist þá? Þá gerist það að þó þetta sé eins og áður, ég veit ekki með hvaða vöxtum fyrir víst en aldrei meiri en 9% vöxtum, verða bændur látnir borga þetta eins og það væri innlent fé, með afurðavöxtum eins og landbúnaðurinn borgar af sínum afurðalánum. Þ.e. í dag er þetta 33% en hefði verið aldrei meira en 9%. Menn halda e.t.v. að þetta komi í sama stað niður, en það er langt því frá. Það er vegna þess að verðið sjálft kemur í grundvöllinn, en vextirnir af afurðalánunum koma þar ekki fram. Þess vegna eru bændur látnir bera þennan mismun og fá það ekki að neinu leyti uppi borið. Fyrst þetta er svona ætti landbúnaðurinn einnig að geta fengið erlend lán út á sínar afurðir. Ef þau væru tekin með SDR-vöxtum er hægt að fá þau með 9% vöxtum a.m.k. eða innan við það. Og ef þau væru tekin í þýskum mörkum væri hægt að fá þessi lán með 6% vöxtum. Þó að gengið hefði verið fellt um 15% mundi það samt borga sig fyrir bændur. En þannig er staðið að þessum málum og ég tel ástæðu til þess að það komi hér fram.

Ég mun fara að ljúka máli mínu, herra forseti. Ég vil þó endurtaka það, sem hefur komið fram hjá mér í ræðu minni, að það er fyrirsláttur einn að það þurfi að setja á matarskatt vegna þeirrar kerfisbreytingar sem hæstv. ríkisstjórn vinnur að að framkvæma eftir rúmt ár. Ég hef skýrt frá því hér að framan að Efnahagsbandalagsþjóðirnar stefna í að það séu a.m.k. tvö skattþrep. Ég hef líka skýrt frá því að það séu í gangi umræður í Noregi og Svíþjóð um að samræma sína skatttöku miðað við það sem er og verður hjá Efnahagsbandalagsþjóðunum. Ríkisstjórnin stendur því þarna nakin frammi fyrir þjóðinni. Það er tilbúningur að þetta sé gert vegna kerfisbreytingarinnar. Ég geri ekki ráð fyrir því, þó að ég ræði þessi mál hér, að t.d. blöðin, hvort sem það er Tíminn eða Dagur, það er helst Morgunblaðið, muni minnast á það sem hér kemur fram. Þeir eru þá feigir ef þeir taka eitthvað upp af því sem ég kann að segja á þessum vettvangi. En ég mun kannski tala til þeirra betur síðar.

Ég vænti þess að sá fundur sem verður í dag á Lækjartorgi opni augu hæstv. ríkisstjórnar fyrir því að þetta gengur ekki. Ég vona að hæstv. viðskrh. átti sig á því að ef vaxtastefnan verður svona áfram, og get ég vel tekið undir það, muni það segja eitthvað til sín að hækka sífellt vextina. En hvernig segir það til sín? Það stöðvar fyrirtækin. Það stefnir í gjaldþrot. Það stefnir hjá mörgum í atvinnuleysi eins og er þegar t.d. með ullariðnaðinn og fleiri aðila. Það er nýtt fyrir mér ef það er hin sanna jafnaðarstefna sem þarna er fylgt.

Ég mun bæta við þetta við 2. umr. og ég er tilbúinn með öðrum að standa að brtt. og láta á reyna hvort það verður hægt að handjárna þm. stjórnarflokkanna í þessu máli. Það gæti orðið erfitt fyrir suma að standa þannig að málum að setja á slíkan skatt sem mundi hafa þær afleiðingar sem ég hef lýst að nokkru en mjög mörgu væri hægt að bæta við.