21.12.1987
Neðri deild: 34. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3095 í B-deild Alþingistíðinda. (2178)

196. mál, söluskattur

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Óneitanlega er það býsna óvenjulegt ástand sem nú hefur skapast. Fjárlög verða bersýnilega ekki afgreidd fyrir jól. Öll tekjuöflun fjárlagafrv. er í óvissu og væntanlega þinghald á milli jóla og nýárs sem ekki hefur gerst í tæp 30 ár. Hvað veldur þessum ósköpum? Hvað veldur því að þinghaldið er nú í meira uppnámi, meiri óvissu en nokkru sinni fyrr í 30 ár? Ekki eru stjórnarskipti eins og var fyrir 30 árum síðan þegar þetta gerðist síðast, árið 1958, og ekki er hægt að kenna neinum óvenjulegum ytri aðstæðum um. Ég held að svarið liggi nokkuð í augum uppi. Það er óvenjulegt stjórnleysi af hálfu ríkisstjórnarinnar sem þessu veldur. Forustuleysi í löggjafarstarfinu.

Af þessu tilefni langar mig til að leggja spurningu fyrir hæstv. forsrh. sem er nú nýgenginn út úr þingsalnum og ég vildi biðja forseta að kalla á hann, enda ótækt að forsrh. sé ekki viðstaddur þær umræður sem hér fara fram og reiðubúinn að svara þeim spurningum sem fyrir hann eru lagðar. (Forseti: Ég hef þegar hringt á þingvörð, hv. ræðumaður.) Það er dálítið erfitt að leggja spurningar fyrir fjarstadda menn. Já, herra forseti, þá birtist hæstv. forsrh.

Ég var að fjalla um það hér áðan hve óvenjulegt stjórnleysi væri ríkjandi um þessar mundir og mig langaði til þess að nefna það sem dæmi að í gær var það fært í tal við stjórnarandstæðinga á Alþingi að ef þeir greiddu fyrir því að mál gætu náð fram að ganga fyrir jól, þá stæði það til boða að söluskattur yrði ekki lagður á fisk. Mér er kunnugt um að umræður fóru fram milli stjórnarandstöðu og ríkisstjórnar einmitt um þetta atriði um miðjan dag í gær og þess vegna kom það mér ekki svo lítið á óvart þegar ég heyrði það í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins að hæstv. forsrh. hefði fyrir hönd ríkisstjórnar sinnar eða í öllu falli einhver fulltrúi ríkisstjórnarinnar hefði komið því á framfæri við forustumenn verkalýðshreyfingarinnar að til boða stæði að leggja ekki söluskatt á fisk ef verkalýðshreyfingin yrði þá frekar til viðtals um hagstæða niðurstöðu fyrir ríkisstjórnina í komandi kjarasamningum. Ég verð af þessu tilefni að fá að spyrja hæstv. forsrh. að því hvort þetta sé rétt sem þarna kom fram og hvort það sé virkilega svo að hann hafi verið að bjóða sama köttinn tvisvar, tveimur aðilum, verið að bjóða stjórnarandstöðunni að semja við hana um framkvæmd mála hér á Alþingi, en hafi svo á nákvæmlega sama tíma verið að reyna að koma þessari verslunarvöru sinni á framfæri við verkalýðshreyfinguna sem eins konar skiptimynt í komandi kjarasamningum. (ÓÞÞ: Keyptuð þið nokkuð köttinn?) Það er hins vegar skemmst af því að segja eins og hv. þm. þekkir eins vel og allir aðrir að við stjórnarandstæðingar keyptum ekki köttinn. (ÓÞÞ: Þá selur hann náttúrlega öðrum.) Og ég hygg að verkalýðshreyfingin hafi heldur ekki keypt köttinn. En þess vegna spyr ég að það mundi heyra til talsverðra tíðinda ef þetta væri rétt að hæstv. forsrh. hefði reynt að selja sama köttinn tvisvar sama daginn og það á sama tíma tveimur ólíkum aðilum. Þess vegna spyr ég hreint út: Er þessi frétt Ríkisútvarpsins rétt eða röng? Og ég ætlast til þess að hæstv. forsrh. svari þessari spurningu skýrt og ákveðið.

Mig langar líka til þess að spyrja hæstv. fjmrh., Jón Baldvin Hannibalsson, að því hvort honum finnist ekki ef hætt er við að leggja söluskatt á fisk að meginröksemd hans fyrir álagningu söluskatts á matvörur sé þar með fallin. Hann hefur haldið því fram að nauðsynlegt væri að leggja söluskatt á matvörur til þess að einfalda kerfið og reyna með þeim hætti að draga úr skattsvikum. Hann hefur sagt að ekkert mætti undan skilja af því sem selt væri í matvöruverslunum. Við hljótum því að spyrja: Ef hægt er að undanskilja eina vörutegund með þessum hætti, sem ég vissulega sjálfur tel að hægt sé að gera, hvað telur hann að verði þá um kerfið sem átti að vera svona einfalt og rökrétt og undantekningalaust? Er ekki röksemd hans fyrir einföldun kerfisins þar með niður fallin ef í flestum matvöruverslunum bæjarins verður áframhaldandi fleiri en eitt söluskattsstig, þ.e. enginn söluskattur í sumum tilvikum en söluskattur í öðrum tilvikum? Auðvitað er þessi röksemd hæstv. fjmrh. hreinn fyrirsláttur.

Auðvitað morar allt af undantekningum í þessu kerfi eftir að lögin hafa verið samþykkt eins og við best sjáum á frv. sjálfu. Þar er heil blaðsíða þar sem undantekningarnar eru raktar og sjá auðvitað allir að götin eru gríðarlega mörg eftir sem áður. En aðalatriðið er það að hér er verið að gera breytingar á söluskatti sem eru mjög íþyngjandi fyrir láglaunafólk í landinu. Og við hljótum að verða að fá að vita hvers vegna þeirri röksemd er haldið fram einn daginn að enga undantekningu megi gera, alls enga í hverri matvöruverslun, en svo aftur annan daginn boðið fram að sleppa þessari vörutegundinni eða hinni.

Reyndar er það alveg ljóst af vinnubrögðunum við undirbúning þessa máls að þar er hin mesta happa/glappa aðferð á ferðinni. Ídesembermánuði var talað um það af hálfu stjórnarliða að til stæði að skattur á landbúnaðarvörur yrði um 18%. Þetta var m.a.s. svo hellög tala að við þm. fengum bréf frá Stéttarsambandi bænda þar sem gerð var mjög ítarleg grein fyrir því hvað 18% skattur á landbúnaðarvörur mundi hafa í för með sér til samdráttar á kaupum og neyslu þessarar vöru. Það var líka talað um það að söluskatturinn yrði almennt 22% og satt best að segja trúðu því flestir að sá yrði endirinn á, langt fram eftir þessum mánuði, þar til allt í einu að tekin er ákvörðun um það, líklega snemma í mánuðinum, að söluskatturinn skuli vera 25%.

Allt sýnir þetta að aðdragandi málsins er mjög tilviljanakenndur, ber vott um mjög hroðvirknisleg vinnubrögð. Það er reynt að klastra þessu einhvern veginn saman þannig að það passi í kramið hjá stjórnarflokkunum. En að það sé einhver rökhyggja á bak við þessa skattkerfisbreytingu, það er auðvitað hin mesta fjarstæða.

Ég held að dæmið sem ég tók hérna áðan um það að forsrh. hefði reynt að selja sömu vöruna tvisvar í gær tveimur ólíkum aðilum sé ágætt dæmi um hvernig þessi vinnubrögð hafa verið að undanförnu. Venjulega er það yfrinn starfi fyrir Alþingi að afgreiða fjárlög, lánsfjárlög, kvótafrv. og síðan einhverjar tilteknar breytingar á skattalögum áður en þing fer í jólaleyfi. En það sem gerist nú er að á seinustu stundu er kastað inn í þingið miklum frv. til breytinga á tekjuöflunarkerfi ríkisins. Það eru tollamál, þar er heill doðrantur á ferðinni, það eru mjög verulegar söluskattsbreytingar, gríðarlega fjölþættar breytingar á vörugjaldi og síðan tillögur um nýja verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Og Alþingi er ætlað að afgreiða þetta á fáeinum dögum. Ef einhver forusta væri af hálfu ríkisstjórnarinnar og hæstv. forsrh. við undirbúning þessara mála, þá sæi hann auðvitað til þess að þau ein mál væru hér til afgreiðslu seinustu tvær vikurnar sem óhjákvæmilegt væri að afgreiða fyrir jól. Og hann mundi gera einhverja tilraun til að semja við stjórnarandstöðu, eins og gert hefur verið undanfarin 30 ar, um það hvernig þessi mál mættu koma fram og þá auðvitað tekið eitthvert visst tillit til sjónarmiða stjórnarandstöðunnar um afgreiðslu mála þannig að hægt væri að koma þessu öllu heim og saman á endanum. Þannig hefur þetta gengið fyrir sig um marga áratugi. Og þó oft hafi litið illa út þá hefur alltaf tekist að ganga frá málum fyrir jól. En í þetta sinn, þegar hæstv. forsrh. heitir Þorsteinn Pálsson, þá fer þetta allt í vaskinn, þá skapast þessi mikli glundroði. Og þegar síðan til á að taka að samningar séu upp teknir við stjórnarandstöðu, þá eru handabakavinnubrögðin með þessum dæmalausa hætti sem ég var að lýsa hérna áðan að auðvitað getur engin niðurstaða orðið.

Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á söluskatti. Ég tel að brtt. þessar horfi flestar ef ekki allar til hins verra. Ég er algjörlega andvígur þessu frv. og tel að það séu fyrst og fremst fjórar ástæður sem valda því að okkur þm. ber að fella þetta frv.

Í fyrsta lagi er ljóst að samþykkt þessa frv. mun valda stórhækkun á nauðþurftum almennings. Hún mun hafa þau áhrif á kjör láglaunafólks að þau munu versna sem nemur rétt um 4%.

Í öðru lagi er ljóst að samþykkt þessa frv. mun hafa mikil verðbólguáhrif, einfaldlega sem rökrétt framhald af fyrstu ástæðunni. Fólk hlýtur auðvitað að gera meiri kröfur um kauphækkun eftir að þetta frv. hefur verið samþykkt.

Í þriðja lagi hefur það verið ágætlega rakið hér af mörgum hv. þm. hversu fráleit samþykkt þessa frv. er frá manneldissjónarmiði.

Í fjórða lagi er ljóst að samþykkt frv. mun magna enn þá erfiðleika sem fyrir hendi eru í landbúnaði. Afnám söluskatts af matvörum átti sér stað endanlega og yfir alla línuna á árinu 1978. Flokkarnir sem stóðu að þessari breytingu voru auk Alþb. Framsfl. og Alþfl. Það er afskaplega sérkennilegt, að ekki sé meira sagt, að einmitt Alþfl. og Framsfl. skuli nú beita sér fyrir því að skattur sé aftur lagður á þessar vörutegundir.

Ég minnist þess að þegar þessi breyting var samþykkt hér á Alþingi var hún óumdeild. Það gerði ekki nokkur þm. tilraun til þess að hafa uppi andmæli gegn því að söluskattur á matvörum yrði afnuminn. Það var engin andstaða fyrir hendi hér á Alþingi og ég held að í þjóðfélaginu öllu hafi þessari ákvörðun verið mjög fagnað. Rökin fyrir þessari ákvörðun á sínum tíma voru auðvitað þau að afnám söluskatts á matvörum styrkti augljóslega hag láglaunafólks mjög verulega. Í öðru lagi var þetta tvímælalaust ákvörðun sem var mjög hagstæð fyrir landbúnaðinn og stuðlaði að aukinni sölu innlendrar framleiðslu. Í þriðja lagi átti þessi ákvörðun þátt í því að draga úr verðbólgu og gerði það tvímælalaust á haustinu 1978 þótt vissulega dygði hún ekki til að ná niður verðbólgu í verulegum mæli, fyrst og fremst vegna þess að skömmu seinna hækkaði olía meira í verði en gerst hafði um margra ára skeið. Það var önnur mikla olíuverðshækkunin sem þá dundi yfir. Hin fyrri var árið 1973 og afleiðingin varð sú að verðbólgan hélt áfram í nokkuð svipuðu fari, 50– 60% eins og áður hafði verið. En það er nokkuð ljóst að ef söluskattur hefði ekki verið afnuminn á matvælum þá hefði verðbólgan orðið miklu meiri en raun bar vitni á þessum tíma.

Það er hins vegar rétt að rifja það hér upp að ýmis matvæli höfðu verið undanþegin söluskatti um langt skeið áður en til þessa kom. Satt best að segja hefur söluskattur aldrei verið lagður á nýmjólk, svo dæmi sé tekið, fyrr en með þessari ríkisstjórn. Á tímum viðreisnarstjórnarinnar og í tíð ríkisstjórna á síðasta áratug gerðist það aldrei að söluskattur væri lagður á mjólkina. Sama gilti reyndar um saltið í grautinn og örfáar aðrar neysluvörur. Kartöflur voru t.d. undanþegnar söluskatti frá upphafi. Síðan gerist það árið 1970 að soðningunni er bætt við og þá er það sem sagt fiskurinn og kartöflurnar, saltið í grautinn og súrmjólkin og undanrennan sem ekki eru skattlögð með söluskatti. Svo er það aftur í kringum 1975 að nokkrar aðrar vörutegundir bætast við. Það var fyrst og fremst grænmetið, ávextirnir, kaffið, teið og brauðið. Þetta voru þær vörutegundir sem voru undanþegnar söluskatti þegar ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar kom hér til valda og ákvað að afnema söluskatt með öllu af matvælum. Það var að okkar hyggju veruleg hreinsun vegna þess að það var á margan hátt óeðlilegt að sum matvæli væru án söluskatts en önnur væru með skatti eins og þá hafði verið um 18 ára skeið eða allt frá upptöku söluskattsins. Við töldum að það væri best að hafa hreinar línur í þessum efnum og segja: Öll matvæli eru undanþegin og þar liggur línan.

Að vísu voru nokkrar vörutegundir í matvöruverslunum áfram með söluskatti og má sérstaklega nefna hreinlætisvörurnar, sælgætið og gosið, sem var með söluskatti alla tíð. Ég spyr nú að því: Getur einhver haldið því fram í fullum rétti og með einhverjum rökum að með þessari ákvörðun sem tekin var árið 1978 hafi skattsvik aukist? Hefur því verið haldið fram af nokkrum þeim sem rannsakað hefur þetta mál að skattsvik hafi aukist við það að söluskattur væri afnuminn á matvörum? Ég hygg að ekki nokkrar vísbendingar í nokkurri skýrslu hafi komið fram í þá átt. Hitt viðurkenni ég að til voru ýmis takmarkatilvik sem gátu valdið misskilningi. Þar nefni ég t.d. að ákveðið var frá upphafi að það væri fyrst og fremst kaldur matur sem væri undanþeginn söluskatti, en þegar maturinn væri orðinn heitur, þá væri búið að matreiða hann og þá hlyti hann að falla undir mat sem seldur væri á veitingahúsum. Það er erfitt að draga þar mörkin á milli, þannig að það þótti einfaldast að draga mörkin á milli þess hvort maturinn væri kaldur eða heitur. Auðvitað er þetta á margan hátt óþægilegt takmarkatilvik, en alltaf verður einhvers staðar að draga línuna og þó að kannski megi segja að þetta hafi verið í einstaka tilviki orsök einhvers misferlis, þá hygg ég að það verði að teljast smáræði miðað við margt annað í kerfinu, algjört smáræði.

Eins viðurkenni ég að það er óheppilegt að í matvöruverslunum hefur lengi verið dregin línan á milli mats annars vegar og sælgætis hins vegar. Það eru til vörutegundir sem eru þarna á mörkunum. Það getur hljómað einkennilega í eyrum fólks að þessi vara sé skattskyld vegna þess að hún sé sælgæti en hin varan óskattskyld af því að hún sé matur. En ég vek hins vegar á því athygli að eftir að sú breyting hefur verið gerð sem ríkisstjórnin gerir hér tillögu um, þá verða óteljandi takmarkatilvik áframhaldandi, jafnvel þótt fiskinum verði ekki sleppt eins og þó virðast vera uppi hugmyndir um.

Það hefur t.d. verið rakið hér ágætlega af hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur í dag að það að skattleggja bækur en sleppa hins vegar tímaritum hlýtur að valda ýmiss konar mismunun, ýmiss konar einkennilegri útkomu þar sem sami hluturinn sleppur ef hann telst vera í tímaritsformi en sleppur ekki ef hann er í bókarformi. Hver er munurinn á bók og tímariti? Ætli menn þekki það ekki að þar geta verið mikil takmarkatilvik á ferðinni. Þannig mætti nefna mörg dæmi.

Ég sé það t.d. að í brtt. hv. fjh.- og viðskn., sem munu hafa verið samþykktar í Ed., er gert ráð fyrir því að viss tegund af nuddi sé undanþegin söluskatti en aðrar tegundir af nuddi séu söluskattsskyldar. Ég er ansi hræddur um að það geti orðið erfitt fyrir hæstv. fjmrh., sem reyndar er nú ekki hér staddur sem er auðvitað hrein ósvinna, ég held að það hljóti að vera mjög erfitt fyrir hann að greina á milli þegar hann er kvaddur á vettvang til að skera úr um það hvort þetta nuddið eða hitt sé söluskattsskylt.

Það er líka ljóst að viss lýsing, sem ætluð er til að létta fólki lífið og gera það brúnna á hörund, getur verið söluskattsskyld í vissum tilvikum en ekki söluskattsskyld í öðrum. Það má því vænta þess að það geti orðið nokkurt annríki hjá hæstv. fjmrh. að skera úr um það hvort þessi sóldýrkandinn eða hinn eigi að borga til hans söluskatt eða ekki. Þarna er á ferðinni takmarkatilvik, kannski af svipuðu tagi eins og löngum hafa verið í löggjöf, en ég er ansi hræddur um að á þessu sviði verði ekki um mikla einföldun að ræða frá því sem nú er þegar öll svona starfsemi er söluskattslaus. Nú á hins vegar að fara að meta það samkvæmt ákvæðum laganna hvort maðurinn sem liggur á sólbekknum er að þessu samkvæmt læknisráði eða hvort hann er að þessu af hreinni hégómagirnd eða í öllu falli af hreinni og beinni ánægju og sér til hressingar án þess að hafa til þess meðmæli læknis.

Ég segi fyrir mig að ef gera ætti hreint borð í matvöruverslunum þá tel ég að hæstv. fjmrh. ætti miklu einfaldari og betri kost þar sem er einfaldlega að afnema söluskatt á hreinlætisvörum og ákveða það að sælgæti og gos skuli selja í sérstakri deild í hverri matvöruverslun en ekki innan um aðrar nýlenduvörur ef hann vill hirða af þeim vörum söluskatt áfram, sem ég tel út af fyrir sig eðlilegt og sjálfsagt. Þá er til sú einfalda leið, vegna þess að þessar vörur eru gjarnan á sérstökum stað í verslunum og þær tengjast oft kannski sölugötum eða einhvers konar sjoppum sem eru starfræktar á vegum verslananna, að ákveða það að þessum vörum skuli haldið aðskildum og þær skuli seldar samkvæmt sérreikningi, en hins vegar allar vörur í matvöruverslunum, bæði hreinlætisvörur og matvörur skuli undir eina sök seldar að því leyti að þær séu söluskattsfrjálsar. Staðreyndin er sú að í matvöruverslunum í dag er tiltölulega lítið eftir af vörum sem bera söluskatt. Það eru hins vegar hreinlætisvörurnar sem þarna eru eftir og þær eru hugsanlega 1/10 af heildarveltunni. Það er ekki mikið meira en það. Það eru því auðvitað margar leiðir hugsanlegar til þess að gera kerfið einfaldara og skilvirkara aðrar en þær að leggja skattinn yfir alla línuna og fara svo upp á nýtt að taka eina og eina vöru út úr eins og fiskinn sem mér skilst að um hafi verið rætt í gær.

Um langt skeið hefur staðið fyrir dyrum endurskoðun aðflutningsgjalda, samræming gjalda sem innheimt eru í tolli, þ.e. hins almenna tolls í þess orðs eiginlegu merkingu og svo aftur vörugjalda og ýmiss konar gjalda sem lögð eru á innflutning varnings. Ég hef persónulega lengi verið þeirrar skoðunar að þörf væri á því að einfalda þetta kerfi og ég setti af stað nefndir og starfsmenn til þess einmitt að undirbúa þessa einföldun. Og ég hygg að þau frv., sem hæstv. ráðherra er hér að leggja fram sem einföldun kerfisins, reki sig að talsverðu leyti til vinnu sem undirbúin hafði verið í tíð ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens þegar einmitt var unnið að því að draga úr hinni miklu mismunun sem er í tollum og jafna óbeina skatta.

Það er alveg rétt sem sagt hefur verið að það er óhóflegur munur ríkjandi í tollakerfinu. Sumar vörur eru mjög hátt tollaðar og aðrar mjög lítið eða ekkert. Ég var þeirrar skoðunar og ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens var þeirrar skoðunar að það væri eðlilegt og sjálfsagt að jafna þennan mun, draga úr þessum mun. Að því var unnið og þetta verk var talsvert langt komið þegar sú stjórn fór frá. Það er því í sjálfu sér ýmislegt jákvætt við þá meginhugmynd sem stendur að baki tollalagafrv. að því leyti að reynt er að jafna tollana, gera þá rökréttari og muninn á milli þeirra minni. Hitt held ég að engum hafi dottið í hug á sínum tíma, ekki nokkrum manni, að fara að leggja skatt á matvörur til þess að koma þessu máli í höfn. Ég minnist þess að menn töluðu fyrst og fremst um það að vörugjald yrði hækkað yfir alla línuna ellegar að þessu yrði náð með því að hækka tolla á sumum vörum en lækka þá á öðrum. En ég er næstum því viss um að áður en þessi ríkisstjórn kom til valda hafði engum dottið í hug sú ósvífni að ætla að innheimta það sem þyrfti til að koma þessu fram með því að leggja skatta á matvörur.

Eins og hér hefur verið rakið þá kemur þessi breyting mjög sérkennilega út. Fiskurinn er hækkaður um 25% svo að dæmi sé nefnt, en kryddið í matinn er svo aftur lækkað um 35%. Þegar kemur að grænmetinu þá sjáum við að það á að hækka heil ósköp eða um 15–25% ef það er nýtt, en sé það aftur á móti niðursoðið og nógu gamalt, þá á það að lækka um 15%. Alveg nákvæmlega það sama virðist uppi á teningnum með ávextina. Ef þeir eru nýir og ferskir og fullir af vítamínum, þá hækka þeir um 15–25%, en séu þeir aftur á móti gamlir og þurrkaðir og orðnir fátækir af hollustu, þá lækka þeir um 35%. Brauðið hækkar um 25%, eggin hækka um 25%, en svo er aftur á móti ýmislegt annað á móti sem lækkar og skiptir kannski hinn almenna mann ansi miklu minna máli. Hæstv. fjmrh. hefur sérstaklega nefnt varalitina sem lækka um 47% og ilmvötn og rakspírar lækka reyndar líka um 45%. Rakspírinn flokkast reyndar undir hvort tveggja í senn, hreinlætisvöru og neysluvöru og er því ekki óeðlilegt að nefna hann í þessu samhengi. En svo þegar við komum aftur að heimilistækjunum þá er þar um að ræða langstórfelldasta hækkun á þeim vélum sem algengastar eru á heimilum og sem helst geta flokkast undir nauðþurftir. Þvottavélarnar hækka um 15%, saumavélarnar um 16%, kæliskáparnir um 16%. Þetta eru einmitt þær vélar sem fólk þarf mest á að halda til heimilisstarfa og það eru einmitt þær sem mest hækka. Þetta er sannarlega sérkennileg stefna sem mörgum hefur gengið erfiðlega að skilja.

Þegar matarskatturinn er annars vegar er ljóst að þar er um þrenns konar skatt að ræða eða þrjá áfanga, þrjár flóðbylgjur matarskatta.

Í fyrsta lagi er það matarskatturinn sem var lagður á í sumar þegar 10% skattur var lagður á allar matvörur aðrar en mjólk og kjöt, fisk og egg.

Síðan stöndum við núna frammi fyrir annarri flóðbylgjunni. Það er sú bylgja sem á að hellast yfir heimilin um næstu áramót og lýsir sér einmitt í því sem ég var að rekja hérna áðan, að mestu hollustuvörurnar, eins og nýtt grænmeti, nýir ávextir og fiskur og brauð stórhækka í verði, en þar á móti lækka sömu vörur séu þær niðursoðnar og innfluttar. Og svo aftur hitt að nauðsynlegustu heimilisvélar hækka, en aftur á móti þau tæki og þær vélar lækka sem frekar væri hægt að telja til munaðarvarnings. Ljóst er að almennt mun þessi skattlagning ýta undir aukinn innflutning. Innfluttar vörur lækka frekar en ýmis innlend framleiðsla á eftir að hækka og stendur því verr að vígi á eftir.

En síðan er ljóst að þriðja flóðbylgjan er þá enn eftir, það er þriðji matarskatturinn. Mjólk, skyr, smjör og dilkakjöt hækkar ekki í verði nú. Ástæðan er sú að hækkun þessara vörutegunda er falin með hækkuðum niðurgreiðslum. En ég þarf ekki að rekja það hér fyrir hv. þm. að það hefur komið fram, t.d. hjá hæstv. fjmrh. aftur og aftur, að hann hefur sannarlega í huga að láta þessar niðurgreiðslur dvína, láta þær deyja út með tíð og tíma. Hann sagði það beinlínis í blaðaviðtali fyrir líklega einni viku síðan að þessar vörur yrðu fyrst um sinn, fyrst um sinn, niðurgreiddar að þessu marki. Það er alveg ljóst að það er áform ríkisstjórnarinnar, það er áform hæstv. fjmrh. að þessi skattur verði felldur niður senn hvað líður og sennilegast verður það gert á þann hátt að niðurgreiðslurnar verða ekki hækkaðar í takt við verðbólguna.

Ég vildi leyfa mér að bera þá spurningu fram til hæstv. fjmrh. hvernig niðurgreiðslum á þessum vörum verði hagað, þ.e. á mjólk, skyri, smjöri og dilkakjöti. Verður hverju sinni þegar þessar vörur hækka í verði vegna innlendra kostnaðarhækkana, verður þá bætt við niðurgreiðslum sem svarar þessum hækkunum eða í öllu falli þannig að niðurgreiðslurnar haldist sem rétt hlutfall af verðinu? Eða mun hækkunin verða niðurgreidd í fyrsta sinn sem vörurnar hækka af völdum söluskattsins og síðan látið þar við sitja að halda þeirri niðurgreiðsluaukningu í sömu krónutölu mánuð eftir mánuð? Það er alveg óhjákvæmilegt fyrir okkur alþm. að átta okkur á þessu atriði og fá skýr svör hæstv. fjmrh. við þessari spurningu.

Okkur nægir ekki að fá svör við þessari spurningu varðandi árið 1988. Við hljótum að ætlast til þess að svarað verði til um það hvernig þessum málum verður hagað á árinu 1989 og 1990 og reyndar í tíð þessarar ríkisstjórnar. Eru það sammæli ríkisstjórnarflokkanna að halda þessu hlutfalli áframhaldandi eða má búast við því að niðurgreiðslurnar haldist fyrst og fremst miðað við upphaflegu niðurgreiðslurnar og þar af leiðandi muni þriðji matarskatturinn dynja yfir jafnt og þétt í hvert einasta skipti sem landbúnaðarvörur hækka í verði með þessari sérstöku aðferð að niðurgreiðslurnar verða ekki látnar hækka í takt við hækkun landbúnaðarafurðanna? Mig grunar að svo verði. Ég er reyndar alveg sannfærður um að svo verður, en ég vil hins vegar að hæstv. fjmrh. svari þessu svo að það komist alveg greinilega til skila hver áform hæstv. ríkisstjórnar eru í þessum efnum.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherrann hvort endanlegar ákvarðanir hafi verið teknar í sambandi við fiskinn. Eins og ég rakti hér í upphafi þá var það boðið fram sem einhvers konar tilboð til stjórnarandstöðunnar að ekki yrði lagður söluskattur á fisk. Nú viljum við fá að vita hvort þessar ákvarðanir hafi verið teknar eða hvort þetta er bara áframhaldandi söluvara hjá hæstv. fjmrh. sem hann ætlar að reyna að koma í verð fyrr eða síðar í viðskiptum við einhvern og þá helst að selja þá vöru oftar en einu sinni.

Landbúnaðarvörur fá mjög misjafna meðferð samkvæmt þessum frv. ríkisstjórnarinnar. Eins og ég hef nú rakið eru nokkrar landbúnaðarvörur sem hækka ekki. Það er eins og ég hef nefnt fyrst og fremst mjólkin, skyrið, smjörið og dilkakjötið, og þá að sjálfsögðu undanrennan sem er bara ein tegund mjólkur. Svo eru aftur aðrar vörur sem hækka um 12% að því er manni skilst. Það er osturinn og 3.–6. flokkur kindakjöts. Þessar vörur hækka um 12%. Svo eru enn aðrar landbúnaðarvörur, og þær ófáar, sem eiga að hækka um 25%. Þar má t.d. nefna stórgripakjöt, hrossakjöt og nautakjöt og annað stórgripakjöt, og einnig sláturafurðir. Ég held að það sé ljóst af þessum tillögum að þessar vörur eiga að hækka um 25%. Ekki get ég séð neitt annað í því sem fram hefur komið um þetta mál. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um það að auðvitað er þetta mikið áhyggjuefni sláturleyfishafa vegna þess að það er alveg ljóst að einmitt þessar vörur, þ.e. stórgripakjötið og slátrið verða meira eða minna óseljanlegar eftir að þær hafa hækkað um 25% á sama tíma og annað kjöt ýmist stendur í stað eða hækkar um 12%.

Það er því alveg ljóst að þessar ákvarðanir munu magna mjög erfiðleikana í landbúnaði og var sannarlega ekki á bætandi. En hversu miklir erfiðleikar munu af þessu hljótast er ekki svo auðvelt að átta sig á. Auðvitað fer það mjög mikið eftir því hvernig á niðurgreiðslumálum verður haldið. Eins og ég hef þegar lýst mun vandinn strax koma upp í sambandi við stórgripakjötið og slátrið, en það er alveg ljóst að ef aðrar landbúnaðarvörur eiga eftir að hækka mjög verulega vegna þess að niðurgreiðslurnar hækka ekki í takt við verðbólguna, sem kannski getur orðið allt að 30% eða meira á næsta ári, þá verður verulegur samdráttur í sölu landbúnaðarvara sem mun bæði koma bændum mjög í koll og eins valda stjórnvöldum miklum erfiðleikum þar sem þau hafa tekið á sig vissar skuldbindingar í sambandi við sölu á þessum afurðum.

Í fréttatilkynningu, sem Stéttarsamband bænda sendi frá sér ekki alls fyrir löngu, segir svo, með leyfi forseta: „Með búvörulögunum frá 1985 er mörkuð stefna í framleiðslumálum landbúnaðarins. Þessi stefna felur í sér stórfelldari breytingar á landbúnaðinum og högum bænda en orðið hafa um langan tíma. Stéttarsambandið hefur gengið til samvinnu um framkvæmd þessarar breyttu stefnu í þeirri trú að hún auki atvinnu og afkomuöryggi bændastéttarinnar þegar til lengri tíma er litið og treysti rekstrargrundvöll landbúnaðarins í heild. Á grundvelli þessara markmiða hefur Stéttarsambandið gert samning við ríkisvaldið um þróun mjólkur- og kindakjötsframleiðslunnar til ársins 1992.

Stjórn Stéttarsambandsins telur að með álagningu söluskatts á þessar afurðir og lækkandi hlutfalli niðurgreiðslna í verði þeirra sé þeim áætlunum um sölu kindakjöts og mjólkurvara sem búvörusamningurinn byggir á kollvarpað nema til komi auknar niðurgreiðslur. Augljóst er að samdráttur í sölu kindakjöts og mjólkurvara innan lands mun auka þörfina fyrir útflutning. Ekki verður annað séð en með slíkum aðgerðum sé markvisst stefnt að því að minnka hlutdeild innlendra afurða á matvörumarkaðnum og kippa grundvellinum undan atvinnumöguleikum verulegs hluta bændastéttarinnar.

Stjórn Stéttarsambandsins mótmælir því harðlega að þannig sé af hálfu ríkisvaldsins horfið frá stefnu búvörulaganna og umsömdum markmiðum búvörusamninganna.“

Auðvitað er það alveg nauðsynlegt fyrir okkur alþm. að fá það á hreint hvaða afleiðingar þessi nýja stefna hvað varðar söluskatt á matvæli hefur fyrir þann landbúnaðarsamning sem fyrir liggur og fyrir bændastéttina í heild. Ég geri ráð fyrir að Stéttarsamband bænda hljóti að meta það svo að skylt sé að halda uppi niðurgreiðslum, þessum nýju niðurgreiðslum sem nú er verið að ákveða, sem svara til söluskatts á þessar vörur, alveg til ársins 1992. Ella sé verið að kollvarpa þessum samningi. Því að samningurinn var að sjálfsögðu gerður á þeirri forsendu og með það í huga að söluskattur er ekki á þessum vörutegundum.

Ég nefndi það hér áðan að ljóst væri að álagning söluskatts á matvörur hefði í för með sér stórhækkun nauðþurfta. Það er afar nauðsynlegt fyrir okkur alþm. að reyna að átta okkur á því hversu mikil þessi hækkun er hjá lágtekjufólki. Ég vil því leyfa mér að leggja þá spurningu fyrir hæstv. forsrh., sem hlýtur að vera hér nærstaddur því að hann getur ekki brugðið sér lengi frá þegar svo stórt mál er á ferðinni sem gjörbreytt álagning söluskatts er, hann verður að vera hér viðstaddur alla þessa umræðu hvort sem hún stendur til áramóta eða lengur og ég vil eindregið fara þess á leit við forseta að hann ... (Forseti: Það hafa þegar verið gerðar ráðstafanir til þess að aðvara forsrh.) Hæstv. forsrh. gengur í salinn. — Hæstv. forsrh. verður að gera sér grein fyrir því að hann getur ekki fleygt hverju stórmálinu á fætur öðru hér inn í þingið og ætlast til þess síðan að þm. sitji hérna yfir jólin til að afgreiða þessi mál án þess að hann sé viðstaddur. Þessi mál snerta embætti hans á svo margvíslegan hátt að hann verður að sjálfsögðu að vera viðstaddur alla þessa umræðu og vera reiðubúinn að hlýða á spurningar sem þm. þurfa að leggja fyrir hann um þessi mál.

Ég vildi leggja enn eina spurningu fyrir hæstv. forsrh. fyrst og fremst vegna þess að undir hann heyra útreikningar af því tagi sem ég vildi að hann beitti sér fyrir. Ég tel að það sé alveg óhjákvæmilegt að reiknað verði út og gefin einhver dæmi um það hversu mikil hækkun verður á framfærslukostnaði lágtekjumannsins í þjóðfélaginu við álagningu söluskatts með þeim hætti sem hér er gerð tillaga um. Vissulega verður þá að gefa sér einhver grunnhugtök og viðmiðunartölur, en ég held að það ætti að reyna að reikna það út hve mikil hækkun verður hjá lágtekjufólki, og þá er ég að tala um þann þriðjung launafólks sem talist getur einna lægst í tekjuskalanum. Þá er ég að tala um fjölskyldutekjur t.d. á bilinu 40–70 þús. kr. eða þar um bil. Auðvitað yrðu reiknimeistarar að gefa sér einhverjar slíkar grunnstærðir og síðan er þá auðvelt að reikna það út miðað við framfærslugrundvöll í vísitölu framfærslukostnaðar hver aukning útgjaldabyrðarinnar er hjá fjölskyldu af þessu tagi. Því að ég veit að hæstv. forsrh. gerir sér eins góða grein fyrir því og við aðrir hv. þm. að framfærsluvísitalan er ekki alveg einhlítur mælikvarði. Framfærsluvísitalan er meðaltalsviðmiðun sem er þess eðlis að hún er ekki marktæk um efnahag og framfærslu lágtekjumanna. Það er talið að matvöruliðurinn sé um 20% í framfærsluvísitölunni, en aftur á móti er hann um 30% hjá lágtekjufólkinu.

Ég hef grun um það að þó að framfærsluvísitala sé reiknuð á sléttu við þær breytingar sem hér er verið að gera tillögu um, þá muni þetta koma talsvert miklu öðruvísi út fyrir lágtekjufólkið, t.d. þann hópinn sem ég nefndi áðan, þannig að kjaraskerðingin sem gæti numið allt að 5%. Jafnvel meira.

Það er ljóst að launamenn verða núna fyrir stórfelldri kjararýrnun. Laun þeirra skerðast á tímabilinu frá 1. sept. til áramóta um líklega ein 8–9%. Það verða allir hv. alþm. og hæstv. ráðherrar að gera sér grein fyrir því að þessar ákvarðanir fela beinlínis í sér 4–5% kjaraskerðingu fyrir lágtekjufólk sem kemur þá ofan á þá kjararýrnun sem á sér stað á sama tíma. Forustumenn í verkalýðshreyfingu verða að hafa þetta til hliðsjónar þegar þeir ganga til næstu kjarasamninga. Þeir verða að fá þennan mun bættan. Og þeir verða að fá enn meira en þetta ef það reynist rétt, sem margir hafa nokkurn grun um, að niðurgreiðslur eigi eftir að rýrna á komandi mánuðum vegna þess að þær hækki ekki í takt við hækkun verðbólgunnar.

Það þarf síðan ekki að fara mörgum orðum um það að þessi ákvörðun og þær almennu launahækkanir á vinnumarkaðinum, sem hljóta að fylgja í kjölfarið, munu síast út um hagkerfið með margvíslegum hætti og hljóta fyrr eða síðar að hafa áhrif til verðhækkunar og aukningar á verðbólgu. Enda er það svo sem engin tilviljun að verkalýðshreyfingin hefur mótmælt þessum ákvörðunum mjög eindregið. Og þó ég sé ekki að eyða dýrmætum tíma okkar með því að lesa upp þær samþykktir, enda hefur það þegar verið gert hér í dag, þá blasir það við hverjum manni sem vita vill að þessar ákvarðanir hljóta að torvelda mjög verulega komandi kjarasamninga.

Ég gat þess hér fyrr að mjög hefði verið um það rætt fyrr í þessum mánuði að um leið og álagður söluskattur kæmi á miklu breiðari skattstofn en áður hefur verið mundi söluskattsprósentan lækka og talan 22% var mjög nefnd í því sambandi. Hæstv. viðskrh. var að því spurður í fjölmiðlum hvers vegna ekki hefði verið við þetta staðið og hann hélt því fram eins og reyndar fleiri ráðherrar að rökin fyrir þessu væru þau að ef um lækkun á söluskatti væri að ræða úr 25% í 22% yrði mismunurinn tekinn ófrjálsri hendi af smásöluaðilum. Kaupmennirnir mundu sem sagt stela þessari hækkun allri saman. Hún kæmi því aldrei til neytenda.

Það þarf auðvitað ekki að orðlengja það að kaupmenn í borginni brugðust ókvæða við og töldu sig hafa orðið fyrir stórfelldri móðgun, að þeim væri borið á brýn að þeim væri ekki trúandi til að framfylgja lögum með þessum hætti, heldur mundu þeir stela öllum mismuninum í eigin vasa.

Ekki vil ég fullyrða neitt um það hvort rök hæstv. viðskrh. eiga sér einhvern skynsamlegan grundvöll. Hitt veit ég að auðvitað er þetta tylliástæða þegar horft er á skattlagningu til eins árs. Þetta ætti auðvitað fyrst og fremst við þær vörur sem eru í verslununum þegar breytingin á sér stað. Það er þekkt af fenginni reynslu að kaupmenn eru oft tregir til að breyta verðlagi á vörum sem er þegar búið að verðmerkja og þá gildir einu hvort um er að ræða hækkun eða lækkun. Þeir hafa vissa tilhneigingu til þess að selja þá vöru upp og gera þá ekki breytingu fyrr en næsta vörusending kemur því að ekki þarf að orðlengja það að verðbreytingar hljóta auðvitað að hafa mikla fyrirhöfn í för með sér í verslunum. En að þeir nái í sinn vasa 3% söluskattsmun á hellu ári er auðvitað hrein fjarstæða. Auðvitað hefði ekki verið um að ræða nema nokkurra vikna vörubirgðir, nokkurra vikna skattlagningu í vissum tilvikum, í öðrum tilvikum aðeins nokkurra daga vörubirgðir, en lækkun á skattinum hefði hins vegar skilað sér að nokkrum dögum og í mesta lagi nokkrum vikum liðnum til almennings í formi lækkaðs verðs á þeim vörum sem áður báru 25% skatt en hefðu þá verið færðar niður í 22%.

Ég hef rakið það hér, herra forseti, að margir ágallar eru á þessari tillögu um söluskattsbreytingu, að ekki sé nú meira sagt. Það er alveg ljóst að undanþágurnar verða býsna margar áframhaldandi, takmarkatilvikin verða óteljandi og það koma upp mjög mörg skringileg tilvik eins og t.d. þau sem nefnd voru hér í dag og ég nefndi hér áðan með tímaritin og bækurnar. Ég tel að það sé mjög til álita að undanþiggja bækur söluskatti með öllu. Ég held að íslensk menning þurfi á því að halda að fá virkan stuðning með þeim hætti og úr því að tímarit og blöð eru undanþegin er þar um að ræða mjög óþægilegt takmarkatilvik þar sem þessar vörur eru gjarnan seldar í sömu verslunum. Ég held því að á margan hátt sé einfaldast að undanþiggja bækur með öllu söluskatti þannig að öll prentuð vara sem á boðstólum er sé undanþegin. Það væri þá um leið framrétt hönd ríkisstjórnarinnar og Alþingis til styrktar íslenskri menningu og á því þarf menningarstarfsemin í landinu að halda.

Ég tel líka að það sé mikið og alvarlegt skref aftur á bak þegar nú á að leggja söluskatt á aðgangseyri að innlendum kvikmyndum. Þar er að vísu um að ræða takmarkatilvik sem er óþægilegt, þ.e. nú er söluskattur á erlendum kvikmyndum en ekki á innlendum kvikmyndum. Þetta var reyndar ekki svona þegar ég átti sæti í ríkisstjórn. Ég vildi ekki að þessi mismunun væri í kvikmyndahúsunum þannig að sumar kvikmyndir væru söluskattslausar en aðrar væru með söluskatti. Ég taldi það ekki skynsamlegt og því var ákveðið þegar ég var í fjmrn. að það skyldi vera söluskattur á öllum kvikmyndum en hins vegar skyldi endurgreiða hann í þeim tilvikum að sannað væri að kvikmyndir hefðu komið út með halla, innlendar myndir stæðu sem sagt illa fjárhagslega, hefðu ekki borið sig og þar af leiðandi væri mikil hætta á að þau fyrirtæki sem að þeim hefðu staðið færu á hausinn. Í þeim tilvikum var um endurgreiðslu söluskattsins að ræða til viðkomandi fyrirtækja. Þetta gafst vel og ég held að enginn hafi haldið því fram að þarna hafi getað verið nokkur söluskattssvik á ferðinni. En í þeim tilvikum að mynd skilaði hagnaði átti allur söluskatturinn af viðkomandi kvikmynd að renna í Kvikmyndasjóð, þannig að í báðum tilvikum skilaði ríkissjóður þessu fé til baka. Þegar um halla var að ræða á kvikmynd gekk það beint til viðkomandi framleiðanda, en þegar hagnaður var rann það í Kvikmyndasjóð. Það var svo aftur eftirmaður minn sem ákvað að hafa þetta á hinn veginn, að leggja ekki söluskatt á innlendar kvikmyndir og það hefur auðvitað þennan galla að þá er sem sagt um tvenns konar skattlagningu að ræða á þessu sviði sem alltaf er heldur til hins lakara.

Ég tel sem sagt að íslensk menningarstarfsemi eigi ekki að bera söluskatt eða þá hitt, ef söluskattur er á lagður, að hann endurgreiðist með þeim hætti sem gert var í sambandi við innlendu kvikmyndagerðina.

Ég tel að ekki eigi heldur að leggja söluskatt á heilsurækt, ekki á gufubaðstofur, nuddstofur og ljósastofur eins og nú er ætlunin að gera og tel reyndar alveg fráleitt og dæmi um þau handabakavinnubrögð sem hér eru viðhöfð að fara að skilja þarna á milli þannig að nuddið sé söluskattsskylt ef það er af þessari tegund en svo sé aftur eitthvert annað nudd söluskattsfrjálst. Það tel ég að gangi ekki upp og það er einmitt dæmi um þann áframhaldandi ruglanda sem verður í þessu söluskattskerfi og hefur svo sem löngum verið, hefur þurft að gera einfaldara en tekst ekki betur til en hér er nefnt.

Ég tel einnig að allar útisamkomur eigi að vera lausar við söluskattsinnheimtu, enda mundi það vera partur af þeirri meginstefnu að ekki væri lagður söluskattur á mat, ekki væri lagður söluskattur á menningu, ekki væri lagður söluskattur á heilsurækt af neinu tagi.

Virðulegi forseti. Klukkan er tíu. Mér skilst að nú sé fyrirhugaður fundur forseta með formönnum þingflokka. Ég ætla að láta þessi orð nægja að sinni en hef auðvitað margfalt fleira að segja um þessi mál en nú hefur komið fram.