21.12.1987
Neðri deild: 35. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3121 í B-deild Alþingistíðinda. (2188)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Á þskj. 404 hef ég leyft mér að bera fram nál. sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Staðgreiðsla opinberra gjalda launafólks var lögfest á síðasta þingi, en heildarendurskoðun skattalaganna var slegið á frest. Kvennalistakonur höfðu margt við þá lagasetningu að athuga, enda þótt þær væru fylgjandi því að staðgreiðslu yrði komið á.

Kvennalistinn átti fulltrúa í milliþinganefnd um staðgreiðslu skatta sem fór yfir og endurmat hin nýsamþykktu lög varðandi staðgreiðslu skatta nú á haustmánuðum. Margt tókst að færa til betri vegar í meðförum þeirrar nefndar, en eins og fram kemur í fyrirvara fulltrúa Kvennalistans um álit nefndarinnar voru nokkur atriði sem ekki náðist samstaða um og önnur sem ekki fékk að reyna á vegna tímaskorts og skilgreiningar á hlutverki nefndarinnar. Meiri hl. milliþinganefndar taldi það t.d. ekki í sínum verkahring að fjalla um hátekjuskatt né heldur skattlagningu á fjármagns- og eignatekjur. Auk þessa gerði fulltrúi Kvennalista ágreining um tilhögun barnabótagreiðslna og framreikning persónuafsláttar.

Við afgreiðslu þessa frv. skal þess nú enn freistað að fá fram þær lagfæringar á lögunum sem Kvennalistinn telur brýnastar um leið og sú skoðun er áréttuð að endurskoðun skattakerfisins í heild hefði verið hið eina rétta. Það er ekki vansalaust hversu mjög sú endurskoðun hefur dregist.

Í brtt. Kvennalistans felast eftirfarandi atriði: Skattþrepin verði tvö þar sem tekjur yfir 2 500 000 kr. á ári bera 33% tekjuskatt. Jafnframt er lagt fram frv. á þskj. 406 um mishátt útsvar eftir tekjum þar sem heimilt verður að leggja allt að 9% útsvar á tekjur yfir 2 500 000 kr. á ári. Þetta gefur svigrúm til hækkunar persónuafsláttar, um 5000 kr. á ári.

Í öðru lagi er lagt til að barnabætur verði greiddar til móður ef barnið er í hennar umsjá, annars þeim sem því hlutverki gegnir. Rökin fyrir því eru þau að barnið er í flestum tilfellum fyrst og fremst í umsjá móður, hún tekur á sig ómælda vinnu sem hvergi er metin til launa og oftast er það móðirin sem verður fyrir tekjutapi vegna umönnunar barnsins. Og hverjar svo sem aðstæðurnar eru þá er móðirin nær undantekningarlaust tekjulægri en faðirinn. Auk þess er hagræði að því að greiða barnabætur út óskiptar þar sem útsendingar verða miklu færri.

Fyrir deildinni liggur tillaga um að endurskoða upphæðir persónuafsláttar og barnabóta mánaðarlega, en ekki tvisvar á ári, eins og lögin mæla fyrir um, en það getur munað skattgreiðendur dágóðri upphæð hvor aðferðin er notuð. Kvennalistinn styður þá tillögu, enda er hún samhljóða tillögu Kvennalistans við afgreiðslu núgildandi laga á síðasta þingi.

Að þessum tillögum samþykktum leggur 2. minni hl. til að frv. verði samþykkt.“

Herra forseti. Ég hygg að ekki þurfi að fara mjög mörgum orðum til viðbótar um þær brtt. sem við flytjum, þ.e. sú sem hér stendur og hv. þm. Kristín Einarsdóttir, Málmfríður Sigurðardóttir og Þórhildur Þorleifsdóttir og birtast á þskj. 405. Menn sjá það að hér er um raunverulegar hátekjur að ræða sem við viljum miða við, þ.e. rúmlega 200 þús. kr. á mánuði sem við viljum skattleggja umfram lágar tekjur og miðlungstekjur, enda erum við þeirrar skoðunar að þetta mark þurfi að vera hátt.

Ég veit, herra forseti, að hér er ekki staðurinn né stundin til að mæla fyrir frv. sem einnig var dreift hér áðan á þskj. 406, flutt af sömu aðilum og flytja brtt., en ég mundi vilja, ef hæstv. forseti leyfir, fá að lesa þá örstuttu grg. sem er með frv. Það tekur varla meira en eina eða tvær mínútur, en það sýnir að við viljum einnig taka upp hátekjuþrep hvað útsvarið varðar og viljum miða við sömu árstekjur og hafa heimild í lögum til þess að leggja allt að 9% útsvar á tekjur yfir því marki. En í grg. stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Samkvæmt núgildandi lögum er innheimt útsvar ákveðinn hundraðshluti af tekjum og gildir þá einu hvort um háar tekjur eða lágar er að ræða. Sama er um tekjuskattinn; núgildandi lög kveða á um eina og sömu skattprósentu á háar tekjur sem lágar.

Kvennalistinn telur eðlilegt að beita skattalögum til tekjujöfnunar í þjóðfélaginu og leggur því til að skattþrepin verði tvö bæði við álagningu útsvars og tekjuskatts. Á þskj. 405 er gerð brtt. við 179. mál Nd., frv. um breytingu á tekjuskattslögunum. Tillagan felur það í sér að greiddur verði 33% skattur af hæstu tekjum, þ.e. af tekjuskattsstofni yfir 2 500 000 kr. á ári. Frv., sem hér er fram borið, gerir svo ráð fyrir að útsvar af hæstu tekjum geti orðið allt að 9%. Samtals gæti því álagning á hæstu tekjur orðið 42%, en samanlagður tekjuskattur og útsvar á tekjur þar fyrir neðan getur numið allt að 36% samkvæmt ákvæðum núgildandi laga.“

Þær tekjur sem þessar lagabreytingar mundu gefa mundu nema u.þ.b. 600 millj. kr. samkvæmt upplýsingum og útreikningum Þjóðhagsstofnunar, en það mundi gefa okkur svigrúm til þess að hækka persónuafsláttinn um 5000 kr. á ári eins og ég gat um í framsögu minni áðan fyrir nál. Það er ekki eins og menn sjá um mjög stórvægilegar breytingar að ræða en við vildum halda okkur innan þess viðmiðunarramma sem gert er ráð fyrir í tillögum ríkisstjórnarinnar.

Hvað 3. brtt. varðar á þskj. 405 þá tekur hún til greiðslu barnabóta eins og segir í nál. sem ég las hér áðan. Ég kynnti þessa tillögu í hv. fjh.- og viðskn. og vissulega var hlustað á mál mitt þar og ég leyfi mér m.a.s. að vona að þetta sjónarmið og rök okkar fyrir þessari tillögu hefðu náð eyrum og athygli a.m.k. einhverra hv. nefndarmanna. Það dugði þó ekki til að þessi brtt. næði inn í tillögur meiri hl. En ég trúi ekki öðru en þetta fyrirkomulag verði tekið upp, þótt síðar verði, svo sanngjarnt sem það er. Ég ræddi um þetta í 1. umr. um þetta mál og ætla ekki að endurtaka það sem ég sagði þá. Ég hef vissulega heyrt það að sumir telji að hér sé um hreina mismunun að ræða. Jafnréttið krefjist þess að barnabótum sé skipt milli foreldra. Það finnst mér fráleitt í þessu samhengi og er reiðubúin til rökræðna um það ef áhugi er fyrir hendi. En aðrir liðir í 3. brtt. á þskj. 405 eru tengdir þessari breytingu sem við viljum gera í sambandi við greiðslu barnabóta og eru nauðsynlegar í því samhengi og ber að skoða þannig.

Auk þessara tillagna reyndi ég að fá breytt þeirri ákvörðun stjórnvalda að endurskoða upphæðir persónuafsláttar og barnabóta aðeins tvisvar á ári, en tillaga Kvennalistans um mánaðarlega endurskoðun var felld við afgreiðslu þessa máls á síðasta þingi. Fulltrúi Kvennalistans í milliþinganefndinni reyndi að fá fram mánaðarlega endurskoðun en tókst það því miður ekki. Það er því sjálfgefið að við styðjum eindregið tillögu hv. þm. Borgarafl. sem kom fram strax við 1. umr. þessa máls og er samhljóða þeim tillögum sem við höfum barist fyrir allt frá upphafi. Auk þessa styð ég flestar tillögur meiri hl. nefndarinnar á þskj. 401, sérstaklega náttúrlega 4. brtt. Hvað varðar brtt. á þskj. 403 frá hv. 4. þm. Norðurl. e. þá ganga þær í svolítið aðra átt en þær sem ég hef hér borið fram, en sumar þeirra get ég vel hugsað mér að styðja og mun skoða þær betur hér við atkvæðagreiðslu á eftir. Það hefur gefist skammur tími til að skoða þær út í hörgul og mér hafði ekki gefist tími til þess að skoða þær betur áður en þær birtust hér á þskj.