22.10.1987
Sameinað þing: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í B-deild Alþingistíðinda. (219)

Framlagning stjórnarfrumvarpa

Forsætisráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mótmæli því harðlega að hafðar séu í frammi almennar stjórnmálaumræður, eins konar eldhúsdagsumræður undir yfirskini umræðu um þingsköp. En vegna þeirra tveggja stjfrv. sem hv. 4. þm. Norðurl. e. nefndi í ræðu sinni skal ítrekað, eins og glöggt kemur fram á þskj. og ekki ætti að vefjast fyrir neinum, að þessi frv. eru stjfrv. í venjulegum skilningi þess orðs og án nokkurra undantekninga þar um. Hitt veit hv. þm. að það er engin nýlunda að frv. taka einhverjum breytingum í meðförum Alþingis. Það á ekki síst við um fjárlagafrv. að meðferð þess í þinginu leiðir ævinlega til einhverra breytinga og þar er ekki um neina nýlundu að ræða. Svo er um fjölmörg önnur frv. sem fá eðlilega meðferð og umfjöllun í nefndum þingsins. Það á jafnt við um stjfrv. sem önnur, en á því leikur enginn vafi varðandi þau tvö frv. sem hv. þm. gat um að hér hafa verið lögð fram stjfrv.

Ég ítreka að ég mótmæli því að upphafðar séu eldhúsdagsumræður undir yfirskini þingskapaumræðu.