22.12.1987
Efri deild: 38. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3129 í B-deild Alþingistíðinda. (2201)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. kom saman á fund nú í hádeginu og fékk til liðs við sig þá Ævar Ísberg vararíkisskattstjóra, Indriða Þorláksson skrifstofustjóra og Snorra Olsen, deildarstjóra í fjmrn., og fórum við yfir frv.

Í stuttu máli sagt voru allir nefndarmenn sammála um nauðsyn þess að frv. yrði afgreitt. Nefndin skiptist eigi að síður í tvo hluta og mun hv. 7. þm. Reykv. gera sérstaklega grein fyrir sinni afstöðu til málsins.

Hv. 6. þm. Reykv. sat fund nefndarinnar og hv. 7. þm. Reykn. skrifaði undir nál. með fyrirvara.

Ég þarf ekki að fara út í einstök efnisatriði. Þau eru hv. þingdeildarmönnum kunn svo mjög sem um þessi mál hefur verið fjallað og þarf ekki að fara nánar út í þá sálma. Ég vil þó láta í ljós sérstaka ánægju yfir því að í ákvæðinu um barnabótaaukann skuli skerðingarhlutfallið nú vera mismunandi eftir því hversu mörg börnin eru og er það mjög til bóta. Ég vil sem sagt lýsa ánægju minni yfir því.

Hv. þingdeildarmönnum er kunnugt að með staðgreiðslunni hækka skattleysismörkin nokkuð. Á hinn bóginn er gert ráð fyrir svipaðri skattbyrði og áætlað var fyrir einu ári þannig að í reynd mun frv. fela í sér nokkra þyngingu skattbyrðarinnar miðað við það sem hún reyndist á árinu 1987 sem er auðvitað lýsandi fyrir hversu erfitt er að ákveða eftirágreidda skatta í miklu verðbólguþjóðfélagi.

Herra forseti. Ég legg sem sagt til að frv. verði samþykkt óbreytt og þakka meðnefndarmönnum mínum fyrir mikið og gott starf í nefndinni við afgreiðslu frv.