22.12.1987
Efri deild: 38. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3136 í B-deild Alþingistíðinda. (2204)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Eins og fram kom í máli mínu í morgun tel ég mikilvægt að þessu máli verði hraðað í gegnum þingið áður en því lýkur núna fyrir jólahléið. En ég vil þó í stuttu máli kynna þær hugmyndir sem Kvennalistinn hefur komið fram með í málinu til að reyna að hafa áhrif til að bæta það.

Það var nokkuð vel unnið að því í Nd. Okkur hefur gefist mun skemmri tími til þess í Ed. vegna ýmissa aðstæðna. En hv. þm. Kristín Halldórsdóttir skilaði nál. þar sem hún átti aðild að fjh.- og viðskn. Nd. Í þessu nál. kom fram að þótt kvennalistakonur hefðu verið fylgjandi því og hafa reyndar verið fylgjandi því lengi að staðgreiðslukerfi skatta yrði komið á höfðum við ýmislegt við þá lagasetningu að athuga sem samþykkt var á þinginu í fyrra og studdum að heildarendurskoðun skattalaganna fylgdi í kjölfarið á þeirri samþykkt, en henni hefur því miður verið slegið á frest og teljum við það miður. Við áttum reyndar fulltrúa í milliþinganefndinni, eins og kom fram hjá mér í morgun, og hennar mat og okkar var að margt hefði tekist að færa til betri vegar í þeirri nefnd, en eins og kom fram í þeim fyrirvara sem ég las í morgun, sem fulltrúi Kvennalistans hafði um álit nefndarinnar, voru þar nokkur atriði sem ekki náðist samstaða um og önnur sem fékk ekki að reyna á vegna tímaskorts og einnig vegna skilgreiningar á hlutverki nefndarinnar.

Meiri hluti milliþinganefndarinnar taldi nefnilega ekki í sínum verkahring að fjalla um hátekjuskatt né heldur skattlagningu á fjármagns- og eignatekjur, en þetta voru að okkar mati vænlegar fjáröflunarleiðir fyrir ríkissjóð. Auk þessa gerði fulltrúi Kvennalistans ágreining um tilhögun barnabótagreiðslna og framreikning persónuafsláttar sem ég mun víkja lítillega að síðar.

Við afgreiðslu frv. í Nd. freistaði Kvennalistinn að fá fram þær lagfæringar á lögunum sem við teljum brýnar um leið og við áréttuðum þá skoðun að endurskoðun skattkerfisins í heild væri nauðsynleg. Í brtt., sem við höfðum lagt fram bæði í Nd. og einnig nú í Ed. og ég kynnti á fundi nefndarinnar áðan, felast eftirfarandi atriði:

Skattþrepin verði tvö þar sem tekjur yfir 2,5 millj. kr. á ári bera 33% tekjuskatt. Jafnframt höfum við lagt fram frv., í þessari deild er það á þskj. 423, um mishátt útsvar eftir tekjum þar sem heimilt verður að leggja allt að 9% útsvar á tekjur yfir 2,5 millj. kr. á ári. Meðflm. minn að þessu frv. hér í deildinni er Danfríður Skarphéðinsdóttir, þingkona Kvennalistans. Þetta gefur svigrúm til að hækka persónuafslátt um 5000 kr. á ári.

Í öðru lagi leggjum við til að barnabætur verði greiddar til móður ef barnið er í hennar umsjá, annars þeim sem því hlutverki gegnir. Rökin fyrir þessu eru þau að barnið er í flestum tilfellum fyrst og fremst í umsjá móður. Hún þekkir þess vegna þarfir þess, veit hvað barnið vanhagar um, það sem má kaupa fyrir peninga. Hún tekur einnig á sig ómælda vinnu, sem hvergi er metin til launa, og er oftast sú sem verður fyrir tekjutapi vegna umönnunar barnsins. Og hverjar sem aðstæðurnar eru er móðirin jafnan undantekningarlaust tekjulægri en faðirinn. Að auki er hagræði að því að greiða barnabætur út óskiptar þar sem útsendingar verða falsvert færri. Ræddi ég þetta við fulltrúa fjmrn. og ríkisskattstjóra í nefndinni áðan og sáu þeir engan meinbug á þessari ráðstöfun, en töldu þetta vera pólitíska ráðstöfun fyrst og fremst en ekki ákvörðun embættismanna.

Við höfðum í hyggju að flytja brtt. einnig um að endurskoða upphæðir persónuafsláttar og barnabóta mánaðarlega en ekki tvisvar á ári eins og gert er ráð fyrir, en það getur munað skattgreiðendur talsverðri upphæð hvor aðferðin er notuð. Reyndar flutti hv. þm. Kristín Halldórsdóttir dæmi þess í máli sínu við umræðu um frv. í Nd., þar sem hún hafði látið reikna út hvernig munurinn á þessum tveimur aðferðum hefði verið á árinu 1983 og mætti að sjálfsögðu taka önnur ár til viðmiðunar. En ég vil stuttlega gera grein fyrir því.

Það var að vísu dálítið sérstakt ár og ástæða til þess að skoða það. Persónuafsláttur hefði orðið það ár á mánuði að meðaltali um 4825 kr. ef mánaðarleg endurskoðun hefði verið notuð, en 4065 ef endurskoðað hefði verið tvisvar á ári eins og frv. gerir ráð fyrir. Frá upphafi til loka þess árs munar því um 18,67%, til að vera nákvæm, sem persónuafslátturinn hefði orðið hærri ef hann hefði verið reiknaður mánaðarlega en ef hann hefði verið endurskoðaður aðeins tvisvar á ári eins og frv. gerir ráð fyrir. Munurinn hefði verið um 9000 kr. Þannig mætti reyndar skoða þetta út frá ýmsum árum, en ég læt þetta nægja tímans vegna.

Við styðjum því þær till. sem liggja fyrir um þann hátt á endurskoðun. Að þessum till. okkar samþykktum leggjum við til að frv. verði samþykkt þó við hefðum í sjálfu sér ýmislegt við það meira að athuga. Í brtt. sem við hv. þm. Danfríður Skarphéðinsdóttir flytjum við frv., þær eru á þskj. 413 hér í deildinni, leggjum við til að á eftir 5. gr. frv. komi ný grein svohljóðandi:

„67. gr. laganna orðist svo:

Tekjuskattur manna, sem skattskyldir eru skv. 1. gr. laga þessara og hafa verið heimilisfastir hér á landi allt tekjuárið, skal reiknast af tekjuskattsstofni þeirra skv. 1. og 3. tölul. 62. gr. í tveimur þrepum sem hér segir:

1. þrep: Af þeim hluta tekjuskattsstofns, sem ekki er yfir 2 500 000 kr., reiknast 28,5%.

2. þrep: Af þeim hluta tekjuskattsstofns, sem er umfram 2 500 000 kr., skal reikna 33%.

Frá þannig reiknaðri fjárhæð dregst persónuafsláttur skv. A-lið 68. gr. og sjómannaafsláttur skv. B-lið 68. gr.

Sú fjárhæð, sem þannig fæst, telst tekjuskattur ársins.

Tekjuskattur af þeim tekjum barna, sem um ræðir í 2. mgr. 65. gr., skal vera 4% af tekjuskattsstofni og skal barn ekki njóta persónuafsláttar.“

Í 2. tölul. gerum við brtt. við 6. gr. Þar leggjum við til að persónuafsláttur manna verði hækkaður úr 158 820 í 163 820 kr.

Við 9. gr., sem nú er orðin eftir meðferð frv. í Nd., þar sem fjallað er um barnabætur og barnabótaauka, leggjum við til að 4. mgr. A-liðar orðist svo:

„Framfærandi samkvæmt þessum staflið er móðir barnsins ef barnið er í hennar umsjá, annars sá sem gegnir því hlutverki. Sá er greiðir meðlag með barni telst ekki framfærandi í þessu sambandi.“

Ég hef áður rökstutt af hverju við viljum að þetta fé renni fyrst og fremst til móður og ég mun ekki orðlengja um það.

Í b-staflið leggjum við til að 5. mgr. A-liðar falli brott, en hún hljóðar svo: „Hjón, sem skattlögð eru skv. 63. gr., teljast bæði framfærendur og skiptast barnabætur milli þeirra til helminga. Hið sama gildir um sambýlisfólk sem uppfyllir skilyrði 3. málsgr. 63. gr., enda þótt það óski ekki að vera skattlagt skv. þeirri grein.“

Þetta varðar aftur þá hugmynd að barnabæturnar renni beint til móður.

Í staflið e leggjum við til að 8. mgr. A-liðar orðist svo: „Barnabætur greiðast til framfæranda barns að því marki sem eftirstöðvum nemur þegar frá hafa verið dregin vangoldin þinggjöld og sveitarsjóðsgjöld framfærandans“ — Orðið „framfærandans“ bætist sem sé inn í málsgreinina. — „frá fyrri árum svo og ógreidd álögð gjöld sama árs.“

Þarna viljum við takmarka þannig að vangoldnar skuldir eigi einungis við móður barnsins eða þann framfæranda sem þiggur barnabætur samkvæmt okkar skilgreiningu, að þar eigi ekki aðrir í hlut. Einnig getur oft verið um að ræða að atvinnurekendur eigi vangoldnar skuldir og það bitni síðan á barnabótum móður.

Í d-staflið leggjum við til að í stað orðanna „framfæri hjóna“ í 4. mgr. B-liðar komi: heimili. Þetta varðar sömu hugmynd.

Í e-staflið leggjum við til að 5. mgr. B-liðar orðist svo: „Framfærandi skv. þessum staflið er móðir barnsins, ef barnið er í hennar umsjá, annars sá sem gegnir því hlutverki. Sá er greiðir meðlag með barni telst ekki framfærandi í þessu sambandi.“

Í f-staflið er lagt til að 6. mgr. B-liðar falli brott, en hún er mjög samhljóða því sem við gerðum tillögu um í 5. málsgr. A-liðar og mun ég ekki hirða um að lesa hana aftur.

Og í síðasta lagi g-stafliður. Fyrir aftan orðið orðið „sveitarsjóðsgjöld“ í 8. málsgr. B-liðar komi: framfærandans. Hér er aftur um að ræða sömu hugmynd.

Fleiri brtt. höfum við ekki gert, en áskiljum okkur vitanlega rétt til að styðja brtt. annarra sem ganga í þá átt sem okkur finnst vera til bóta á frv.

Ég minntist á það þegar ég vitnaði til nál. hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur frá Nd. að við flyttum frv. til laga á þskj. 423, Danfríður Skarphéðinsdóttir og ég. Þetta er reyndar frv. til laga um breytingu á lögum nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, sbr. lög nr. 38/1987.

1. gr. frv. hljóðar svo: „1. mgr. 25. gr. laganna orðist svo:

Útsvar skal vera ákveðinn hundraðshluti af tekjum hvers almanaksárs, en má þó eigi vera hærra en 7,5% af tekjum manna með allt að 2,5 millj. kr. á ári og allt að 9% af tekjum manna með yfir 2,5 millj. kr. ári.

2. gr. Lög þessi taka gildi 1. janúar 1988.“

Í grg. frv. stendur að skv. núgildandi lögum sé innheimt útsvar ákveðinn hundraðshluti af tekjum og gildir þá einu hvort um háar tekjur eða lágar er að ræða. Sama er um tekjuskattinn. Núgildandi lög kveða á um eina og sömu skattprósentu á háar tekjur sem lágar. Kvennalistinn telur eðlilegt að beita skattalögum til tekjujöfnunar í þjóðfélaginu og leggur því til að skattþrepin verði tvö, bæði við álagningu útsvars og tekjuskatts. Kvennalistinn flytur brtt. við 179. mál, frv. um breytingu á tekjuskattslögunum. Till. felur í sér að greiddur verði 33% skattur af hæstu tekjum, þ.e. af tekjuskattsstofni yfir 2,5 millj. kr. á ári. Frv. sem hér er fram borið gerir svo ráð fyrir að útsvar af hæstu tekjum geti orðið allt að 9%. Samtals gæti því álagning á hæstu tekjur orðið 42%, en samanlagður tekjuskattur og útsvar á tekjur þar fyrir neðan getur numið allt að 36% skv. ákvæðum núgildandi laga.

Það væri ýmislegt fleira, herra forseti, sem ég hefði kosið að ræða við þessa umfjöllun málsins í deildinni, en ég vil ekki lengja mál mitt né tefja meðferð þessa máls og læt því nægja að kynna þessar till. okkar í örstuttu máli í þeirri von að þær megi hafa einhver áhrif á skoðanamyndun þeirra þm. sem eiga eftir að greiða atkvæði um frv. Ég vil því ekki tefja málið lengur og læt þetta nægja. Lýk ég svo máli mínu.