22.12.1987
Neðri deild: 37. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3142 í B-deild Alþingistíðinda. (2211)

Vinnuálag á Alþingi

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Í Ed. stendur yfir fundur sem hófst í gærmorgun kl. 10. Við erum að hefja fund eftir þó nokkra fundahríð. Ég veit að það eru nokkrir þm., svo ég tali ekki um starfsfólkið, sem er þannig ástatt um að ég efast um þeir fengju læknisvottorð til að vera það mikið á fótum sem starfsemin hér krefur nú. Ég er einn á meðal þeirra. Ég er nýstaðinn upp úr hjartatilfelli og ég veit ekki hvað ég má bjóða mér í fundahöldum. Ég veit ekki hvað má bjóða hv. þm. Karvel Pálmasyni, sem hefur farið í gegnum enn þá þyngri aðgerðir, og getur vel verið að það leynist meðal þm. einhverjir fleiri sem ekki þola það álag sem Ed. hefur þurft að standa í á þessum sólarhring. Síðan er kannski fyrst og fremst starfsfólkið. Þetta hús, Alþingishúsið, er ekki starfhæft án starfsfólks. Nú hefur Ed. verið á fundum í sólarhring. Fundur sem hófst kl. 10 í gærmorgun stendur enn. Ég vil því spyrja hæstv. forseta hvað á að misbjóða fólki mikið og lengi.