22.12.1987
Neðri deild: 37. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3143 í B-deild Alþingistíðinda. (2214)

Vinnuálag á Alþingi

Forseti (Jón Kristjánsson):

Hv. þm. gat þess að forsetafundir tækju ákvörðun um starf í þingdeildum og á hv. Alþingi. Ég vil geta þess í þessu sambandi að forsetafundur var haldinn í gærkvöld og þar var komist að þeirri niðurstöðu um gang mála að klára frv. um tekjuskatt í þessari hv. deild í nótt og það samkomulag stóðst. Síðan var ætlunin að taka þetta frv. fyrir í Ed. Alþingis kl. 10, en umræður hafa þróast þannig í þeirri deild í nótt að slíkt er ekki mögulegt.

Þar sem hér hefur ekki verið óeðlilegur hvíldartími á þessum tíma og það er ekki óvenjulegt að fundir standi fram á nætur á þessum tíma og svo hefur verið á undanförnum þingum er ekkert því til fyrirstöðu að fundir byrji í hv. deild. Ég tek undir að það er mikið álag á starfsfólki þingsins þessa stundina, en hins vegar verð ég að segja að hv. þm. hafa í ræðulengd ekki hugað mikið að því að hér sé fólk að störfum við framgang þinghaldsins. Ég tel ekki ástæðu til að fresta fundi deildarinnar vegna starfsmanna þess, enda hefur ekki verið farið fram á slíkt við okkur forseta af trúnaðarmönnum starfsfólks.