22.12.1987
Neðri deild: 37. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3143 í B-deild Alþingistíðinda. (2217)

Vinnuálag á Alþingi

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég óska eftir því að hæstv. forseti sjái til um það að vinnulöggjöfin verði athuguð ef menn, þeir sem voru á þingi þegar hún var samþykkt, eru búnir að gleyma þeim lögum. Það er ekki boðlegt hvernig er farið með það fólk sem vinnur hér í Alþingi. Það eru að koma jól og sumt af því er búið að vera á vakt í alla nótt og er það áfram. Sumt af því eru konur sem þurfa að hugsa um heimili. Það hefur aldrei gerst í þingsögunni að ég hygg fundur hafi staðið í heilan sólarhring eins og hefur verið í Ed. og venjulega hefur fundum verið slitið um þetta leyti fyrir jól, í síðasta lagi 22. des. Og ef það er, sem okkur hefur verið boðað, að það eigi að taka fyrir í Sþ. fjárlög til 3. umr. klukkan þrjú hljóta þeir sem stjórna hér þingstörfum að ætlast til þess að það verði önnur vökunótt í sambandi við þá umræðu því henni lýkur aldrei á stuttum tíma eins og mál hafa þróast hér og eins og allt stendur. Hæstv. ríkisstjórn getur ekki kennt neinum um nema sjálfri sér hvernig komið er. Það er fimm manna nefnd sem hefur starfað fyrst og fremst og útbúið þessar kerfisbreytingar sem við erum að fjalla um og allt snýst um. Þm. er boðið upp á að sjá slík frv. tíu dögum eða svo fyrir venjulegt jólafrí og svo ætlast ríkisstjórnin til að við afgreiðum þetta án þess að tala um það, án þess að lesa það. Til hvers er þingið? Er það eingöngu í huga forseta og hæstv. ríkisstjórnar til að afgreiða á færibandi frv. sem eru svo mikil kerfisbreyting sem við þekkjum öll? Það verða sjálfsagt lengi í minnum höfð vinnubrögð hér fyrir þessi jól og stjórnin öll á þingstörfunum.