22.12.1987
Neðri deild: 37. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3144 í B-deild Alþingistíðinda. (2218)

Vinnuálag á Alþingi

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil vegna þeirra orða sem virðulegur forseti lét falla um ræðutíma þm. og áhrif þess á andvökur starfsmanna þingsins fara ofurlítið yfir hvernig og hvers vegna atburðir síðasta sólarhrings hafa þróast eins og þeir hafa gert. Ég tel að það efni varði þingsköp vegna þess að það snertir spurninguna um skipulag og eða samkomulag um störf þingsins.

Ítrekað var boðið af hálfu stjórnarandstöðunnar í gær að reyna að ná samkomulagi um að taka tiltekna áfanga í meðferð þingmálanna og ganga út frá því að ljúka störfum á skikkanlegum tíma í dag þannig að menn kæmust til síns heima og í jólafrí. Í því sambandi bauð stjórnarandstaðan að klára umræður um fiskveiðistjórn í Ed., að gera að lögum fyrir miðjan dag það frv. sem enn er ekki komið á dagskrá Ed. og hefja 3. umr. um fjárlög og láta hana standa til kl. 18 í dag og ljúka þá þingstörfunum að sinni og hverfa til síns heima. Á þetta tilboð féllst ekki stjórnarliðið og engar aðrar útgáfur sem í tengslum við það voru ræddar. Það var val stjórnarliðsins að beita afli í staðinn fyrir að reyna að ná samkomulagi og það hlýtur þá stjórnarliðið að hafa. Það var ekki að okkar ósk né er það okkar sök hvernig málunum er komið. Umræður hafa að sönnu verið langar í Ed. í nótt, en þó er það þannig að innan ramma þingskapa gætu þær enn staðið klukkustundum saman og væri þó allt með eðlilegum hætti, virðulegur forseti. Ég hygg að það finnist engin ræða einstaks þm. í þessum umræðum báðum, 2. og 3. umr., sem hafi farið yfir eina og hálfa klukkustund og telst það ekkert óvenjulegt eða hvað?

Við erum enn til viðræðu um að greiða gang þingstarfanna og stuðla að því að hér verði hægt að ljúka störfum á skikkanlegum tíma í dag. Tilboð okkar um að gera staðgreiðslukerfisfrv. að lögum stendur að mínu viti enn. Hæstv. ríkisstjórn hefur valið aðra forgangsröðun, en fyrst og fremst hefur hún valið aflið í staðinn fyrir samkomulagið og það er sú staðreynd sem við stöndum nú frammi fyrir.

En varðandi fundartíma í þessari virðulegu deild og fundarstjórn alla er það hárrétt, sem forseti tók fram í upphafi, að hér fór það samkomulag fram, sem rætt var, að taka hér frv. um tekjuskatt og eignarskatt í gegnum 2. og 3. umr. og afhenda Ed. ef það mætti verða til að greiða þess götu og gera það að lögum í dag eins og þjóðarnauðsyn liggur við.