22.10.1987
Sameinað þing: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í B-deild Alþingistíðinda. (222)

Framlagning stjórnarfrumvarpa

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það er óhjákvæmilegt eins og kom fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að þegar lögð eru fram stjfrv. sem krafist er að hafi forgang í meðferð mála á Alþingi og síðan er því samdægurs eða daginn eftir lýst yfir að þingflokkar ríkisstjórnarinnar standi ekki að frv. sé spurst fyrir um hvort um sé að ræða eingöngu stjfrv. að nafninu til eða ekki. Og það dugir alls ekki fyrir hæstv. forsrh. að segja að vegna þess að þetta heiti stjfrv. þá séu þetta stjfrv., einkum og sér í lagi ekki þegar hans eigin þingflokkur hefur forgöngu um að lýsa því yfir bréflega að hann styðji ekki annað meiri háttar frv. sem hæstv. ríkisstjórn hefur lagt fram á Alþingi.

En það er ekki aðeins í þessum efnum, herra forseti, sem vafi leikur á um hvað eigi að teljast hlutdeild stjórnar hér á Alþingi og hvað stjórnarandstöðu. Í 11. gr. þingskapa stendur, herra forseti:

„Forsetar fara sameiginlega með framkvæmdastjórn Alþingis. Þeir hafa umsjón með eignum þess og fjárreiðum.“

Hér var í upphafi þings sett upp í Alþingishúsinu ný tölvuvædd viðvistartafla þm. Hún er þannig útbúin að auk nafna þm. gefur hún upp hverju sinni hve margir stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar, kallaðir stjórnarliðar á töflunni, og hve margir andstæðingar ríkisstjórnarinnar, kallaðir stjórnarandstæðingar á töflunni, eru mættir í húsinu hverju sinni. Það hefur vakið athygli að hv. þm. Karvel Pálmason, sem lýsti því yfir opinberlega þegar þessi ríkisstjórn var mynduð að hann væri ekki í stuðningsliði þessarar ríkisstjórnar og mundi ekki starfa sem slíkur, er af forsetum þingsins flokkaður á þessari töflu sem stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar og stjórnarliði. Ég vil þess vegna í framhaldi af þeim umræðum um stjfrv., en nauðsynlegt er að fá skýrt hvað þau eru hér á Alþingi, óska svara hæstv. forseta við því hvort leitað hafi verið heimildar hjá hv. þm. Karvel Pálmasyni til þess að vera þannig flokkaður sem stjórnarliði opinberlega á hverjum degi í anddyri Alþingishússins og það tilgreint hvort hann er mættur sem slíkur eða ekki, og spyrja einnig formann þingflokks Alþfl., ef hann er hér staddur, hvort það sé samkvæmt tilmælum frá þingflokki Alþfl. sem hann er þannig flokkaður sem stjórnarliði þannig að hæstv. Alþingi viti ekki bara hvað eru raunveruleg stjfrv. og hvað ekki, sem er alveg nauðsynlegt, heldur einnig hverjir eru raunverulegir stjórnarliðar og hverjir ekki fyrst tekin hefur verið upp sú nýbreytni hér í Alþingishúsinu að tilkynna það á tölvuvæddri töflu á hverri mínútu þingtímans.