22.12.1987
Neðri deild: 37. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3145 í B-deild Alþingistíðinda. (2220)

Vinnuálag á Alþingi

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Vegna þeirra orða sem þér létuð falla um þingtöf með löngum ræðum bendi ég á að ég hef ekki tekið þátt í umræðum enn þá sem hafa tafið þinghald þannig að það er alrangt að hér hafi átt sér stað mikil töf þess vegna.

Hitt er annað mál að ég tók þátt sem forustumaður Borgarafl. í að reyna að ná samkomulagi um þinghald, en því var hafnað eins og kom fram hjá hv. 4. þm. Norðurl. e. og gefið í skyn af hæstv. forsrh. í fjölmiðlum að stjórnarandstaðan hafi verið með nýjan stjórnarsáttmála í huga þegar um samkomulagsumleitanir var að ræða.

Þetta er alrangt. Við í Borgarafl. stöndum að þeirri ósk eins og aðrir í minni hlutanum að fella niður eða setja ekki söluskatt á matvæli. Það er rétt. Borgarafl. er á móti flestum af þessum nýju sköttum sem hafa verið settir á og er þá má segja eini flokkurinn sem ekki vill skatta, telur þá ekki nauðsynlega umfram það sem var þegar frv. ríkisstjórnarinnar komu fram bara breytinganna vegna, ekki vegna þess að hér sé eitthvað nýtt á ferðinni heldur vegna breytinganna, til að geta sagt: Við erum öðruvísi en allir aðrir. En þegar til kastanna kemur þarf fólkið, hvað sem þið kallið kerfin, að borga meira. Það er það sem furðar okkur að ekki skyldi nást samkomulag um að fella niður matarskattinn sérstaklega af því að það hefur verið ákaflega andstætt fram að síðustu tímum stefnu t.d. Sjálfstfl. að haga sér í skattamálum eins og ríkisstjórnin gerir nú.

En við höfum ekki tafið fundi hingað til og erum reiðubúnir til þess, og ég undirstrika það sem kom fram hjá hv. 4. þm. Norðurl. e., að ganga til samninga. En ríkisstjórnin undir forustu forsrh. óskar eftir því, ég undirstrika það, að stjórnarandstaðan mæti á sunnudagsmorgni til að ræða um möguleika á að semja um lok þinghalds fyrir jólafrí og stjórnarandstaðan tekur mark á hæstv. forsrh. og stjórnarliðum og mætir hér eftir langan laugardagsfund fram á nótt til að semja. En hvað skeður? Það er lagður fram eins konar skömmtunarseðill. Við skulum taka 25% söluskatt af hluta af fiskafurðum gegn því að leggja vörugjald á aðrar vörur, hreinlætisvörur, að sömu upphæð og við skulum láta verkaskiptingarfrv. bíða. Ef þið ekki samþykkið þetta fáið þið ekki neitt. Til hvers er verið að draga stjórnarandstöðuna niður í þinghús á sunnudagsmorgni til að afhenda slíkan skömmtunarseðil? Þegar stjórnarandstaðan leyfir sér að setja fram hugsanlega skilmála til þess að samkomulag geti verið en ekki skömmtunarseðill frá ríkisstjórninni hleypur hæstv. forsrh. í fjölmiðla og segir: Stjórnarandstaðan neitar að samþykkja að 25% söluskattur fari af fiskafurðum. En á sama tíma fréttist að hann hafi boðið Verkamannasambandinu eða þeim sem hann stendur í kjarasamningum við nákvæmlega það sama. Hann var að reyna að selja sömu vöruna tveimur aðilum á sama tíma. Þetta er samkomulagsleiðin sem ríkisstjórnin taldi líklegt að næði í gegn við stjórnarandstöðuna á sunnudagsmorgni. Það var ekki verið að semja. Það var verið að skammta. Stjórnin og stjórnarmeirihlutinn á að hafa áttað sig á því að verkstjórnarleysi og skeytingarleysi gagnvart andstæðingum, hvort sem þeir eru meiri eða minni máttar, gengur ekki á Alþingi Íslendinga vegna þess lýðræðisfyrirkomulags sem við getum unnið eftir í okkar máttleysi og minni hluta.